Hoppa yfir valmynd
16. september 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 28/2010

Fimmtudaginn 16. september 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 22. júlí 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 19. júlí 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 12. júlí 2010, um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ekki væri ráðið af framlögðum gögnum og fyrirliggjandi upplýsingum að kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu 21. janúar til 23. mars 2010.

Með bréfi, dags. 23. júlí 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 26. júlí 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 4. ágúst 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda í bréfi, dags. 17. ágúst 2010.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi byggir á því að henni hafi verið neitað um greiðslur í fæðingarorlofi vegna fáeinna daga sem hún hafi ekki þegið laun samkvæmt skattskýrslu, en á þeim dögum hafði verið gerð skil. Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um synjun fæðingarorlofs hafi því verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum og að hluta til röngum.

Kæranda hafi verið synjað á grundvelli upplýsinga sem ekki voru tæmandi. Kærandi bendir á að skilyrði fæðingarorlofs séu að móðir hafi verið „samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardags barns“, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.). Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. sömu laga teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e-liði 2. mgr. 13. gr. a. til launa.

Í niðurstöðu Fæðingarorlofssjóðs hafi verið byggt á því að kærandi hafi ekki verið „með nein laun á tímabilinu frá 21. janúar til 23. mars 2010“ sem sé innan sex mánaða tímabilsins sem 13. gr. ffl. áskilur að foreldri þurfi að hafa verið á vinnumarkaði. Þá bendir kærandi á að Vinnumálastofnun sé falið það mat, hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum en ekki Fæðingarorlofssjóði. Enn fremur bendir kærandi á að það geti vart uppfyllt rannsóknarskyldu stjórnvalds, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að líta eingöngu í skattskýrslur kæranda, enda sé stjórnvaldi skylt að rannsaka hvort mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. UA 588/1992 en þar sé tekið fram að stjórnvaldi sé skylt að leita eftir upplýsingum frá umsækjanda, skorti þær til að taka ákvörðun og fyrir liggi að kröfum umsækjanda væri hafnað að öðrum kosti. Kærandi greinir frá því að henni hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig nánar varðandi ástæður þess að bætur duttu niður á því tímabili sem hún var erlendis né hvaða forsendur hafi legið þar að baki.

Kærandi telur að stjórnvald hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu sína. Hún hafi tilkynnt samviskusamlega um utanför sína til Vinnumálastofnunar, en í því samtali hafi henni ekki verið bent á þær afleiðingar sem slík utanför hefði á rétt hennar til töku fæðingarorlofs. Stjórnvaldi hefði verið skylt að benda henni á og gefa henni kost á að endurmeta hvort utanför væri ráðleg í ljósi aðstæðna. Stjórnvaldi hafi verið tjáð munnlega að hún væri ólétt og þess vegna hafi því borið skylda til að vara hana við afleiðingum þess að fara erlendis. Þá bendir kærandi á að það tímabil sem hún þáði ekki atvinnuleysisbætur hafi verið stórlega ofmetið en hið raunverulega tímabil sé um hálfum mánuði skemmra.

Í ljósi framangreinds, sem og almennra sanngirnisástæðna sé ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs kærð.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að sjóðurinn hafi þann 12. júlí 2010 sent kæranda formlega stjórnvaldsákvörðun þar sem henni var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ekki væri ráðið af framlögðum gögnum og fyrirliggjandi upplýsingum að kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu frá 21. janúar til 23. mars 2010.

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 2. apríl 2010, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 3. júní 2010.

Með umsókn kæranda hafi fylgt tilkynning um fæðingarorlof, dags. 12. apríl 2010, vottorð um væntanlega barnsfæðingu, dags. 29. mars 2010 og tvær greiðslusögur frá Vinnumálastofnun-Greiðslustofu, dags. 12. apríl og 10. maí 2010. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrá ríkisskattstjóra og Þjóðskrá.

Þann 10. maí 2010 hafi Fæðingarorlofssjóður sent kæranda bréf þar sem henni var bent á að samkvæmt upplýsingum úr skrá ríkisskattstjóra og greiðslusögu Vinnumálastofnunar-Greiðslustofu væri ráðið að hún hefði ekki verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli frá 21. janúar til 23. mars 2010. Kæranda hafi verið leiðbeint um hvað teldist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði og ef hún teldi sig hafa verið þátttakanda á vinnumarkaði á tímabilinu þyrfti hún að leggja fram viðeigandi gögn því til staðfestingar.

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur jafnframt fram að þann 20. maí 2010 hafi borist tölvupóstur frá kæranda til Fæðingarorlofssjóðs þar sem kærandi upplýsir um að hún hafi sent tölvupóst til lögfræðings hjá Vinnumálastofnun þann 17. maí 2010 vegna sinna mála og hún væri að bíða eftir svari. Þann 27. maí 2010 hafi svo borist beiðni frá lögfræðingi Vinnumálastofnunar þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um málið. Þeirri beiðni hafi verið svarað samdægurs. Í svari Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og greiðslusögu frá Greiðslustofu hafi kærandi verið launalaus tímabilið frá 21. janúar til 23. mars 2010 og að sá tími sé allur innan sex mánaða ávinnslutímabils skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. Í framhaldinu er svo tiltekið að kærandi hafi verið á atvinnuleysisbótum bæði fyrir og eftir þennan tíma og samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi hún verið stödd í B-landi á þessum tíma og því væntanlega ekki tryggð samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Bent hafi verið á hvernig kærandi gæti viðhaldið rétti sínum til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. b. lið 2. mgr. 13. gr. a. ffl. en að það sé hlutverk Vinnumálastofnunar skv. 3. mgr. sömu greinar að meta á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði það skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um ræðir. Slíkt mat liggi ekki fyrir í málinu. Ef kærandi uppfylli ekki skilyrði til að fá greitt úr Fæðingarorlofssjóði þá eigi hún rétt á greiðslu fæðingarstyrks. Lögfræðingur Vinnumálastofnunar framsendi svarið á kæranda, dags. 1. júní 2010, þar sem kemur meðal annars fram að lögfræðingurinn telji niðurstöðuna vera rétta samkvæmt lögum og bendir kæranda á kærurétt sinn.

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er gerð grein fyrir því að þann 1. júlí 2010 hafi borist beiðni frá kæranda um endurupptöku máls, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 (ssl.). Á þeim tíma hafi ekki legið fyrir formleg stjórnvaldsákvörðun Fæðingarorlofssjóðs í málinu, sbr. 2. mgr. 1. gr. ssl., og því hafi ekki verið til staðar skilyrði til endurupptöku. Í samræmi við 3. mgr. 13. gr. a. ffl. og 10. gr. ssl. hafi Fæðingarorlofssjóður hins vegar þann 12. júlí 2010 óskað eftir mati Vinnumálastofnunar á því hvort kærandi hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum fyrir tímabilið frá 21. janúar til 23. mars 2010 ef hún hefði sótt um þær. Svar hafi borist samdægurs frá Vinnumálastofnun þar sem fram komi að samkvæmt gögnum Vinnumálastofnunar hafi kærandi ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið frá 21. janúar til 23. mars 2010 vegna þess að hún hafi verið erlendis á þeim tíma og því skráð af bótum það tímabil.

Þann 12. júlí hafi kæranda verið send formleg stjórnvaldsákvörðun þar sem henni var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ekki væri ráðið af framlögðum gögnum og fyrirliggjandi upplýsingum að kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu frá 21. janúar til 23. mars 2010.

Fæðingarorlofssjóður reifar ákvæði 13. gr. ffl., sbr. 7. gr. laga nr. 74/2008, þar sem kveðið er á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í 1. mgr. komi fram að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Í 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna séu skilgreiningar á því hverjir teljast starfsmenn og sjálfstætt starfandi en samkvæmt ákvæðunum telst starfsmaður samkvæmt lögunum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Sjálfstætt starfandi einstaklingur sé aftur á móti sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, sé skilgreint hvað felist í þátttöku á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. sé síðan talið upp í eftirfarandi fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 3. mgr. komi svo fram að Vinnumálastofnun meti á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði það skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b. lið 2. mgr.

Barn kæranda fæddist þann Y. júní 2010. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. ffl. sé því frá Y. desember 2009 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi samkvæmt framangreindu þurft að hafa verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði á tímabilinu, sbr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga 74/2008.

Samkvæmt skrá ríkisskattstjóra séu einu tekjur kæranda á tímabilinu greiðsla atvinnuleysisbóta. Samkvæmt greiðslusögu frá Vinnumálastofnun-Greiðslustofu fái kærandi greiddar atvinnuleysisbætur frá Y. desember 2009 til 20. janúar 2010 og aftur frá 24. mars og fram að fæðingu barnsins. Eftir standi því tímabilið frá 21. janúar til 23. mars 2010. Samkvæmt bréfi Vinnumálastofnunar frá 12. júlí 2010 hafi kærandi ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta á tímabilinu vegna þess að hún var erlendis þá og því skráð af bótum það tímabil.

Enga heimild sé að finna í lögum um fæðingar- og foreldraorlof né heldur í reglugerð sem sett hefur verið með stoð í lögunum til að víkja frá ákvæðum 1. og 11. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. við mat á því hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr. og 4. mgr. 17. gr. ffl. og til dæmis úrskurð úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 3/2010.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Með tölvupósti, dags. 9. júlí 2010, hafi kærandi óskað eftir því að fá greiddan fæðingarstyrk fyrir júní 2010 og hafi kærandi verið afgreidd með hann, sbr. greiðsluáætlun til hennar, dags. 9. júlí 2010.

 

III.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs.

Í athugasemdum við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs vill kærandi leiðrétta það að hún hafi verið í Bandaríkjunum frá 6. febrúar til 23. mars 2010 en ekki 21. janúar til 23. mars 2010, svo sem haldið hafi verið fram í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs. Þá ítrekar kærandi að henni hafi ekki verið leiðbeint í tæka tíð hvað teldist til þátttöku á vinnumarkaði og hún hafi tilkynnt til þar til bærra aðila að hún hygðist fara utan, meðal annars með það að leiðarljósi að skerða ekki rétt sinn til orlofs. Kærandi kveðst ekki hafa átt rétt á atvinnuleysisbótum á tímabilinu frá 6. febrúar til 23. mars 2010, hins vegar sé það ítrekað að kærandi hafi misst þann rétt vegna misvísandi og villandi upplýsinga frá Vinnumálastofnun.

 

IV.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 12. júlí 2010, um að synja kæranda um greiðslur úr sjóðnum vegna fæðingar barns hinn Y. júní 2010.

Í 1. mgr. 1. gr. ffl. segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Í 2. mgr. 7. gr. ffl. er síðan nánar skilgreint hverjir teljast starfsmenn og hverjir sjálfstætt starfandi.

Í 1. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, segir að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeigandi er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Til atvinnuþátttöku skv. 2. mgr. 13. gr. a. ffl. telst jafnframt:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Fæðingardagur barns kæranda er Y. júní 2010. Samkvæmt því er sex mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. tímabilið frá Y. desember 2009 fram að fæðingardegi barnsins. Ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu frá 20. janúar til og með 23. mars 2010 en kærandi heldur því fram að hún hafi farið erlendis 6. febrúar 2010. Óumdeilt er að kærandi var á innlendum vinnumarkaði á öðrum tíma tímabilsins í skilningi ffl. þar sem hún þáði atvinnuleysisbætur.

Í 3. mgr. 13. gr. a. ffl. kemur fram að Vinnumálastofnun meti á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði það skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b. lið 2. mgr. laga nr. 54/2006. Í gögnum málsins er að finna vottorð frá Vinnumálastofnun-Greiðslustofu, dags. 21. júlí 2010, en vottorðið var útbúið að beiðni Fæðingarorlofssjóðs, sbr. 3. mgr. 13. gr. a. ffl. Í vottorðinu segir meðal annars:

„Samkvæmt gögnum Vinnumálastofnunar átti A ekki rétt til atvinnuleysisbóta tímabilið 21.01.2010 til og með 23.03.2010 vegna þess að hún var erlendis á þeim tíma, og því skráð af bótum það tímabil.“

Hafi kærandi ekki starfað í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða starfað við eigin rekstur á tímabilinu frá Y. desember 2009 til Y. júní 2010 í skilningi 1. mgr. 13. gr. a. ffl. getur hún einungis átt rétt til greiðslna í fæðingarorlofi ef einhver stafliða 2. mgr. 13. gr. ffl. á við. Samkvæmt b. lið ákvæðisins telst jafnframt til atvinnuþátttöku sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. a. ffl. metur Vinnumálastofnun það á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði það skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. fyrrnefndan b. lið 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Það hefur Vinnumálastofnun nú gert, sbr. svar stofnunarinnar hér að framan.

Með hliðsjón af framangreindu er óhjákvæmilegt að líta svo á að b. liður 2. mgr. 13. gr. a. ffl. geti ekki átt við um kæranda. Í því sambandi hefur enga þýðingu hvort tímabilið sem um ræðir sé frá 21. janúar eða 6. febrúar 2010. Þá verður ekki talið að aðrir liðir ákvæðisins geti átt við um kæranda.

Enga heimild er að finna í ffl. né reglugerð sem sett hefur verið með stoð í lögunum til að víkja frá ákvæðum 1. og 11. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. við mat á því hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Kærandi heldur því fram að skort hafi á leiðbeiningar til hennar um áhrif þess að fara erlendis á rétt hennar til greiðslna í fæðingarorlofi. Ekkert liggur fyrir um ráðgjöf Fæðingarorlofssjóðs til kæranda. Auk þess fellur það ekki undir valdsvið nefndarinnar að úrskurða um slíkan ágreining, sbr. 2. mgr. 5. gr. ffl. Með vísan til alls þessa verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum