Hoppa yfir valmynd
24. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 35/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 35/2016

Föstudaginn 24. júní 2016

A

gegn

Vestmannaeyjabæ


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. janúar 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála framkvæmd Vestmannaeyjabæjar á heimaþjónustu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. janúar 2016 þar sem fram kemur að hún sé ósátt við heimaþjónustu Vestmannaeyjabæjar. Með tölvupósti starfsmanns úrskurðarnefndar velferðarmála þann 25. janúar og 1. mars 2016 var óskað eftir afriti af hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. maí 2016, var á ný óskað eftir afriti af hinni kærðu ákvörðun. Kærandi upplýsti í símtali til nefndarinnar þann 11. maí 2016 að ekki lægi fyrir formlega ákvörðun frá sveitarfélaginu.

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga getur málsaðili skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf því að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ákvarðanir sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, svokallaðar formákvarðanir, verða því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

Kærandi hefur gert athugasemdir við framkvæmd sveitarfélagsins á heimaþjónustu. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að tekin hafi verið kæranleg stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum