Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Synjun Vinnumálastofnunar frá 5. ágúst 2008. Frávísun

Miðvikudaginn 28. janúar 2009 var í félags- og tryggingamálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með erindi, dags. 5. september 2008, sem barst ráðuneytinu sama dag, kærði A, lögfræðingur, fyrir hönd B, ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. ágúst 2008, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis fyrir C sem er filippseyskur ríkisborgari.

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa C sem er filippseyskur ríkisborgari, í því skyni að ráða sig til starfa hjá kæranda. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins. Ráðuneytið sendi kæranda bréf, dags. 16. september 2008, þar sem athygli kæranda var vakin á því að kærufrestur í málinu hefði runnið út 2. september sama ár en samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Í fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins var enn fremur tekið fram að þrátt fyrir ákvæði laga um atvinnuréttindi útlendinga færi um kæru að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Ráðuneytið óskaði því eftir að kærandi tilgreindi ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti og var frestur veittur til 30. september 2008.

Svarbréf barst ekki frá kæranda. Ráðuneytið sendi því bréf til kæranda, dags. 3. nóvember 2008, þar sem ráðuneytið ítrekaði fyrri beiðni sína þess efnis að kærandi tilgreindi ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti og var frestur veittur til 10. nóvember sama ár. Þar sem svarbréf hefur enn ekki borist ráðuneytinu verður byggt á þeim gögnum sem þegar liggja fyrir í málinu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, sbr. áður 24. gr. sömu laga, er heimilt að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun tímabundinna atvinnuleyfa til félags- og tryggingamálaráðuneytisins og er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Að öðru leyti fer um kæru samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 5. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Ráðuneytið óskaði ítrekað eftir nánari upplýsingum um ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti en kærandi varð ekki við þeirri beiðni ráðuneytisins. Skortir ráðuneytið því forsendur til að meta hvort afsakanlegar ástæður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga liggi að baki því að stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti. Þá verður að mati ráðuneytisins ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum í málinu að hagsmunir aðila séu annars eðlis en almennt á við í sambærilegum málum og því verði ekki talið að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Ráðuneytið skortir því heimildir að lögum til að taka málið til efnislegrar umfjöllunar og ber að vísa erindi kæranda frá ráðuneytinu, sbr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, sbr. áður 24. gr. sömu laga, og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

ÚRSKURÐARORÐ

Stjórnsýslukæru A lögfræðings, fyrir hönd B, dags. 5. september 2008, vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 5. ágúst 2008, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa C sem er filippseyskur ríkisborgari, í því skyni að ráða sig til starfa hjá B er vísað frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

Fyrir hönd ráðherra

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir

Bjarnheiður Gautadóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum