Hoppa yfir valmynd
3. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 140/2013

Fimmtudaginn 3. september 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 13. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 27. ágúst 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 17. september 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. mars 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 20. mars 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 2. apríl 2014. Voru þær sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 29. apríl 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1962 og 1961. Þau eru gift og búa ásamt þremur börnum sínum á framhaldsskólaaldri í eigin 239 fermetra einbýlishúsi að D götu nr. 8 í sveitarfélaginu E.

Kærandi B er félagsráðgjafi en kærandi A er rafeindavirki og starfar hjá X. Tekjur kærenda eru vegna launa, barna- og vaxtabóta.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 152.875.843 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til veikinda, atvinnuleysis og tekjulækkunar.

Kærandi A lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 13. ágúst 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. apríl 2011 var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Kærandi B fyllti ekki út hefðbundna umsókn um greiðsluaðlögun en undirritaði þess í stað skjal með fyrirsögninni „samþykkisyfirlýsing“. Skjalið er dagsett 7. febrúar 2012 og segir að efni þess sé „umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lögum nr. 101/2010“. Ekki er unnt að líta öðruvísi á skjalið en sem umsókn kæranda B um heimild til greiðsluaðlögunar. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. júní 2012 var henni veitt heimild til greiðsluaðlögunar og sami umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með báðum ákvörðunum umboðsmanns skuldara var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi 22. júlí 2012 óskuðu kærendur þess að greiðsluaðlögunarmál þeirra yrðu sameinuð í eitt mál. Umboðsmaður skuldara féllst á beiðni kærenda með ákvörðun 31. júlí 2012. Í ákvörðuninni segir meðal annars að þegar umsókn kæranda A um greiðsluaðlögun einstaklinga hafi borist umboðsmanni skuldara hafi kærandi B verið með gildan nauðasamning til greiðsluaðlögunar samkvæmt þágildandi ákvæðum X. kafla a, 3. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Kærandi B hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt ákvæðum lge. 29. mars 2012 og hafi umsókn hennar verið samþykkt 12. júní 2012. Þar með hafi fyrrgreindur nauðasamningur hennar um greiðsluaðlögun fallið úr gildi.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 14. janúar 2013 var lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr. lge. þar sem fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil.

Á fundi umsjónarmanns með kærendum 23. október 2012 hafi þau greint frá því að þau hafi ekki haft tök á að leggja fyrir fé í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Kærandi A hafi verið í greiðsluskjóli síðan 18. október 2010 og kærandi B frá 12. júní 2012. Kærendur hafi kveðið ástæðu þessa þá að þau hafi orðið fyrir óvæntum tannlæknakostnaði að fjárhæð 120.000 krónur. Einnig hefðu þau nýtt endurgreiðslu skatta til að greiða föður kæranda B til baka lán en þau hafi framvísað millifærslukvittunum að fjárhæð 1.823.190 krónur vegna þessa. Þá hefðu þau greitt skaðabætur fyrir son sinn auk dóms- og sakarkostnaðar. Jafnframt hafi komið fram að kærendur hafi farið í utanlandsferð á tímabili greiðsluskjóls en þau hafi sagt frá því að sú ferð ásamt gjaldeyri hefði verið gjöf frá föður kæranda B. Þá hafi komið fram í tölvupósti kærenda til umsjónarmanns 28. nóvember 2012 að þau greiddu mánaðarlega 20.000 krónur af láni sem dóttir þeirra hefði tekið. Áður hafi kærendur greint frá því að þau hefðu að mestu greitt fyrir æfingaferðalag dóttur sinnar til útlanda en það hafi kostað um 300.000 krónur og bílpróf sonar síns sem hafi kostað um 110.000 krónur. Hafi kærendur framvísað kvittunum vegna hluta ofangreinds kostnaðar.

Samanlagðar heildartekjur kæranda A frá nóvember 2010 til nóvember 2012 og kæranda B á tímabilinu júlí til nóvember 2012 hafi verið 14.026.090 krónur. Hafi tekjurnar verið vegna launa, námslána kæranda B, sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, vaxta- og barnabóta. Samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara, miðað við janúar 2013 að teknu tilliti til mánaðarlegra útgjalda kærenda, hafi framfærslukostnaður þeirra að meðaltali verið 420.871 króna miðað við að á framfæri þeirra væru þrjú börn. Hafi framfærslukostnaður þeirra á tímabili greiðsluskjóls því verið 11.363.517 krónur. Hafi kærendum því átt að vera mögulegt að leggja til hliðar 2.662.573 krónur á tímabilinu.

Umsjónarmaður taldi að með háttsemi sinni hefðu kærendur greitt umtalsverð útgjöld umfram það sem nauðsynlegt hefði verið til að sjá þeim og fjölskyldu þeirra farborða og þannig brotið gegn ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Auk þess hafi þau endurgreitt föður kæranda B lán og þannig mismunað kröfuhöfum í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 24. júní 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kærenda kom fram að á tímabili greiðsluskjóls hefðu þau ekki haft nægilega háar tekjur vegna launa, bóta og námslána til að framfleyta fjölskyldunni og því ekki haft tök á að leggja fé til hliðar. Þau hefðu þar af leiðandi ekki brotið gegn ákvæðum lge. Þá teldu kærendur að inn í framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara vantaði ýmsan kostnað vegna framfærslu en einnig annan kostnað svo sem vegna rafmagns, hita, fasteignagjalda og viðhalds húsnæðis. Að því er varði fjárstuðning föður kæranda B greindu kærendur frá því að hann hefði greitt fyrir ýmsar nauðþurftir svo sem mat, læknisþjónustu, lyf, og kostnað vegna skólagöngu kæranda B og barna kærenda. Ekki hafi verið um að ræða lán í beinhörðum peningum heldur greiðslu útgjalda. Jafnvel þó að kærendur hafi endurgreitt honum vegna þessa geti engan veginn verið um að ræða mismunun kröfuhafa. Telji kærendur að það komi skýrt fram í lge. að heimilt sé að fá aðstoð við framfærslu og það valdi ekki synjun á heimild til greiðsluaðlögunar.

Með bréfi til kærenda 27. ágúst 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a– og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að komið verði á greiðsluaðlögun þeim til handa. Skilja verður þetta svo að kærendur krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Einnig óska kærendur eftir því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála fari yfir málsmeðferð umboðsmanns skuldara gagnvart sér og athugi hvort málsmeðferðin hafi verið með eðlilegum hætti og í samræmi við lög.

Kærendur mótmæla því að hafa brotið gegn ákvæðum lge. enda hafi aldrei verið sýnt fram á slíkt.

Kærendur hafi bæði snúið sér til umboðsmanns skuldara í ágúst 2010. Af óskiljanlegum ástæðum hafi embætti umboðsmanns skuldara aðeins látið kæranda A sækja um greiðsluaðlögun. Seinna hafi þurft að bæta kæranda B inn í umsóknina en það hafi orðið til þess að afgreiðsla málsins hafi tekið mjög langan tíma. Kærandi B hafi ekki verið bundin af ákvæðum lge. fyrr en í júní 2012 er umsókn hennar um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt. Skuldir kærenda hafi hækkað um meira en 80.000.000 króna síðan þau sóttu um greiðsluaðlögun. Þetta sé vegna þess hve þau hafi þurft að bíða lengi eftir afgreiðslu málsins en vextir, dráttarvextir og verðbætur hafi lagst ofan á skuldir.

Kærendur segja að það hafi komið flatt upp á þau þegar umsjónarmaður spurði að því hvað þau hefðu lagt fyrir á tímabili greiðsluskjóls þar sem tekjur þeirra og bætur hafi ekki nægt fyrir framfærslukostnaði fjölskyldunnar. Kærandi B hafi verið í námi og kærandi A eina fyrirvinnan. Gert hafi verið ráð fyrir því að þegar kærandi B hefði lokið námi yrðu þau fær um að greiða af þeim skuldum sem eftir stæðu að loknu greiðsluaðlögunarferli.

Þegar kærendur hafi sótt um greiðsluaðlögun hafi þau verið í vanskilum með skuldir sem ekki falli undir greiðsluaðlögun. Því hafi útgjöld fjölskyldunnar verið talsvert meiri á þessum tíma en útreikningar umboðsmanns geri ráð fyrir. Kærendur telja að umsjónarmaður hafi ekki skoðað málefni fjölskyldunnar heildstætt. Hafi ekki verið tekið tillit til þess að kærandi B stundaði nám og tekjur kæranda A nægðu varla til að framfleyta fjölskyldunni. Ekkert svigrúm hafi verið til að leggja fyrir. Laun kærenda á tímabilinu hafi að meðaltali verið 589.058 krónur á mánuði. Nægi sú fjárhæð engan veginn til framfærslu fimm manna fjölskyldu. Þau hafi ekkert haft aflögu og seinni hluta mánaðar hafi þau ekki átt peninga fyrir mat eða öðrum nauðþurftum.

Mikilvægt sé að hafa í huga að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu skammtímaviðmið þar sem öllum útgjöldum sem hægt sé að fresta í allt að níu mánuði sé sleppt. Ekkert komi fram í lge. hvaða viðmið eigi að nota þegar skuldarar hafi beðið lengi eftir afgreiðslu málsins en þau hafi beðið í 31 mánuð. Fullvíst sé að löggjafinn hafi aldrei gert ráð fyrir að biðtíminn gæti orðið mörg ár. Því sé ekki hægt að ætlast til þess að miðað sé við þann framfærslukostnað sem umboðsmaður skuldara gangi út frá til lengri tíma. Það jafngildi því að fólk lifi án almennra mannréttinda og megi ekki fara í frí eða gera nokkuð annað án þess að skaða rétt kröfuhafa. Kærendur vísa í þessu sambandi til 22. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Kærendur telja að það sé ekki til eitt framfærsluviðmið sem eigi við í öllum tilvikum. Þau vísa til viðmiða velferðarráðuneytisins sem talin séu gefa heildstæða mynd af dæmigerðum útgjöldum íslenskra heimila. Þegar þessi viðmið séu notuð komi í ljós að fjölskylda kærenda hafi ekki náð endum saman frá því í desember 2008 er kærandi B varð atvinnulaus.

Þegar lifað sé við svo kröpp kjör, sem kærendur hafi gert frá 2009, komi að því að greiða þurfi ýmis útgjöld tengd fimm manna fjölskyldu svo sem vegna tannlækninga, læknisþjónustu og kaupa á fötum. Árin 2009 og 2010 hafi einstæð dóttir kærenda búið hjá þeim með langveikan son sinn. Hafi hún lítið getað lagt til heimilisins. Skilji kærendur ekki hvernig hægt sé að draga mörk á milli þeirra sem búi á heimilinu þegar komi að matvörukaupum.

Að sögn kærenda greiddu þau sekt fyrir 19 ára son sinn og endurgreiddu hluta útgjalda sem faðir kæranda B hafi greitt fyrir þau. Þar til í maí 2012 hafi þau greitt af láni sem dóttir þeirra hafi tekið fyrir þau. Þau hafi því ekki greitt af láninu eftir að þau fóru bæði í greiðsluskjól og kærandi A hafi aldrei greitt af því á meðan hann var einn í greiðsluskjóli. Bílpróf sonar kærenda og æfingaferð fyrir dóttur þeirra hafi verið greidd áður en kærandi B hafi farið í greiðsluskjól og því sé marklaust að vísa til þess í málinu.

Í október 2012 hafi kærandi A orðið 50 ára. Af því tilefni hafi ættingjar hans og vinir gefið honum þriggja daga ferð til útlanda ásamt gjaldeyri. Kærendur hafi ekki að neinu leyti greitt ferðina. Hvergi komi fram í lge. að ekki megi fara til útlanda í boði annarra. Með ferðinni hafi því ekki verið brotið gegn 12. gr. lge.

Kærendur gera athugasemdir við málshraða umboðsmanns skuldara og telja hann ekki samrýmast lge. Kærendur hafi af þeim sökum búið við vanlíðan, umkomuleysi og félagslegt óöryggi undanfarin ár. Þau gera einnig athugasemdir við málsmeðferð og ráðleggingar umsjónarmanns og embættis umboðsmanns skuldara.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla á meðan frestun greiðslna standi yfir.

Frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól kæranda A, hafi staðið yfir frá 18. október 2010 eða alls í 31 mánuð sé miðað við tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. maí 2013. Greiðsluskjól kæranda B hafi staðið yfir frá 12. júní 2012 eða í 11 mánuði sé miðað við tímabilið 1. júlí 2012 til 31. maí 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum úr staðgreiðsluskrá hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur kærenda að frádregnum skatti* 14.766.230
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 1.622.698
Framfærslulán frá LÍN 1.871.880
Samtals 18.260.808
Mánaðarlegar meðaltekjur í 31 mánuð 589.058
Framfærslukostnaður á mánuði** 442.713
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 146.345
Samtals greiðslugeta í 31 mánuð 4.536.705

*Miðað er við tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. maí 2013 fyrir kæranda A og tímabilið 1. júlí 2012 til 31. maí 2013 fyrir kæranda B.

**Byggt á nýrri greiðsluáætlun frá 16. ágúst 2013.

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 589.058 krónur í meðaltekjur á mánuði á því 31 mánaðar tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur hafi notið greiðsluskjóls.

Við útreikning á greiðslugetu sé ávallt notast við þau framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu tengd vísitölu og byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar. Að auki skuli lagt til grundvallar að kærendum sé jafnan veitt nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr.

Kærendur hafi gert athugasemd við þau framfærsluviðmið sem umboðsmanni sé skylt að nota. Þau telji að við setningu lge. hafi löggjafinn ekki ætlast til að fólk kæmist af með svo lágan framfærslukostnað nema að hámarki í 9 mánuði enda geti það ekki samrýmst 22. gr. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ekki verði lagt mat á þær fullyrðingar að öðru leyti en því að umsjónarmanni beri að notast við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. og að greiðsluaðlögunartímabil eftir að samningur komist á skuli að jafnaði vera eitt til þrjú ár frá því að samningur taki gildi samkvæmt 2. mgr. 16. gr.

Samkvæmt framangreindu megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 442.713 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt greiðsluáætlun ágústmánaðar 2013 fyrir hjón með þrjú börn. Almennt sé miðað við framfærsluskyldu foreldra með börnum til 18 ára aldurs en einnig sé tekið tillit til ungmenna á framhaldsskólaaldri. Kærendur telji að framfærslukostnaður sé ekki miðaður við réttan fjölda heimilismanna. Dóttir þeirra, fædd 1985, og ungur sonur hennar sem glímt hafi við veikindi frá fæðingu séu í fæði hjá kærendum vegna félagslegra aðstæðna sinna. Embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki lagaheimild til að taka sérstakt tillit til fjárhagserfiðleika skyldmenna, sbr. skýr ákvæði a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 4.536.695 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 146.345 krónur á mánuði í 31 mánuð. Gert sé ráð fyrir að kærandi A hafi staðið straum af öllum framfærslukostnaði fjölskyldunnar á tímabili greiðsluskjóls þar sem tekjur kæranda B hafi verið litlar vegna náms.

Kærendur bendi á að vaxtabótum hafi verið skuldajafnað á móti ógreiddum staðgreiðsluskatti kæranda A frá 2011 sem honum hafi borið að greiða á tíma greiðsluskjóls. Þá hafi kærendur lagt fram hjá umsjónarmanni reikninga að fjárhæð 530.000 krónur vegna óvæntra útgjaldaliða á tímabili greiðsluskjóls. Umsjónarmaður hafi tekið tillit til þessara reikninga sem séu meðal annars vegna kostnaðar við æfingaferð dóttur kærenda til útlanda, bílprófs sonar þeirra og tannlækninga. Þá hafi kærendur bent á að ekki hafi verið tekið tillit til þess að þau hafi greitt af greiðsluaðlögunarsamningi kæranda B áður en hann féll úr gildi 12. júní 2012. Nemi fjárhæð þessara greiðslna frá 15. október 2010 alls 512.000 krónum. Loks hafi umsjónarmaður heimilað kærendum að kaupa bifreið fyrir 300.000 krónur. Samtals nemi þessar greiðslur 1.342.000 krónum. Að öðru leyti liggi ekki fyrir skýringar á því af hverju kærendur hafi ekki lagt fyrir fé í greiðsluskjóli en miðað við þetta vanti 3.194.695 krónur upp á sparnað kærenda.

Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Eigi það sérstaklega við á meðan kærendur séu með í vinnslu umsókn um samningsumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Vísað sé til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 52/2013 í þessu sambandi.

Að því er varði c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hafi kærendur upplýst að þau hafi greitt af láni dóttur sinnar og sektir sem fallið hafi á son þeirra alls 25.000 krónur á mánuði. Þrátt fyrir jákvæða greiðslugetu, samkvæmt viðmiðum umboðsmanns skuldara, hafi kærendur þegið fjárhagsaðstoð frá föður kæranda B. Kærendur hafi endurgreitt féð í ágúst 2012. Með þessum greiðslum hafi kærendur látið af hendi fé sem gagnast hefði lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki kæranda A til greiðsluaðlögunar 4. apríl 2011 og kæranda B 12. júní 2012. Hafi þessar leiðbeiningar borist kærendum með ábyrgðarbréfum. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Varðandi ábendingar kærenda um málshraða taki embættið undir orð þeirra að einhverju leyti en bendi jafnframt á að mál þeirra hafi ekki tekið lengri tíma en önnur sambærileg mál hjá embættinu.

Kærendur kveði embættið hafa veitt þeim rangar leiðbeiningar. Kærendur haldi því fram að uppi sé vafi á því hvort nauðsynlegt hafi verið að hvetja kæranda B til að sækja um greiðsluaðlögun og sameina síðan mál þeirra. Miðað við að stærsta veðkrafa kærenda sé á nafni þeirra beggja hafi það legið fyrir að greiðsluaðlögunarsamningur gæti ekki undir neinum kringumstæðum náð tilgangi sínum um að koma á jafnvægi milli greiðslugetu og skulda án aðkomu kæranda B að samningnum. Embættið hafni því að hafa gert mistök þó að kærandi A hafi einn sótt um greiðsluaðlögun enda hlutist embættið ekki til um það fyrirfram hverjir sæki um greiðsluaðlögun. Ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda byggist ekki á sameiginlegri umsókn þeirra heldur á brotum kærenda á skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge., þ.e. háttsemi þeirra sjálfra undir greiðsluaðlögunarumleitunum.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur óska eftir því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála fari yfir málsmeðferð umboðsmanns skuldara gagnvart sér og skoði hvort málsmeðferðin hafi verið með eðlilegum hætti og í samræmi við lög. Í 15. gr. lge. er heimild fyrir skuldara til að kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunar-umleitunum til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Kæra til kærunefndarinnar er stjórnsýslukæra í skilningi stjórnsýsluréttar en með stjórnsýslukæru er átt við það þegar aðili máls skýtur stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds sem endurskoðar þá ákvörðunina. Þegar annað leiðir ekki af lögum getur æðra stjórnvaldið tekið til endurskoðunar bæði annmarka á efni ákvörðunar og málsmeðferð. Í samræmi við þetta varða úrskurðir kærunefndar greiðsluaðlögunarmála bæði málsmeðferð embættis umboðsmanns skuldara, þegar við á, og hina efnislegu ákvörðun. Á það við í máli þessu sem öðrum málum kærunefndarinnar.

Kærendur gera athugasemd við það að ekki komi fram í lge. hvaða viðmið eigi að nota þegar skuldarar hafi beðið lengi eftir afgreiðslu máls en þau hafi beðið í 31 mánuð. Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður, sem 12. gr. lge. varðar, eru að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa en um er að ræða samninga sem að jafnaði fela í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi, er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Til að skuldara takist að leggja fyrir er ljóst að hann verður að stilla framfærsluukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í 2. mgr. 16. gr. lge. kemur fram að lengd greiðsluaðlögunartímabils skuli að jafnaði vera eitt til þrjú ár frá því að samningur tekur gildi og á þeim tíma er gert ráð fyrir að framfærslukostnaður skuldara sé samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skal umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur þegar frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun er samið. Í ljósi þess, sem hér hefur verið rakið, liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara, hvorki á tímabili greiðsluskjóls né á tímabili greiðsluaðlögunarsamnings en ljóst er að sá tími getur verið nokkuð langur. Telur kærunefndin því að við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eigi að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli beri að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c- liða 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 14. janúar 2013 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 27. ágúst 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Í öðru lagi byggist ákvörðunin á því að kærendur hafi greitt af láni dóttur sinnar, sektir fyrir son sinn og endurgreitt föður kæranda B lán í ágúst 2012.

Fyrir liggur að kærendur óskuðu greiðsluaðlögunar sitt á hvorum tímanum. Umsókn kærenda A um greiðsluaðlögun er dagsett 13. ágúst 2010 og var hún samþykkt 1. apríl 2011. Kærandi B óskaði greiðsluaðlögunar 7. febrúar 2012 og var umsókn hennar samþykkt 12. júní 2012.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram sú meginregla að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Með setningu laga nr. 128/2010, sem tóku gildi 18. október 2010, var lögfest bráðabirgðaákvæði II lge. þess efnis að tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. mundi hefjast við móttöku umsókna sem bærust umboðsmanni skuldara fyrir 1. júlí 2011. Frestunin skyldi einnig gilda um umsóknir sem umboðsmaður skuldara hafði móttekið fyrir gildistöku laganna en í þeim tilvikum hófst greiðslufrestun við gildistöku laganna 18. október 2010. Fram kemur í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur, samkvæmt 12. gr. laganna, eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn og frestun greiðslna hafist. Bar kæranda A því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna frá 18. október 2010 en kæranda B frá 12. júní 2012. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a- og c- liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur samtals átt að leggja til hliðar 4.536.695 krónur á tímabili greiðsluskjóls, sbr. framangreint. Þau hafi aðeins skýrt ráðstöfun á 1.342.000 krónum sem hafi verið vegna óvæntra útgjalda.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda A í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli hans á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: Tveir mánuðir
Nettótekjur A 780.368
Mánaðartekjur A að meðaltali 390.184


Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 5.513.090
Mánaðartekjur A að meðaltali 459.424
   
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 5.251.742
Mánaðartekjur A að meðaltali 437.645
   
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. júlí 2013: Sjö mánuðir
Nettótekjur A 3.403.767
Mánaðartekjur A að meðaltali 486.252


Nettótekjur A í greiðsluskjóli 14.948.967
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali í greiðsluskjóli 452.999

 

Sé miðað við framfærslukostnað, samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, framangreindar tekjur og bætur var greiðslugeta kæranda A þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. júlí 2013: 33 mánuðir
Nettótekjur A í greiðsluskjóli 14.948.967
Bótagreiðslur 2011 og 2012 1.075.287
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 16.024.254
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 485.583
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns* 442.713
Greiðslugeta kærenda á mánuði 42.870
Alls sparnaður í 33 mánuði í greiðsluskjóli x 42.870 1.414.725

*Gert er ráð fyrir að A greiði 100% framfærslukostnaðar heimilisins vegna lágra tekna B.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum, launaupplýsingum ríkisskattstjóra og öðrum gögnum málsins, hafa mánaðartekjur kæranda B í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli hennar á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júlí 2012 til 31. desember 2012: Sex mánuðir
Nettótekjur B 397.572
Mánaðartekjur B að meðaltali 66.262


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. júlí 2013: Sjö mánuðir
Nettótekjur B 386.227
Mánaðartekjur Bað meðaltali 55.175


Nettótekjur B í greiðsluskjóli 783.799
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali í greiðsluskjóli 60.292

 

Sé miðað við tekjur kæranda B, námslán og bætur var greiðslugeta kæranda hennar þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júlí 2012 til 31. júlí 2013: 13 mánuðir  
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 783.799
Bótagreiðslur 2012 547.411
Námslán ágúst 2012 til apríl 2013 1.323.000
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 2.654.210
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 204.170
Mánaðarleg útgjöld * 0
Greiðslugeta kærenda á mánuði 204.170
Alls sparnaður í 13 mánuði í greiðsluskjóli x 204.170 2.654.210

*Gert er ráð fyrir að B leggi ekkert til framfærslukostnaðar heimilisins vegna lágra tekna hennar.

 

Samkvæmt framangreindu á samanlagður sparnaður beggja kærenda í greiðsluskjóli að vera þessi í krónum:

 

Sparnaður A í 33 mánuði 1.414.725
SparnaðurB í 13 mánuði 2.654.210
Alls sparnaður í greiðsluskjóli 4.068.935

 

Kærendur hafa ekkert lagt fyrir á tímabilinu en samkvæmt framangreindu ættu kærendur að hafa lagt til hliðar 4.068.935 krónur.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur eins og gerð hefur verið grein fyrir. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Kærendur kveðast vart hafa náð endum saman á tímabilinu en framfærslukostnaður þeirra hafi verið mun hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Meðal annars sé það vegna þess að uppkomin dóttir þeirra hafi búið hjá þeim ásamt langveiku barni sínu en það hafi haft aukinn kostnað í för með sér. Þá hafi þau greitt fyrir æfingaferð dóttur sinnar til útlanda og tannlæknakostnað. Kærendur hafa ekki framvísað neinum gögnum til staðfestingar á þessum útgjöldum. Af reikningyfirlitum yfir bankareikninga kærenda má þó sjá að tannlæknakostnaður hefur numið 64.758 krónum á tímabilinu. Einnig liggur fyrir í málinu að umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitinum veitti kærendum heimild til að kaupa bifreið fyrir 300.000 krónur. Samkvæmt þessu verður tekið tillit til aukins kostnaðar kærenda að fjárhæð 364.758 krónur.

Kærendur kveðast einnig hafa greitt 20.000 krónur á mánuði af láni dóttur sinnar, bílpróf sonar síns en einnig hafi þau greitt 5.000 krónur mánaðarlega af sekt sem sonur þeirra hafi hlotið. Engin gögn liggja fyrir um þessar greiðslur. Jafnvel þó að kærendur hefðu innt þessar greiðslur af hendi teldust þær ekki til nauðsynlegs framfærslukostnaðar í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Í málinu hefur komið fram að kærandi B var með gildan nauðasamning til greiðsluaðlögunar samkvæmt eldri lögum á þeim tíma er hún óskaði greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. en samningurinn var staðfestur í Héraðsdómi Reykjaness 30. október 2009. Samkvæmt samningnum skyldi kærandi B ekkert greiða af kröfum sínum fyrstu tvö ár samningsins, eða til 30. október 2011. Eftir það skyldi hún greiða 50.000 krónur á mánuði í þrjú ár. Frá 30. október 2011 og til þess tíma er kærandi B komst í greiðsluskjól samkvæmt lge. í júní 2012 voru átta gjalddagar samkvæmt samningnum og hefði hún átt að greiða alls 400.000 krónur á þeim tíma. Engin gögn hafa verið lögð fram um að kærandi B hafi greitt af samningnum og verður því ekki tekið tillit til þess við útreikning á sparnaði í greiðsluskjóli.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið skortir 3.704.177 krónur (4.068.935 krónur - 364.758 krónur) upp á sparnað kærenda á tímabili greiðsluskjóls. Því vantar verulega upp á að þau hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. er skuldurum óheimilt, á sama tíma og leitað er greiðsluaðlögunar, að láta af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum greiddi faðir kæranda B alls 3.640.549 krónur inn á bankareikninga kærenda á tímabilinu janúar 2012 til ágúst 2013 en kærendur greindu frá því í tölvupósti til umsjónarmanns 25. nóvember 2012 að hann hefði lánað þeim fé. Þá hafa kærendur lagt fram kvittanir frá 2. september 2012 til 1. nóvember 2012 alls að fjárhæð 1.042.255 krónur sem þau kveða endurgreiðslur til föður kæranda B. Teljast þessar greiðslur brot á skyldum þeirra samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt því telur kærunefndin að umboðsmaður skuldara hafi réttilega komist að þeirri niðurstöðu að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan þau leituðu greiðsluaðlögunar.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem söfnuðust fyrir í greiðsluskjóli, sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun.

Kærunefndin telur ekki efni til að gera athugasemdir við málsmeðferð embættis umboðsmanns skuldara í málinu að öðru leyti en því að það hefði verið rétt að gera kæranda B að fylla út staðlaða umsókn um greiðsluaðlögun. Það hefur þó að mati kærunefndarinnar ekki áhrif á niðurstöðu málsins eða úrvinnslu þess.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum