Hoppa yfir valmynd
13. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 62/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 62/2016

Föstudaginn 13. maí 2016


A og B

gegn

barnaverndarnefnd C


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með kæru 8. og 16. febrúar 2016, kærðu A, og B til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun barnaverndarnefndar C um að aflétta nafnleynd vegna tilkynninga varðandi dóttur kærenda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Í X og X bárust barnaverndarnefnd C fjórar tilkynningar frá jafnmörgum einstaklingum vegna D, sem er dóttir kærenda. Barnaverndarnefndin ákvað að hefja könnun málsins og voru kærendur boðaðir í viðtal X. Þá var umsagna aflað frá skóla, heilsugæslu og barnageðlækni. Að könnun lokinni var niðurstaða barnaverndarstarfsmanna sú að ekki væri ástæða til aðgerða barnaverndarnefndarinnar og var ákvörðun tekin um að loka málinu þann X. Með bréfi nefndarinnar 9. nóvember 2015 var kærendum tilkynnt að ekki væri ástæða til frekari afskipta og að málinu hafi því verið lokað af hálfu barnaverndarnefndarinnar.

Með tölvupósti 16. desember 2015 fóru kærendur fram á að nafnleynd yrði aflétt af þeim tilkynningum sem borist höfðu nefndinni. Í hinni kærðu ákvörðun frá 19. janúar 2016 kemur eftirfarandi fram, auk þess sem þar var bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndanefnd tók ákvörðun um að hefja könnun máls og niðurstaða nefndarinnar að könnun lokinni var sú að ekki væri ástæða til aðgerða nefndarinnar og var málinu lokað. Þó málalyktir hafi orðið þessar býr nefndin ekki yfir neinum upplýsingum eða gögnum sem styðja það að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu til nefndarinnar. Þar sem engar sérstakar ástæður aðrar mæla með því er það ákvörðun barnaverndarnefndar C, með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, að aflétta ekki nafnleynd í þessu tilviki.“

II.  Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að nafnleynd verði aflétt af tilkynnendum. Þau gera einnig athugasemdir við málsmeðferð barnaverndarnefndarinnar en þau telja að afgreiðslutíminn hafi verið allt of langur.

Kærendur telja það greinilegt af gögnum málsins, sem barnaverndarnefndin hafi undir höndum, að um röð tilkynninga hafi verið að ræða.  Kærendur kveðast aldrei hafa neitað því að dóttir þeirra taki róandi lyf á kvöldin. Það hafi verið gert í samráði við lækni auk þess sem stúlkan sé í eftirliti og meðferð hjá sérfræðingi. Á fundi með barnaverndarnefnd hafi kærendur sýnt lyf stúlkunnar til að sýna fram á að þau hafi komið frá lækni. Þá hafi þau rætt um vandamál stúlkunnar og hvaða úrræði þau væru með. Á umræddum fundi hafi kærendum verið greint frá því að X símtöl hafi borist með ákveðnu millibili.

Kærendur vísa til tilkynninga sem bárust X, X og X. Þau telja ekki eðlilegt að líta svo á að þessar tilkynningar hafi allar verið tilviljanir. Þess vegna hafi vísvitandi verið tilkynnt eitthvað sem var ekki rétt. Vissulega eigi barn alltaf að njóta vafans en eins og sjáist sé um villandi og skipulagðar tilkynningar að ræða, sbr. 13. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnavernd nr. 56/2004.

Kærendur upplýsa að tilgangur þess að fá nafnleynd aflétt sé ekki til að vera með leiðindi. En þegar barn þurfi á lyfjum að halda, sem fordómar séu fyrir í samfélaginu, þá sé það lágmark að foreldrar geti leiðrétt allan misskilning. Málið hafi skiljanlega valdið togstreitu innan fjölskyldunnar og ekki sé boðlegt fyrir stúlkuna að þurfa að leyna því að hún sé að taka lyf. Barnið eigi ekki að þurfa að skammast sín fyrir að taka lyf. Því sé farið fram á að nafnleynd verði aflétt.

Kærendur telja að afgreiðslutími barnaverndarnefndinnar hafi verið of langur. Sérstaklega í ljósi þess að þau hafi mætt strax á fund nefndarinnar þegar þess var óskað. Þá hafði sá sérfræðingur sem annaðist stúlkuna strax haft samband við nefndina og útskýrt stöðu mála hjá stúlkunni. Einnig hafi bréf frá heimilislækni og sálfræðingi stúlkunnar borist nefndinni. Þrátt fyrir þetta hafi kærendur fengið niðurstöðu í málið seint í X. Þá hafi tekið mánuð að fá svar við því hvort nafnleynd yrði aflétt. Þetta séu óásættanleg vinnubrögð.

III.  Sjónarmið barnaverndarnefndar C

Í greinargerð barnaverndarnefndar C 15. mars 2016 kemur fram að X tilkynningar hafi borist nefndinni frá jafnmörgum aðilum vegna dóttur kærenda. Efni allra tilkynninganna hafi verið af svipuðum toga, þ.e. að tilkynnendur höfðu áhyggjur af því að kærendur væru að gefa stúlkunni ótæpilega af róandi lyfjum. Ákveðið hafi verið að kanna málið og hafi starfsmenn nefndarinnar rætt við kærendur auk þess sem umsagna hafi verið aflað frá skóla, heilsugæslu og barnageðlækni. Í ljós hafi komið að stúlkan hafði verið greind með frávik í athygli, eirðarleysi og hvatvísi, einkenni áráttuhyggju, sterkan og vaxandi kvíða og hegðunarvanda. Mál hennar hafi verið í vinnslu hjá sálfræðingi, heimilislækni og barnageðlækni. Barnageðlæknirinn hefði sinnt lyfjameðferð um skeið og fram komi í umsögn sálfræðings og heimilislæknis á heilsugæslu að mál stúlkunnar væri flókið og gæti tekið tíma að finna rétta samsetningu meðferðar fyrir hana. Að könnun lokinni hafi það verið niðurstaða barnaverndarstarfsmanna að ekki væri ástæða til aðgerða nefndarinnar og töldu starfsmenn nefndarinnar eðlilegar skýringar fram komnar um lyfjanotkun stúlkunnar. Þann X hafi verið tekin ákvörðun um að loka málinu.

Kærendur hafi verið ósáttir við vinnslu málsins hjá barnaverndarnefnd. Þau hafi talið að nefndinni hafi borið að fella málið niður strax eftir að þau höfðu gefið skýringar á því af hverju stúlkan tæki öll þessi lyf og kröfðust þess að nafnleynd yrði aflétt af tilkynningunum.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) sé öllum skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. bvl. geti tilkynnandi óskað nafnleyndar og skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þá segi í 13. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004 að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni.

Tilkynnendur kunni að hafa ýmsar ástæður fyrir því að óska nafnleyndar og mikilvægt sé að slíkar óskir séu virtar svo að barnaverndarnefnd berist allar upplýsingar um hagi barna sem nauðsynlegar séu til að árangur náist í barnaverndarvinnu. Í tilviki kærenda hafi nefndin talið ástæðu til að hefja könnun vegna tilkynninganna og þó að í ljós hafi komið að grunur tilkynnendanna um óeðlilega mikla lyfjaneyslu stúlkunnar hafi ekki reynst á rökum reistur hafi nefndin ekki búið yfir upplýsingum sem gæfu til kynna að tilkynnendur hefðu vísvitandi komið á framfæri röngum eða villandi upplýsingum. Þá hafi ekki verið sérstakar ástæður sem mælt hafi gegn því að virða nafnleynd tilkynnenda. Af þeim sökum hafi nefndin hafnað kröfu kærenda um að aflétta nafnleyndinni. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun barnaverndarnefndar C þess efnis að hafna kröfu kærenda um að barnaverndarnefndin aflétti nafnleynd í tilefni af tilkynningum sem hefðu borist nefndinni.

Reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. barnaverndarlaga. Reglurnar tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram koma í 16. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 16. gr. er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi, eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd. Í 2. mgr. 19. gr. bvl. kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla kemur einnig fram í 13. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004. Þar segir enn fremur að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að nafnleynd verður ekki aflétt nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því.

Með vísan til þess sem að framan er rakið varðandi lyfjanotkun stúlkunnar verður ekki fallist á þær staðhæfingar kærenda að umræddar tilkynningar hafi verið villandi eða að tilkynnt hafi verið um eitthvað sem ekki var rétt. Verður nafnleynd þar af leiðandi ekki aflétt með vísan til þess að komið hafi verið á framfæri villandi eða röngum tilkynningum til barnaverndarnefndarinnar. Breytir það engu um mat nefndarinnar þó að X af X tilkynningum til barnaverndarnefnarinnar hafi borist á tímabilinu X til X. Þá liggur heldur ekki fyrir í málinu að aðrar sérstakar ástæður séu fyrir því að aflétta beri nafnleyndinni. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Kærendur hafa gert athugasemdir við málsmeðferðartíma barnanverndarnefndarinnar. Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Tafirnar sem kærendur vísa til geta ekki haft áhrif á úrlausn úrskurðarnefndarinnar um hina kærðu ákvörðun. Með vísan til þess verður að líta svo á að Barnaverndarstofa hafi í þessu tilliti eftirlit með störfum barnaverndarnefndarinnar samkvæmt 3. mgr. 7. gr. bvl. Barnaverndarstofu ber einnig að veita barnaverndarnefnd leiðbeiningar um málsmeðferð og beina til hennar ábendingum um það sem betur má fara, sbr. 4. mgr. 8. gr. bvl. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun barnaverndarnefndar C frá X um að synja kröfu kærenda, A og B, um að aflétta nafnleynd af tilkynningum varðandi dóttur þeirra, D, er staðfest.


F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum