Hoppa yfir valmynd
23. mars 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 61/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 61/2016

Miðvikudaginn 23. mars 2016


Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 10. febrúar 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð er ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 21. janúar 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr., d-lið 2. mgr. 6. gr. og a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.


I. Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvik eru þau að 9. maí 2014 samþykkti umboðsmaður skuldara umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Með bréfi 8. september 2015 lagði skipaður umsjónarmaður til að Embætti umboðsmanns skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda á grundvelli 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem hann hefði stofnað til nýrra skulda á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls.

Við skoðun umboðsmanns skuldara á málinu hefði nánar tiltekið komið í ljós að kærandi gekkst í nýjar sjálfskuldarábyrgðir á tímabilinu. Þá þótti umboðsmanni ákveðin atriði benda til þess að fjárhagur kæranda teldist óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og að hann hefði brotið gegn d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem einkahlutafélög, sem hann væri í forsvari fyrir, væru í vanskilum með vörsluskatta. Þá væri til skoðunar hvort kærandi hefði brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki fé til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Einnig hefði kærandi látið hjá líða að standa í skilum með þing- og sveitarsjóðsgjöld á árinu 2015. Þá hefði fallið á hann gjald vegna óskoðaðs ökutækis, en með því gæti hann hafa stofnað til enn frekari skulda í greiðsluskjólinu samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 12. nóvember 2015 var kæranda gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild til greiðsluaðlögunar. Kærandi svaraði með tölvupósti 1. desember 2015 og lagði fram gögn.

Í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara segir að samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærandi hafi ekki lagt fram ársreikninga félaga sem hann sé í forsvari fyrir og telji embættið þannig að hann hafi hvorki gert næga grein fyrir eignum sínum né tekjum. Embættið meti það því svo að fjárhagur kæranda sé óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Í ljós hafi komið að félög sem kærandi sé í forsvari fyrir skuldi opinber gjöld þar á meðal vörsluskatta, þ.e. virðisaukaskatt og staðgreiðslu launagreiðanda, en það geti varðað kæranda refsingu eða skaðabótaskyldu. Þegar skoðað sé hvort ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við skuli kanna sérstaklega hvort skuldir sem falli undir ákvæðið nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Þar sé litið heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og útgjöld skuldara. Samkvæmt gögnum málsins sé eignastaða kæranda neikvæð að teknu tilliti til ábyrgðarskuldbindinga. Vörsluskattaskuldir ofangreindra félaga nemi 5,9% af heildarskuldum kæranda að ábyrgðarskuldbindingum meðtöldum. Þessar skuldir falli ekki innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Embættið telji samkvæmt þessu að hafna beri greiðsluaðlögun kæranda á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Þá séu í 12. gr. lge. tilgreindar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun á meðan frestun greiðslna standi yfir. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. komi fram að á meðan greiðsluaðlögunar sé leitað skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærandi kveði framfærslukostnað sinn hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Hann hafi þó ekki veitt umboðsmanni skuldara umbeðnar upplýsingar um aukinn framfærslukostnað sinn eða sparnað. Gera verði ráð fyrir að skuldari sem standi í greiðsluaðlögunarumleitunum haldi að sér höndum að því er varði útgjöld sem ekki teljist nauðsynleg á tímabilinu. Þar sem kærandi hafi ekki stutt fullyrðingar sínar gögnum eða öðrum upplýsingum verði að telja að hann hafi brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hafi skuldari ekki heimild til að stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna á meðan greiðsluaðlögunar sé leitað nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Komið hafi í ljós að kærandi hafi stofnað til nýrra skuldbindinga á tímabili greiðsluskjóls. Hann hafi tekist á hendur nýjar ábyrgðarskuldbindingar fyrir tiltekna lögaðila og einnig hafi fallið á hann gjald vegna óskoðaðs ökutækis, auk þing- og sveitarsjóðsgjalda. Þrátt fyrir mótmæli kæranda telji umboðsmaður að allar þessar skuldbindingar teljist til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls þar sem þær hafi ekki verið kæranda nauðsynlegar til að sjá honum og fjölskyldu hans farborða.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi því ekki verið komist hjá því að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar.

Þann 10. febrúar 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra vegna málsins. Kærð er niðurfelling á greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda. Að mati kæranda sé aðalástæða þess að greiðsluaðlögunarumleitanir hans hafi verið felldar niður sú að félög sem honum tengist séu í vanskilum með opinber gjöld. Kærandi hafi aðeins óskað greiðsluaðlögunar til að leiðrétta fasteignalán sem hvíli á íbúð hans. Hann kveðst hafa skilað ársreikningum þeirra félaga sem um ræði gagnstætt því sem umboðsmaður skuldara haldi fram. Þá kveður kærandi rangt að hann hafi stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls þótt hann sé í ábyrgðum fyrir félög sem tengist honum. Þetta sé hluti af því að reka fyrirtæki og þar af leiðandi nauðsynlegt fyrir afkomu hans. Hvað sparnað í greiðsluskjóli varði telur kærandi sig fullfæran um að standa skil á því sem hann hafi átt að leggja til hliðar. Kærandi álítur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara óraunveruleg. Hann gerir einnig athugasemdir við vinnubrögð umboðsmanns skuldara.

Samkvæmt gögnum málsins sendi umboðsmaður skuldara ákvörðun sína með tölvupósti til kæranda 21. janúar 2016. Ákvörðunin var einnig send kæranda í ábyrgðarpósti og tók hann á móti henni 25. janúar 2016. Í bréfi umboðsmanns skuldara sem fylgdi ákvörðun embættisins kom fram að kærufrestur væri tvær vikur frá móttöku ákvörðunar. Með bréfi 12. febrúar 2016 óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvers vegna kæra barst að liðnum kærufresti. Svar kæranda barst 25. febrúar 2015 og var á þá leið að kærufrestur hafi verið til 5. febrúar 2016. Það hljóti að standa og verði úrskurðarnefndin að taka mál hans fyrir.

 

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. skal stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana berast úrskurðarnefnd velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun barst skuldara. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Kæra kæranda, sem dagsett er 4. febrúar [2016] barst úrskurðarnefndinni 10. febrúar 2016. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar barst kæranda með tvennum hætti. Annars vegar var hún send kæranda með tölvupósti 21. janúar 2016. Var þar sérstaklega tekið fram að kærufrestur væri tvær vikur frá móttöku ákvörðunar. Kærufrestur hæfist 22. febrúar 2016 og honum lyki samkvæmt því 5. febrúar 2016. Hins vegar fékk kærandi ákvörðun umboðsmanns skuldara afhenta með ábyrgðarbréfi 25. janúar 2016. Samkvæmt því var kærufrestur til 8. febrúar 2016. Hvort sem miðað er við fyrra eða síðara tímamark barst kæran ótvírætt að liðnum kærufresti eða 10. febrúar 2016.

Engar skýringar hafa komið fram af hálfu kæranda og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


ÚRSKURÐARORÐ

Kæru A, á ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhidur Líndal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum