Hoppa yfir valmynd
5. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 137/2012

Fimmtudaginn 5. september 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 20. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. júlí 2012, þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 25. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. september 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 26. september 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 9. október 2012. Athugasemdir kæranda voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 11. október 2012. Umboðsmaður skuldara sendi framhaldsgreinargerð með bréfi 20. desember 2012.

I. Málsatvik

Kærandi er 55 ára. Hún er einstæð og býr í leiguhúsnæði að B götu nr. 35 í sveitarfélaginu C.

Kærandi starfar sem félagsliði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru mánaðarlegar tekjur hennar 226.376 krónur.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til reksturs Y ehf. Félagið hafi ætlað að opna skemmtistað í Reykjavík og í þeim tilgangi hafi það tekið á leigu húsnæði í október 2006. Áður en hægt hafi verið að opna staðinn hafi þurft að innrétta húsnæðið. Til að fjármagna framkvæmdirnar hafi kærandi selt atvinnuhúsnæði og einnig tekið lán hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum með veði í atvinnuhúsnæði sem hún átti. Töf hafi orðið á að framkvæmdir gætu hafist og einnig hafi kostnaður við verkið aukist. Kærandi hafi því tekið annað lán og nú hjá Íslandsbanka með veði í fyrrgreindu atvinnuhúsnæði. Einnig hafi hún tekið yfirdráttarlán með sjálfskuldarábyrgð. Eftir nokkurra mánaða starfsemi hafi orðið ljóst að rekstur félagsins stæði ekki undir sér vegna mikillar skuldsetningar og hárrar húsaleigu. Í kjölfarið hafi viðskiptafélagi kæranda tekið húsgögn og annan búnað úr húsnæðinu í óþökk hennar. Vegna þessa hafi eignir ekki verið til staðar þegar bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Eftir að félagið hætti rekstri hafi henni verið ráðlagt að hætta að greiða af lánum sem leiddi til þess að hún missti atvinnuhúsnæði sitt og íbúð á nauðungarsölu.

Heildarskuldir kæranda nema 18.979.896 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara en utan samnings samkvæmt g-lið 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.) fellur skuld vegna námslána að fjárhæð 10.749.893 krónur. Þá hvíla ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 16.514.149 krónur á kæranda en þær eru vegna Y ehf. sem hefur verið úrskurðað gjaldþrota.

Heildarskuldir kæranda skiptast þannig: Yfirdráttarskuld hjá Íslandsbanka hf. að fjárhæð 2.787.007 krónur. Veðkröfur hjá Gildi lífeyrissjóði að fjárhæð 2.646.537 krónur. Námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna að fjárhæð 10.749.893 krónur. Aðrar skuldir kæranda nema samtals 2.796.459 krónum.

Eignir kæranda samkvæmt eignayfirliti umboðsmanns skuldara eru eignarhlutur í X ehf. að verðmæti 500.000 krónur, bifreið að verðmæti 14.761 króna og bankainnistæða að fjárhæð 51.614 krónur.

Tekjur kæranda undanfarin ár hafa verið eftirfarandi samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara: Árið 2006 voru mánaðarlegar tekjur hennar að meðaltali 192.969 krónur eftir frádrátt skatts, 107.117 krónur árið 2007, 156.906 krónur árið 2008, 185.916 krónur árið 2009, 218.009 krónur árið 2010 og 297.532 krónur árið 2011.

Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 24. ágúst 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 5. júlí 2012 var umsókn hennar hafnað með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru gerir kærandi athugasemdir við að í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé ekki tekið tillit til gagna frá tollstjóra varðandi X ehf. og Y ehf.

Með athugasemdum kæranda við greinargerð umboðsmanns skuldara fylgdi yfirlýsing frá endurskoðanda Y ehf., dagsett 26. september 2012. Þar kemur fram að eiginlegum rekstri félagsins hafi verið hætt haustið 2008 og félagið lýst gjaldþrota sama ár. Kærandi hafi strax afhent skiptastjóra allt bókhald félagsins. Félagið hafi þá verið í lítilsháttar skuld við hið opinbera. Ekki hafi verið lokið við skipti á búinu og virðist skiptastjóri hafa látið hjá líða að tilkynna um gjaldþrotið til ríkisskattstjóra. Vegna þessa hafi áætlanir hlaðist upp. Vorið 2012 hafi kærandi skilað inn skattskýrslum, aðallega núllskýrslum. Þó hafi átt eftir að skila skýrslu vegna virðisaukaskattstímabilsins júlí‒ágúst 2008 að fjárhæð 88.129 krónur. Embætti tollstjóra hafi hafnað þessari skýrslu á þeim forsendum að kærandi hefði ekki forræði yfir búi Y ehf. Að mati kæranda sé það á hendi skiptastjóra að sjá til þess að áætlanir verði leiðréttar. Ársreikningi vegna ársins 2008 hafi ekki verið skilað þar sem ljóst var að fyrirtækið var að verða gjaldþrota og gat ekki greitt fyrir þá vinnu. Vegna þessa hafi tekjuskattur verið áætlaður, en fyrirtækið hafi verið rekið með miklu tapi þannig að ætla mætti að það hefði ekki þurft að greiða tekjuskatt.

Í athugasemdum sínum við greinargerð umboðsmanns skuldara bendi kærandi á að synjun umboðsmanns á heimild til greiðsluaðlögunar hafi fyrst og fremst verið á því byggð að kærandi hafi sem stjórnarmaður í einkahlutafélaginu Y stofnað til virðisaukaskattsskuldar að höfuðstól 5.022.500 krónur með refsiverðum hætti áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 22. október 2009. Í greinargerð umboðsmanns skuldara segi að sú fjárhæð byggi á álagningu samkvæmt raungögnum en ekki áætlun ríkisskattstjóra. Þessu mótmæli kærandi og bendi á að hún hafi lagt fram gögn sem sýni fram á að félagið hafi ekki verið í rekstri eftir 31. ágúst 2008 en þann dag lagði kærandi inn virðisaukaskattsnúmer félagsins. Auk þess hafi endurskoðandi félagsins gert grein fyrir að rekstri félagsins var hætt haustið 2008 og að einungis hafi átt eftir að skila virðisaukaskattskýrslu vegna tímabilsins júlí‒ágúst 2008, en fjárhæð virðisaukaskattsins nam 88.129 krónum. Þá hafi rekstrinum einnig verið sjálfhætt eftir að viðskiptafélagi kæranda hafi brotist inn í húsnæði Y ehf. í ágúst 2008 og tekið meðal annars hljóðkerfi og húsgögn ófrjálsri hendi. Kærandi hafi kært þjófnaðinn til lögreglu 20. ágúst 2008.

Kærandi telji að umboðsmaður skuldara hafi ekkert tillit tekið til þeirra gagna sem hún hafi lagt fram frá endurskoðanda félagsins. Kæranda sé algjörlega hulið hvernig hún geti með öðrum hætti sannað að enginn rekstur hafi verið í félaginu eftir að hún lagði inn virðisaukaskattsnúmer þess. Kærandi sætti sig ekki við, og telji það raunar ólögmætt, að skattyfirvöld og umboðsmaður skuldara snúi sönnunarbyrðinni við með þessum hætti og geri kæranda að glæpamanni. Kærandi hafi gert allt sem í hennar valdi standi til að leiðrétta áætlanir ríkisskattstjóra. Kærandi sé ósammála því að álagningin sé byggð á raungögnum en hún hafi ekki séð neinn rökstuðning fyrir því. Kærandi telji því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 hafi ekkert fordæmisgildi í máli hennar, enda ekki um vangreiddan virðisaukaskatt að ræða.

Kærandi geri þá kröfu að synjun umboðsmanns skuldara á heimild hennar til að leita greiðsluaðlögunar verði hrundið.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 5. júlí 2012 komi fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Í 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, komi meðal annars fram að refsing geti legið við því að skila ekki virðisaukaskatti á lögmæltum tíma. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við geti girt fyrir heimild til greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi. Þessi skilningur hafi verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2010.

Í ákvörðun sinni bendi umboðsmaður skuldara á að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá tollstjóra hvíli skuldir vegna ógreidds virðisaukaskatts á Y ehf. að fjárhæð 15.411.012 krónur. Af þessari fjárhæð byggi 8.559.399 krónur á álagningu og 6.851.613 krónur á áætlun ríkisskattstjóra. Til skuldanna hafi stofnast á árunum 2008‒2011. Þá hvíli einnig virðisaukaskattsskuld frá árinu 2010 að fjárhæð 1.604.678 krónur á félaginu X ehf. Fjárhæð þessi byggi á áætlun ríkisskattstjóra.

Kæranda hafi verið veitt færi á að tjá sig um málið áður en ákvörðun var tekin. Í svarbréfi frá ráðgjafa hennar komi fram að X ehf. sé skuldlaust við tollstjóra. Einnig komi fram að áætlanir ríkisskattstjóra vegna Y ehf. hafi verið gerðar eftir að kærandi missti forræði á félaginu. Í ljósi þessa hafi skuldir sem byggðu á álagningu ríkisskattstjóra vegna Y ehf. verið lagðar til grundvallar þegar tekin var ákvörðun í málinu. Heildarfjárhæð þeirra skulda var 8.559.399 krónur, þar af höfuðstóll 5.022.500 krónur. Til skuldanna hafi stofnast árið 2008 þegar kærandi var stjórnarmaður í félaginu og áður en bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta 22. október 2009.

Við mat á því hvort þessar skuldbindingar verði taldar nema einhverju miðað við fjárhag kæranda verði að líta til tekna, eigna- og skuldastöðu kæranda. Af skuldayfirliti og öðrum gögnum verði ráðið að fjárhagur hennar sé þröngur vegna allhárra skuldbindinga. Heildarskuldir hennar séu 18.979.896 krónur en að auki hvíli á henni ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 16.514.149 krónur vegna Y ehf. Þá séu eignir kæranda óverulegar en heildarverðmæti þeirra sé 566.375 krónur. Launatekjur hennar séu 226.376 krónur á mánuði og greiðslugeta hennar neikvæð um 3.083 krónur.

Að öllu ofangreindu virtu hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að ekki yrði hjá því komist að líta til þeirrar ábyrgðar sem hvíldi á kæranda sem stjórnarmanns í Y ehf. um að standa skil á vörslusköttum og þeim sektum sem hún gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að láta gera þeim skil. Telja verði skuldirnar verulegar, auk þess sem ljóst sé samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að fjárhagur hennar sé þröngur. Þannig þyki ófært að líta svo á að skuldbindingarnar séu smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kæranda. Umboðsmanni skuldara hafi því þótt óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð sinni 21. september 2012 vísi umboðsmaður í úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 59/2011 máli sínu til stuðnings. Þar hafi nefndin talið að þegar svo hátti til að skuldari hafi ekki staðið skil á tilteknum opinberum gjöldum fyrir hönd einkahlutafélags sem hann sé í fyrirsvari fyrir, komi d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. til skoðunar. Meðal annars með vísan til þessa hafi nefndin staðfest ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar.

Eins vísi umboðsmaður skuldara í úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011 þar sem nefndin staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar. Í því máli taldi umboðsmaður skuldara að kærandi hefði bakað sér skuldbindingu með refsiverðum hætti vegna vangoldins virðisaukaskatts, en krafan var að hluta byggð á áætlun skattstjóra. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála taldi ekki óhætt að byggja synjun um greiðsluaðlögun á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ef mikil óvissa væri um fjárhæð skulda sem kæmu til skoðunar samkvæmt ákvæðinu.

Með hliðsjón af þessu bendi umboðsmaður skuldara á að í hinni kærðu ákvörðun í þessu máli hafi skuldir, sem hafi með öllu þótt óhætt að kæmu til skoðunar vegna d-liðar 2. mgr. 6. gr., numið 8.559.399 krónum. Þar af nemi höfuðstóll skuldanna 5.022.500 krónum. Til þessara skulda hafi Y ehf. stofnað á meðan kærandi var stjórnarmaður í félaginu og byggi fjárhæð þeirra á álagningu samkvæmt raungögnum, en ekki áætlun ríkisskattstjóra.

Umboðsmaður telji enn fremur að sé miðað við höfuðstól virðisaukaskattsskuldar þeirrar, sem telja verði að kærandi hafi stofnað til með refsiverðum hætti að fjárhæð 5.022.500 krónur, verði hún talin allhá. Með henni hafi kærandi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hennar með refsiverðum hætti. Til samanburðar sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009. Þar hafi rétturinn meðal annars byggt höfnun sína á staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar á því að vangreiddan virðisaukaskatt að fjárhæð 1.780.437 krónur yrði að telja allháa fjárhæð. Hæstiréttur hafi vísað til þágildandi 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, en ákvæðið var sambærilegt núgildandi d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í framhaldsgreinargerð sinni 20. desember 2012 taki umboðsmaður skuldara afstöðu til viðbótargagna með kæru. Kærandi mótmæli því að fjárhæð sú sem hin kærða ákvörðun byggi á, þ.e. vangoldinn virðisaukaskattur að höfuðstólsfjárhæð 5.022.500 krónur, sé byggð á álagningu samkvæmt raungögnum en ekki áætlun ríkisskattstjóra. Um þessar athugasemdir kæranda vísi umboðsmaður skuldara til þess að í yfirliti frá tollstjóra 10. maí 2012 yfir skuldir Y ehf. vegna virðisaukaskatts sem liggi fyrir í málinu, sé færslan með umræddum höfuðstól merkt H A B. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra þýði þessi merking að upphaflega hafi verið byggt á áætlun, en færslunni hafi verið breytt í kjölfar álagningar. Í yfirlitinu komi fram að álagningin hafi verið gerð 19. desember 2008. Umboðsmaður hafi byggt á þessum upplýsingum þegar hann hafi tekið hina kærðu ákvörðun.

Fyrir kærunefndina hafi kærandi lagt bréf frá ríkisskattstjóra, dagsett 22. maí 2012, þar sem virðisaukaskattskýrslum vegna tiltekins tímabilsins hafi verið hafnað. Í bréfinu komi fram að félagið sætti áætlun virðisaukaskatts þar sem skýrsla þess tímabils hafi ekki verið lögð fram. Þetta bréf hafi ekki legið fyrir í málinu þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Að mati umboðsmanns skuldara þyki þær upplýsingar sem fram komi í bréfinu ekki gefa nægilegt tilefni til að gera ráð fyrir að álagning virðisaukaskatts sé röng, enda komi skýrlega fram í yfirliti tollstjóra að ekki sé um áætlun að ræða.

Fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., einkum með tilliti til d-liðar. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt d-lið skal við mat á því taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi skráð framkvæmdastjóri Y ehf. og hvíldi því á henni sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Þá skal fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1. og 8. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og 1. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 40/1987. Samkvæmt fyrirliggjandi yfirliti frá tollstjóra nema vanskil vegna virðisaukaskatts ársins 2008 alls 5.022.500 krónum en sú fjárhæð byggir á álagningu.

Framangreint ákvæði lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei. Í þessu máli felst hluti skattskulda kæranda í ógreiddum virðisaukaskatti vegna starfsemi einkahlutafélags þar sem kærandi gegndi stöðu framkvæmdastjóra. Stöðu sinnar vegna ber hún ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1944. Samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, getur slík háttsemi varðað refsingu.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist fyrst og fremst á því að fyrir þótti liggja að á Y ehf. hvíldi virðisaukaskattsskuld að höfuðstólsfjárhæð 5.022.500 krónur og í ljósi þess að fjárhæðin byggði á raungögnum en ekki áætlun leiddi það til synjunar á umsókn kæranda.

Við mat á því hvort rétt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar vegna skulda sem geta bakað skuldara refsingu, svo sem gildir um vörsluskatta, skiptir það máli hver afdrif þessara skulda verða nái greiðsluaðlögun fram að ganga. Með öðrum orðum þá er mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars háð því hvort hann losni þar með undan skyldu til að greiða slíkar skuldir eða ekki. Eins og áður segir er skuldum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu skatta nú haldið utan við réttaráhrif greiðsluaðlögunar öfugt við það sem gilti fyrir gildistöku lge. og framangreindar breytingar voru gerðar á ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna. Af þessum sökum geta dómar, sem kveðnir eru upp í tíð eldri laga, ekki haft ótvírætt fordæmisgildi við þetta mat jafnvel þótt til þeirra sé vísað í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Að mati kærunefndarinnar verður í málum sem þessum að líta heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Eins og á stendur í máli þessu liggur fyrir að skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun eru það verulegar, sé litið til tekna kæranda og nettóeignastöðu, að ljóst þykir að hún muni ekki geta staðið í skilum með þær greiðslur, jafnvel þó svo allar aðrar skuldir yrðu felldar niður í samningi um greiðsluaðlögun. Í ljósi þess verður að telja að skuldir kæranda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo háar að ekki sé hæfilegt að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt framangreindu er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Þórhildur Líndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum