Hoppa yfir valmynd
7. desember 1981 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 7. desember 1981

Ár 1981, mánudaginn 7. desember var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir málið:

                  Eigendur Ysta-Mós í
                  Fljótum, Skagafjarðarsýslu,
                  Hermann Jónsson og
                  Haraldur Hermannsson
                  gegn
                  Vegagerð ríkisins

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 15. nóvember 1973 (móttekið 27.11.) skýra eigendur Ysta-Mós í Fljótum í Skagafirði Matsnefndinni svo frá, að á sumrinu 1973 hafi Vegagerð ríkisins mokað upp með jarðýtu undirstöðu að nýjum vegi yfir land Ysta-Mós í Fljótum. Vegur þessi fari um æðarvarp í landi Ysta-Mós. Hafi ekkert samband verið haft við eigendur jarðarinnar um bótagreiðslu af hálfu Vegagerðarinnar eða nokkurt samband haft við þá um vegagerð þessa. Vegagerðinni hafi þá verið skrifað bréf þar sem öllum framkvæmdum hafi verið mótmælt fyrr en samningar hefðu farið fram. Skömmu seinna hafi lögfræðingur Vegagerðarinnar komið á staðinn en sagt að hann hefði ekki heimild til að semja um aðrar bætur en þær, sem Vegagerðin greiddi almennt fyrir land sem færi undir vegi. Hann hafi sagt það almenna reglu nú orðið að vísa öllum hærri bótakröfum til Matsnefndar eignarnámsbóta.

Eigendur jarðarinnar telja það sitt álit, að það hafi verið Vegagerðarinnar en ekki þeirra að beiðast úrskurðar Matsnefndarinnar, en þar sem Vegagerðin hafi ekki gert það, þá fari þeir þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að hún taki að sér að meta það tjón, sem hljótist af vegagerðinni og eigi eftir að hljótast af henni. Vegur þessi hafi verið lagður allt of nærri og um æðarvarpið að óþörfu. Engu hafi verið sinnt beiðni þeirra um að færa veginn fjær og framhjá varplandinu.

Telja þeir þó þar hafi verið um betri vegastæði að ræða mati heimamanna.

II.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefndinni 25. mars 1974. Mættu þá af hálfu Vegagerðarinnar Gunnar Gunnarsson lögfræðingur og af hálfu eignarnámsþola Björn Hermannsson hæstaréttarlögmaður. Ákveðið var að fresta málinu til greinargerða og gagnasöfnunar um óákveðinn tíma.

9. júní 1975 var fundur í Matsnefnd eignarnámsbóta haldinn á landi jarðarinnar Ysta-Mós í Fljótum. Af hálfu Matsnefndar voru þar mættir Egill Sigurgeirsson, hrl. formaður nefndarinnar, Björn Bjarnarson, ráðunautur og Ögmundur Jónsson, verkfræðingur, sem formaður hafði kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. laga nr. 11/1973. Af hálfu eignarnema mætti Gunnar Gunnarsson, lögfræðingur og með honum Gísli Felixson, rekstrarstjóri eignarnema á Sauðárkróki, en fyrir eignarnámsþola var mættur Haraldur Hermannsson og með honum Gylfi Thorlacius, hrl.

Matsmenn og aðilar gengu á vettvang og skoðuðu allar aðstæður á staðnum.

Sátt var reynd með aðilum en árangurslaust.

Í greinargerð lögmanns matsbeiðenda, sem lögð var fram 27. júní 1975 eru gerðar þær kröfur, að landeigendum verði metnar ríflegar bætur fyrir það tjón, sem verði á æðarvarpi á landareign þeirra við það að nýr Siglufjarðarvegur er lagður í gegnum æðarvarpið og valdi þannig tvímælalaust minnkun á varpinu. Þá er þess krafist að eignarnámsþola verði dæmd hæfileg þóknun fyrir lögfræðilega aðstoð.

Málavexti kveður lögmaður þá, að sumarið 1973 hafi Vegagerð ríkisins hafið framkvæmdir í landi Ysta-Mós. Vegarundirstöðum hafi verið ýtt upp með jarðýtu og vegurinn lagður í gegnum æðarvarp, sem er í landareigninni. Landeigendur hafi talið, að vegurinn væri lagður allt of nærri varpinu og að nokkru leyti þvert í gegnum æðarvarpið að óþörfu. Engum mótmælum og ábendingum hafi verið sinnt, þótt hægur vandi hefði verið að velja vegarstæðið þannig, að vegurinn lægi í hvarfi frá varpinu og hefði þannig valdið minna tjóni.

Í greinargerðinni segir m.a. á þessa leið: "Helstu rök umbjóðenda minna fyrir því að verulegt tjón sé um að ræða eru þau eins og áður sagði, að vegurinn fer að hluta í gegnum varpið, sem hefur verið verulegt á undanförnum árum. Æðardúnstekja hefur vaxið úr 3½ kg á árinu 1944 upp í að verða mest 14 kg. á ári. Reynsla er fyrir því frá því að vegurinn var lagður yfir Sandós, þ.e. grandann milli Hópsvatns og sjávar og umferð aukist þar, þá hefur fuglinn horfið úr hreiðrum á Svörtubökkum og varpið færst fjær umferð en hins vegar nær túninu á Ysta-Mó. Þessi þróun hefur haldið áfram þar til nýi vegurinn var lagður í gegn um varpið og er nú svo komið að það er, ef svo má segja, afkróað á milli þessara tveggja vega, sem þrengja mjög að því og koma algjörlega í veg fyrir frekari stækkun þess. Nú þegar er farið að sjá merki þess að fuglinn verpir ekki í gömul hreiður næst nýja veginum og má öruggt telja að varp minnki verulega, sérstaklega í Kýrhólum en styttra er þangað frá nýja veginum en frá þeim gamla í Svörtubökkum. Þá er þess aða geta að nýi vegurinn er lagður þannig að varpið blasir við vegfarendum og má gera ráð fyrir að umferð manna um varplandið aukist mjög og óttast landeigendur jafnvel að æðarbliki geti orðið skotmark skotglaðra vegfarenda sem engu eira. Þá hefur þegar farið að bera á því, að hundar sækja mun meira í varpið en áður þegar þeir eltast við bíla sem fara nýja veginn."

Þá er þess getið í greinargerðinni að vegagerðarmönnum hafi orðið á mistök þegar þeir veittu burtu læk, sem rann ofaní varpið og myndaði polla og tjarnir, sem hafi gert landið betur fallið til æðarvarps en ella. Þá bendir lögmaður eignarnámsþola á athugun Arnþórs Garðarssonar, fuglafræðings, dags. 27. júlí 1973 en í skýrslu hans segi, að augljóst sé að vegurinn vestan Flókadalsár komi til með að liggja of nálægt æðarvarpi Ysta-Mós og líklegt sé að æðarfuglinn flytji þaðan að einhverju leyti og þá sennilega norður fyrir vatnið, þá sé og ljóst að fuglafræðingurinn sé sömu skoðunar og landeigendur, að mikið hefði mátt draga úr þessari truflun með því að hnika veginum aðeins til þannig að leiti bæri milli varps og vegar. Þá hefur eignarnámsþoli einnig lagt fram ljósrit af landbúnaðarskýrslum, sem hann telur sýna glöggt æðardúnstekjur á undanförnum árum.

Eignarnámsþoli telur tímabært að meta nú þegar bætur fyrir tjón hans. Hann tekur fram að samkomulag hafi náðst um greiðslu bóta fyrir sjálft vegarstæðið þannig að mál þetta snúist aðeins um bætur fyrir æðarvarpið.

III.

F.h. Vegagerðar ríkisins hefur flutt mál þetta Gunnar Gunnarsson, lögfræðingur. Gerir hann þær kröfur að landeigendum Ysta-Mós, Haganeshreppi, Skagafjarðarsýslu verði metnar bætur skv. 10. kafla vegalega nr. 80/1973 sbr. 2. og 10. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

Eignarnemi skýrir svo frá, að á árinu 1972 hafi verið hafnar framkvæmdir við endurbyggingu Siglufjarðarvegar frá Móskógum og Brúnastöðum í Fljótum. Var veginum valið nýtt stæði sunnan Hópsvatns yfir Flókadalsá en gamli vegurinn liggur um malarkamb milli Hópsvatns og sjávar að Haganesvík og þar austur um. Framkvæmdum við nýja veginn var haldið áfram 1973, og 1974 var byggð brú á Flókadalsá og var vegurinn tekinn í notkun þá um haustið.

Hinn nýi Siglufjarðarvegur fer um land Ysta-Mós og tekur vegsvæðið yfir 45600 m² af landi jarðarinnar miðað við 30 m. breidd á vegsvæði. Landið sem vegurinn fer yfir er að mestu þurrlendir lyngmóar, ræktunarhæft gróið land.

Landeigendum hafi verið boðnar bætur fyrir landið í samræmi við verðgrundvöll, sem mótaður hafi verið í samræmi við Búnaðarfélag Íslands og fleiri aðila. Samkomulag hafi getað orðið um að greiða bætur fyrir land undir vegsvæðið í samræmi við téðan grundvöll, en hins vegar voru aðilar ásáttir um að fjallað yrði síðar um hugsanlegar bætur vegna tjóns á æðarvarpi.

Varðandi skaðabætur vegna nálægðar Siglufjarðarvegar við varpið tekur eignarnemi fram, að vegurinn liggi sunnan Hópsvatns í u.þ.b. 500 m. fjarlægð frá vatninu. Frá veginum að varpinu þar sem það sé þéttast séu 300-400 m.

Eignarnemi segir að samkvæmt því, sem landeigandi haldi fram hafi æðarfugl áður verpt aðallega á malarkambi sem sé milli Hópsvatns og sjávar en eftir að núverandi Siglufjarðarvegur hafi verið lagður hafi fuglinn fært sig á þann stað sem hann er nú. Fjarlægð frá gamla veginum að aðalvarpinu eins og það er nú sé u.þ.b. 500 m.

Lögmaður eignarnema segir, að ekki sé líklegt að hans áliti, að tjón verði á varpinu vegna færslu vegarins, þar sem fjarlægð að aðalvarpinu sé lítið minni en hún hafi áður verið. Auk þess sé ósannað að fuglinn styggist svo við umferð að honum sé ekki vært í a.m.k. 300 m. fjarlægð enda muni vera til dæmi fyrir því hér á landi að æðarvarp þrífist í slíkri grennd við vegi og jafnvel þó nær sé. Eignarnemi kveðst mótmæla órökstuddri fullyrðingu Arnþórs Garðarssonar sem fram kemur í álitsgerð hans dags. 27. júní 1973 þar sem segi að augljóst sé að vegurinn vestan Flókadalsár komi til með að liggja of nálægt æðarvarpi Ysta-Mós.

Hvað það snertir að með lagningu vegarins sunnan Hópsvatns sé komið í veg fyrir stækkunarmöguleika varpsins þá megi vera að vegurinn hafi þau áhrif að fuglinn dreifi sér ekki upp sunnan hans, þó líklegt sé að hann fari upp með Flókadalsánni þrátt fyrir brúna, ef önnur skilyrði eru fyrir hendi. Hins vegar muni umferð um veginn á grandanum að Haganesvík stórminnka með tilkomu nýja vegarins. Ef umferð hefur áhrif á atferli æðarfuglsins á annað borð þá ætti við þetta að opnast sá möguleiki, að varpið dreifðist í vestur með Hópsvatninu. Það geti ekki verið óæskileg þróun að mati landeigenda, þar eð þeir hafi lagt á það áherslu að þétta varpið við vatnið og telji að með því móti sé það auðveldara í hirðingu heldur en það væri dreift upp um móana.

Lögmaður eignarnema telur að ekki sé unnt að sjá fyrir þróun æðarvarpsins á næstu árum með tilliti til vegarins eða hvort vegurinn hafi nokkur áhrif á það. Hljóti reynslan ein að skera úr um hvað verður í þessum efnum. Heldur hann því fram að ekkert tjón hafi enn orðið á æðarvarpinu vegna vegagerðarinnar hvað sem seinna verði og að matsmönnum sé með engu móti unnt að ákvarða stærðargráðu tjóns sem ekki hafi orðið. Og jafnvel þótt fram komi stöðnun í vexti varpsins eða minnkun þá megi vafalaust um það deila hvað valdi því.

Lögmaður eignarnema mótmælir því að hætta sé á að ásókn óviðkomandi manna í varpið muni aukast við færslu vegarins.

Lögmaður eignarnema segir að það sé misskilningur að öllum bótakröfum er nemi hærri fjárhæð en almennt séu greiddar vegna vegagerðar sé vísað til Matsnefnda. Hins vegar hafi fyrirsvarsmenn Vegagerðarinnar ekki talið sér unnt að ákvarða bætur fyrir tjón sem ekki hafi orðið og óvíst hvort yrði.

IV.

Eignarnámsþolar hafa beðið Þóri Bergsson, tryggingafræðing, að reikna út verðmæti þess taps sem landeigendur Ysta-Mós hafi orðið fyrir og verði væntanlega fyrir vegna rýrnunar dúnhlunninda við og eftir vegalagningu við eða gegnum æðarvarp í landi þeirra.

Í greinargerð og útreikningi Þóris Bergssonar segir m.a. á þessa leið:

"Verð á æðardúni.

Upplýsingar um verð á hverju kílógrammi af hreinsuðum æðardúni fékk ég frá Kjartani Ólafssyni deildarstjóra í búvörudeild Sambands íslenskra samvinnufélaga, nema verðið s.l. vor (1978-dúnn) fékkst af innleggsnótu Haraldar Hermannssonar.

Verð á hreinsuðum en ekki fjaðurtíndum dúni hefur verið eftir dúntökuárum:

   Árið   1974   kr.   22.396
   "   1975   "   26.018
   "   1976   "   28.963
   "   1977   "   42.363
   "   1978   "   71.778

Dúnninn er venjulega greiddur eigendum árið eftir að hann er tekinn úr hreiðrunum. Ég reikna hér með, að greiðsla fari fram 15. mars árið eftir dúntöku.

Vextir.

Við útreikningana eru fyrir liðinn tíma til 15. október 1979 notaðir heildarvextir af almennum spariinnlánum, en þeir hafa verið:

   Frá   15. mars   1975   til   21. nóv.   1977   13%   á   ári
   "   21. nóv.   1978   "   1. júní   1979   19%   "   "
   "   1. júní   1979   "   1. sept.   1979   22%   "   "

Við útreikninga framtíðartaps nota ég fimm mismundandi forsendur um raunávöxtun, þ.e. 4%, 5%, 7%, 9% og 13% á ári.

Verðmæti taps.

Með notkun framangreindra verð- og vaxtaforsendna reiknast verðmæti hvers tapaðs kílógramms hvert dúntekjuáranna frá og með 1974 miðað við 15. október 1979.

   Árið   1974   kr.   43.396
   "   1975   "   45.029
   "   1976   "   44.359
   "   1977   "   56.865
   "   1978   "   80.066

Óvissa ríkir að sjálfsögðu um verð á dúni á komandi árum, en það sem máli skiptir er eðlilegt dúnverð, þegar mál þetta er til lykta leitt. Ég hef í þessum útreikningum miðað allt - nema dúnverð á liðnum árum - við 15. október 1979. Það sem um er að ræða sem stendur er því verð á dúni þá. Ég tel óraunhæft að gera ráð fyrir minni hækkun á dúnverði en sem svarar almennri verðþenslu. Frá 15. mars s.l. hefur verðbólgan hérlendis verið á milli 40% og 50% en samkvæmt því hækkar verð til 15. október milli 23% og 29%. Kílógramm af dúni myndi því kosta milli 88.000 kr. og 92.600 kr.

Verðmæti hvers kílógramms, sem tapaðist árlega frá og með árinu 1979 (selt ári eftir töku dúnsins) verður 15. október 1979, ef lægri verðáætlunin er notuð.

   4%   á   ári   2.251   þús   kr.
   5%   "   "   1.810   "      "
   7%   "   "   1.307   "      "
   9%   "   "   1.027   "      "
   13%   "   "   728   "      "

Sé hærri verðáætlunin notuð verða allar þessar verðmætistölur um 5% hærri.

Um magntap.

Erfitt er að átta sig á, hve mikil minnkun hefur orðið á dúntekju í landi Ystamós. Sennilega hefðu traustastar upplýsingar fengist, ef fyrir hendi væru hreiðurtalningar, en það fékk ég á tilfinninguna eftir viðtal við Árna Geir Pétursson, ráðunaut Æðarræktarfélags Íslands.

Í gögnum þeim, sem ég hef undir höndum er einungis minnt á hreiðurfjölda í greinargerð Náttúruverndarráðs undirritaðri af Arnþóri Garðarssyni og dagsettri 27. júní 1973. Þar segir meðal annars:

"Að sögn Haralds Hermannssonar, bónda á Ystamó var æðarvarpið lítið (liðlega 3 kg), þegar hann tók við því fyrir 25 árum. Varpið hefur síðan smáaukist og er nú 14 kg (ca. 1000 hreiður)."

Hið eina, sem nokkuð virðist byggjandi á sem stendur, er bréf frá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, dags. 9/8 1978, undirritað af Kjartani Ólafssyni, og skýringar við það bréf, sem koma fram í bréfi til yðar, dags. 12. okt. 1978, undirritað af Har. Hermannssyni.

Séu dregnar saman upplýsingar þessara tveggja bréfa og fyrrnefndrar innleggsnótu fæst eftirfarandi yfirlit yfir magn hreinsaðs dúns (Ófjaðratínds):

   Árið   1969   5,9   kg
   "   1970   4,5   "
   "   1971   3,85   "   Meðaltal 4,74 kg
   "   1972   3,85   "
   "   1973   5,6   "
   "   1974   4,2   "
   "   1975   2,75   "   Meðaltal 3,06 kg
   "   1976   2,75   "
   "   1977   3,5   "
   "   1978   2,1   "

Samkvæmt þessu hefur magnið af hreinsuðum dúni fimm árin áður en röskun byrjaði verið að meðaltali 4,74 kg en fimm árin á eftir 3,06 kg, þannig að meðaltalslækkunin nemur 1,68 kg á ári.

Hver er réttur mælikvarði til frambúðar á minnkaðan árlegan afrakstur af æðarvarpinu, get ég að sjálfsögðu ekki dæmt um, en framangreindar athuganir benda til minnst 1,68 kg á ári.

Fyrir liggur einnig bréf frá S.Í.S. um magn hreinsaðs dúns frá Pétri Guðmundssyni, Hraunum, Fljótum. Þar virðist ekki vera um að ræða marktæka breytingu á meðaltali áranna 1969-1973 og 1974-1977. Meðaltal fyrra tímabilsins er 31.175 kg en þess síðara 32,325 kg eða örlítil aukning.

Niðurstaða.

Verðmæti áætlaðs taps, sem þegar er orðið, reiknast nema 15. október 1979:

   Vegna   ársins   1974: (4,74 - 4,2)   x 43.396=   kr.   23.434
   "   "   1975: (4,74 - 2,75)   x 45.029=   "   89.608
   "   "   1976: (4,74 - 2,75)   x 44.359=   "   88.274
   "   "   1977: (4,74 - 3,5)   x 56.865=   "   70.513
   "   "   1978: (4,74 - 2,1)   x 80.966=   "   213.750
            Samtals   kr.   485.579

Verðmæti framtíðartaps hef ég eins og fyrr greinir reiknað með mismunandi raunvöxtum. Þegar ákvörðun hefur verið tekin um hvað séu eðlilegir raunvextir finnst heildar framtíðartapið með því að margfalda árlegt magntap með áður útreiknuðu verðmæti taps af einu kílógrammi.

Sé árlegt magntap talið raunhæft áætlað t.d. 1,68 kg og 5% raunvextir notaðir verður niðurstaðan með lægri verðáætluninni:

      Verðmæti framtíðartaps 15. október 1979
      = 1,68 x 1.810 = 3.041 þús kr.

Athugasemdir um óvissuatriði.

Ég mun ekki í þessari greinargerð leggja mat á, hvað telja beri eðlilega raunvexti. Hins vegar vil ég benda á, að hér hefur verið reiknað út verðmæti áætlaðs brúttótaps, þ.e. ekki hefur verið tekið tillit til vinnu við dúnsöfnun. Í sambandi við það vaknar sú spurning hvort vinnan minnki nokkuð að heitið geti við það að afraksturinn minnkar úr 4,74 kg í 3,06 kg. Einnig vaknar sú spurning, hvort ekki sé komið að mörkum þess að það borgi sig yfirleitt að nýta varpið. Samkvæmt innleggsnótunni fengust einungis 2,1 kg af hreinsuðum dúni vorið 1978, sem gaf 6. mars 1979 kr. 143.555."

V.

Matsnefndin hefur farið tvisvar á vettvang ásamt umboðsmönnum aðila og skoðað æðarvarpið og allar aðstæður á staðnum. Í fyrra skiptið var Ögmundur Jónsson, verkfræðingur, viðstaddur skoðunina. Í síðara skiptið 23. júní 1981 var Matsnefndin þannig skipuð: Formaður nefndarinnar Egill Sigurgeirsson, hrl., Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur. Var í bæði skiptin farið um allt landið, í fyrra skiptið líka vegina beggja vegna við Hópsvatn og í síðara skiptið nýja veginn og heim að Ysta-Mói. Í síðara skiptið mætti f.h. eignarnema Gunnar Gunnarsson hdl., og f.h. eignarnámsþola Haraldur Hermannsson.

Leitað hefur verið um sættir með aðilum, en árangurslaust.

Munnlegur málflutningur í máli þessu fór fram 25. nóv. 1981.

Eignarnámsheimild eignarnema er að finna í 59. gr. vegalaga, sbr. l. 71/1963, 23/1970, 80/1973 og nú lög nr. 66/1975 og 6/1977. Í máli þessu er einungis um að ræða fébætur vegna tjóns á æðarvarpi er hlotist hefur og eftir er að hljótast af nýrri vegagerð um land Ysta-Mós í Fljótum, en eignarnámsþoli kveður samkomulag hafi náðst um greiðslu bóta fyrir sjálft vegarstæðið. Segir eignarnámsþoli að vegurinn hafi verið lagður allt of nærri og um æðarvarp jarðarinnar að óþörfu.

Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það, er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl, eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar, að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Svo sem fyrr segir telur eignarnámsþoli að flutningur vegarins af malarkambinum milli Hópsvatns og sjávar upp á nýja stæðið sunnan Hópsvatns hafi spillt mjög æðarvarpinu, sem sé nú afkróað milli tveggja vega, enda gamli vegurinn til Haganesvíkur ennþá í notkun. Nýi vegurinn komi einnig í veg fyrir stækkun varpsins nær túninu á Ysta-Mói. Varpið blasi nú við vegfarendum og umferðin trufli fuglinn á hreiðrinu.

Um tjón sitt vísar eignarnámsþoli til greinargerðar og útreiknings Þóris Bergssonar, tryggingafræðings, á mskj. nr. 20 sem tekin er upp hér að framan, og endurskoðaðan útreikning hans á mskj. 29.

Matsnefndin hefur reynt að grafast fyrir um dúnnytjar á jörðum í Haganeshreppi fyrr á árum án teljandi árangurs. Í grein Sigurðar Stefánssonar: "Æðarvarp á Íslandi að fornu og nýju", sem birtist í Búnaðarritinu 1917, er birt yfirlit yfir dúntekju jarða á öllu landinu fyrir árið 1914. Kemur þar fram að dúntekja á Ysta-Mó er talin 6 kg, í Haganesi 44 kg, á Hraunum 48 kg og í Langhúsum 6 kg. Eru allar þessar jarðir í Haganeshreppi.

Í skýrslu Arnþórs Garðarssonar á matsskjali nr. 7 frá 23. júní 1973, stendur eftirfarandi: "Að sögn Haralds Hermannssonar bónda á Ysta-Mó, var æðarvarpið lítið (liðlega 3 kg), þegar hann tók við því fyrir 25 árum. Varpið hefur síðan smáaukist, og er nú um 14 kg (ca 1000 hreiður)."

Um talningu á hreiðrum varplandsins liggja ekki fyrir neinar upplýsingar í málinu.

Í greinargerð Þóris Bergssonar tryggingafræðings á mskj. nr. 20 segir hann, að erfitt sé að átta sig á hversu mikil minnkun hafi orðið á dúntekju í landi Ysta-Mós. Hann tekur fram, að á tímabilinu 1969 til og með 1973, hafi magn hreinsaðs dúns, ófjaðurtínds, verið að meðaltali 4.74 kg, en á tímabilinu 1974-1978 hafi það reynst vera 3.06 kg. Sé litið á einstök ár umræddra tímabila kemur í ljós, að mjög miklar sveiflur eru í dúnmagni á milli ára. Þannig er það á árunum 1971 og 1972 3,85 kg. hvort ár, en 5,9 kg árið 1969 og 5,6 kg árið 1973, sem er það ár sem vegaframkvæmdir eru hafnar. Sé tekið meðaltal þessara tveggja hæstu og lægstu ára tímabilsins, er mismunur þeirra þannig 3,8 kg.

Áþekkar sveiflur en þó heldur lægri koma fram á síðara tímabilinu, en þar er árið 1974 með mesta dúntekju, 4,2 kg og árið 1978 með minnsta 2,1 kg. Sýnir þetta augljóslega að fleiri atriði en vegagerðaframkvæmdir geta haft áhrif á dúntekjuna, eins og síðar mun vikið að.

Þá segir enn frá í greinargerð Þóris, að á Hraunum í Fljótum hafi dúntekja á árunum 1969-1973 verið 31.175 kg að meðaltali, en 1974-1977 32.325 kg.

Við samanburð á dúntekju þessara tveggja jarða á áðurnefndum árum kemur í ljós, að aðeins gætir aukningar á Hraunum, sem tryggingafræðingnum virðist samt ekki vera marktæk, en um rýrnun er að ræða á Ysta-Mó.

Samkvæmt því sem matsmenn hafa kynnt sér, geta m.a. eftirfarandi atriði haft áhrif á þróun æðarvarpa og nytja þeirra:

1.   Breytingar á staðháttum í landinu og umhverfi þess.

2.   Undirbúningur varplands áður en fuglinn sest upp og aðhlynning á meðan á varpi og útungun stendur.

3.   Veðurfar um varptímann.

4.   Aðsókn vargdýra (hrafn, minkur, refur, svartbakur) í varpland.

5.   Umferð ókunnugra með skotvopn og hunda um varpsvæðið.

6.   Netalagnir vegna hrognkelsaveiða á átusvæðum æðarfuglsins.

Sé fyrsta atriðið skoðað nánar, þá virðast ekki hafa orðið neinar myndbreytingar á varplandinu sjálfu við vegaframkvæmdirnar nema hvað lækjarsytra sem hafði rennsli sitt niður í varplandið og myndaði að sögn smátjarnir á milli þúfna, hefur verið tekin af með vegskurði og veitt í Flókadalsá. Eru því engir möguleikar á lengur að nýta sytru þessa fyrir varpið.

Verður þetta að teljast ókostur, því að sögn kunnugra, hænist æðarfuglinn mjög að landi með tjörnum. Á hinn bóginn liggur varplandið að ósöltu vatni og er þéttsetnast næst því, og virðist ætíð hafa verið þannig að því er gömul og auð hreiðurstæði benda til. Aðstæður sunnan við varplandið hafa tekið töluverðum breytingum með lagningu nýja vegarins í jaðri svæðisins. Matsmenn telja þó að nálægð hans ætti ekki að valda röskun á atferli fuglsins og ef svo væri, væri það aðeins tímabundið. Annars vegar vegarins, sunnan hans, er vegskurður, og hins vegar skurðspotti, næst varpinu, en þar er auk þess öflug girðing samsíða veginum. Ýmsir sem umgengist hafa æðarfugl eru sammála um, að fuglinn kunni ekki illa við að hafa hreyfingu í námunda við sig, með því skilyrði að hann verði ekki fyrir áreitni. Svo mikið er víst, að varplönd eru við flugvellina á Akureyri, Ísafirði og Holti í Önundarfirði. Einnig er varp að byrja við flugvöllinn á Patreksfirði og vísir er að varpi, sem blasir við umferð, steinsnar frá þjóðvegi vestan Þingeyrar í Dýrafirði, en þar er einnig flugbraut rétt hjá.

Um það atriði, hver muni þurfa að vera lágmarks fjarlægð á milli varps og vegar, til að koma í veg fyrir að umferðartruflun raski það mikið ró fuglsins að það skaði varpið, er ekkert hægt að staðhæfa.

En í bráðabirgðaskýrslu frá Líffræðistofnun Háskóla Íslands á matsskjali nr. 22, tekur Arnþór Garðarsson, fuglafræðingur fram, að rétt sé að miða við einhverja lágmarks vegalengd, t.d. 250 m. Er þessi tala ekki rökstudd nánar af Arnþóri.

Matsmenn hafa leitað í skýrslur Veðurstofunnar og kynnt sér veðurfar í Skagafirði um varptímann á umræddu tímabili. Sérstaklega hefur verið athugað úrkomumagn og hitastig, en ekkert hefur fundist það afbrigðilegt, að það gæfi óyggjandi vísbendingu um tengsl á milli þessara þátta og rýrnandi dúntekju. Hins vegar er það vitað, að hret um varptímann geta valdið miklu tjóni og því orsakað umtalsverða dúntekjusveiflu í hlunnindagrein þessari, og sérstakalega geta ísár þynnt stofninn. Matsnefndin hefur einnig aflað sér upplýsinga veiðistjóra um eyðingu vargdýra og vargfugls í Haganeshreppi á tímabilinu 1971-1980, en samkvæmt þeim, virðist lítil rækt vera lögð við eyðingu á vargfugli. Á þessu tímabili hafa verið lagðir að velli samkvæmt skýrslu veiðistjóra: 95 refir, 106 minkar og 9 flugvargar.

Þegar vettvangsganga fór fram 9. júní 1975, var áberandi vargfugl á Hópsvatni. Aftur á móti bar lítið á honum við vettvangsgöngu þann 23. júní 1981. Í síðari vettvangsgöngu aðila, lét Haraldur Hermannsson í ljós vaxandi áhyggjur sínar yfir ágangi manna með skotvopn og hunda um svæðið, en vitað er að fuglinum er illa við mikið ónæði inni í sjálfu varpinu og styggist við tíðar mannaferðir, þegar ókunnugir eiga í hlut.

Um netalagnir er það vitað frá ýmsum stöðum, að fugl hefur viljað festast í netum og drepast er hann leitar ætis. Með aukinni hrognkelsaveiði eru sums staðar orðin veruleg brögð að þessu, en það hefur ýtt á veiðimenn um að leggja net dýpra til að minnka skaðann.

Matsmenn telja sig ekki geta dæmt um hversu mikil rækt hefur verið lögð við uppbyggingu og viðhald ásamt aðhlynningu í umræddu varpi, en í síðari vettvangsgöngu bar það fremur lítin vott um ræktarsemi. Matsmenn vilja hins vegar leggja áherslu á, að umhyggjusöm hirðing hefur ætíð verið talin traustasta undirstaðan að blómlegu æðarvarpi. Kveður þar mjög að því atriði að laga til í varplandinu á vorin, líta eftir hreiðrum, að gæta að hreinsa þau og lagfæra, setja upp hræður og veifur gjarnan í skærum litum. Reynsla æðarræktarmanna sýnir að natni við þessi atriði hænir fuglinn að varpstöðvunum og skapar öryggi hjá honum, sbr. matsskjal nr. 28 um leiðbeiningar í æðarrækt.

Sama gerir reglubundinn en hóflegur umgangur og umsýslun kunnugra manna við dúntekjuna. Alúð við þessi atriði er þannig líklegasta leiðin til að viðhalda sem öruggustu jafnvægi í nytjum, og árangursríkasta aðferðin til að efla varplönd, að dómi þeirra sem þekkja best til.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið virðist í þessu sem það hljóti að vera erfiðleikum bundið fyrir nothafa varpsins að sinna því eðlilega með þeirri búsetu sem hann hefur nú og hefur haft síðustu ár. Gæti sú minnkandi dúntekja sem tölur bera með sér, því allt eins verið afleiðing þess, að ekki er lengur gerlegt eins og áður að búa að þessum hlunnindum sem skyldi, en þá skerðast slík hlunnindi óhjákvæmilega. Þetta hefur komið í ljós við breytingar sem hafa átt sér stað á búsetu jarða á liðnum tímum, þar sem blómleg æðarvörp hafa verið, en liðið að mestu undir lok.

Það er samdóma álit matsmanna að nokkur truflun hafi orðið við verklegar framkvæmdir Vegagerðar ríkisins við vegalagninguna sunnan við æðarvarp Ysta-Mós við Hópsvatn. Sé þar samt aðeins um tímabundið tjón að ræða, sem með alúð og umhirðu mætti að fullu ná upp á tveggja til þriggja ára tímabili, sjái eigendur varpsins sér hag í því.

Óhagræði það og tjón, sem truflun þessi hefur valdið telst hæfilega metið á kr. 12.000.00 og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir að eignarnemi greiði eignarnámsþolum skv. 11. gr. laga nr. 11/1973 kr. 3500.00 í málskostnað. Þá þykir rétt með vísan til 11. gr. sömu laga að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 6.500.00.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði Haraldi Hermannssyni f.h. eigenda Ysta-Mós, kr. 12.000.00 og kr. 3.500.00 í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 6.500.00.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum