Hoppa yfir valmynd
10. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 110/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 110/2016

Föstudaginn  10. júní 2016

A og B

gegn

barnaverndarnefnd C


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 9. mars 2016 kærði D hdl., f.h. A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð barnaverndarnefndar C vegna umgengni við son þeirra, E.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

E er fæddur árið X og lýtur forsjá barnaverndarnefndar C. Mál drengsins hefur verið í vinnslu hjá barnaverndarnefndinni frá X. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að upphaf málsins megi rekja til þess að kærendur lýstu sig vanfæra til að hafa drenginn á heimili þeirra vegna erfiðrar hegðunar hans. Drengurinn nýtur þjónustu sveitarfélagsins á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Kærendur óskuðu eftir því að að drengurinn yrði vistaður utan heimilis en að þau fengju reglulega umgengni við hann.

Drengurinn var vistaður í tímabundnu fóstri frá X hjá fósturfjölskyldu í F en 20. október 2015 óskuðu kærendur eftir því að barnaverndarnefnd C tæki við forsjá drengsins. Fram kemur í hinum kærða úrskurði að kærendur hafi afsalað sér forsjá drengsins sökum heilsubrests. Samningur um umgengni kærenda við drenginn var gerður til X. Samkvæmt honum var umgengni þannig háttað að hún skyldi vera vikulega á föstudögum eftir skóla í alls tíu nánar skilgreind skipti. Drengurinn var vistaður í varanlegu fóstri á vegum nefndarinnar hjá fósturfjölskyldu í sveitarfélaginu G frá X.

Tillaga að nýjum umgengnissamningi var kynnt kærendum á fundi 19. janúar 2016 og átti hann að gilda til loka marsmánaðar 2016. Í samningnum fólst að umgengni skyldi fara fram alla X á heimili kærenda frá lokum skóladags til kl. 16:00. Að auki máttu kærendur hringja í drenginn alla X kl. 18:00. Kærendur samþykktu ekki tillöguna.  

Barnaverndarnefnd C tók málið fyrir á fundi nefndarinnar 25. febrúar 2016 og var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

„Umgengni A og B, við barnið D, skal fara fram tvisvar í mánuði. Umgengnin fari fram á heimili kynforeldra frá lokum skóladags á X til kl. 16:00. Reynist nauðsynlegt að breyta tímasetningu umgengni þegar barnið hefur nám í grunnskóla utan sveitarfélagsins er lagt fyrir starfsmenn að ná samkomulagi þar um við kynforeldra.

Foreldrar skulu eiga kost á að ræða við barnið í síma vikulega.

Tvo daga á ári skulu foreldrar eiga rétt á umgengni við barnið í tengslum við [...] eða viðburði tengda fjölskyldunni. Skal þá umgengni vara í fjórar klukkustundir samfellt á milli kl. 10:00 – 20:00. Foreldrum ber að óska eftir slíkri umgengni með 10 vikna fyrirvara.“

II.  Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram að kærður sé úrskurður barnaverndarnefndar C frá 25. febrúar 2016. Þess er krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kveðið verði á um að umgengni kærenda við drenginn verði:

  1. Vikulega á X frá lokum skóladags til kl. 16:00

  2. Einu sinni í mánuði verði umgengni frá lokum skóladags á X til X. Kærendur sæki og skili drengnum í skóla.

  3. Staðfest verði niðurstaða hvað varði símatíma drengsins.

  4. Umgengni við kærendur á hátíðisdögum og á afmælisdögum fjölskyldumeðlima verði að hámarki fjórum sinnum á ári og kærendur tilkynni með fjögurra vikna fyrirvara hyggist þau nýta sér slíka umgengni.

Kærendur telja að við meðferð málsins fyrir barnavendarnefndinni hafi hvorki verið haft samband við drenginn né hafi honum verið skipaður talsmaður til að gæta réttinda hans. Hefði það verið skylt í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins og 41. gr. bvl. Þar sem drengurinn sé orðinn X ára gamall telja kærendur að sérstök ástæða hafi verið til þess að ræða tilhögun á umgengni við hann. Að mati kærenda leiði þetta til þess að ógilda beri hinn kærða úrskurð og að málinu skuli vísað að nýju til barnaverndarnefndar C til löglegrar meðferðar.

Þá telja kærendur að ekki hafi legið fyrir nægilega skýr afstaða fósturforeldra til umgengni. Engin gögn hafi legið fyrir um afstöðu þeirra til þess hvernig umgengni skuli háttað við kærendur, en það sé lagaskilyrði fyrir því að gengið sé frá samningum eða kveðinn upp úrskurður um umgengni, sbr. 74. gr. a barnaverndarlaga (bvl.). Virtist barnaverndarnefndin hafa litið framhjá lagaskyldu þessari. Það leiði jafnframt til þess að ógilda beri úrskurð nefndarinnar.

Kærendur telja, í ljósi þess hve mikla umgengni barnaverndarnefndin leggi til, að óvissa sé til staðar um hver verði með forsjá drengsins til frambúðar. Kærendur hafi fengið útgefið gjafsóknarleyfi til þess að höfða dómsmál gagnvart C til þess að fá forsjá að nýju. Sé því nauðsynlegt að viðhaldið sé góðum tengslum milli kærenda og drengsins. Það sé í samræmi við meðalhófsreglu bvl. að veita kærendum aukna umgengni miðað við það sem fram komi í hinum kærða úrskurði. Hagsmunir drengsins standi til þess að veruleg umgengni verði við kærendur á meðan á þessu óvissutímabili standi.

Kærendur telja jafnframt að meira svigrúm skuli vera til umgengni tengdri [...] kærenda og [...], auk afmæla og annarra hátíðisdaga í fjölskyldu þeirra.   

Kærendur krefjast þess að einungis verði tekið mið af sameiginlegum hagsmunum kærenda og barnsins. Nauðsynlegt hafi verið að rökstyðja betur niðurstöðu barnaverndaryfirvalda. Ekkert í málinu bendi til annars en að fella eigi úrskurðinn úr gildi og mögulega fela barnaverndarnefnd að taka málið aftur til meðferðar.

III.  Sjónarmið barnaverndarnefndar C

Í úrskurði barnaverndarnefndar C kemur fram að við endurskoðun á fyrri umgengnissamningi hefði legið fyrir að gera þyrfti breytingar á umgengni kærenda við drenginn. Fram kemur að umgengni kærenda við drenginn hafi gengið eftir í fjórum tilvikum af tíu. Því er enn fremur lýst að í fimm tilvikum hafi ekki orðið af umgengni af ástæðum sem vörðuðu annað hvort kærendur eða drenginn. Frá X hafi drengurinn farið í X í umgengni til kærenda, annars vegar X og hins vegar um X, en síðari umgengnin varði í sólarhring.

Tillaga að nýjum samningi hafi verið kynnt kærendum á fundi 19. janúar 2016. Í samningnum, sem gilda átti til loka marsmánaðar 2016, hafi falist að umgengni skyldi fara fram alla X á heimili kærenda frá lokum skóladags til kl. 16:00. Að auki hafi foreldrar mátt hringja í barnið alla X kl. 18:00. Kærendur hafi ekki samþykkt tillöguna.

Í hinum kærða úrskurði hafi verið ákveðin minni umgengni drengsins við kærendur í ljósi þess að meginviðfangsefni nefndarinnar væri að tryggja aðlögun drengsins í varanlegu fóstri. Drengurinn hafi verið í vistun hjá nýrri fósturfjölskyldu frá og með X.

Tillögur starfsmanna nefndarinnar um umgengni frá 19. janúar 2016, sem gilda áttu til loka marsmánaðar 2016, hafi  haft það að leiðarljósi að gera ekki breytingar á umgengni frá því sem áður hafi verið. Breytingar samfara því að skipta um fósturfjölskyldu geti verið erfiðar börnum almennt og þá sérstaklega fyrir börn með þroskahamlanir og á einhverfurófi. Til hafi staðið að umgengni yrði minni þegar fram liðu stundir. Í kjölfar fundar með kærendum 19. janúar 2016 hafi það verið mat starfsmanns nefndarinnar að svo tíð umgengni sem verið hefði, væri ekki í þágu hagsmuna barnsins.

Í úrskurði barnaverndarnefndarinnar kemur fram að forsjá drengsins sé í höndum nefndarinnar og honum hafi verið komið fyrir í varanlegu fóstri á vegum nefndarinnar. Markmið varanlegs fósturs sé að stuðla að stöðugleika og öryggi drengsins á nýju heimili. Mikilvægt sé að barn aðlagist fósturfjölskyldu sem best og fari að líta á hana sem sína eigin fjölskyldu. Við ákvörðun um umgengni beri ætíð að líta til hagsmuna barnsins og þess hvort sú umgengni, sem ákveðin sé, samrýmist markmiðum varanlegs fósturs. Aðlögun barnsins í fóstri hafi verið skammt á veg komin og hafi það verið meginverkefni nefndarinnar að tryggja að vel tækist til í aðlögunarferlinu. Við mat á umgengni í málinu beri að hafa framangreint að leiðarljósi. Þá megi ætla að fötlun drengsins geri enn ríkari kröfur til nefndarinnar um að hún tryggi honum stöðugleika og takmarki þá togstreitu sem borið hafi á í fyrri umgengni.

Tillaga starfsmanns um reglulega umgengni aðra hvora viku hafi verið rífleg í ljósi þess að um varanlega fósturráðstöfun hafi verið að ræða og drengurinn í aðlögunarferli hjá nýrri fósturfjölskyldu. Tíðari umgengni gangi þvert á markmið varanlegs fósturs og samrýmist ekki hagsmunum drengsins, hvort sem litið sé til þess aðlögunarferlis sem var framundan eða til lengri tíma. Hagsmunir drengsins felist fyrst og fremst í því að honum verði tryggður stöðugleiki á heimili fósturforeldra og að skapað verði nauðsynlegt svigrúm til að tengsl myndist á milli barns og fósturforeldra. Samkvæmt framangreindu hafi verið rétt að horfa til þess að regluleg umgengni á milli drengsins og kærenda færi fram tvisvar í mánuði.

Í greinargerð barnaverndarnefndar C 8. apríl 2016 kemur fram að rétt sé að drengnum hafi ekki verið skipaður talsmaður í aðdraganda úrskurðarins. Starfsmaður nefndarinnar hafi hins vegar verið í miklum samskiptum við umsjónarkennara drengsins á meðan samkomulag um umgengni hafi verið við lýði frá X til X svo og eftir að samvinna við foreldra um umgengni brast. Í því sambandi liggi fyrir að samband drengsins við umsjónarkennara hafi alla tíð verið mjög gott og umsjónarkennarinn hafi verið sá sem drengurinn hafi leitað til varðandi málefni sín frá því að hann var vistaður utan heimilis í X. Það hafi því verið mat barnaverndarnefndarinnar að umsjónarkennari drengsins hafi verið best til þess fallinn að koma á framfæri sjónarmiðum hans í málinu. Samkvæmt dagálum málsins hafi drengurinn lítið sem ekkert sótt eftir umgengni við kærendur frá því hann var vistaður utan heimilis í X. Drengurinn hafi ekki sýnt merki um tilhlökkun þegar upplýst var um fyrirhugaðar heimsóknir og komið hafi fyrir að hann neitaði að fara í umgengnina. Þá beri að líta til þess að drengurinn hafi fengið greiningar frá viðurkenndum greiningaraðilum, svo sem vegna einhverfu, þroskahömlunar, athyglibrests með ofvirkni, erfiðleika í félagsumhverfi og [...]. Í því sambandi liggi fyrir að þroski drengsins sé á við þroska X ára meðalbarns.

Barnaverndarnefndin mótmælir þeim fullyrðingum kærenda að ekki hafi legið fyrir nægilega skýr afstaða fósturforeldra til umgengni. Í samantekt vegna úrskurðar nefndarinnar komi fram sú afstaða/tillaga fósturforeldra að drengurinn heimsæki kærendur annan hvorn X og að þau fái vikuleg símtöl við drenginn.

Barnaverndarnefndin mótmælir einnig því að ógilda beri úrskurðinn á þeim grundvelli að drengnum hafi ekki formlega verið skipaður talsmaður. Í bvl., sem og reglugerð nr. 56 frá 2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, séu engin ákvæði er leggja þær skyldur á barnaverndarnefnd að skipa barni talsmann í aðdraganda úrskurðar um umgengni.

Þá mótmælir barnaverndarnefndin því að rýmka eigi umgengni á þeim grundvelli að kærendur hafi tekið ákvörðun um að höfða mál á hendur nefndinni í því skyni að endurheimta forsjá yfir barninu. Horfa verði til þess að barnið sé í varanlegu fóstri og forsjá þess í höndum barnaverndarnefndar C. Ekki sé rétt að ákvarða umgengni gegn markmiðum varanlegs fósturs af framangreindri ástæðu.

Að mati barnaverndarnefndarinnar sé sú umgengni, sem ákveðin hafi verið með hinum kærða úrskurði, rífleg. Það hafi verið mat nefndarinnar að rífleg umgengni væri barninu æskileg tímabundið í því skyni að auðvelda því aðlögun að nýrri fósturfjölskyldu. Ákvörðun um að láta barnið ljúka skólaári við Grunnskóla C hafi verið af sama meiði. Frá og með næsta hausti sé ætlunin að drengurinn hefji nám í grunnskóla í sínu lögheimilissveitarfélagi og þá sé einnig ætlun nefndarinnar að takmarka umgengni þess við kynforeldra sína í þágu markmiða varanlegs fósturs.

III.  Sjónarmið fósturforeldra

Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir afstöðu fósturforeldra og barst nefndinni afstaða þeirra með tölvubréfi 1. júní 2016. Í svari fósturmóður kemur fram að umgengni hafi verið einu sinni í viku og fjórum sinnum á ári vegna fjölskyldu- og [...]. Félagsþjónusta C hafi óska eftir tillögum þeirra þar sem umgengni hafði ekki gengið vel eftir að drengurinn flutti til fósturforeldra í X. Fósturforeldrarnir hafi lagt til umgengni tvisvar í mánuði, símatíma einu sinni í viku og umgengni vegna fjölskyldu- og [...] fjórum sinnum á ári.

Umgengni tvisvar í mánuði hafi gengið vel og drengurinn hafi verið ánægður. Fósturforeldrar kveðast halda áfram að vinna með umgengnina og telja að það sé gott fyrir drenginn að vera í góðum tengslum við sína nánustu.

IV.  Niðurstaða

Drengurinn D er fæddur árið X og hefur verið í varanlegu fóstri frá X. Kærendur afsöluðu forsjá drengsins til barnaverndarnefndar C 20. október 2015. Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar C frá 25. febrúar 2016 var umgengni drengsins við kærendur ákveðin tvisvar í mánuði á X frá lokum skóladags til kl. 16:00 á heimili kærenda. Auk þess var ákveðið að umgengni við drenginn í tengslum við [...] eða viðburði tengda fjölskyldunni yrði tvo daga á ári, fjórar klukkustundir samfellt á milli klukkan 10:00-20:00 og bæri kærendum að óska eftir slíkri umgengni með tíu vikna fyrirvara. Í málinu krefjast kærendur þess að umgengni við drenginn verði vikulega á X frá lokum skóladags til klukkan 16:00. Einu sinni í mánuði verði umgengni frá lokum skóladags á X til X. Kærendur sæki og skili drengnum í skóla. Þá krefjast kærendur þess að umgengni við drenginn á hátíðisdögum og á afmælisdögum fjölskyldunnar verði að hámarki fjórum sinnum á ári og að tilkynnt verði með fjögurra vikna fyrirvara hyggist þau nýta sér slíka umgengni.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd hennar.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Ákvæðið er nánari útfærsla meginreglu barnaverndarstarfs þess efnis að barnaverndaryfirvöld skuli í störfum sínum taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til, sbr. 2. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt framangreindu ber barnaverndaryfirvöldum að leita eftir sjónarmiðum barnsins við meðferð máls og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.

Barnaverndarnefndin hefur upplýst að sjónarmiðum drengsins hafi verið komið á framfæri við meðferð málsins þar sem drengurinn hafi átt gott samband við umsjónarkennara sinn. Í málinu liggja ekki fyrir nein gögn sem sýna fram á hver sjónarmið drengsins voru eða hvernig samskipum drengsins við umsjónarkennara var háttað. Drengnum var heldur ekki skipaður talsmaður í því skyni að afla upplýsinga um afstöðu hans, sbr. 3. mgr. 46. gr. bvl., en samkvæmt 31. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd er hlutverk talsmanns að ræða við barnið og koma á framfæri sjónarmiðum þess. Því hefur afstaða drengsins, sem er 12 ára gamall, til þeirrar ráðstöfunar sem gripið var til með hinum kærða úrskurði ekki verið könnuð með fullnægjandi hætti. Barnaverndarnefnd ber samkvæmt framangreindum lagaákvæðum að meta hvort þörf er á að skipa barni talsmann. Úrskurðarnefndin telur að þörf hafi verið á því í máli þessu í þeim tilgangi að afla með fullnægjandi hætti upplýsinga um afstöðu drengsins til efnis og framkvæmdar þeirrar umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 1. mgr. 41. gr. bvl., en þar segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það fer eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga barnaverndarnefnd beri að afla um viðkomandi mál til þess að rannsókn teljist fullnægjandi. Með vísan til þess sem að framan greinir um skyldu barnaverndarnefndarinnr til að afla upplýsinga um afstöðu drengsins áður en ákvörðun var tekin í málinu verður að telja að rannsókn málsins hafi að því leyti verið ábótavant, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Eins og málið liggur fyrir og þegar hefur komið fram verður jafnframt að telja að barnaverndarnefndinni hafi borið að skipa barninu talsmann samkvæmt 2. og 3. mgr. 46. gr. bvl. og 31. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004.

Vegna þessa ágalla á málsmeðferð barnaverndarnefndar C verður að telja ákvörðunina, sem tekin var með hinum kærða úrskurði, ólögmæta. Ber með vísan til þess að fella hann úr gildi, sem leiðir til þess að taka þarf ákvörðun að nýju að gættum viðeigandi málsmeðferðarreglum, en samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl., sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015, getur úrskurðarnefnd velferðarmála vísað málinu til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju. 

Þá beinir úrskurðarnefndin því til barnaverndarnefndarinnar að gæta þess þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega að upplýst sé um kæruheimild og hvert aðilar máls geti beint kæru, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga, en það var ekki gert samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður barnaverndarnefndar C frá 25. febrúar 2016 varðandi umgengni A og B við son þeirra, D, er felldur úr gildi og er málinu vísað til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju.

Kári Gunndórsso

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum