Hoppa yfir valmynd
31. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 82/2011

Fimmtudaginn 31. október 2013

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 9. desember 2011 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 5. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. febrúar 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 15. febrúar 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 28. ágúst 2012. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

I. Málsatvik

Kærendur eru 36 og 40 ára og búa í 357,9 fermetra eigin einbýlishúsi ásamt þremur börnum sínum. Kærendur starfa sem markaðsstjóri og rekstrarstjóri hjá eigin fyrirtæki.

Að mati kærenda má að miklu leyti rekja fjárhagserfiðleika þeirra til þess að þau hafi ráðist í byggingu einbýlishúss á árunum 2004 til 2005. Öll lán af fasteigninni hafi hækkað mikið. Eignin sé nú metin á 62.000.000 króna en áhvílandi skuldir nemi 150.000.000 króna. Einnig hafi tímabundinn tekjusamdráttur valdið kærendum fjárhagserfiðleikum. Þrátt fyrir að vera tiltölulega tekjuhá þá sjái kærendur ekki fram á að geta staðið undir skuldbindingum sínum. Kærendur séu vel menntuð og hafi mikla reynslu af vinnumarkaði og telji að það muni nýtast þeim vel í framtíðinni.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 232.168.080 krónur og falla 3.298.226 krónur þar af utan samnings um greiðsluaðlögun. Að auki hafa kærendur, samkvæmt gögnum málsins, tekist á hendur ábyrgðir að fjárhæð 21.966.178 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2007.

Samkvæmt skattframtali 2011 voru tekjur kærenda fyrir tekjuárið 2010 samtals að meðaltali á mánuði um 208.000 krónur. Þá hafi þau fengið mánaðarlega 24.007 krónur í barnabætur, 36.256 krónur í vaxtabætur og 4.895 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Í umsókn kærenda um greiðsluaðlögun 24. febrúar 2011 kemur fram að launatekjur þeirra á mánuði séu samtals 600.000 krónur eftir greiðslu skatta en þau reki fyrirtækið R ehf.

Kærendur lögðu inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 24. febrúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. desember 2011 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar, einkum með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Einnig er ákvörðunin studd við b- og c-liði sömu málsgreinar.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur mótmæla því sérstaklega að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við og einnig þeirri niðurstöðu umboðsmanns skuldara að lögum um greiðsluaðlögun sé ekki ætlað að veita skuldurum eins og þeim heimild til greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður skuldara vísi til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. að því er varðar skattsekt sem kærandinn A hafi undirgengist á árinu 2008. Umrædd sekt, að fjárhæð um 3.000.000 króna, hafi verið vegna vangoldins virðisaukaskatts einkahlutafélags sem kærandi A hafi verið í forsvari fyrir. Í ljósi forsögu málsins og brostinna forsendna í fjármálum kærenda telji þau ósanngjarnt að sektargerðin og aðrar skattskuldir félaga sem kærandinn A hafi verið í forsvari fyrir komi í veg fyrir greiðsluaðlögun sem að öðru leyti væri forsvaranleg. Einkum sé það ósanngjarnt gagnvart kæranda B sem ekki hafi komið að rekstri þessara félaga.

Kærendur mótmæla einnig mati umboðsmanns skuldara þess efnis að þau hafi hagað fjármálum sínum á verulegan ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinga hafi verið í stofnað.

Kærendur greina frá því að á árunum fyrir bankahrun hafi kærandinn A tekið þátt í rekstri nokkurra fyrirtækja. Umfangsmestur þeirra hafi verið rekstur auglýsingastofunnar S ehf. en sá rekstur hafi gengið vel til ársins 2008. Árið 2007 hafi eignir kærenda verið 40.000.000 króna umfram skuldir en árið 2009 hafi skuldir numið tæpum 65.000.000 króna umfram eignir. Kærandi A hafi tekist helstu skuldbindingar á hendur árið 2007 þegar hann hafi tekið lán sem aðallega var ætlað til endurfjármögnunar á skuldum auglýsingastofunnar en einnig til fjárfestinga í öðrum rekstri. Á þeim tíma hafi ekkert bent til þess að vanskil gætu orðið af láninu enda rekstur S ehf. í ágætum farvegi. Lánveitandi hafi ekki byggt lánveitinguna á greiðslugetu kæranda A en litið svo á að lánið væri í raun til félagsins S ehf. Til þessa hafi umboðsmaður skuldara orðið að taka tillit þegar hann mat hvort kærendur hafi verið færir um að standa við skuldbindingar sínar þegar til þeirra var stofnað. Eftirstöðvar skuldarinnar séu vissulega miklar en sé litið til aðstæðna á þeim tíma sem til hennar var stofnað verði hún ekki talin óhófleg í skilningi g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Vísun umboðsmanns skuldara til b- eða c-liðar 2. mgr. 6. gr. eigi ekki við enda hafi rekstur S ehf. átt að standa undir greiðslu lánsins. Aldrei hafi staðið til að kærendur stæðu persónulega undir afborgunum af láninu.

Krefjast kærendur þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 9. desember verði hrundið. Til vara er þess krafist að ákvörðuninni verði hrundið varðandi kæranda B sérstaklega og henni veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Í málinu liggi fyrir sektargerð frá skattrannsóknarstjóra ríkisins að fjárhæð 3.050.000 krónur sem kærandi A hafi gengist undir 22. september 2008 á grundvelli 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Til sektarinnar hafi verið stofnað í kjölfar rannsóknar á skattskilum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtu virðisaukaskatts T ehf. vegna rekstraráranna 2006 og 2007. Vangoldinn virðisaukaskattur félagsins nemi 25.174.757 krónum auk dráttarvaxta, álags og kostnaðar. Félagið sé nú gjaldþrota en kærandinn A hafi veitt því forstöðu.

Þá hafi kærandi A verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi U ehf. frá því í júlí 2007 og V ehf. X síðan í júní 2006. Samtals nemi skuldir þessara félaga vegna vangoldins virðisaukaskatts 3.958.381 krónu. Beri kærandi A stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Hann gæti þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, vegna þeirra skulda. Samanlögð fjárhæð vegna vanskila sem falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. sé 7.021.081 króna.

Umboðsmaður skuldara álítur einnig að líta verði til þeirrar ábyrgðar sem hvíli á kærandanum A, annars vegar vegna sektargerðar og hins vegar sem stjórnarformanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa í ofangreindum einkahlutafélögum, til að standa skil á vörslusköttum svo og til þeirra sekta sem hann gæti átt yfir höfði sér vegna vanskilanna.

Telja verði að fjárhæðir virðisaukaskattskuldanna séu út af fyrir sig verulega háar. Með hliðsjón af fjárhag kærenda og neikvæðri eignastöðu sé heldur ekki unnt að líta svo á að skuldbindingar séu smávægilegar.

Að mati umboðsmanns skuldara beri gögn málsins með sér að fjárhagur kærenda sé mjög þröngur vegna mikilla skulda. Heildarskuldir nemi 232.168.080 krónum en að auki hvíli á kærandanum B ábyrgðarskuldbindingar vegna félaganna Y ehf. og S ehf. að fjárhæð 21.966.178 krónur. Eignir kærenda séu fasteignirnar K gata nr.19, að verðmæti 62.000.000 króna samkvæmt fasteignamati, og sumarhús sem metið sé á 13.905.000 krónur. Umboðsmaður skuldara telur eignir kærenda óverulegar að teknu tilliti til skulda.

Ákvæði b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. heimili umboðsmanni skuldara að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. heimili umboðsmanni skuldara að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, meðal annars ef skuldari hefur tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Ráðstöfunartekjur kærenda, eignir þeirra og skuldir voru eftirfarandi samkvæmt gögnum málsins:

  2006 2007 2008 2009
Ráðstöfunartekjur kr. 241.848 968.506 808.283 172.249
Skuldir alls kr. 123.235.497 111.001.714 134.065.355 153.143.085
Innstæður og verðbréf kr. 64.170.202 64.246.119 2.464.380 3.525.863
Fasteignir kr. 56.480.000 84.055.000 82.410.000 85.205.000
Eignir alls kr. 120.650.202 148.301.119 84.874.380 88.730.863
Nettóeignastaða kr. -2.585.295 37.299.405 -49.190.975 -64.412.222

Þann 12. nóvember 2007 hafi kærandinn A undirritað lánasamning að fjárhæð 108.000.000 króna við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis (SPRON). Lánið hafi átt að endurgreiða með 20 afborgunum, þar af 19 vaxtaafborgunum á þriggja mánaða fresti. Fyrsti vaxtagjalddagi hafi verið 5. mars 2008 en eftirstöðvar lánsins hafi átt að greiða í einni greiðslu 5. desember 2012. Í lánasamningi komi fram að tilefni lánveitingar hafi annars vegar verið endurfjármögnun skuldbindinga kærandans A og S ehf. við SPRON og hins vegar kaup á hlutabréfum. Til tryggingar á greiðslu lánsins hafi kærendur lagt fram veðtryggingar í fasteignum sínum að fjárhæð 57.700.000 krónur auk þeirra trygginga sem kærandi A hafði þegar sett SPRON. Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara hafi fyrsta afborgun lánsins 5. mars 2008 verið rúmar 3.500.000 krónur, næsta afborgun 5. júní 2008 hafi verið tæpar 3.000.000 króna og síðan hafi afborganir farið hækkandi. Skilmálabreyting hafi verið gerð á láninu í september 2009 og gjalddögum fjölgað í 54, þar af hafi 53 gjalddagar verið vaxtagjalddagar. Afborganir skyldu greiddar á eins mánaðar fresti í fyrsta sinn í október 2008. Lánið hafi verið í vanskilum frá desember 2008.

Þrátt fyrir að eignastaða kærenda hafi verið jákvæð þegar þau hafi fengið 108.000.000 króna að láni verði ekki litið framhjá þeirri staðreynd að mánaðartekjur kærenda hafi að meðaltali verið 729.584 krónur á sama tíma og þau hafi skuldbundið sig til að greiða um 3.000.000 króna á þriggja mánaða fresti. Við mat á því hvort kærendur hafi verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar geti umboðsmaður skuldara ekki tekið tillit til annarra upplýsinga um tekjur og eignir kærenda en þeirra sem getið sé á skattframtali eða hafi verið gerð skil á, meðal annars í samræmi við 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Verði því að telja að kærendur hafi verið ófærir um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar þegar þau hafi tekið lánið. Ekki sé hægt að líta framhjá þeirri áhættu sem fylgdi lántökunni. Með henni hafi kærendur skuldbindið sig til að greiða meira en sem svaraði til tekna og að auki hafi þeim borið að greiða höfuðstól lánsins að lánstímanum loknum, en höfuðstóllinn hafi verið 108.000.000 króna auk hækkunar vegna verðtryggingar. Eftirstöðvar lánsins séu nú 218.177.732 krónur, þar af höfuðstóll 155.507.360 krónur. Líta verði til þess að þótt hluti lánsins hafi verið ætlaður til endurfjármögnunar skulda S ehf. hafi félagið ekki verið greiðandi að láninu og kærandinn A hafi ekki takmarkað áhættu sína með neinu móti.

Umboðsmaður telur ljóst að atvinnurekstri og lántökum honum tengdum fylgi almenn fjárhagsleg áhætta. Skuldsettum fjárfestingum í hlutabréfum fylgi ekki síður áhætta. Matsatriði sé í hverju tilviki hvort sú áhætta eigi að girða fyrir heimild til greiðsluaðlögunar. Í þessu tilviki sé sérstaklega til þess að líta að annar kærenda sé aðalskuldari lánsins þótt til hafi staðið að einkahlutafélag í hans eigu stæði skil á láninu, að minnsta kosti að hluta til. Lánsfjárhæðin hafi í upphafi verið mjög há, vaxtaafborganir miklar og fjárhæðir afborgana langt umfram greiðslugetu kærenda. Telja verði að kærendur hafi tekið verulega fjárhagslega áhættu með því að gerast persónulegir skuldarar á láninu og veðsetja eignir sínar samhliða án þess að eiga möguleika á að standa skil á skuldbindingunni með tekjum sínum. Þannig hafi kærendur tekið áhættuna af því að arðsemi af atvinnurekstri og þeim hlutabréfum sem keypt voru fyrir hluta af lánsfénu væri nægileg til að standa undir fjármagnskostnaði. Að öðrum kosti hafi verið ljóst að vanskil yrðu á greiðslu lánsins. Til þess sé að líta að þessi lántaka sé aðalástæða fjárhagserfiðleika kærenda. Að áliti umboðsmanns skuldara verði þær fjárhæðir sem kærendur skuldi að teljast óhóflegar og gætu sem slíkar átt undir g-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður telji að tilurð og eðli krafna á hendur kærendum, að fjárhæð samtals 5.549.408 krónur samkvæmt skuldayfirliti, gefi tilefni til að líta svo á að greiðsluaðlögun sé óhæfileg með tilvísun til f- og g-liða 2. mgr. 6. gr., sbr. meðal annars úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011. Umræddar kröfur séu tilkomnar vegna skattsektar, þing- og sveitarsjóðsgjalda, fasteignagjalda og trygginga.

Með hliðsjón af öllu framangreindu sé það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjárhag þeirra sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Auk þess hafi kærendur verið ófærir um að standa við lánið sem þau tóku 12. nóvember 2007 og hafi með því tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið samrýmanleg fjárhagsstöðu þeirra. Þyki umboðsmanni skuldara því óhæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar, einkum með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en auk þess b- og c-liða sömu greinar.

Með vísan til forsenda hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun byggð á b-, c- og d-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar samtals að fjárhæð 7.021.081 króna sem er 3% af heildarskuldum kærenda, fyrir utan ábyrgðarskuldbindingar. Ekki er ágreiningur um fjárhæð skattskulda.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi A skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi T ehf. sem nú er gjaldþrota. Einnig er hann stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagana U ehf. frá því í júlí 2007 og V ehf. X síðan í júní 2006. Því hvíldi á honum sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Þá skal fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1. og 8. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Samkvæmt fyrirliggjandi sektargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins frá 22. september 2008 gekkst kærandinn A undir greiðslu sektar vegna vangoldins virðisaukaskatts T ehf. að fjárhæð 25.174.757 krónur auk dráttarvaxta vegna áranna 2004 til 2006. Fjárhæð sektarinnar er 3.050.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins er sektin ógreidd.

Þá nemur vangoldinn virðisaukaskattur félaganna U ehf. og V ehf. X samtals 3.958.381 krónum. Ber kærandinn A stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994.

Framangreint ákvæði lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei. Í máli þessu hefur refsiábyrgð kæranda vegna hluta hinna vangoldnu vörsluskatta verið staðfest með sektargerð.

Við mat á því hvort aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eru fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða neikvæð um ríflega 64.000.000 króna. Skuldir annars kærenda vegna vangreiddra vörsluskatta nema alls 7.021.081 krónu sem út af fyrir sig verður að telja mjög háa fjárhæð. Skuldir þessar eru 3% af heildarskuldum kærenda utan ábyrgðarskuldbindingar. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi A hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan. Eins og á stendur í máli þessu meðal annars með hliðsjón af þeirri sekt sem kærandinn A hefur skuldbundið sig til þess að greiða og dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 telur kærunefndin að skuldir þessar séu verulegar miðað við fjárhag kærenda, sé litið til tekna kæranda A og eignastöðu.

Ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í c-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Þann 12. nóvember 2007 undirritaði kærandi A lánasamning að fjárhæð 108.000.000 króna við SPRON. Til tryggingar settu kærendur fasteign sína en einnig voru aðrar tryggingar sem kærandinn A hafði sett SPRON til tryggingar láninu. Á þessum tíma voru nettóeignir kærenda ríflega 37.000.000 króna samkvæmt skattframtali. Liggur þannig fyrir að kærendur hefðu ekki getað greitt lánið með sölu eigna. Kærendur halda því fram að einkahlutafélag í þeirra eigu hafi átt að greiða af láninu, að minnsta kosti að hluta til. Á sú fullyrðing sér ekki stoð í gögnum málsins. Að mati kærunefndarinnar tóku kærendur fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma. Þetta hafi þau annars vegar gert með lántökunni sjálfri og hins vegar með veðsetningu fasteigna sinna til tryggingar láninu.

Ákvæði b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í b-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Ofangreindur lánasamningur sem kærandi A gerði við SPRON var sem áður segir að fjárhæð 108.000.000 króna. Höfuðstól lánsins með áföllnum verðbótum skyldi greiða í einu lagi í desember 2012 en 10% vexti af verðbættum höfuðstól skyldi greiða á þriggja mánaða fresti. Fyrsta afborgun lánsins var samkvæmt gögnum málsins tæplega 3.500.000 krónur, næsta afborgun var tæpar 3.000.000 króna og síðan fóru afborganir hækkandi. Á þessum tíma voru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda samkvæmt gögnum málsins 808.823 krónur. Hver afborgun, sem greiða átti á þriggja mánaða fresti, nam því ríflega fjórföldum mánaðarlegum ráðstöfunartekjum beggja kærenda. Afborganir af láninu voru þannig verulega umfram greiðslugetu kærenda. Af þessum sökum telur kærunefndin að kærandi A hafi stofnað til skuldarinnar á þeim tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Varakrafa.

Til vara krefjast kærendur þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara varðandi kærandann B verði hrundið sérstaklega og henni veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. er hjónum eða einstaklingum í óvígðri sambúð heimilt að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu. Í athugasemdum við frumvarp til lge. kemur fram að heimildin sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrg fyrir skuldum hvors annars. Séu auk þess horfur á að sameiginleg greiðsluaðlögun leiði til þess að málsmeðferð og framkvæmd greiðsluaðlögunarinnar megi einfalda með þessum hætti er slíkt heimilt. Er því ljóst að hér er um heimild að ræða. Kærendur völdu í upphafi að sækja saman um greiðsluaðlögun og hefur öll málsmeðferð miðast við þær forsendur. Verður umsókn þeirra því ekki aðskilin. Er kröfu um að ákvörðun verði hrundið sérstaklega hvað kæranda B varðar því hafnað.

Einnig verður að hafna þeirri kröfu að kæranda B verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-, c- og b-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum