Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 68/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 68/2015

Fimmtudaginn 14. apríl 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. desember 2015, kærir B, f.h. A til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, synjun Reykjavíkurborgar, dags. 25. nóvember 2015, á umsókn hennar um styrk að fjárhæð 160.062 kr. á grundvelli a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 11. nóvember 2015, sótti kærandi um styrk hjá Reykjavíkurborg að fjárhæð 160.062 kr. Þótt það liggi ekki skýrt fyrir í umsókn virðast aðilar hafa gengið út frá því að sótt hafi verið um fjárhagsaðstoð á grundvelli a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, nánar tiltekið um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 12. nóvember 2015, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 25. nóvember 2015 og staðfesti synjunina á þeirri forsendu að aðstæður kæranda féllu ekki að skilyrðum 27. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála þann 17. desember 2015. Með bréfi, dags. 29. desember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 20. janúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 21. janúar 2015, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Með bréfi, dags. 31. mars 2016, bárust viðbótarupplýsingar frá Reykjavíkurborg og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. apríl 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæruna þannig að þess sé krafist að synjun Reykjavíkurborgar um styrk að fjárhæð 160.062 kr. verði felld úr gildi. Ekki er að finna sérstakan rökstuðning í kæru.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að í a-lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að heimilt sé að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið sé að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miði að því að viðhalda árangri sem hafi náðst með stuðningsvinnu. Skilyrði sé að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum.

Byggt er á því af hálfu Reykjavíkurborgar að ákvæði 27. gr. reglnanna sé heimildarákvæði sem beri að nota í undantekningartilfellum. Þau viðmið hafi mótast varðandi a-lið 27. gr. reglnanna að aðstoð skuli veita þegar verið sé að vinna markvissa stuðningsvinnu með einstaklingi. Í þeim tilvikum beri að líta til þeirrar vinnu sem verið hafi í málum umsækjanda undanfarin ár og sé tilgangur aðstoðarinnar að koma fólki úr bráðum vanda og koma í veg fyrir að sá árangur, sem hafi náðst í vinnu með málefni umsækjanda, glatist.

Vísað er til þess að í greinargerð frá félagsráðgjafa þjónustumiðstöðvar komi fram að kærandi hafi notið fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg frá árinu 2010 þar til hún hafi flutt á hjúkrunarheimili árið 2015. Fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg falli niður er einstaklingar dvelji til lengri tíma á sjúkrastofnun, enda sé þá kostnaður vegna uppihalds ekki lengur til staðar þar sem sjúkrastofnanir sjái viðkomandi fyrir húsaskjóli og uppihaldi. Sú aðstoð sem kærandi hafi fengið frá þjónustumiðstöð frá komu hennar til Íslands hafi aðallega verið fjárhagsleg aðstoð. Hvorki sé unnt að líta svo á að verið sé að veita markvissa stuðningsvinnu í máli kæranda né að styrkurinn sé til þess fallinn að koma kæranda úr bráðum vanda eða koma í veg fyrir að árangur kæranda glatist. Reykjavíkurborg upplýsir að kærandi sé með dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar en til að fá slíkt leyfi þurfi að uppfylla öll grunnskilyrði dvalarleyfis sem fram komi í 11. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga ásamt sérskilyrðum 13. gr. laganna, þ.á m. að framfærsla sé trygg.

Með hliðsjón af framansögðu hafi það verið mat velferðarráðs að skilyrði 27. gr. reglnanna væru ekki uppfyllt og því hafi synjun um styrk verið staðfest.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk að fjárhæð 160.062 kr. á grundvelli a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna. Samkvæmt a-lið 27. gr. er heimilt að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið er að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miðar að því að viðhalda árangri sem náðst hefur með stuðningsvinnu. Skilyrði er að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum.

Umsókn kæranda var synjað á grundvelli þess að aðstæður hennar hafi ekki fallið að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 27. gr. framangreindra reglna. Við meðferð kærumáls þessa hefur komið fram af hálfu Reykjavíkurborgar að ekki sé unnt að líta svo á að verið sé að veita markvissa stuðningsvinnu í máli kæranda. Sú aðstoð sem hún hafi fengið frá þjónustumiðstöð hafi aðallega verið fjárhagsleg aðstoð en kærandi dvelji nú á hjúkrunarheimili og því hafi fjárhagsaðstoðin fallið niður. Þá kemur fram að styrkurinn sé hvorki til þess fallinn að koma kæranda úr bráðum vanda né koma í veg fyrir að árangur kæranda glatist.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi notið fjárhagsaðstoðar til framfærslu frá Reykjavíkurborg frá árinu 2010 til 2015, eða þar til hún flutti á hjúkrunarheimili. Þó hefur kærandi fengið styrk að fjárhæð 15.399 kr. vegna tannlækninga í mars 2015 og styrk að fjárhæð 53.354 kr. á grundvelli 27. gr. framangreindra reglna í maí 2015. A.m.k. síðarnefndi styrkurinn var veittur eftir að kærandi fór á hjúkrunarheimili. Auk þess bera gögn málsins með sér að kærandi hafi jafnframt tvisvar sinnum fengið lán til framfærslu, sbr. 25. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð, 53.354 kr. í hvort skipti í júní og júlí 2015.

Reykjavíkurborg byggir á því að ákvæði 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé heimildarákvæði sem nota beri í undantekingartilfellum. Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að benda á að jafnvel þótt í ákvæðinu sé kveðið á um heimild til að veita aðstoð, en ekki skyldu, er Reykjavíkurborg bundin af jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1993, en samkvæmt henni skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þegar stjórnvald hefur byggt ákvörðun á tilteknum sjónarmiðum og lagt áherslu á ákveðin sjónarmið leiðir jafnræðisreglan almennt til þess að þegar sambærilegt mál kemur aftur til úrlausnar ber almennt að leysa úr því á grundvelli sömu sjónarmiða og með sömu áherslu og gert var við úrlausn hinna eldri mála.

Úrskurðarnefndin telur að í máli þessu liggi ekki fyrir með nægjanlega skýrum hætti hvernig Reykjavíkurborg lagði mat á aðstæður kæranda. Hefur þannig ekkert komið fram um á hvaða grundvelli kæranda var veittur styrkur í maí 2015 og að hvaða leyti aðstæður hennar eru nú frábrugðnar því sem þá var.

Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að mál þetta hafi ekki verið upplýst nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að ekki verði úr þeim annmarka bætt af hálfu úrskurðarnefndarinnar. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á umsókn A um styrk að fjárhæð 160.062 kr. á grundvelli a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum