Hoppa yfir valmynd
9. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 87/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 87/2015

Föstudaginn 9. september 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 21. desember 2015, kærir A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. september 2015, um innheimtu ofgreiddra bóta.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 6. júní 2012 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 31. desember 2014 þar til bótarétti hans úr atvinnuleysistryggingasjóði lauk. Samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta fékk kærandi greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins frá nóvember 2013. Vegna þeirra greiðslna fékk kærandi greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á og því myndaðist endurgreiðslukrafa á hendur honum. Með innheimtubréfi, dags. 22. september 2015, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda að hann greiddi skuld að fjárhæð 256.554 kr., auk 15% álags, vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. september 2014 til 31. desember 2014.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. desember 2015. Með bréfi, dags. 22. desember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 3. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2016, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið að ganga í gegnum umsóknar- og kæruferli vegna örorkumats og hafi fengið greitt í ágúst 2014 afturvirkar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins frá miðju ári 2013. Hann hafi síðan sótt um greiðslur frá lífeyrissjóði og fengið fyrstu greiðslu þaðan í lok febrúar eða byrjun mars 2015. Þá hafi verið greitt aftur í tímann til júní 2014.

Kærandi telur að við samkeyrslu tekna hans fyrir árið 2014 hafi þessar afturvirku greiðslur orsakað þessa meintu ofgreiðslukröfu. Kærandi fer því fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að skuld hans verði felld niður.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra í febrúar 2014 hafi komið í ljós að kærandi hafi fengið greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins í nóvember 2013 að fjárhæð 25.175 kr. Í kjölfarið hafi verið gerð tekjuáætlun á kæranda þar sem áætlaðar hafi verið mánaðarlegar greiðslur frá Tryggingastofnun að fjárhæð 26.081 kr. Frá og með ágúst 2014 hefðu greiðslur frá Tryggingastofnun til kæranda hækkað umtalsvert og því hafi kærandi fengið ofgreitt úr  atvinnuleysistryggingasjóði. Þegar bótarétti kæranda hafi lokið hafi skuld hans við Vinnumálastofnun numið samtals 256.554 kr., eða 295.037 kr. með 15% álagi.

Vinnumálastofnun tekur fram að í málinu liggi fyrir að greiðslur til kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu ágúst til desember 2014 hefðu reynst hærri en fyrirliggjandi tekjuáætlun hans hjá stofnuninni hafi gert ráð fyrir. Því hefðu greiðslur atvinnuleysistrygginga kæranda verið skertar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Vegna þessa hafi myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar og kæranda beri að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar bætur, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

Vinnumálastofnun bendir á að stofnuninni sé skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, óháð ástæðu ofgreiðslunnar. Í máli þessu liggi fyrir að eftirstandandi skuld kæranda við Vinnumálastofnun nemi 295.037 kr. að meðtöldu 15% álagi sem kæranda beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistrygginga.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 295.037 kr. að meðtöldu 15% álagi.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna. Í 1. mgr. 36. gr. segir að þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða og atvinnuleysisbætur hans eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildi um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum.

Samkvæmt gögnum málsins gerði tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2014 ráð fyrir mánaðarlegum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 26.0181 kr. Á tímabilinu september til desember 2014 fékk kærandi hins vegar töluvert hærri greiðslur frá Tryggingastofnun sem leiddu til þess að hann fékk hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á.

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt framangreindu er ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Því verður ekki fallist á kröfu kæranda um að ofgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar verði felld niður.

Kemur þá til skoðunar hvort fella skuli niður álagið sem lagt var á ofgreiðslukröfuna. Kærandi greinir frá því að hann hafi verið að ganga í gegnum umsóknar- og kæruferli vegna örorkumats hjá Tryggingastofnun ríkisins og fengið greitt í ágúst 2014 afturvirkar greiðslur frá miðju ári 2013. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt viðkomandi samkvæmt lögunum. Ljóst er að kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki að hann fengi hærri greiðslur frá Tryggingastofnun frá og með ágúst 2014 og gerði ekki breytingar á tekjuáætlun sinni. Afturvirkar greiðslur bóta til kæranda frá Tryggingastofnun voru því ekki orsök ofgreiðslunnar. Því verður ekki fallist á kröfu kæranda  að 15% álag á þá fjárhæð sem honum var ofgreidd skuli fellt niður.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. september 2015, í máli A um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 295.037 kr. með 15% álagi, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum