Hoppa yfir valmynd
28. júlí 2014 Matvælaráðuneytið

Kærð ákvörðun Matvælastofnunar að stöðva markaðssetningu mjólkur og sláturgripa frá Efri-Brunná

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hinn 28. júlí 2014 kveðið upp svohljóðandi:

ÚRSKURÐ

Stjórnsýslukæra

Með stjórnsýslukæru dags. 7. janúar 2014, kærði Soffía Steinunn Jónsdóttir, kt. 020562-7149, hér eftir nefnd kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar dags. 10. október 2013 um stöðvun á markaðssetningu mjólkur og sláturgripa frá Efri-Brunná.

Kröfugerð

Kærandi krefst þess að ráðuneytið fjalli um ákvörðun Matvælastofnunar dags. 10. október 2013 og óskar afstöðu ráðuneytisins til athafna Matvælastofnunar gagnvart kæranda.

Um kæruheimild gildir 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum og venju. Kæran barst fyrir lok kærufrests skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti:

Þann 9. október 2013 mættu til eftirlits að Efri-Brunná, Flora Josepine Hagen, héraðsdýralæknir Vesturlands og Þorsteinn Ólafsson, sérgreinadýralæknir, starfsmenn Matvælastofnunar. Kærandi var ekki staddur að Efri-Brunná þegar eftirlitið átti að fara fram. Starfsmenn Matvælastofnunar höfðu samband við kæranda sem upplýsti að hún væri fjarverandi. Starfsmenn Matvælastofnunar yfirgáfu svæðið og komu að Efri- Brunná síðar sama dag en kærandi var þá enn fjarverandi. Óskað var eftir heimild til eftirlits án þess að kærandi væri viðstaddur en því var hafnað af kæranda. Eftirlit var því ekki framkvæmt að Efri-Brunná. Í kjölfar þess var kæranda tilkynnt með bréfi dags. 10. október 2013 að þar sem ekki hafi verið unnt að framkvæma eftirlit hjá kæranda yrði til bráðabirgða stöðvuð markaðsetning mjólkur og sláturgripa frá bænum Efri-Brunná. Kærandi kom á framfæri andmælum sínum með bréfi dags. 14. október 2013 ásamt yfirlýsingu, þar sem Matvælastofnun var heimilað að framkvæma eftirlit að Efri-Brunná. Þann 15. október 2013 framkvæmdi Matvælastofnun eftirlit að Efri-Brunná. Banni til bráðabirgða á markaðssetningu mjólkur og sláturgripa frá Efri-Brunná var svo aflétt með bréfi Matvælastofnunar dags. 16. október 2013.

Með bréfi dags. 7. janúar 2014 kærði kærandi ákvörðun Matvælastofnunar dags. 10. október 2013, þess efnis að stöðva markaðssetningu mjólkur og sláturgripa frá bænum Efri Brunná. Með bréfi dags. 8. janúar 2014 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar um málið og jafnfram öllum þeim gögnum sem stofnunin kynni að hafa um málið og hefðu ekki borist til ráðuneytisins. Með bréfi dags. 22. janúar 2014 barst ráðuneytinu umsögn og gögn Matvælastofnunar.

Ráðuneytið veitti kæranda frest til að koma á framfæri athugasemdum við umsögnina og gögnin með bréfi dags. 24. janúar 2014. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu með bréfi dags. 8. febrúar 2014.

Málsatvik og lagarök

Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru er þess krafist að ráðuneytið fjalli um ákvörðun Matvælastofnunar dags. 10. október 2013. Þá óskar kærandi einnig eftir afstöðu ráðuneytisins til athafna starfsmanna Matvælastofnunar gagnvart kæranda.

Kærandi vísar til þess í kæru að héraðsdýralæknir Vesturlands hafi haft samband við sig þegar framkvæma átti eftirlit að Efri-Brunná þann 9. október 2013 en kærandi upplýsti héraðsdýralækni að hún væri fjarverandi. Kærandi bendir á að þess hafi verið krafist að hún heimilaði að eftirlit yrði framkvæmt en kærandi hafnaði þeirri kröfu og benti á að hún hefði rétt á að vera viðstödd eftirlit enda væri um að ræða atvinnu og heimili hennar. Þá hafi kæranda verið leiðbeint um að ef ekki væri unnt að framkvæma eftirlit gæti það orðið til þess að hún yrði svipt leyfi til sölu á mjólk. Kærandi telur að ákvæði 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 þar sem segir að hver sá sem borin er sökum um refsiverða háttsemi skal talin saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, eigi við í málinu enda hafi aldrei fundist heilsuspillandi efni í mjólk frá búinu.

Kærandi lýsir því í kæru að starfsmenn Matvælastofnunar hafi hótað því að svipta sig leyfi til sölu mjólkur og sláturgripa ef Matvælastofnun gæti ekki framkvæmt eftirlit á búinu. Kærandi telur að slíkar þvingunaraðgerðir af hálfu starfsmanna Matvælastofnunar hafi falið í sér brot gegn 134. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar segir að misnoti opinber starfsmaður stöðu sína til þess að neyða mann til að gera eitthvað, þola eitthvað eða láta eitthvað ógert, þá skal hann sæta fangelsi allt að þremur árum. Þá telur kærandi að starfsmenn Matvælastofnunar hafi ekki gætt að skilyrðum um kröfur til háttsemi starfsmanna ríkisins sem birtar voru af hálfu fjármálaráðuneytisins árið 1999.

Kærandi telur að hlutlæga rannsókn Matvælastofnunar á málefnum búsins hafi skort og ákvörðun stofnunarinnar hafi byggt á fyrirfram mótaðri afstöðu og stofnunin ekki gætt þess að taka upplýsta og réttláta ákvörðun skv. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi telur að skortur á skráningu í hjarðbók í gagnagrunn Matvælastofnunar hafi ekki réttlætt bann við markaðssetningu mjólkur og sláturgripa frá búinu og hún hafi þurft að sæta því að hella niður mjólk í viku, þrátt fyrir að aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við skráningu hjá kæranda áður. Kærandi bendir á að hún hafi dagbók í fjósinu, þar sem skráðir eru burðir, lyfjagjafir og annað sem viðkemur búinu. Hafi starfsmaður Búnaðarsambands Vesturlands aðstoðað kæranda við skráningu undanfarin ár. Kærandi staðfestir að vanskráning hafi verið í hjarðbók en allar kýr sem kærandi mjólki séu skráðar í hjarðbók og einnig allir sláturgripir, eingöngu hafi vantað að skrá kálfa sem fæddust á árinu 2013. Kálfarnir hafi ekki verið nýttir til mjólkurframleiðslu né til slátrunar. Kærandi bendir á að hún hafi sent einn smákálf til slátrunar fyrir um 10 árum og telur kærandi að það geti vart haft áhrif á ákvörðun Matvælastofnunar nú. Samtals hafi 8 smákálfar ekki verið skráðir í hjarðbók og falla þeir ekki undir 8. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, þar sem þeir eru ekki notaðir til framleiðslu. Þá vantaði að skrá 11 burði á kúm, en þar af höfðu aðeins þrjár kýr ekki borið áður. Kærandi telur að slík vanskráning geti ekki réttlætt að um sé að ræða alvarlegt brot.

Kærandi bendir á að hún hafi ekki notað lyf í kýrnar síðan í apríl 2013 og lyfjaleyfar eða önnur aðskotaefni hafi ekki fundist í framleiddri mjólk búsins í þau 16 ár sem kærandi hafi framleitt mjólk. Kærandi telur með vísan til framangreinds að starfsmenn Matvælastofnunar hafi gripið til verulegra harkalegra aðgerða og beitt sig óvægum þvingunum. Telur kærandi að Matvælastofnun hafi borið að taka tillit til 5. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli áður en svo þungbær ákvörðun var tekin. Kærandi bendir á að Matvælastofnun hafi ekki komið til eftirlits hjá sér í þrjú ár. Hafi kærandi litið svo á að engin hætta stafaði af afurðum búsins fyrir neytendur. Þá bendir kærandi á í athugasemdum sínum dags. 8. febrúar 2014 að afurðir sínar hafi ekki verið mengaðar eða heilsuspillandi, MS og þær afurðastöðvar sem kærandi eigi í viðskiptum við séu með öflugt gæðaeftirlit og frá búinu fari aðeins afurðir sem farið hafa í gegnum viðurkenndar afurðastöðvar.

Kærandi bendir á að hún hafi ekki synjað Matvælastofnun um aðgang til eftirlits en gerði þá kröfu að vera viðstödd þegar eftirlitið yrði framkvæmt. Kærandi væri eini starfsmaður búsins og þar sem hún hafi verið fjarverandi, leit hún svo á að fyrirtækið væri lokað. Kærandi telur að athugasemd Matvælastofnunar að sést hafi til manneskju að Efri-Brunná, hafi ekki varðað eftirlitsmenn Matvælastofnunar, enda telur kærandi að það brjóti gegn friðhelgi einkalífs kæranda að starfsmenn Matvælastofnunar liggi á gluggum híbýla. Um hafi verið að ræða afleysingamann sem ekki var starfsmaður búsins heldur sinnti afmörkuðu og tímabundnu verkefni á búinu.

Kærandi veitti Matvælastofnun ótímabundið leyfi til eftirlits á búinu með bréfi dags. 14. október 2013 án skilyrða, til að fá leyfi til markaðssetningar mjólkur og sláturgripa á ný. Kærandi telur að með leyfinu hafi hún veitt starfsmönnum Matvælastofnunar heimild til eftirlits hvenær sem hentar hvort sem kærandi væri viðstaddur eða ekki. Kærandi telur að með því skilyrði að veita heimild til eftirlits til að fá leyfi til markaðssetningar að nýju hafi falið í sér grófa valdníðslu og feli í sér brot á persónulegum réttindum skv. 70. og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Með vísan til framangreinds bendir kærandi einnig á að í eftirliti Matvælastofnunar þann 15. október 2013 hafi verið staðfest að allir veigamiklir þættir framleiðslunnar hafi verið í lagi.

Kærandi bendir á í athugasemdum sínum við umsögn Matvælastofnunar að mikilvægt sé að eigandi eða umráðamenn dýra séu viðstaddir þegar eftirlit fari fram, dýrin geti brugðist illa við þegar eftirlit sé framkvæmt. Kærandi vísar til þess að vissulega hafi starfsmenn Matvælastofnunar gert ítekaðar tilraunir til að fá heimild til eftirlits. Kærandi telur að með slíkri háttsemi, þ.e. ítrekunum og hótunum um að svipta kæranda leyfi til markaðssetningar mjólkur og sláturgripa, hafi starfsmenn Matvælastofnunar brotið gegn 134. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Kærandi telur að ákvörðun sín að synja starfmönnum Matvælastofnunar um inngöngu til eftirlits hafi ekki réttlætt ákvörðun stofnunarinnar að svipta hana leyfi til markaðssetningar mjólkur og afurða frá búinu. Kærandi hafi ekki gerst brotleg við ákvæði laga nr. 93/1995 um matvæli og þar af leiðandi hafi starfsmenn Matvælastofnunar ekki gætt hófs við málsmeðferðina. Með ákvörðun Matvælastofnunar dags. 10. október 2013 hafi kærandi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni, vegna tapaðrar mjólkursölu 521.197 kr. og lögfræðikostnaðar 144.325 kr.

Málsástæður og lagarök Matvælastofnunar

Matvælastofnun stöðvaði dreifingu afurða frá Efri-Brunná til bráðabirgða þar sem ekki var unnt að framkvæma eftilit á búinu. Þá lá fyrir að skráning í hjarðbók væri ábótavant og lyfjaskráning einnig. Mikil framleiðsluaukning hafi orðið á búinu það sem af var árinu 2013 án þess að kaup á gripum eða burðir kálfa væru skráðir í hjarðbók.

Við eftirlit þann 9. október 2013 reyndi Matvælastofnun ítrekað að gera kæranda grein fyrir að brugðist yrði við neitun um aðgang til eftirlits, með stöðvun á markaðssetningu afurða af búinu. Matvælastofnun tók ákvörðun um að stöðva markaðssetningu mjólkur og sláturgripa frá Efri-Brunná 10. október 2013. Ákvörðunin er m.a. byggð á 30. gr. b laga nr. 93/1995 um matvæli, en þar segir að opinberum eftirlitsaðila skuli heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits. Í 2. tl. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004 frá 29. apríl 2004 um opinbert eftirlit til að staðfesta að lög um fóður og matvæli og reglur um heilbrigði og velferð dýra séu virt sem innleidd var með reglugerð nr. 106/2010, segir að opinbert eftirlit skuli fara fram án nokkurs fyrirvara nema í tilvikum eins og úttektum sem nauðsynlegt er að tilkynna stjórnendum fóður- eða matvælafyrirtækja um fyrirfram. Matvælastofnun bendir á að stofnuninni sé ætlað að hafa eftirlit með matvælafyrirtækjum á borð við kúabú í mjólkurframleiðslu. Við eftirlit séu m.a. teknir út hollustuhættir, dýrasjúkdómar og lyfjamál. Til að kanna raunverulegt ástand kúabús kemur stofnunin í óvænt eftirlit sem ekki er sérstaklega boðað.

Í málinu lágu fyrir gögn sem bentu til þess að skráningum í hjarðbók væri ábótavant og þar með einnig lyfjaskráning. Matvælastofnun telur að markaðssetning mjólkur og sláturgripa geti ekki talist örugg frá búi þar sem eftirlitsmönnum er neitað um aðgang til eftirlits, enda liggi ekki fyrir upplýsingar um hreinlæti og aðra hollustuhætti, upplýsingar um ástæður framleiðsluaukningar, skráningar í hjarðbók hafi skort sem og lyfjaskráningar. Vegna synjunar um aðgang til eftirlits hafi stofnunin ekki getað tekið út framangreind atriði á búinu. Matvælastofnun bendir einnig á að matvælafyrirtæki sem fengið hafi alvarlegar athugasemdir en veiti aðgang til eftirlits geti þurft að sæta bráðabirgða stöðvun á markaðssetningu afurða, þar af leiðandi geti kærandi ekki notið betri stöðu til markaðssetningar en fyrirtæki sem veitir stofnuninni aðgang til eftirlits. Matvælastofnun taldi nauðsynlegt að bregðast við með þeim hætti að stöðva markaðsetningu mjólkur og sláturgripa frá Efri-Brunná til bráðabirgða til að tryggja öryggi neytenda.

Matvæli sem framleidd eru á Efri-Brunná eru háðar eftirliti Matvælastofnunar skv. 6. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, en tilgangur laganna er að tryggja svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og merkingar og að aðrar upplýsingar séu réttar og fullnægjandi sbr. 1. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli. Markmiði þessu skal m.a. ná með opinberu eftirliti. Með vísan til 24. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli er matvælafyrirtækjum skylt að láta aðilum sem fara með eftirlit samkvæmt lögunum, endurgjaldslaust í té nauðsynleg sýni til rannsókna og veita þeim allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar teljast við framkvæmd eftirlitsins. Einnig skal veita óhindraðan aðgang til eftirlits á þeim stöðum þar sem framleiðsla eða dreifing matvæla á sér stað. Samkvæmt 3. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, getur Matvælastofnun stöðvað markaðssetningu matvæla þegar rödstuddur grunur er um að matvælin uppfylli ekki ákvæði laga þessara eða stjórnvaldsreglna settum samkvæmt þeim. Þar sem Matvælastofnun var synjað um aðgagn til eftirlits að Efri-Brunná og skráningu í hjarðbók var ábótavant, taldi Matvælastofnun rökstuddan grun um að framleiðslan uppfyllti ekki ákvæði laga og reglna. Matvælastofnun var þannig gert ókleift af hálfu kæranda að sannreyna ástandið á búinu. Það er mat Matvælastofnunar að neitun um aðgang til eftirlits sé alvarlegt tilvik samkvæmt 30. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

Þá kemur einnig fram í umsögn Matvælastofnunar dags. 22. janúar 2014 hafi bráðabirgða stöðvun á markaðssetningu afurða kæranda verið í samræmi við markað verklag stofnunarinnar og eðlilegt úrræði til að tryggja matvælaöryggi. Þá hafi stofnunin gætt meðalhófs í málinu þar sem banni við markaðssetningu mjólkur og sláturgripa var aflétt um leið að stofnuninni var veittur aðgangur til eftirlits.

Rökstuðningur

Skráning í hjarðbók

Kærandi telur að Matvælastofnun hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar stofnunin tók ákvörðun um að stöðva markaðssetningu mjólkur og sláturgripa frá Efri-Brunná. Matvælastofnun bendir á að samkvæmt gögnum málsins hafi skráningu í hjarðbók verið ábótavant ásamt skráningu um lyfjanotkun. Skráningar hafi skort fyrir september og október 2013. Þá taldi Matvælastofnun að þar sem ekki var unnt að framkvæma eftirlit að Efri-Brunná hafi stofnuninni ekki verið unnt að staðfesta að hreinlæti og aðrir hollustuhættir væru í lagi með tilliti til aukinnar framleiðslu frá búinu.

Samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 916/2012 um merkingar búfjár ber umráðamaður búfjár ábyrgð fyrir skráningu upplýsinga um öll dýr hjarðar sinnar í sérstaka hjarðbók. Skylt er að skrá í rafræna hjarðbók, einstaklingsnúmer dýrs, fæðingarmánuð og ár, valnúmer, kyn dýrs, stofn dýrs, einstaklingsnúmer móður, dagsetningur slátrunar, flutning lífdýra úr hjörð, dagsetningu flutnings og móttekin plötumerki. Þá er umráðamanni skylt, óski Matvælastofnun þess, að veita allar umbeðnar upplýsingar um uppruna, númer, áfangastað dýra sem hann hefur átt, alið, selt á fæti eða slátrað.

Kærandi staðfestir í gögnum málsins að vanskráning hafi verið í hjarðbók en allar kýr búsins sem kærandi mjólki séu skráðar í hjarðbók ásamt öllum sláturgripum. Kæranda er skylt að skrá upplýsingar um öll dýr hjarðar sinnar skv. 12. gr. reglugerðar nr. 916/2012 um merkingar búfjár. Hafi vanskráning í hjarðbók og synjun um eftirlit að Efri-Brunná gert það að verkum að Matvælastofnun gat ekki sannreynt hvort skráning í hjarðbók væri í lagi eða ekki og hverjar væru ástæður framleiðsluaukningar á búinu. Ráðuneytið telur að Matvælastofnun hafi gætt að 10. gr. stjórnsýslulaga áður en stofnunin tók þá ákvörðun að svipta kæranda til bráðabirgða leyfi til markaðssetningu mjólkur og sláturgripa frá Efri – Brunná, enda er í málinu óumdeilt að vanskráning var í hjarðbók, sem Matvælastofnun var ótækt að sannreyna að væri rétt vegna synjunar um aðgang til eftirlits.

Eftirlit Matvælastofnunar

Í 1. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli segir „Tilgangur laganna er að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Þessu skal ná með innra eftirliti, áhættugreiningu, rekjanleika afurða og vara, varúðaraðgerðum, fræðslu, upplýsingamiðlun, rannsóknum, neytendavernd og opinberu eftirliti.“ Matvælastofnun annast opinbert eftirlit samkvæmt lögum um matvæli með frumframleiðslu þeirri sem fer fram að Efri-Brunná sbr. 6. gr. laga um matvæli, en til frumframleiðslu telst framleiðsla, eldi eða ræktun undirstöðuafurða ásamt uppskeru, mjöltun og eldi dýra fram að slátrun sbr. 16. lið 4. gr. laga um matvæli. Kærandi er matvælafyrirtæki skv. 20. lið 4. gr. laganna sem rekur starfsemi í tenglsum við framleiðslu, vinnslu eða dreifingu matvæla á einhverju stigi, hvort sem það starfar í ágóðaskyni eður ei, og hvort sem það er einkarekið eða opinbert fyrirtæki.

Matvælaframleiðendum er skv. 24. gr. laga um matvæli skylt að veita aðilum sem fara með eftirlit samkvæmt lögum um matvæli óhindraðan aðgang til eftirlits á þeim stöðum þar sem framleiðsla eða dreifing matvæla á sér stað. Ákvæðinu er ætlað að tryggja eftirlitsaðila fullan aðgang að eftirlitsskyldri starfsemi og þeim gögnum sem nauðsynlegt er að skoða við eftirlit. Í 1. mgr. 30. gr. b laga um matvæli segir einnig að „opinberum eftirlitsaðila skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem lög þessi og stjórnvaldsreglur ná yfir og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.“ Þá er einnig lögð skylda á stjórnendur matvælafyrirtækja að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laganna skv. 24. gr. laga um matvæli. Með vísan til framangreinds er matvælafyrirtækjum skylt að veita óhindraðan aðgang til eftirlits á þeim stöðum þar sem framleiðsla eða dreifing matvæla á sér og lögð sú skylda á stjórnendur matvælafyrirtækja að veita aðstoð við framkvæmd eftirlits og veita allar nauðsynlegar upplýsingar vegna eftirlits með framkvæmd laganna.

Þá kemur einnig fram í 2. tl. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004 frá 29. apríl 2004 um opinbert eftirlit til að staðfesta að lög um fóður og matvæli og reglur um heilbrigði og velferð dýra séu virt sem innleidd var með reglugerð nr. 106/2010 að opinbert eftirlit skuli fara fram án nokkurs fyrirvara nema í tilvikum eins og úttektum sem nauðsynlegt er að tilkynna stjórnendum fóður- eða matvælafyrirtækja um fyrirfram. Með vísan til framangreinds er gert ráð fyrir að eftirlitsaðili geti komið til eftirlits hvenær sem er.

Ráðuneytið telur með vísan til framangreinds að Matvælastofnun hafi verið skylt að framkvæma eftirlit að Efri-Brunná og þá hafi kæranda verið skylt að aðstoða starfsmenn stofnunarinnar við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlitsins. Í gögnum málsins kemur fram að Matvælastofnun reyndi ítrekað að framkvæma eftirlit að Efri-Brunná þann 9. október 2013 en án árangurs. Þrátt fyrir að kærandi hafi verið fjarverandi er eftirlit að Efri-Brunná átti að fara fram hafi kæranda, sem stjórnenda matvælafyrirtækis verið skylt að gera ráðstafanir sem tryggðu að unnt væri að framkvæma eftirlit á búinu í samræmi við ákvæði laga um matvæli.

Kærandi telur að Matvælastofnun hafi ekki gætt meðalhófs þegar stofnunin tók ákvörðun um að stöðva markaðssetningu mjólkur og sláturgripa frá Efri-Brunná. Tilgangur eftirlits samkvæmt ákvæðum laga um matvæli er eins og kemur fram í tilgangi laganna að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla. Í gögnum málsins liggur fyrir að eftirlit hafði ekki farið fram að Efri-Brunná í þrjú ár. Þá hafi skráningu í hjarðbók verið ábótavant. Með því að synja Matvælastofnun um aðgang til eftirlits að Efri-Brunná, kom kærandi í veg fyrir að Matvælastofnun gæti sannreynt að gæði, öryggi og hollusta matvæla væri í lagi á búinu.

Ákvörðun um stöðvun markaðssetningar mjólkur og sláturgripa

Við meðferð mála skv. 30. gr. laga um matvæli er Matvælastofnun skylt að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga og öðrum reglum stjórnsýsluréttar sbr. 30. gr. d. laga um matvæli. Kærandi telur að ákvörðun sín um að synja starfsmönnum Matvælastofnunar um aðgang til eftirlits hafi ekki réttlætt ákvörðun stofnunarinnar að svipta kæranda leyfi til markaðssetningar mjólkur eða sláturgripa frá búinu. Kærandi hafi ekki gerst brotleg við ákvæði laga um matvæli og því hafi ekki verið tilefni til að stöðva markaðssetningu matvæla af búinu. Þá bendir kærandi á að afurðir af búinu hafi ekki verið mengaðar eða heilsuspillandi og því hafi engin hætta stafað af afurðum búsins fyrir neytendur.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga ber Matvælastofnun að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Ákvörðun Matvælastofnunar dags. 10. október 2013 felur í sér bráðabirgðaráðstöfun þar sem stofnuninni var synjað um aðgang til eftirlits skv. 30. gr. b laga um matvæli sbr. 24. gr. sömu laga. Ákvörðun Matvælastofnunar skv. 3. mgr. 30. gr. laga um matvæli fól þannig í sér varúðar- og öryggisráðstöfun þar til unnt væri að framkvæma eftirlit að Efri-Brunná. Þegar beitt er bráðabirgðaráðstöfun er um að ræða ákvörðun sem taka þarf skjótt og þrátt fyrir að rannsóknarskylda hvíli á Matvælastofnun er hlutverk stofnunarinnar einnig að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla. Eftir að ákvörðun til bráðabirgða um stöðvun markaðssetningar mjólkur og sláturgripa frá Efri-Brunná var tekin gætti Matvælastofnun að ákvæðum stjórnsýslulaga, þ.e. veitti kæranda andmælarétt og tók tillit til athugasemda kæranda sem leiddi til þess að með ákvörðun dags. 16. október 2013 aflétti stofnunin stöðvun á markaðssetningu á mjólk og sláturgripa frá Efri-Brunná. Ráðuneytið telur að þegar aðstæður eru með þeim hætti að taka þarf ákvörðun til bráðabirgða þá skuli gætt að skilyrðum 10. gr. stjórnsýslulaga eins og kostur er. Ráðuneytið telur með vísan til framangreinds að Matvælastofnun hafi ekki brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga, enda sé mælt fyrir um það í lögum að kæranda sé skylt að veita aðgang til eftirlits sbr. 24. gr. laga um matvæli. Hafi kærandi því ekki sinnt skyldu sinni skv. 24. gr. laga um matvæli. Með ákvörðun kæranda að neita Matvælastofnun um aðgang til eftirlits braut kærandi gegn ákvæði laga um matvæli. Þá hafi legið fyrir vanskráning í hjarðbók og afurðaraukning frá búinu sem ekki var unnt að staðfesta í hverju fælist, þar sem eftirlit gat ekki farið fram og því gat stofnunin ekki sannreynt hvort tryggð væru gæði, öryggi og hollusta afurða frá Efri-Brunná.

Kærandi kveðst ekki hafa gerst brotleg við ákvæði laga nr. 93/1995 um matvæli og þar af leiðandi hafi starfsmenn Matvælastofnunar ekki gætt hófs við málsmeðferðina. Í 12. gr. stjórnsýslulaga segir „Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“ Matvælastofnun er þar af leiðandi skylt að gæta hófs í meðferð valds síns og ber einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda kæranda. Ber Matvælastofnun að fara ákveðinn meðalveg milli þessara andstæðu sjónarmiða. Ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva markaðssetningu mjólkur og sláturgripa frá Efri- Brunná bar þar af leiðandi að þjóna því lögmæta markmiði að koma í veg fyrir að mögulega yrðu markaðssettar afurðir sem ekki væru framleiddar í samræmi við ákvæði laga um matvæli. Með vísan til framangreinds, þess að kæranda var veitt svigrúm til að heimila eftirlit að Efri-Brunná þann 9. október 2013 og að ákvörðun Matvælastofnunar fól í sér bráðabirgðaráðstöfun þar til unnt var að framkvæma eftirlit skv. 24. gr. laga um matvæli, telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi ekki brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga. Matvælastofnun felldi bráðabirgðaákvörðun sína frá 10. október 2013 úr gildi þegar eftirlit hafði farið fram að Efri-Brunná með ákvörðun dags. 16. október 2013 enda byggði sú ákvörðun á að tryggt væri að gæði, öryggi og hollusta afurða sem og merkingar þeirra væru réttar og fullnægjandi.

Almenn hegningarlög, stjórnarskrá og kröfur til háttsemi starfsmanna ríkisins

Kærandi vísar til þess í kæru að henni hafi verið leiðbeint um að ef ekki væri unnt að framkvæma eftirlit að Efri-Brunná gæti það leitt til þess að hún yrði svipt leyfi til sölu mjólkur og sláturgripa þrátt fyrir að aldrei hafi fundist heilsuspillandi efni í mjólk frá búinu. Telur kærandi að með vísan til 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skuli hver sá sem borin er sökum um refsiverða háttsemi talin saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Ekki verður fallist á þá málsástæðu kæranda að ákvörðun Matvælastofnunar hafi brotið gegn ákvæði 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um réttindi sakborninga til að teljast saklausir af refsiverðri háttsemi uns sekt þeirra er sönnuð fyrir dómi, enda snýr ákvæðið að því þegar ákæruvaldi ber að sanna sekt manna og ekki verði krafist að hann sýni sjálfur fram á sakleysi sitt í sakamáli. Samkvæmt framangreindu stjórnarskrárákvæði kveða eingöngu dómstólar upp úr um það hvort maður hafi gerst sekur um refsivert brot.

Kærandi lýsir því í kæru að starfsmenn Matvælastofnunar hafi hótað kæranda að hún yrði svipt leyfi til sölu mjólkur og afurða ef Matvælastofnun gæti ekki framkvæmt eftirlit á búinu. Kærandi telur að slíkar þvingunaraðgerðir af hálfu starfsmanna Matvælastofnunar hafi falið í sér brot gegn 134. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í úrskurði þessum verður að telja að sú skoðun kæranda að um brot gegn 134. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hafi ekki sérstaka þýðingu við úrlausn þessa máls hvort um hegningarlagabrot er að ræða, enda verður eingöngu úr því skorið með rannsókn lögreglu og eftir atvikum niðurstöðu dómstóla.

Kærandi telur að athugasemd Matvælastofnunar að sést hafi til mannaferða á búinu þann 9. október 2013, þ.e. afleysingarmanns, sem ekki var starfsmaður búsins heldur sinnti afmörkuðum og tímabundnum verkefnum á búinu, hafi falið í sér brot gegn friðhelgi einkalífs kæranda. Eins og áður hefur verið rakið er kærandi matvælafyrirtæki í skilningi laga nr. 93/1993 um matvæli og bundin þeim skyldum sem þar eru lagðar á framleiðendur matvæla, eins og að heimila eftirlit að þeim stöðum þar sem framleiðsla fer fram sbr. 24. gr. laga um matvæli. Af gögnum málsins verður ekki séð að krafist hafi verið eftirlits nema á þeim stöðum sem framleiðsla matvæla fer fram. Ráðuneytið telur því að 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands hafi ekki verið brotin þegar starfsmenn Matvælastofnunar komu til eftirlits að Efri-Brunná.

Þá telur kærandi að starfsmenn Matvælastofnunar hafi ekki gætt að skilyrðum um kröfur til háttsemi starfsmanna ríkisins sem birtar voru af hálfu Fjármálaráðuneytisins árið 1999. Um skyldur starfsmanna ríkisins gilda ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ekki verður séð af gögnum málsins að starfsmenn Matvælastofnunar hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt ákvæðum laganna við meðferð málsins né benda gögn málsins til þess að háttsemi starfsmannanna hafi verið í andstöðu við Kröfur til háttsemi starfsmanna ríkisins sem birtar voru í Nefndaráliti um ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna ríkisstofnana sem Fjármálaráðuneytið birti árið 2000. Ráðuneytið telur með vísan til gagna málsins að starfsmenn Matvælastofnunar hafi þess í stað leiðbeint kæranda um réttindi og skyldur í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og ákvæði laga um matvæli.

Með tilliti til framangreinds er bráðabirgðaákvörðun Matvælastofnunar dags. 10. október 2013, um að stöðva markaðssetningur mjólkur og sláturgripa frá Efri-Brunná staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Matvælastofnunar dags. 10. október 2013, um að stöðva markaðssetningu mjólkur og sláturgripa frá Efri-Brunná er staðfest.


Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 

                                              Ólafur Friðriksson                               Rebekka Hilmarsdóttir

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum