Hoppa yfir valmynd
25. maí 1983 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 25. maí 1983

Ár 1983, miðvikudaginn 25. maí var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Vegagerð ríkisins
                  gegn
                  Magnúsi Sigurðssyni
                  Úlfsstöðum,
                  Suður-Múlasýslu

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

Með bréfi dags. 7. september 1982 hefur Vegagerð ríkisins farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði lögboðnar bætur vegna endurlagningar upphéraðsvegar um land jarðarinnar Úlfsstaðir í Vallahreppi, Suður-Múlasýslu en eigandi þeirrar jarðar er Magnús Sigurðsson bóndi þar.

Vegalagning þessi er sögð hafa farið fram sumarið 1981 þegar ný brú yfir Grímsá hafi verið tengd. Viðræður um bætur eru sagðar hafa farið fram við eiganda Úlfsstaða en samkomulag ekki tekist og því sé stofnað til þessa matsmáls.

Eignarnemi kveður hafa farið undir upphéraðsveg ræktunarhæft gróið land, að stærð 2,3 ha. Telur hann að land þetta hafi verið kílræst og því beri honum aðeins að greiða ræktunarkostnað að hálfu.

Mál þetta var tekið fyrir á jörðinni Úlfsstöðum í Vallahreppi, Suður-Múlasýslu, fimmtudaginn 5. maí 1983. F.h. eignarnema mættu á fundinum Gunnar Gunnarsson, hdl. og með honum Einar Þorvarðarson, umdæmisverkfræðingur, Hilmar Finnsson, umdæmistæknifræðingur og Magnús Jóhannsson, verkstjóri. Eignarnámsþoli Magnús bóndi Sigurðsson, sem hér býr, var sjálfur mættur.

Var nú gengið á vettvang og landið, vegurinn og allar aðstæður skoðaðar.

Sátt var reynd með aðilum en árangurslaust.

Magnús Sigurðsson lagði fram á fundinum álitsgerð Búnaðarsambands Austurlands, svohljóðandi:

"Samkvæmt beiðni og samkomulagi tæknifræðings Vegagerðar ríkisins Reyðarfirði og Magnúsar Sigurðssonar bónda Úlfsstöðum, um að ráðunautar Búnaðarsambands Austurlands geri tillögur um á hvern hátt bætt verði fyrir jarðrask og annað vegna lagningu nýs vegar í gegnum land jarðarinnar Úlfsstaðir í Vallahreppi, viljum við undirritaðir leggja eftirfarandi til:

Jarðeigandi á Úlfsstöðum fái greiddar bætur fyrir 13,60 ha lands á allt að hálfu því verði, sem túnrækt, skv. C lið, reiknast á, þegar eigendum landbúnaðarlands eru greiddar bætur vegna vegaframkvæmda.

Eftirfarandi forsendur eru lagðar til grundvallar: Land þetta er innan girðingar og er neðan eldri vegar. Það nær frá girðingu og skurði að innanverðu og ytri mörk miðast við línu frá vegræsi, neðan við fjárhús, niður að og eftir gili, sem skiptir sundur innri og ytri hluta girðingarhólfsins. Að frádreginni áður ræktaðri túnspildu er þessi landspilda 13,60 has. að stærð niður að Grímsá.

Landið var allt gróið og ræktunarhæft land að tilskilinni meiri framræslu. Hluti þess fer undir veg ásamt skurðum. Framræsla hafði verið hafin á þann hátt að lokræsa mýrlendið og varð það þannig allvel þurrt og girðingarhólfið nýttist vel og var notað sem beitiland fyrir alla gripi. Vegarlagningin klýfur girðingarhólfið og veldur ábúanda allmiklu óhagræði við áframhaldandi notkun landsins. Lokræsin í nágrenni vegarins urðu ónýt og staðsetning vegar og meðfylgjandi vegarskurða er á þann hátt, að mýrarspildan beggja megin nýja vegarins nýtist mun verr sem ræktunarland, framræst með opnum skurðum, en hún hefði áður gert sem heild. Aftur á móti bæta vegarskurðirnir að miklu leyti úr áðurnefndum framræsluskemmdum, þ.e. á lokræsunum í mýrinni.

Við teljum, að þessi umrædda landspilda í girðingarhólfi hafi nýtst ábúanda að vissu leyti jafn vel og um tún væri að ræða, þ.e. grasgefið land til beitar, þar sem ennfremur má bæta grassprettu með áburðargjöf, ef þess er talin þörf.

                  Egilsstöðum, 14.12.1981

            Jón A. Gunnlaugsson      Þórhallur Hauksson   "

Lögmaður eignarnema og eignarnámsþoli skýrðu nú mál sitt munnlega á fundinum, rökstuddu kröfur sínar og sjónarmið og lögðu málið í úrskurð og var það þá strax tekið til úrskurðar.

Matsnefndin hefur miklar upplýsingar um sölur og möt á landi og landsvæðum víðsvegar um landið og með hliðsjón af þeim upplýsingum, verðbreytingum svo og öðru því er Matsnefndin telur máli skipta, telur nefndin rétt, að meta bætur til eignarnámsþola vegna endurlagningar upphéraðsvegar um land hans Úlfsstaði á eftirfarandi hátt.

Jörðin Úlfsstaðir í Vallahreppi er mjög vel í sveit sett. Á jörðinni er rekinn sauðfjárbúskapur. Samkvæmt jarðaskrá 1981/1982 er bústofninn, sauðfé 222 og 3 hestar.

Sauðféð er afurðamikið vegna mikillar frjósemi og góðs fallþunga. Túnstærð jarðarinnar er skv. túnaskýrslum Búnaðarfélags Íslands talin 28,3 ha. Samkvæmt úttektarskýrslum jarðabóta hafa á árinu 1968 verið plógræstir 5.300 m. og árið 1974 19.400 m. í beitilandi jarðarinnar.

Árið 1981 hóf Vegagerð ríkisins breytingar á vegakerfi því sem lá um land Úlfsstaða. Áður lá vegurinn þvert í gegn um landið og skipti því á hagkvæman hátt, þannig að neðan vegar að Grímsá myndaðist stórt samfellt hólf sem notað var til sauðfjárbeitar. Land þetta var plógræst eftir því sem aðstæður leyfðu, og hefur sú ræsagerð valdið breytingum á landinu sem hefur víðast hvar breytst í hið ákjósanlegasta beitiland.

Með nýju vegalagningunni, þegar ný brú yfir Grímsá var tengd, var áðurnefnt beitarhólf klofið í tvennt. Þetta orsakar aðra og erfiðari nýtingu landsins sem fellst í því að tvíreka þarf fé í hólfin og gera ítölu í þau eftir beitargildi þeirra.

Hólfaskiptingin veldur þannig auknu vinnuálagi sem er tilfinnanlegast um sauðburð, þegar vinnuálagið er mest á sauðfjárbúum.

Þá hefur ennfremur komið í ljós að sauðfé handan Grímsár sækir um nýju brúna yfir í Úlfsstaðaland sem eykur vinnu við vörslu heimalandsins.

Enginn ágreiningur er með aðilum um landstærð þá sem Vegagerðin hefur tekið til sín.

Að þessu athuguðu þykja hæfilega bætur til eignarnámsþola metnar þannig:

1.   Plógræst gott beitiland 2,3 ha. á kr. 5.500 ha. .............   kr.   12.650.-
2.   Endurbætur á plógræstu landi .....................................   "   4.500.-
3.   Bætur vegna óhagræðis og aukinnar vinnu við
   nýtingu landsins ...........................................................   "   20.000.-
      Bætur alls   kr.   37.150.-

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir með vísan til 11. gr. laga nr. 11/1973, að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 8000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Bárður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls samkvæmt 2. gr. laga nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþola, Magnúsi Sigurðssyni, Úlfsstöðum, kr. 37.150.-.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 8000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum