Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 183/2013

Fimmtudaginn 26. nóvember 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 17. desember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. desember 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 27. desember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. mars 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. mars 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1975 og 1971. Þau búa ásamt fjórum börnum sínum í eigin fasteign að C götu nr. 3 í sveitarfélaginu D, sem er 126 fermetrar að stærð. Tvö elstu börn kærenda stunda nám í framhaldsskóla.

Kærandi A starfar hjá X. Kærandi B er öryrki. Á þeim tíma er kærendur fengu greiðsluaðlögun voru mánaðarlegar tekjur þeirra eftir greiðslu skatta 639.265 krónur vegna launa, meðlagsgreiðslna, barna- og vaxtabóta.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 36.103.515 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína aðallega til tekjulækkunar og veikinda.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 27. desember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. júlí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 3. júlí 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr.  1. og 2. mgr. 12. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá segi í 2. mgr. sama ákvæðis að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr., skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Umsjónarmaður hafi farið vel yfir þessi ákvæði með kærendum. Kærendur hafi greint honum frá því að þeim hefði ekki tekist að leggja fyrir þrátt fyrir að hafa til þess greiðslugetu á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Umsjónarmaður hafi upplýst kærendur um að þau hefðu átt að geta lagt fyrir á tímabilinu. Kærendur hafi talið framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara í ósamræmi við framfærslukostnað sinn. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi greiðslugeta kærenda verið 146.492 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls eða frá desember 2010 til júní 2013. Því hefðu þau átt að geta lagt fyrir rúmlega 4.500.000 krónur á tímabilinu. Umsjónarmaður hafi gefið kærendum kost á að gera grein fyrir ástæðum þess að þau hafi ekki lagt neitt fyrir. Engar skýringar hafi verið lagðar fram.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 5. nóvember 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur hafi komið andmælum sínum á framfæri á fundi með starfsmanni embættisins.

Með bréfi til kærenda 5. desember 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveðast ekki hafa vitað að þau hafi átt að spara ákveðna fjárhæð mánaðarlega fyrr en þau fengu bréf um það sumarið 2013. Því telji þau ákvörðun umboðsmanns skuldara ranga. Þá hafi kærendur ekki nógu háar tekjur til að leggja fyrir þá fjárhæð sem gerð sé krafa um. Kærendur reki sex manna heimili og stundum nægi ráðstöfunartekjur ekki út mánuðinn. Tvítug dóttir kærenda hafi lent í slysi en hún hafi ekki verið á vinnumarkaði. Kærendur hafi því þurft að greiða allan kostnað vegna veikindanna svo sem vegna sjúkraþjálfunar, læknisþjónustu, skólagjalda og bifreiðar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið á heimasíðu embættisins. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 27. júlí 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa.

Samkvæmt útreikningum embættisins sé áætlað að kærendur hefðu átt að geta lagt fyrir 6.104.307 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Að sögn kærenda hafi þau þurft að standa straum af auknum útgjöldum á tímabilinu vegna slyss sem dóttir þeirra lenti í, kaupa á gleraugum og skólagöngu barna. Þessi útgjöld séu þó hverfandi borið saman við þá fjárhæð sem kærendur hefðu átt að leggja fyrir. Megnið af þeim peningum sem kærendur hafi haft umfram framfærslukostnað hafi þau sent til fjölskyldu sinnar í Venesúela.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Auk þess sé óheimilt að stofna til nýrra skulda á tímabilinu.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið var kærendum skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum sínum. Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 3. júlí 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 5. desember 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun 27. desember 2010. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn.

Á þeim tíma er umsókn kærenda var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í upplýsingaskjalinu var einnig greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimilis og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum, sem voru í greiðsluskjóli, bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda að leggja til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunar-umleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

 „Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrðum fyrir umsækjanda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Kærunefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslu sinni eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærsla þeirra skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is“

Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. júlí 2011 þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur átt að leggja fyrir 6.104.307 krónur frá 1. janúar 2011 til 31. september 2013. Kærendur hafa ekkert lagt fyrir á tímabilinu. Þau mótmæla ákvörðun umboðsmanns skuldara og kveðast ekki hafa vitað af því að þau hafi átt að leggja fyrir tiltekna fjárhæð á mánuði. Þá segja þau framfærslukostnað sinn hafa verið hærri en umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir. Þau hafa ekki lagt fram nein gögn er styðja þá staðhæfingu.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.502.001
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 291.833
Nettótekjur B 1.819.619
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 151.635
Nettótekjur alls 5.321.620
Mánaðartekjur alls að meðaltali 443.468


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.396.262
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 283.022
Nettótekjur B 1.894.771
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 157.898
Nettótekjur alls 5.291.033
Mánaðartekjur alls að meðaltali 440.919


Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. nóvember 2013: 11 mánuðir
Nettótekjur A 3.519.899
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 319.991
Nettótekjur B 1.783.797
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 162.163
Nettótekjur alls 5.303.696
Mánaðartekjur alls að meðaltali 482.154


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 15.916.349
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 454.753

 

Umboðsmaður skuldara gerir ráð fyrir að kærendur hafi fengið meðlagsgreiðslur á tímabilinu en greiðsluáætlanir embættisins eru misvísandi hvað þetta varðar. Engin gögn liggja fyrir um þessar greiðslur og er því ekki unnt að taka tillit til þeirra við meðferð málsins fyrir kærunefndinni.

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. janúar 2011 til 30. nóvember 2013: 35 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 15.916.349
Bótagreiðslur 2011, 2012 og 2013 2.032.582
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 17.948.931
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 512.827
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns 455.417
Greiðslugeta kærenda á mánuði 57.410
Alls sparnaður í 35 mánuði í greiðsluskjóli x 57.410 2.009.336

 

Samkvæmt framangreindu ætti sparnaður kærenda að vera 2.009.336 krónur.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eigi að leggja fyrir af launum sínum í greiðsluskjóli ber, samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge., að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

 

Kærendur hafa hvorki lagt fram gögn er sýna fram á óvænt útgjöld á tímabilinu né gögn er sýna fram á að framfærslukostnaður þeirra hafi verið hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara gerir ráð fyrir. Samkvæmt því er fram kemur í málinu eiga kærendur heldur ekki neinn sparnað.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til þess verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið, samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna, að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum