Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 62/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 62/2015

Fimmtudaginn 14. apríl 2016

A

gegn

Fjarðabyggð


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Margrét Gunnlaugsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 27. október 2015, kærir A til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, synjun Fjarðabyggðar á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi leitaði til Fjarðabyggðar þann 20. júlí 2015 og óskaði eftir upplýsingum um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu.  Kærandi upplýsti í erindi sínu að hún hafi verið óvinnufær og að sjúkradagpeningar hafi ekki dugað henni til framfærslu í námi. Í svari Fjarðarbyggðar sama dag var kæranda tjáð að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu næmi 148.406 kr. á mánuði en tekjur umfram þá fjárhæð myndu skerða fjárhagsaðstoðina. Þá var kæranda tjáð að hún ætti mögulega rétt á skólastyrk þar sem hún væri námsmaður en það væri þó háð fjárhags- og félagslegri stöðu hennar. Fram kom í svarinu að erindi kæranda yrði framsent á ráðgjafa. Þann 24. júlí 2015 hafði ráðgjafi samband við kæranda og benti henni á að sækja um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu og leiðbeindi um hvar eyðublöð vegna umsóknar um fjárhagsaðstoð væri að finna.

Með umsókn, dags. 18. ágúst 2015, sótti kærandi um námsstyrk hjá Fjarðabyggð. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun félagsþjónustusviðs, dags. 19. október 2015, með þeim rökum að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 21. gr. reglna Fjarðabyggðar um fjárhagsaðstoð. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 27. október 2015. Með bréfi, dags. 29. október 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fjarðabyggðar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Fjarðabyggðar barst með bréfi, dags. 19. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. nóvember 2015, var bréf Fjarðabyggðar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 10. desember 2015 og voru þær sendar Fjarðabyggð til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. desember 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi óskar eftir endurskoðun á synjun Fjarðabyggðar vegna umsóknar hennar um námsstyrk. Kærandi greinir frá því að hún hafi óskað eftir námsstyrk þar sem hún væri óvinnufær vegna veikinda. Hún sé í fullu námi og þurfi að greiða fyrir húsnæði og eldsneyti þar sem hún stundi nám fjarri heimabyggð. Kærandi kveðst fá aðstoð frá foreldrum sínum en hún vilji ekki vera háð þeim.

Kærandi bendir á að hún hafi ekki verið upplýst um að hún þyrfti að skila inn umsókn um námsstyrk tveimur mánuðum áður en námið hæfist. Í hennar skóla sé spannarkerfi og því hefði hún sótt um námsstyrk fyrir seinni spönnina, sem hafi byrjað í október 2015, hefði hún haft vitneskju um þá reglu. Kærandi gerir athugasemdir við vinnubrögð starfsmanna sveitarfélagsins og telur að henni hafi verið ranglega leiðbeint að sækja um námsstyrk en ekki fjárhagsaðstoð.

III. Sjónarmið Fjarðabyggðar

Í greinargerð Fjarðabyggðar eru rakin samskipti kæranda og starfsmanna sveitarfélagsins. Með tölvupósti 24. júlí 2015 hafi ráðgjafi leiðbeint kæranda að sækja um fjárhagsaðstoð og henni boðið að hafa samband símleiðis ef eitthvað væri óljóst. Kærandi hafi lagt inn umsókn um námsstyrk í byrjun september 2015 en þeirri umsókn hafi verið hafnað með vísan til 21. gr. reglna Fjarðabyggðar um fjárhagsaðstoð. Þar komi fram að leggja þurfi inn umsókn tveimur mánuðum áður en nám hefjist en nám kæranda hafi hafist þann 24. ágúst 2015.  

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Fjarðabyggð hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um námsstyrk.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 21. gr. reglna Fjarðabyggðar kemur meðal annars fram að heimilt sé að veita námsstyrki til einstaklinga/einstæðra foreldra sem hafi átt í miklum félagslegum og fjárhagslegum erfiðleikum og hafi ekki lokið grunnskóla eða framhaldsskóla. Aðstoðin skuli vera liður í umfangsmeiri vinnu starfsmanna félagsþjónustu sem miði meðal annars að því að gera viðkomandi kleift að lifa efnahagslega sjálfstæðu lífi. Þá kemur fram að leggja þurfi inn umsókn tveimur mánuðum áður en nám hefst og að gera skuli samning um félagslega ráðgjöf milli starfsmanns og námsmanns. Umsókn kæranda um námsstyrk var synjað á þeirri forsendu að hún hafi komið of seint fram.

Kærandi stundaði nám við B þegar hún lagði inn umsókn um námsstyrk hjá Fjarðabyggð. Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting á skólavist kæranda en þar kemur fram að haustönn 2015 hafi verið frá 24. ágúst til 18. desember 2015. Kærandi leitaði til fyrst sveitarfélagsins vegna aðstæðna sinna þann 20. júlí 2015 og skilaði inn umsókn um námsstyrk í byrjun september 2015. Framangreint skilyrði 21. gr. reglnanna um tímamörk var því ekki uppfyllt vegna skólavistar kæranda á haustönn 2015.

Kærandi hefur gert athugasemdir við vinnubrögð starfsmanna sveitarfélagsins og telur að henni hafi ekki verið leiðbeint með fullnægjandi hætti. Í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er sú skylda lögð á hendur stjórnvöldum að leiðbeina og aðstoða þá sem til þess leita um þau málefni sem eru á starfssviði þess. Stjórnvaldi ber að veita aðila þær leiðbeiningar sem honum eru nauðsynlegar svo að hann geti gætt hagsmuna sinna. Í gögnum málsins liggur ljóst fyrir að kæranda var þann 24. júlí 2015 greint frá því að hún gæti sótt um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu og leiðbeint um hvar eyðublöð vegna þeirrar umsóknar væri að finna. Kærandi lagði þó ekki inn umsókn til sveitarfélagsins fyrr en í byrjun september 2015 og þá vegna námsstyrks en ekki fjárhagsaðstoðar. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á málsástæðu kæranda að henni hafi verið leiðbeint með ófullnægjandi hætti. Úrskurðarnefndin telur þó að rétt hefði verið að upplýsa kæranda um framangreind tímamörk 21. gr. reglna Fjarðabyggðar um fjárhagsaðstoð í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Framangreindur annmarki hefur þó ekki áhrif á mál kæranda þar sem umræddur frestur til að sækja um styrkinn var þegar liðinn þegar kærandi leitaði upplýsinga um fjárstyrki hjá Fjarðabyggð.

Með vísan til þess að umsókn kæranda um námsstyrk barst eftir tilskilin tímamörk er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 21. gr. reglna Fjarðabyggðar um fjárhagsaðstoð vegna náms á haustönn 2015. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fjarðabyggðar um synjun á umsókn A er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum