Eldri úrskurðir og álit úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðs­aðgerða

22.1.2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 22. janúar 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 26/2008.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 15. október 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 13. október 2008 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 16. september 2008. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 30. október 2008. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur í 40 daga frá þeim tíma sem hann sótti um þær. Að mati Vinnumálastofnunar ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Kærandi starfaði sem R hjá X ehf. frá 1. júní 2008 þar til hann sagði upp og hætti störfum 12. september 2008. Með umsókn, dags. 16. september 2008, sótti kærandi um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Samkvæmt vinnuveitendavottorði, dags. 26. júní 2008, sagði kærandi sjálfur upp störfum.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. október 2008, var kæranda tilkynnt að afgreiðslu á umsókn hans hafi verið frestað vegna upplýsinga um starfslok sem fram kæmu á vottorði vinnuveitanda kæranda. Fram kom í bréfinu að líkur væru á að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að loknum biðtíma, sbr. X. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru kæranda kemur fram að hann hafi byrjað að vinna hjá vinum sínum hjá X ehf. í byrjun júní 2008 á þeirri forsendu að launin myndu hækka umtalsvert, en byrjunarlaunin hafi verið lág. Við fyrstu útborgun hafi komið í ljós að orlofið var reiknað inn í launin. Kærandi kveðst ekki hafa sætt sig við það og gert við það athugasemd. Eftir þriggja mánaða vinnu hafi honum verið tjáð að ekkert yrði úr launahækkuninni. Til þess að forðast frekari leiðindi hafi hann sagt upp störfum. Þar sem vinnuveitandi hafi neitað honum um launahækkunina telur kærandi að sér hafi verið sagt upp störfum.

Fram kom í athugasemdum Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun hafi byggst á 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna. Að mati Vinnumálastofnunar hafi ekki verið gildar ástæður fyrir uppsögn kæranda, en hann hafi sagt upp störfum vegna ágreinings um launakjör. Umsókn hans hafi verið samþykkt en þar sem kærandi hafi sjálfur sagt upp störfum hafi bótaréttur hans verið felldur niður í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar hans um atvinnuleysisbætur á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

Niðurstaða

Ákvæði 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna. Í 1. mgr. segir eftirfarandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga nr. 54/2006 segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að takmarka slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar er 1. mgr. 54. gr. laganna skýrð nánar og það áréttað að eitt af markmiðum vinnu­markaðs­kerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því er ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf er ekki í boði. Jafnframt er tekið fram að Vinnumálastofnun beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Að lokum er í greinargerðinni bent á að ákvörðun um biðtíma sé íþyngjandi og liggja þurfi fyrir hvaða ástæður séu raunverulega að baki því að launamaður segi upp starfi sínu án þess að hafa annað starf í hendi enda sé oft um að ræða viðkvæm mál í slíkum tilvikum.

Fallast má á að almennt eru líkindi fyrir því að launþegi sem segir starfi sínu lausu verði settur á 40 daga bið í samræmi við fyrri málslið 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysis­tryggingar. Þessi almennu líkindi breyta því ekki að þessi málsliður felur í sér matskennda reglu sem beita verður að vel athuguðu máli. Hér má benda á álit umboðsmanns Alþingis frá 4. júní 2004 í máli nr. 3960/2003 þar sem fram kemur að við beitingu sambærilegrar reglu í gildistíð eldri laga hafi úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta borið skylda til að meta sérstaklega hvað teldust gildar ástæður fyrir uppsögn.

Óumdeilt er að kærandi sagði sjálfur upp störfum vegna óánægju með launakjör og er ekki efast um að lýsing kæranda á málavöxtum sé rétt. Málið snýst því fyrst og fremst um það hvort þær ástæður sem kærandi gefur fyrir uppsögn sinni geti talist vera „gildar“ í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Leggja verður áherslu á það markmið laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja þeim launamönnum sem misst hafa fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi. Þannig er mikilvægt að hafa í huga þann tilgang laganna að vera fjárhagslegt úrræði fyrir þá sem ekki eiga annan kost og því ber að gera ríkar kröfur um að þeir sem sjálfviljugir segja upp starfi sínu hafi til þess ríkar ástæður. Ekki er gert lítið úr óánægju kæranda með brostnar væntingar um launahækkun. Engu að síður er þetta ekki talin vera ástæða sem getur réttlætt að hann sagði þá þegar upp störfum án þess að hafa tryggt sér annað starf og óskaði í framhaldinu eftir atvinnuleysisbótum. Þannig er lögð áhersla á þau sjónarmið að launþegar eiga ekki að geta valið þann kost að þiggja atvinnuleysisbætur fram yfir það að gegna launuðu starfi nema ríkar ástæður liggi að baki.

Í ljósi þess sem að framan er ritað er það mat nefndarinnar að ástæða kæranda fyrir uppsögn á starfi sínu hjá X ehf. teljist ekki gild ástæða í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysis­tryggingar. Því ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar í 40 daga.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 13. október 2008 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson