Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 185/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 185/2016

Fimmtudaginn 11. ágúst 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. maí 2016, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurbogar, dags. 4. maí 2016, á beiðni hans um undanþágu frá búsetureglu og tekjuviðmiði vegna umsóknar um sérstakar húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 11. mars 2016. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 16. mars 2016, með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði b-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Með bréfi, dags. 6. apríl 2016, óskaði kærandi eftir undanþágu frá framangreindu skilyrði en var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 19. apríl 2016, á þeirri forsendu að skilyrði 5. gr. reglnanna um undanþágu væri ekki uppfyllt. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 4. maí 2016 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. maí 2016. Með bréfi, dags. 23. maí 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 4. júlí 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. júlí 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann óski eftir að fá greiddar sérstakar húsaleigubætur frá Reykjavíkurborg.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Vísað er til þess að á grundvelli 45. og 46. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga hafi Reykjavíkurborg sett sér reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Í b-lið 4. gr. reglnanna komi fram að umsækjandi skuli eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt sé um og að minnsta kosti síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn hafi borist. Í c-lið 4. gr. reglnanna sé kveðið á um tekju- og eignamörk og séu eignamörkin 4.675.115 krónur og tekjumörkin 3.352.765 krónur miðað við einhleyping. Tekjumörk séu miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Kærandi hafi búið utan Reykjavíkur í eitt og hálft ár undanfarin þrjú ár og uppfylli því ekki skilyrði b-liðar 4. gr. reglnanna. Þá hafi tekjur kæranda verið 4.095.707 krónur að meðaltali síðastliðin þrjú ár og uppfylli kærandi því ekki tekjumörk c-liðar 4. gr. reglnanna.

Í 5. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sé kveðið á um undanþágu frá skilyrðum 4. gr. reglnanna. Þar komi fram að heimilt sé að veita undanþágu ef umsækjandi hafi búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Einnig sé heimilt að veita undanþágu ef umsækjandi sé samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum. Ákvæðið sé heimildarákvæði og því ekki skylt að veita undanþágu. Þá beri í samræmi við viðteknar lögskýringarreglu að skýra slíkar undanþágur þröngt.

Reykjavíkurborg tekur fram að kærandi hafi búið stóran hluta ævi sinnar í Reykjavík en í B að hluta til síðustu þrjú árin áður en umsókn hans barst. Ekkert sé fram komið sem bendi til þess að kærandi hafi þurft að flytja tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Þá hafi félagslegur vandi kæranda eingöngu verið metinn til tveggja stiga hjá þjónustumiðstöð og ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til að líta svo á að kærandi búi við verulega félagslega erfiðleika. Það hafi því verið mat velferðarráðs að aðstæður kæranda væru ekki með þeim hætti að veita bæri undanþágu frá skilyrðum 4. gr. framangreindra reglna. Þá hafi einnig verið litið til þess að tekjur kæranda hafi verið 20% yfir tekjumörkum c-liðar 4. gr. reglnanna og ekkert sem bendi til þess að tekjur hans fari lækkandi.  

Með hliðsjón af öllu framansögðu sé ljóst að ákvörðun velferðarráðs hafi hvorki brotið gegn ákvæðum laga nr. 40/1991 né reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Velferðarráði beri að fara að þeim reglum sem í gildi séu varðandi félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur auk þess að gæta að jafnræði í afgreiðslu á erindum íbúa borgarinnar.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja beiðni kæranda um undanþágu frá búsetureglu b-liðar 4. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur og tekjuviðmiði c-liðar 4. gr., sbr. 5. gr. sömu reglna. Umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur var synjað á þeirri forsendu að skilyrði b- og c-liðar 4. gr. framangreindra reglna væru ekki uppfyllt.  Þá taldi Reykjavíkurborg að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði undanþáguákvæðis 5. gr. reglnanna.

Í 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík kemur fram að sérstakar húsaleigubætur séu ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins. Í b-lið 4. gr. reglnanna er gert að skilyrði að umsækjandi eigi lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og að minnsta kosti þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst. Samkvæmt gögnum málsins átti kærandi ekki lögheimili í Reykjavík síðustu þrjú ár samfleytt áður en umsókn hans barst Reykjavíkurborg. Í c-lið 4. gr. reglnanna er kveðið á um tekju- og eignamörk og eru tekjumörk fyrir einhleyping 3.352.765 kr. á ári. Tekjumörk eru miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Samkvæmt gögnum málsins voru meðaltekjur kæranda síðastliðin þrjú ár yfir tekjumörkum c-liðar 1. mgr. 4. gr. reglnanna, eða 4.095.707 kr.

Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþágur frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og tekjuviðmið. Á grundvelli a-liðar 5. gr. reglnanna er heimilt að veita undanþágu frá lögheimili hafi umsækjandi búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Kærandi bjó í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en ekki verður séð að kærandi hafi flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Þá er á grundvelli b-liðar 1. mgr. 5. gr. reglnanna heimilt að veita undanþágu frá skilyrði 4. gr. um lögheimili og/eða tekjuviðmið sé umsækjandi samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. lið 5 c í matsviðmiði sem fylgir reglunum. Í þeim lið er ekki að finna neinar vísbendingar um hvað teljist til mjög mikilla félagslegra erfiðleika. Félagslegar aðstæður kæranda voru metnar til tveggja stiga, sem er nokkur félagslegur vandi, sbr. lið 5 c í framangreindu matsviðmiði. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að ekkert hafi fram komið í málinu sem gefi tilefni til að líta svo á að kærandi búi við verulega félagslega erfiðleika. Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að aðstæður kæranda leiði ekki til þess að honum verði veitt undanþága frá b- og c-lið 4. gr. reglna um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 4. maí 2016, um synjun á beiðni A um undanþágu frá búsetureglu og tekjuviðmiði vegna umsóknar um sérstakar húsaleigubætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum