Hoppa yfir valmynd
23. mars 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 33/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 33/2015
Miðvikudaginn 23. mars 2016

A

gegn

barnaverndarnefnd B


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 29. september 2015 kærði C hdl., f.h. A, til kærunefndar barnaverndarmála ákvörðun barnaverndarnefndar B dags. X um synjun á aðgangi að gögnum er varða kæranda og/eða börn hennar D, og E.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd barnaverndarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi X óskaði kærandi eftir öllum gögnum barnaverndaryfirvalda um hana og/eða börn hennar. Með bréfi X hafnaði Félagsmálastjóri B, f.h. Félagsþjónustu B, beiðni kæranda á grundvelli 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Fram kemur í bréfinu að talið sé að afhending þeirra gagna, sem barnaverndarnefnd B hefði undir höndum, gæti skaðað rannsóknarhagsmuni í málinu.

Með bréfi kæranda X var beiðni um gögn ítrekuð og farið fram á að málið yrði lagt fyrir Félagsþjónustu F. Til vara var þess óskað að kærandi og lögmanni hennar yrði veittur aðgangur að öllum gögnum málsins og fengju að kynna sér þau.

Með bréfi Félagsmálastjóra B dags. X var kæranda sendur úrskurður barnaverndarefndar B frá X þar sem beiðni kæranda um aðgang að gögnum málsins var synjað með vísan til 45. gr. barnaverndarlaga.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var kæranda veittur aðgangur að bréfi frá barnaverndarnefnd G. Frekari aðgangi að gögnum var hafnað.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

„1. Barnaverndarnefnd B samþykkir að móðir fái aðgang að eftirfarandi gögnum: Bréf dagsett X frá Barnaverndarnefnd G.

2. Barnaverndarnefnd B hafnar aðgangi að frekari gögnum, sem varða kært kynferðisbrot stjúpföður gegn barninu, með þeim rökstuðningi að afhending þeirra þjóni ekki hagsmunum stúlkunnar og geti skaðað rannsóknarhagsmuni lögreglu.

 Úrskurður þessi skal gilda þar til ákvörðun ríkissaksóknara um saksókn í málinu liggur fyrir og skal þá endurskoðaður ef foreldri krefst þess, en fyrr ef aðstæður krefjast þess.“

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá aðgang öllum gögnum er varða hana og börn hennar, þau D og E. Til vara er þess krafist að kærandi og lögmaður hennar fái aðgang að öllum gögnum málsins og fái að kynna sé þau. Í kærunni er vísað til kæruheimildar í 1. mgr. 54. gr. bvl., en á væntanlega að vera 1. mgr. 51. gr. laganna þar sem kveðið er á um málskotsrétt aðila barnaverndarmáls.  

Í kæru kemur fram að samkvæmt 45. gr. bvl. skuli barnaverndarnefnd með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess, enda tryggi þeir trúnað. Í 2. mgr. sömu lagagreinar sé að finna undanþágu frá meginreglu 45. gr. en þar segi að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telji að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Nefndin geti einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að ljósrit af þeim séu afhent.

Að mati kæranda verði ekki séð að hvaða leyti það geti hugsanlega skaðað hagsmuni barnanna að kæranda, sem sé móðir barnanna, séu veittar upplýsingar um hvað málið varðar. Það séu ríkir hagsmunir sem standi til þess að kærandi fái afhent afrit af þeim gögnum sem hér um ræði. Um sé að ræða mál sem varði meint kynferðisofbeldi innan fjölskyldu kæranda og því augljósir hagsmunir í því fólgnir að kærandi fái að kynna sér þau gögn til hlítar, enda um alvarlegt mál að ræða sem varði börn hennar.

Kæranda hafi ekki formlega verið tilkynnt um það mál sem til athugunar sé varðandi dóttur hennar, D, og meint kynferðisofbeldi í garð hennar af hálfu sambýlismanns kæranda, hvorki frá barnaverndarnefnd B né lögreglunni. Við þetta sé kærandi afar ósátt og telji það raunar grafalvarlegt, enda sé um að ræða ósjálfráða X ára gamla stúlku er lúti forsjá kæranda.

Kærandi hafi fengið verulegan takmarkaðan aðgang að gögnum málsins og enn hafi hún ekki fengið að sjá skýrslu varðandi það hvað umræddar ásakanir snúist um. Kærandi telji nauðsynlegt að hún fái afrit af þeim gögnum sem um ræði, enda lúti málið að ósjálfráða dóttur hennar og raunar ekki að sjá nein rök því til stuðnings að gögnum sé haldið frá henni.

Kærandi kveðst hafa þá tilfinningu að komið sé fram við hana líkt og hún liggi undir grun sem sé algjörlega fráleitt, enda sé hún móðir barnanna og vilji þeim aðeins það besta.

Kærandi krefst þess að tekið verði mið af sameiginlegum hagsmunum hennar og barnanna. Það sé algjört grundvallaratriði að kærandi fái að kynna sér gögn málsins, enda um að ræða alvarlegt mál er varði ósjálfráða börn hennar.

III.  Sjónarmið barnaverndarnefndar B

Í ákvörðun barnaverndarnefndar B kemur fram að um sé að ræða gögn í máli D en mál hafi ekki verið stofnað vegna bróður hennar, E. Um sé að ræða grunsemdir um kynferðisofeldi innan fjölskyldunnar. Eðli málsins samkvæmt sé málið viðkvæmt þar sem meintur gerandi sé innan fjölskyldunnar. Þá liggi ekki fyrir afdráttarlaus yfirlýsing móður um að hún styðji dóttur sína í því kærumáli sem lögreglan sé með til rannsóknar, en meintur gerandi sé sambýlismaður kæranda. Rökstuddur grunur sé um að kærandi dragi frásögn dóttur sinnar í efa og hafi tekið afstöðu með sambýlismanni sínum. Starfsmenn barnaverndar B efist ekki um trúverðugleika stúlkunnar og telji mikilvægt að henni sé veittur allur sá stuðningur sem mögulegt sé og að ekki verði ýtt undir samskipti sem valdi henni óöryggi.

Í greinargerð Félagsmálastjóra B dags. X kemur fram að umrætt mál kæranda hafi aldrei komið til könnunar hjá barnavernd sveitarfélagsins, heldur hafi gögn frá barnavernd G verið send áfram til barnaverndar B vegna þess að lögheimili barnsins væri skráð hjá kæranda á H. Barnið, sem lúti sameiginlegri forsjá kæranda og föður, sé með lögheimili hjá móður en hafi hins vegar búið hjá föður síðastliðin tvö ár og sé málið því til vinnslu hjá barnavernd G. Fyrir liggi að barnavernd G hafi einnig ákveðið að hafna skyldi aðgangi kæranda að málsgögnum að hluta.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda X og X til Félagsþjónustu F um aðgang að öllum gögnum er varða kæranda og börn hennar.

Í máli þessu liggur fyrir að barnaverndarnefnd G óskaði eftir lögreglurannsókn á meintum kynferðisbrotum sambýlismanns kæranda gagnvart dóttur kæranda X. Samkvæmt gögnum málsins var það gert í tilefni af því að dóttirin hafði skýrt frá hinu meinta broti X sama ár. Samkvæmt 20. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004 skal barnaverndarnefnd að jafnaði óska lögreglurannsóknar ef grunur leikur á að alvarlegt refsivert brot hafi verið framið gagnvart barni.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að um alvarlegt mál sé að ræða er varði meint kynferðisofbeldi innan fjölskyldu kæranda og því augljósir hagsmunir í því fólgnir að hún fái að kynna sér gögnin sem um ræði. Það hljóti að vera málinu til framdráttar að kærandi, sem sé móðir stúlkunnar, sé upplýst um allar hliðar málsins. Barnaverndarnefndin telji að hagsmunir barnsins skuli virtir framar hagsmunum kæranda en kærandi telur hins vegar að litið sé framhjá því að um sameiginlega hagsmuni hennar og barnsins sé að ræða. Engin gögn styðji það að rannsóknarhagsmunir séu í húfi verði kæranda veittur aðgangur að umræddum gögnum.

Hinn kærði úrskurður er byggður á því að nauðsynlegt hafi verið að takmarka aðgang kæranda að gögnum, er varða mál dóttur hennar fyrir barnavernd G, í þeim tilgangi að gæta hagsmuna barnsins. Vísað er þar til heimildar í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga til að takmarka aðgang að gögnum, en þar segir að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Gögnin sem hafnað var að kærandi fengi aðgang að eru samkvæmt lýsingum barnaverndarnefndar B: Afrit af tilkynningu til lögreglunnar í G frá barnaverndarnefnd G, móttekið X, tölvupóstar milli J félagsráðgjafa hjá Félagsþjónustu B og K, yfirfélagsráðgjafa hjá Félagsþjónustu G, dags. X., X., X., X og X, afrit af yfirheyrslum á D, föður hennar og stjúpmóður hjá lögreglunni í G, móttekið X, beiðni kæranda um afhendingu gagna og umboð lögmanns, móttekið X svar Félagsmálastjóra B við beiðni um afhendingu gagna, dags. X, afrit af svarbréfi K, yfirfélagsráðgjafa hjá Félagsþjónustu G, til L vegna beiðni um gögn, móttekið X, ítrekun L, beiðni um afrit af gögnum til Félagsþjónustu B, móttekið X, ákvörðun Félagsmálanefndar B frá X send L þann X og samskiptaskrá málsins, prentuð úr tölvukerfi barnaverndar X þann X.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að málið sé viðkvæmt þar sem meintur gerandi sé innan fjölskyldunnar, kærandi hafi ekki lýst því yfir að hún styðji dóttur sína í kærumálinu, sem lögreglan fari með, en meintur gerandi sé sambýlismaður kæranda, rökstuddur grunur sé fyrir því að kærandi dragi frásögn dóttur sinnar í efa og hún hafi tekið afstöðu með sambýlismanni sínum. Í úrskurðinum kemur fram að starfsmenn barnaverndar B efist ekki um trúverðugleika barnsins og telji mikilvægt að henni sé veittur allur sá stuðningur sem mögulegt sé svo og að ekki verði ýtt undir samskipti sem valdi henni óöryggi.

Við mat á því hvort aðstæður eru með þeim hætti að aðgangur kæranda að umræddum gögnum geti skaðað hagsmuni barnsins og samband þess við foreldra og aðra verður að taka tillit til þeirrar stöðu sem barnið er í. Eins og fram hefur komið býr barnið hjá föður sínum í G en kærandi býr á H. Málið er alvarlegt og er það mat úrskurðarnefndarinnar að stúlkan sé í erfiðri stöðu vegna afstöðu kæranda í umræddu máli.

Fram kemur í gögnum málsins að kærandi dragi í efa sannleiksgildi framburðar stúlkunnar varðandi meint kynferðisbrot. Úrskurðarnefndin getur því ekki fallist á þá afstöðu kæranda að hagsmunir hennar og stúlkunnar fari saman. Á meðan málið er ekki til lykta leitt og enn til rannsóknar er það mat úrskurðarnefndarinnar að afhending á viðkvæmum gögnum í málinu geti haft neikvæð áhrif á samband mæðgnanna. Í því sambandi þarf stúlkan að njóta vafans til þess að hagsmunir hennar verði nægilega tryggðir. Þá er mikilvægt að tefla ekki rannsóknarhagsmunum í tvísýnu en með því er jafnframt verið að vernda hagsmuni stúlkunnar. Þrátt fyrir lýsingar kæranda á því að hagsmunir hennar og stúlkunnar fari saman og að hún beri hag stúlkunnar ávallt fyrir brjósti getur það ekki hnekkt því mati sem hér hefur verið lagt á hagsmuni stúlkunnar í þessu tilliti. Að þessu virtu þykir fullnægt þeim skilyrðum 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga fyrir því að takmarka aðgang kæranda að umræddum gögnum. Með sömu rökum verður að hafna þeirri kröfu kæranda að hún og lögmaður hennar fái aðgang að öllum gögnum málsins og fái að kynna sé þau.

Með vísan til þessa ber að staðfesta hinn kærða úrskurð. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður barnaverndarnefndar B frá X um synjun á kröfu kæranda, A, um afhendingu gagna er staðfestur.

 

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum