Hoppa yfir valmynd
9. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 214/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 214/2016

Föstudaginn 9. september 2016

A

gegn

Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. júní 2016, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu, dags. 27. maí 2016, um synjun á umsókn hans um styrk til að greiða fyrir herbergi á gistiheimili.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu frá mars 2016. Með umsókn, dags. 23. maí 2016, sótti kærandi um styrk frá sveitarfélaginu til að greiða fyrir herbergi á gistiheimili með vísan til þess að hann byggi við mjög sérstakar og bágar aðstæður. Með bréfi félagsþjónustu sveitarfélagsins, dags. 27. maí 2016, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að umbeðin aðstoð væri ekki í samræmi við reglur um fjárhagsaðstoð.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 10. júní 2016. Með bréfi, dags. 13. júní 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð sveitarfélagsins þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð barst með bréfi, dags. 23. júní 2016, og með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. júlí 2016, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi sótt um styrk til að greiða fyrir herbergi á gistiheimili vegna sérstakra aðstæðna hans. Hann eigi ekki í nein hús að venda og honum hafi ekki tekist að finna leiguhúsnæði. Kærandi tekur fram að hann hafi verið virkur í atvinnuleit en ekki fengið neitt starf.

III. Sjónarmið Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu

Í greinargerð Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu frá því í mars 2016 vegna sérstakra aðstæðna hans. Fjárhagsaðstoðin hafi að mestu farið í að greiða fyrir herbergi á gistiheimili þar sem hann hafi ekki haft í önnur hús að venda. Í byrjun maí hafi verið samþykkt að greiða fyrir dvöl kæranda á gistiheimili til 31. maí 2016. Á fundi félagsmálanefndar þann 23. maí 2016 hafi umsókn kæranda um greiðslu fyrir áframhaldandi dvöl á gistiheimili verið tekin fyrir og synjað á þeirri forsendu að hún samræmdist ekki reglum sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Kærandi hafi fengið þá fjárhagsaðstoð til framfærslu sem hann eigi vissulega rétt á en að mati félagsmálanefndar væru ekki forsendur til að veita fjárhagslega aðstoð umfram það.

Sveitarfélagið bendir á að kæranda hafi verið leiðbeint eftir fremsta megni og að hann hafi fengið aðstoð við ýmislegt, meðal annars atvinnuleit. Aðstæður kæranda séu mjög slæmar og starfsmenn félagsþjónustunnar hafi verið boðnir og búnir að aðstoða hann við að bæta aðstæður sínar og aðbúnað.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk til að greiða fyrir herbergi á gistiheimili.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu frá mars 2016 og ljóst að hann býr við sérstakar aðstæður. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi ekki fundið leiguhúsnæði og því hafi hann dvalið á gistiheimili. Samkvæmt því felst húsnæðiskostnaður kæranda í greiðslu fyrir dvöl á gistiheimili og er sá kostnaður því að mati úrskurðarnefndarinnar, í ljósi aðstæðna hans, ígildi húsaleigu.  

Í 28. gr. reglna Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu um fjárhagsaðstoð er kveðið á um aðstoð vegna sérstakra fjárhagserfiðleika. Þar kemur fram í 1. mgr. að heimilt sé að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna sérstakra fjárhagserfiðleika til greiðslu á húsaleigu, rafmagni eða hita að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

a) staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana.

b) fyrir liggi yfirlit starfsmanns Félagsþjónustunnar eða Umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögu að úrbótum þegar við á.

c) fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni bæta fjárhagsstöðu umsækjanda þegar til lengri tíma er litið.

d) fyrir liggi samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf þegar það á við.

Í 2. mgr. 28. gr. reglnanna segir að styrkur komi einungis til álita hafi umsækjandi haft tekjur undir eða jafnar grunnfjárhæð undanfarandi sex mánuði eða lengur. Þá kemur fram í 3. mgr. 28. gr. að lán skuli ekki veitt ef ljóst sé að umsækjandi muni ekki geta staðið undir afborgunum af því.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki séð að sveitarfélagið hafi lagt mat á hvort kærandi uppfyllti skilyrði 28. gr. framangreindra reglna um fjárhagsaðstoð. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið upplýst nægjanlega, sbr. 10.  gr. stjórnsýslulaga, og að ekki verði úr þeim annmarka bætt af hálfu nefndarinnar. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu, dags. 27. maí 2016, um synjun á umsókn A um styrk til að greiða fyrir herbergi á gistiheimili er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum