Úrskurðir um matvæli og landbúnað

23.10.2015

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hinn 23. október 2015 kveðið upp svohljóðandi:

 

 

 

 

ÚRSKURÐ

 

 

Með stjórnsýslukæru dags. 14. september 2015 kærði X og Y, hér eftir nefnd kærendur, ákvörðun Matvælastofnunar dags. 25. ágúst 2015, um fyrirhugaða vörslusviptingu nautgripa að bænum Z. 

 

 

 

Kröfugerð

 

 

Kærandi krefst þess að ákvörðun Matvælastofnunar dags. 25. ágúst 2015 um fyrirhugaða vörslusviptingu nautgripa að bænum Z þann 1. nóvember nk. verði breytt þannig að kærendum verði heimilt að halda mjólkurkýr að Z út verðlagsárið 2015 og mjólkurkýr verði svo fluttar af bænum 15. janúar 2016.

Um kæruheimild er vísað til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum og venju. Kæran barst fyrir lok kærufrests skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. 

 

 

 

Málsatvik

 

 

Kærendur stunda búskap að bænum Z með nautgripi og sauðfé. Í máli þessu mun eingöngu vera fjallað um vörslusviptingu nautgripa. Samkvæmt eftirlitsskýrslu dags. 22. apríl 2014 voru gerðar ýmsar athugasemdir við aðbúnað búfjár að Z. Meðal athugasemda um nautgripi búsins, var að hæð á fóðurgangi væri of lá, mottur vantaði í bása, jötukantur var of hár, vatnsrennsli of hægt, þungt loft í fjósi, allir gripir bundnir, gripirnir skítugir og eldri gripir með ofvaxnar klaufir. Matvælastofnun veitti kærendum frest til 15. ágúst 2014 til að ráðast í úrbætur og lagði að kærendum að nýta tímann vel til úrbóta. Næsta skoðun fór fram að Z þann 16. apríl 2015. Matvælastofnun gerði þá athugasemdir við sömu frávik og við skoðun árið 2014. Kærendur höfðu ekki ráðist í neinar þær úrbætur sem nauðsynlegar voru til að tryggja velferð gripanna. Matvælastofnun veitti kærendum frest að nýju til 7. júní 2015 til að ráðast í þær úrbætur sem nauðsynlegar voru. Þá upplýsti Matvælastofnun kærendur um að ef ekki yrði brugðist við athugasemdum með úrbótum gætu kærendur átt á hættu að verða sviptir vörslu gripanna. Matvælastofnun kom til eftirlits að Z þann 25. júní 2015. Í skoðunarskýrslu Matvælastofnunar kemur fram að ekki hafi verið bætt úr flestum þeim frávikum sem komu fram í síðustu skýrslu stofnunarinnar.

 

Með bréfi dags. 7. ágúst 2015 voru kærendur upplýstir um að vegna alvarlegra frávika samkvæmt skoðunarskýrslu Matvælastofnunar sé ástand í búskap að Z óviðunandi samkvæmt ákvæðum laga nr. 93/1995 um matvæli og laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Með óbreyttum aðbúnaði geti gripir ekki farið í hús að nýju eftir útigöngu sumarið 2015. Var kærendum því tilkynnt um fyrirhugaða vörslusviptingu gripa á búinu. Kærendum var veittur andmælafrestur til 20. ágúst 2015 en engin raunhæf andmæli bárust frá kærendum. Var kærendum því tilkynnt með bréfi 25. ágúst 2015 að Matvælastofnun hafi ákveðið að nýta heimild 1. mgr. 37 gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra og taka alla nautgripi á bænum Z úr vörslu kærenda, enda aðbúnaður nautgripa óviðunandi með tilliti til laganna. 

 

 

 

Rökstuðningur

 

 

Samkvæmt skoðunarskýrslum málsins hefur Matvælastofnun gert ítrekaðar athugasemdir við aðbúnað nautgripa á bænum Z. Kærendur hafa ekki brugðist við með úrbótum þrátt fyrir veitta fresti, í fyrsta lagi frá 28. mars 2014 til 15. ágúst 2014 og í öðru lagi frá 16. apríl 2015 til 7. júní 2015. Hafa kærendur því haft rúman tíma til að bregðast við þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið við aðbúnað nautgripanna.

 

Markmið laga nr. 55/2013 um velferð dýra er að stuðla að því að dýr séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt. Mál þetta lýtur að aðbúnaði nautgripa á bænum. Samkvæmt 29. gr. laga um velferð dýra skal umráðamaður dýra tryggja að dýr séu haldin í umhverfi sem samræmist sjónarmiðum um velferð dýra, meðal annars hvað varðar öryggi þeirra og heilbrigði, og tekur tillit til bæði sérstakra þarfa dýrsins og séreinkennum tegundarinnar. Umhverfi dýra skal vera þannig að þau geti athafnað sig, hreyft sig, hvílst, notið útivistar, beitar eða viðurhaft annað atferli sem er þeim eðlilegt. Nánar er fjallað um kröfur um aðbúnað nautgripa í reglugerð nr. 1065/2014 um velferð nautgripa. Reglugerðin tók gildi 26. nóvember 2014. Í 5. gr. reglugerðarinnar segir að umráðamaður skuli hafa eftirlit með heilsufari, hreinlæti, fóðrun, fóðri, vatni og öðum þáttum sem geta haft áhrif á líðan gripanna. Þá skal umráðamaður hreinsa gólf reglulega til að gripir haldist hreinir. Einnig skal umráðamaður sjá til þess að klaufir séu vel hirtar. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar skulu gripir geta lagst óhrindrað, legið eðlilega, risið á færtur, hreyft sig og sleikt. Þá er óheimilt að binda nautgripi, nema kvígur sem eiga minna en þrjá mánuði í burð. Þá skal umráðamaður einnig tryggja nægan aðgang að vatni og tryggja fullnægjandi loftskipti og loftgæði í húsnæði nautgripa.

 

Með vísan til skoðunarskýrslna Matvælastofnunar í máli þessu er ljóst að aðbúnaði nautgripa er verulega ábótavant og kærendur hafa ekki sinnt þeim frestum sem veittir hafa verið til úrbóta. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um velferð dýra er Matvælastofnun heimilt að taka ákvörðun um að svipta umráðamann dýra vörslu þeirra, ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests. Með vísan til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Kærendur hafa nú þegar fengið tæp tvö ár í frest til að ráðast í úrbætur vegna aðbúnaðar nautgripanna. Að mati ráðuneytisins hefur Matvælastofnun því gætt að meðalhófi við afgreiðslu málsins þar sem lögmætu markmiði laga um velferð dýra um aðbúnað og velferð gripanna verður ekki náð nema með öðru og vægara mót en að svipta kærendur vörslu nautgripanna. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að staðfesta beri ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 25. ágúst 2015. 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Matvælastofnunar dags. 25. ágúst 2015 um fyrirhugaða vörslusviptingu nautgripa að bænum Z þann 1. nóvember 2015, er staðfest.

 

 

 

 

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Ólafur Friðriksson

Rebekka Hilmarsdóttir