Hoppa yfir valmynd
12. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 21/2012

Fimmtudaginn 12. desember 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 8. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. apríl 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 12. apríl 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send með bréfi 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 42 ára og býr í eigin húsnæði að B götu nr. 169a í sveitarfélaginu C. Tíu ára gamall sonur hans dvelur hjá honum aðra hverja helgi. Kærandi starfar sem sjóntækjafræðingur hjá gleraugnaverslun og eru útborguð laun hans að meðaltali 229.648 krónur á mánuði.

Kærandi greinir frá því að á árunum 2006 og 2007 hafi hann keypt nokkrar íbúðir til að gera upp og leigja út. Þannig hugðist hann afla sér tekna. Hann kveðst hafa átt 30–50% eigið fé í hverri íbúð. Einnig hafi hann stofnað fyrirtæki og gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir þau. Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til þeirrar hækkunar sem orðið hafi á greiðslubyrði og fjárhæð lána hans og fyrirtækja hans frá efnahagshruninu 2008. Hann hafi ekki getað greitt af lánum sínum frá 2009. Kærandi greinir einnig frá því að flest lána hans séu gengistryggð og því ólögmæt, en fjárhæðir lána hafi verið í samræmi við verðmæti eigna hans á þeim tíma er til þeirra hafi verið stofnað.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 151.361.348 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Að auki hefur kærandi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 126.628.335 krónur vegna eigin félaga. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005–2008.

Kærandi lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 12. nóvember 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. janúar 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. (lge.).

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi álítur niðurstöðu umboðsmanns skuldara ranga. Hann krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi og umsókn hans um greiðsluaðlögun verði samþykkt. Hann kveðst fullnægja skilyrðum lge. til að honum verði veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Að sögn kæranda stafar greiðsluvandi hans einkum af ólögmætum gengistryggðum lánum, en lánin hafi hann tekið vegna íbúða sem hann hafi keypt til að leigja út og afla þannig tekna. Hann hafi lagt verulegt eigið fé í íbúðirnar en það hafi brunnið upp við efnahagshrunið vegna lækkandi fasteignaverðs og hækkunar á áhvílandi lánum. Eignastaða hans hafi verið góð fram til 2008 en þá hafi farið að halla undan fæti.

Að mati kæranda hafi hann ekki tekið fjárhagslega áhættu með fasteignakaupum sínum. Þvert á móti hafi hann tryggt eftir megni að skuldsetning væri hófleg til að tryggja að leigutekjur stæðu undir lánum. Kærandi hafnar þeirri skoðun umboðsmanns að skuldir hans hafi verið mjög miklar þegar til þeirra var stofnað í ljósi eignastöðu hans. Mótmæli kærandi því að hann hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er hann stofnaði til skuldbindinganna.

Sama megi segja um hlutabréfakaup kæranda, en á árunum fyrir efnahagshrun hafi hann keypt nokkuð af hlutabréfum. Alþekkt sé að fólk noti sparnað sinn til hlutabréfakaupa og sé slík ráðstöfun sparnaðar hugsuð til lengri tíma. Auk þess hafi verið auðvelt og fljótlegt að koma hlutabréfum í verð enda hafi hlutabréfamarkaður verið mjög virkur fyrir hrun. Slík viðskipti hafi verið ábatasöm en við hrunið 2008 hafi allar forsendur brostið. Sé fráleitt að telja kæranda hafa hagað sér á ámælisverðan hátt vegna þeirra hamfara sem hrunið olli.

Með vísan til þess sem kærandi hefur rakið telur hann að ákvörðun umboðsmanns skuldara sé byggð á röngum forsendum og fullkomnum misskilningi á eðli og umhverfi þeirra viðskipta sem hann stundaði.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti. Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við matið skuli taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Frá árinu 1998 hafi kærandi stundað viðskipti með fasteignir. Þau viðskipti hafi að sögn kæranda gengið vel fram að bankahruni. Á árunum 2006 og 2007 hafi kærandi keypt fasteignir í þeim tilgangi að gera þær upp og leigja síðan út. Á árinu 2007 hafi kærandi að auki gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir X ehf., en það félag hafi verið í hans eigu. Ábyrgðirnar hafi verið tilkomnar vegna kaupa félagsins á verslunarhúsnæði sem einnig var hugsað til útleigu. Af gögnum málsins verði einnig ráðið að á undanförnum árum hafi kærandi tekist á hendur fjölda annarra ábyrgðarskuldbindinga vegna einkahlutafélaga sem hann hafi átt eða starfað hjá. Einnig hafi kærandi tekið lán til kaupa á hlutabréfum í SPRON.

Í ákvörðun sinni tiltekur umboðsmaður skuldara ýmis atvik er varða lántökur kæranda. Þannig hafi hann að eigin sögn keypt íbúðarhúsnæði sitt á árinu 2003 fyrir 30.000.000 króna og fjármagnað kaupin að öllu leyti með lánsfé. Einnig hafi kærandi keypt þrjár íbúðir á árunum 2006 og 2007. Kaupverð hafi verið á bilinu 12.000.000 til 17.000.000 króna. Kærandi hafi lagt fram á bilinu 18–35% eigið fé en að öðru leyti tekið lán til kaupanna. Þá hafi hann einnig tekið lán vegna framkvæmda á einni eigninni. Á árinu 2007 hafi kærandi gengist í ábyrgðir á erlendum lánum fyrir félag sitt X ehf. vegna kaupa félagsins á verslunarhúsnæði. Kærandi telji að núverandi fjárhæðir lánanna séu of háar, enda um ólögmæt gengistryggð lán að ræða sem ekki hafi verið endurútreiknuð. Umboðsmaður telji á hinn bóginn að endurútreikningar hafi ekki áhrif á niðurstöðu ákvörðunar embættisins um hvort veita eigi kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Lántöku, atvinnurekstri og ábyrgðarskuldbindingum sem veittar séu vegna rekstrar fylgi ávallt fjárhagsleg áhætta. Það sé matsatriði í hverju tilviki hvort sú áhætta eigi að girða fyrir heimild til að leita samninga um greiðsluaðlögun. Í máli þessu liggi fyrir að einungis um fjórðungur af skuldum kæranda stafi frá húsnæðiskaupum hans til eigin nota. Aðrar skuldbindingar stafi að langmestu leyti frá atvinnurekstri sem hafi falist í umfangsmiklum kaupum á fasteignum til útleigu. Af skattframtölum kæranda verði einnig ráðið að launa- og fjármagnstekjur hans hafi ekki verið háar á því tímabili sem hér skipti máli. Aðrar eignir kæranda hafi ávallt verið talsvert skuldsettar. Ýmsir áhættuþættir tengist skuldsettum fjárfestingum, svo sem eftir atvikum gengissveiflur, verðbólga, verðsveiflur á fasteigna- og leigumarkaði og innheimta leigu. Eftir því sem umsvifin séu meiri sé áhættan meiri. Einnig sé rétt að hafa í huga að mikil útgjöld fylgi fasteignaeign og viðskiptum með fasteignir, svo sem skattar, iðgjöld vegna trygginga og viðhaldskostnaður. Í tilviki kæranda hafi auk þess verið um að ræða umtalsverðan kostnað og skuldsetningu vegna endurbóta á þeim fasteignum sem hann hafi keypt.

Umboðsmaður gerir grein fyrir því að kærandi hafi átt umtalsverða hlutabréfaeign á árunum 2006 og 2007. Hafa verði í huga að ávallt verði að telja áhættu fólgna í hlutabréfaviðskiptum enda geti kaupandi hlutabréfa almennt hvorki gengið út frá því að slík fjárfesting skili hagnaði né tapi. Telji umboðsmaður að sú háttsemi kæranda að nýta sparnað sinn til hlutabréfakaupa á sama tíma og hann hafi ráðist í umfangsmikil skuldsett kaup og endurbætur á fasteignum, hafi falið í sér verulega fjárhagslega áhættu.

Umboðsmaður álítur að ef vonir kæranda hefðu gengið eftir, til dæmis varðandi þróun lána og markaða með fasteignir og hlutabréf, hefði hann getað hagnast verulega á viðskiptum sínum. Á sama hátt þyki umboðsmanni ljóst að ef vonir kæranda rættust ekki væru líkur á að fjárhagsstaða kæranda yrði mjög erfið. Af þeim sökum telji umboðsmaður að umtalsverð fjárhagsleg áhætta hafi falist í skuldasöfnun kæranda og að ekki verði séð að hagnaðarvon hans hafi réttlætt þá skuldasöfnun. Þannig verði fjárhagserfiðleikar kæranda að nokkru leyti raktir til atvika sem kærandi beri sjálfur ábyrgð á með háttsemi sinni.

Samkvæmt skattframtölum hafi tekjur kæranda á árunum 2006 og 2007 verið lágar með tilliti til skuldasöfnunar hans. Kærandi hafi þurft að greiða almennan framfærslukostnað, greiða af lánum sem hann hafi tekið vegna eigin húsnæðis og hlutabréfakaupa auk þess að greiða af skuldbindingum sínum vegna atvinnurekstrar.

Af ofangreindum ástæðum virtum og að teknu tilliti til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er kæranda synjað um greiðsluaðlögun með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í c-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af skattframtölum kæranda má ráða að bókfært virði eigna hans hafi verið jákvætt á árunum 2006 og 2007. Stærstur hluti eigna kæranda voru fasteignir sem hann keypti til að gera upp og leigja síðan út. Þannig voru þessar eignir yfir 90% nettóeigna kæranda á þessum árum, þó með þeim fyrirvara að ekki liggur fyrir markaðsverð þeirra hlutabréfa sem kærandi átti.

Í neðangreindri töflu má sjá samantekt eigna og skulda kæranda á árunum 2005–2009 samkvæmt því sem greinir í gögnum málsins:

  2006 2007 2008 2009
Tekjur alls á mánuði 257.203 219.183 786.407 544.928
Skuldir 51.833.434 94.349.042 108.564.305 100.959.886
Skuld umfram eign í atv.rekstri 0 0 0 21.623.224
Skuldir alls 51.833.434 94.349.042 108.564.305 122.583.110
Inneignir 69.424 26.733 142.902 114.929
Hlutir í einkahlutafélögum 1.250.000 1.250.000 1.250.000 1.250.000
Hlutabréf (nafnvirði) 1.012.304 385.283 344.915 1.433.021
Ökutæki 250.000 0 735.000 0
B gata nr. 169a, C sveitarfélag 33.110.000 36.850.000 36.850.000 37.000.000
D gata nr.11 og 11a, E sveitarfélagi 13.035.000 1.476.000 1.553.000  
F gata nr. 6, G sveitarfélag (50%) 10.600.000 11.805.000 11.805.000 11.520.000
H gata nr. 5, I sveitarfélag 4.440.000      
J gata nr.106, C sveitarfélag   9.670.000 9.670.000 12.864.000
K gata nr. 45, C sveitarfélag   11.285.000 11.285.000 16.320.000
L gata nr. 48, C sveitarfélag   23.030.000 22.920.000 0
Eignir alls 63.766.728 95.778.016 96.555.817 80.501.950
Nettó eignastaða 11.933.294 1.428.974 -12.008.488 -42.081.160

Allar fjárhæðir eru í krónum.

Helstu skuldir kæranda stafa frá árunum 2005–2008 en samkvæmt því sem lesa má úr gögnum málsins tókst hann á hendur eftirtaldar skuldbindingar á þeim tíma:

Ár Fjárhæð beinna Fjárhæð Samtals fjárhæð
  skuldbindinga ábyrgðarskuldbindinga skuldbindinga
2005 30.000.000 9.250.000 39.250.000
2006 9.846.000 0 9.846.000
2007 40.335.884 70.917.400 111.253.284
2008 2.355.000 19.077.275 21.432.275
Alls 82.536.884 99.244.675 181.781.559

Allar fjárhæðir eru í krónum.

Af ofangreindu má sjá að árið 2006 voru mánaðarlegar meðaltekjur kæranda 257.203 krónur fyrir greiðslu framfærslukostnaðar. Á því ári þurfti hann að greiða afborganir af 30.000.000 króna láni sem hann tók árið 2005 en því til viðbótar tók hann nýtt lán að fjárhæð 9.846.000 krónur. Nettóeignastaða kæranda var tæpar 12.000.000 króna að viðbættri hlutabréfaeign.

Á árinu 2007 voru mánaðarlegar meðaltekjur kæranda 219.183 krónur fyrir greiðslu framfærslukostnaðar. Á því ári tók hann lán að fjárhæð rúmlega 40.000.000 króna, gekkst í ábyrgðarskuldbindingar, meðal annars fyrir X ehf., fyrir ríflega 70.000.000 króna og þurfti auk þess að standa í skilum með fyrri skuldbindingar sínar. Nettóeignastaða kæranda var tæplega 1.500.000 krónur að viðbættri hlutabréfaeign. Eigið fé í félagi kæranda, X ehf., var neikvætt í vaxandi mæli frá 2007. Einnig var félagið rekið með sífellt meira tapi frá sama tíma.

Á árinu 2008 voru mánaðarlegar meðaltekjur kæranda 786.407 krónur fyrir framfærslukostnað. Á því ári tók hann lán að fjárhæð rúmlega 2.000.000 króna, gekkst í ábyrgðarskuldbindingar fyrir ríflega 19.000.000 króna og þurfti auk þess að standa í skilum með fyrri skuldbindingar sínar. Nettóeignastaða kæranda var neikvæð.

Af þessu þykir kærunefndinni ljóst að kærandi hugðist fyrst og fremst greiða skuldir sínar og ábyrgðarskuldbindingar með sölu á þeim eignum sem hann átti og eftir atvikum arði af þeim. Launatekjur kæranda hefðu engan veginn staðið undir greiðslu þessara skulda.

Einnig má sjá af því sem rakið hefur verið að eignir kæranda hefðu ekki dugað til greiðslu skulda hans eftir árið 2006. Þá hefði greiðslubyrði skulda umfram eignir verið mun meiri en launatekjur kæranda hefðu getað staðið undir. Að mati kærunefndarinnar tókst kærandi á hendur miklar skuldbindingar í trausti þess að hagnaður af viðskiptum hans yrði nægilegur til að greiða allan fjármagnskostnað og að þau félög sem hann gekkst í sjálfskuldarábyrgðir fyrir myndu ekki lenda í greiðsluvanda. Kærunefndin telur að hér hafi kærandi tekið mikla áhættu þar sem kærandi annars vegar og þau félög sem hann gekkst í ábyrgðir fyrir hins vegar, stunduðu að mestu leyti sams konar viðskipti sem að miklu leyti voru fjármögnuð með erlendum lánum. Í þessu fólst, þ.e. að taka slíka áhættu vegna þeirra viðskipta sem kærandi stundaði í eigin nafni og í áhættunni sem fólst í ábyrgðar­skuldbindingunum, verulega aukin fjárhagsleg áhætta.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna, eigna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er samanber það sem greinir hér að ofan. Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti greitt af miðað við eignir og tekjur, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem til skuldbindingar er stofnað, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar. Þegar litið er til þess sem gerð er grein fyrir hér að framan telur kærunefndin að skuldari hafi verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, þar með talið ábyrgðarskuldbindingar, í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., þegar til þeirra var stofnað.

Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum, annaðhvort að hluta til eða að fullu. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Skuldbindingar þær sem kærandi ábyrgðist árin 2007 og 2008 eru af því umfangi að líta verður svo á að þær hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Í fyrsta lagi verður ekki séð að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika á að greiða af umræddum skuldbindingum ef á reyndi. Í öðru lagi verður að líta til þess hve áhætta kæranda var samtvinnuð áhættu þeirra aðila sem hann gekkst í sjálfskuldarábyrgðir fyrir og í þriðja lagi verður að líta til þess hve slakur rekstur var í félaginu X ehf., en stærstur hluti ábyrgðarskuldbindinga kæranda er vegna þess félags.

Þá verður einnig að líta til þess að stór hluti af skuldbindingum kæranda eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Í ljósi alls þessa sem hér greinir telur kærunefnd greiðsluaðlögunarmála að óhæfilegt sé að veita A heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber með vísan til þess að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum