Hoppa yfir valmynd
25. mars 1996 Innviðaráðuneytið

Kópavogskaupstaður - Almennt mat á skuldastöðu sveitarfélaga

Helga Sigurjónsdóttir                                                                                25. mars 1996                              95060109

Hrauntungu 97                                                                                                                                                    16-1000

200 Kópavogur

 

 

 

 

            Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 19. júní 1995, varðandi almennt mat á skuldastöðu sveitarfélaga, fjárhagsstöðu Kópavogskaupstaðar o.fl.

 

            Ekki er til einhlítur mælikvarði á það hvenær skuldir sveitarfélaga séu orðnar hættulega miklar “þannig að sjálfstæði viðkomandi sveitarfélags sé í hættu”.

 

            Á árinu 1989 starfaði nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins sem hafði það hlutverk að yfirfara fjárhagsmál sveitarfélaga. Nefndin lagði m.a. til að félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga kæmu sér saman um ákveðnar viðmiðunartölur varðandi fjárhag sveitarfélaga. Nefndin tók fram að þessar viðmiðanir gætu t.d. verið að nettóskuldir sveitarfélaga ættu yfirleitt ekki að fara yfir 50% af sameiginlegum tekjum og hættumörkum væri náð þegar hlutfallið væri orðið 80-90%.

 

            Ráðuneytið hefur stuðst við þessar viðmiðanir. Þetta er þó engan veginn einhlítur mælikvarði. Líta þarf til margra atriða þegar meta skal peningalega stöðu og nettóskuldir sveitarfélaga og möguleika viðkomandi sveitarfélags til að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Við þetta mat þarf m.a. að hafa eftirfarandi atriði í huga:

*  Eignir:

-       Hlutabréf.

-       Eignarhlutar í öðrum félögum.

-       Eignarhlutar í fyrirtækjum sveitarfélagsins, svo sem veitufyrirtækjum.

-       Félagslegar íbúðir sem ekki eru færðar sem sérstakt fyrirtæki sveitarfélags.

-       Aðrar eignir sem ekki eru bundnar vegna lögboðinnar þjónustu sveitarfélags.

 *     Skuldbindingar:

-       Ábyrgðaskuldbindingar sem fallið hafa á sveitarsjóð eftir lok reikningsskilatímabils eða er ljóst að muni falla á sveitarsjóð.

-       Skuldbindingar eigin fyrirtækja sveitarfélaga eða vegna verkefna með öðrum, sem ætla má að lendi á sveitarsjóði í formi framlaga.

 *     Þjónustustig og staða framkvæmda:

-       Staða sveitarsjóðs gagnvart lögboðnum verkefnum, svo sem skólum, leikskólum og íþróttamannvirkjum.

-       Verksamningar.

 * Annað:

-       Atriði í ársreikningi sveitarfélags sem ekki eru í samræmi við reikningsskilaaðferðir sveitarfélaga ef ljóst er að þau hafi áhrif á mat peningalegrar stöðu sveitarfélagsins.

 

            Einnig þarf að líta til þróunar íbúafjölda og atvinnuástands í sveitarfélaginu. Ef atvinnuástand er gott og íbúum fer fjölgandi á viðkomandi sveitarfélag yfirleitt auðveldara með að standa við skuldbindingar sínar heldur en ef atvinnuástand er slæmt og íbúum fer fækkandi.

 

            Þetta eru helstu atriðin sem ráðuneytið lítur til þegar það leggur mat á fjárhagsstöðu sveitarfélaga

 

            Ráðuneytið hefur yfirfarið ársreikning bæjarsjóðs Kópavogskaupstaðar fyrir árið 1994. Ljóst er að fjárhagsstaða Kópavogskaupstaðar er mjög erfið og brýn nauðsyn á að gerðar séu ráðstafanir til að lækka skuldir sveitarfélagsins. Það er hins vegar mat ráðuneytisins að ef litið er til þróunar íbúafjölda, atvinnuástands og fleiri þátta þá sé hægt að koma skuldastöðu sveitarfélagsins í viðunandi horf á næstu árum. Þetta er þó háð því að bæjarstjórn setji sér viðunandi markmið í þessu efni og geri ráðstafanir til að slíkum markmiðum verði náð.

 

            Hvað varðar ábyrgð einstakra bæjarfulltrúa á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins er ljóst samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 að þeir bera ekki persónulega ábyrgð á fjárskuldbindingum. Hins vegar ber þeim samkvæmt 2. mgr. 40. gr. laganna að gegna störfum sínum af alúð og samviskusemi. Jafnframt er rétt að benda á að bæjarfulltrúi getur sætt refsiábyrgð ef talið verður að hann hafi brotið ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

 

            Möguleikar bæjarfulltrúa í “minnihluta” bæjarstjórnar þegar skuldir eru orðnar hættulega miklar felast fyrst og fremst í tillöguflutningi í bæjarstjórninni, m.a. um að beitt verði nánar tilgreindum sparnaðaraðgerðum eða einhverjum af úrræðum 90.-96. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

 

            Í síðustu spurningu yðar er spurt hvað sé hægt að gera ef forsendur fjárhagsáætlunar standast ekki og miklir fjármunir eru í húfi, t.d. slæm skuldastaða. Ýmis úrræði eru þá fyrir hendi, s.s. endurskipulagning reksturs sveitarfélagsins, dregið verði úr framkvæmdum, eignir seldar o.s.frv. Í 90.-96. gr. sveitarstjórnarlaga er síðan að finna úrræði þegar sveitarfélag kemst í greiðsluerfiðleika.

 

            Dregist hefur að svara erindi yðar, en það stafar af miklum önnum í ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Ljósrit:  Bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum