Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 15 Ellilífeyrir

Miðvikudaginn 28. mars 2007

15/2007

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi til úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 15. janúar 2007 kærir B, lögfr., f.h. A, Ástralíu, synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu ellilífeyris.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um ellilífeyri með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins dags. 11. júlí 2006, mótt. 4. ágúst 2006.  Umsókn var synjað með bréfi stofnunarinnar dags. 9. október 2006 þar sem kærandi væri búsett í Ástralíu og ekki hefði verið gerður samningur milli Íslands og Ástralíu um almannatryggingar.

           

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 

Einu rökin fyrir synjuninni eru tilgreind þau, að ekki sé um að ræða samning um almannatryggingar milli Íslands og Ástralíu, sem eru reyndar engin rök, þar sem maki umsækjanda hefur notið ellilífeyrisgreiðslna frá Íslandi í átta ár, sem og svo margir, margir fleiri, án þess að um nokkurn samning hafi nokkurn tímann verið að ræða, og ekki hefur löggjöfin breyst neitt á þessum tíma að því er þetta varðar.

Símleiðis hefur mér reyndar verið tjáð, að mistök hafi verið að úrskurða þessu fólki ellilífeyri á sínum tíma og það hafi ekki átt rétt á honum.

Ekki þykir mér það haldbær rökstuðningur af hálfu opinberra aðila.

Spurningin er miklu fremur sú, hvort ekki hafi myndast þarna hefð, sem ekki verður brotin.

Að lokum vil ég benda á, að synjun sem þessi er sérstaklega mikil vonbrigði fyrir þá, sem hafa vitað um þessi réttindi og mátt reikna með þeim, en maki umsækjanda hefur notið þeirra um árabil, eins og áður hefur komið fram.

Skora ég nú á ykkur að breyta úrskurði þessum umsækjanda í vil.”

 

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 16. janúar 2007 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar.  Greinargerðin er dags. 7. mars 2007. Þar segir m.a.:

 

A sótti um ellilífeyri með umsókn móttekinni 8. ágúst 2006. Henni var synjað um greiðslur með bréfi dags. 9. október 2006 á grundvelli þess að hún er búsett í Ástralíu sem er ríki sem Ísland hefur ekki gert samning um almannatryggingar við. Umsókn hennar var endursend með bréfinu og ekki haldið eftir afriti af henni.

Í 67. gr. áðurgildandi laga um almannatryggingar nr. 67/1971 var tryggingaráði heimilað að greiða bótaþegum, búsettum erlendis, aðrar bætur en ellilífeyri, ef sérstaklega stæði á. Þetta ákvæði var túlkað þannig að heimilt væri að greiða grunnellilífeyri til einstaklinga sem væru búsettir erlendis en ekki væri heimilt að greiða aðrar bætur nema með samþykki tryggingaráðs. Ákvæði þetta féll úr gildi 1. janúar 1994 við gildistöku núgildandi laga um almannatryggingar nr. 117/1993.

Talið hefur verið að þeir sem fengu samþykktar bótagreiðslur á grundvelli eldri laga haldi þeim. Í gildistökuákvæðum 1. nr. 117/1993 er ekki kveðið á um endurupptöku eldri mála og endurútreikning skv. nýrri reglum og ekki hefur verið talið að 3. mgr. 48. gr. skyldi Tryggingastofnun til endurútreiknings í þessum tilvikum.

Skv. 54. gr. laga nr. 117/1993 skal greiða bótaþegum búsettum í þeim ríkjum sem ríkisstjórn gerir samninga við eða ráðherra hefur samið við með stoð í 64. gr. sömu bætur og viðkomandi hefði átt rétt á hefði hann verið búsettur hér á landi.

Talið hefur verið að ákvæðið beri að túlka þannig, að ekki skuli greiða bætur almannatrygginga úr landi til einstaklinga sem búsettir eru í ríkjum sem engir samningar hafa verið gerðir við, þ.á.m. Ástralíu.

Í ljós hefur komið að vegna misskilnings starfsmanna um heimild til greiðslu til aðila búsettra í ríkjum sem Ísland hefur ekki gert samninga við var á tímabili og í örfáum tilvikum eftir 1. janúar 1994 (einkum á árinu 1999) afgreiddur ellilífeyrir (grunnlífeyrir) til umsækjanda búsettra í Ástralíu, þ.á.m. maka kæranda sem hefur fengið greiðslur frá árinu 1999. Það hefur verið gert án þess að greiðsluheimild væri í raun fyrir hendi. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um áframhaldandi greiðslur til þessara aðila, þ.e. hvort þær verði stöðvaðar á grundvelli þess að greiðsluheimild sé ekki til staðar eða hvort þær verði látnar halda áfram á grundvelli þess að umsókn um greiðslur hafi verið afgreidd þrátt fyrir að ekki væri réttur á greiðslum.

A á þannig skv. núgildandi lögum um almannatryggingar ekki rétt á ellilífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun vegna búsetu sinnar í Ástralíu. Tryggingastofnun telur að það að í örfáum tilvikum hafi ranglega verið samþykktar umsóknir frá aðilum búsettum í Ástralíu eftir að heimild til þess var ekki lengur til staðar hafi ekki sjálfkrafa í för með sér að hún eigi rétt á greiðslum.”

 

Greinargerðin var send lögfræðingi kæranda til kynningar með bréfi dags. 8. mars 2007 og gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Athugasemdir eru dags. 20. mars 2007.  Þær hafa verið kynntar Tryggingastofnun.

 

 Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu ellilífeyris samkvæmt 11. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar til kæranda sem hefur verið búsett í Ástralíu síðan 1971.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir að það séu engin rök hjá Tryggingastofnun að vísa til þess að ekki sé í gildi samningur milli Íslands og Ástralíu um almannatryggingar.  Maki kæranda svo og aðrir Íslendingar í Ástralíu hafi fengið greiddan ellilífeyri þrátt fyrir það að ekki væri í gildi samningur milli landanna um ellilífeyri.  Þó svo að greiðslur hafi verið inntar af hendi fyrir mistök sé spurning hvort ekki hafi myndast hefð sem ekki verði rofin.  Vafasamt sé að mismuna fólki á þennan hátt sérstaklega hjónum.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til eldri laga um almannatryggingar og  fyrri framkvæmdar  varðandi greiðslu ellilífeyris til einstaklinga búsettra erlendis  þ. á m. einstaklinga búsettra í Ástralíu.  Greiðslur hefðu áfram verið inntar af hendi til þessara einstaklinga þrátt fyrir lagabreytingu sem tók gildi 1. janúar 1994.  Þá hefðu nokkrum einstaklingum verið ákvarðaðar bætur eftir þann tíma vegna mistaka starfsfólks.  Loks er vísað til 54. og 64. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar en þau ákvæði varða milliríkjasamninga.

 

Ákvæði um ellilífeyri eru í 11. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum.  Í I. kafla A laga nr. 117/1993, 9. gr. a-d, eru ákvæði er varða hverjir tryggðir eru samkvæmt lögunum.  Í 1. mgr. 9. gr. a segir að sá sem búsettur er hér á landi teljist tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna nema annað leiði af milliríkjasamningum.  Í 2. mgr.  segir að með búsetu samkvæmt 1. mgr. sé átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga.

 

Meginreglan er því sú að greiðslur bóta samkvæmt lögum nr. 117/1993 eru bundnar við búsetu hérlendis nema annað leiði af milliríkjasamningum.  Eins og áður er fram komið hefur kærandi verið búsett í Ástralíu frá því á árinu 1971.  Hún uppfyllir því ekki búsetuskilyrði 9. gr. a laga nr. 117/1993 til þess að vera tryggð samkvæmt lögunum.  Samkvæmt 64 og 54. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við önnur ríki og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir um gagnkvæman rétt til þeirra hlunninda sem almannatryggngar veita.  Slíkur samningur hefur ekki verið gerður á milli Íslands og Ástralíu.  Kærandi á því ekki rétt til almannatryggingabóta frá Íslandi á grundvelli milliríkjasamnings.  Aðrar greiðsluheimildir eru ekki fyrir hendi.

 

Úrskurðarnefndin er við afgreiðslu mála bundin af gildandi lögum og reglugerðarákvæðum.  Það að greiðslur hafi verið inntar af hendi til nokkurra einstaklinga á röngum forsendum vegna mistaka starfsfólks Tryggingastofnunar skapar að mati úrskurðarnefndar ekki öðrum rétt. 

 

Synjun Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um ellilífeyri er staðfest.       

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A um ellilífeyri er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum