Hoppa yfir valmynd
9. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 58/2014 - endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptaka, mál nr. 58/2014

Föstudaginn 9. september 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. maí 2014, kærði A ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. mars 2014 til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Í málatilbúnaði kæranda kemur fram að kæran snúi einnig að innheimtubréfi Vinnumálastofnunar dagsettu 5. febrúar 2014 þar sem krafa var gerð um að kærandi endurgreiddi ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 88.746 kr. auk 15% álags að fjárhæð 13.312 kr. eða alls 102.058 kr.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með innheimtubréfi, dags. 5. febrúar 2014, krafði Vinnumálastofnun kæranda um greiðslu vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta, samtals 102.058 kr. Höfuðstóll skuldarinnar er 88.746 kr., ásamt 15% álagi þ.e. 13.312 kr. eða samtals 102.058 kr.

Með bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 12. febrúar 2014, sem bar yfirskriftina „Andmæli og ósk um forsendur og gögn vegna innheimtubréfs (5.feb2014)“ óskaði hann eftir öllum gögnum, skýringum og þeim reglum sem væru grundvöllur innheimtunnar. Fram kemur að kærandi viti ekki á hverju stofnunin byggði innheimtuna þar sem honum hefðu ekki verið kynntar forsendur fyrir henni. Á meðan kæranda hefðu ekki borist umbeðin gögn og skýringar gæti hann ekki svarað stofnuninni efnislega. Fór kærandi fram á að frestur hans til að óska samninga og/eða andmæla byrjaði ekki að líða fyrr en þessar upplýsingar hefðu borist honum.

Í ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. mars 2014, segir að stofnuninni hafi borist beiðni kæranda, dags. 12. febrúar 2014, um að mál hans yrði tekið til meðferðar á  ný með tilliti til nýrra gagna/upplýsinga. Í umræddu bréfi er kæranda tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að beiðni hans um endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga hafi verið synjað. Vinnumálastofnun taldi beiðni kæranda ekki gefa tilefni til endurupptöku þar sem ekki hafi komið fram upplýsingar sem gætu haft þýðingu í málinu. Ekki yrði séð að ákvörðun stofnunarinnar um skuldamyndun kæranda hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum og því hafi endurupptaka samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga ekki komið til.

Með kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. maí 2014 kærði kærandi fyrrnefnda synjun Vinnumálastofnunar um endurupptöku málsins frá 6. mars 2014. Úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp þann 17. apríl 2015 og staðfesti úrskurðarnefndin þá ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 5. febrúar 2014 að innheimta 102.058 kr. hjá kæranda.

Með bréfi umboðsmanns Alþingis til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. febrúar 2016, var úrskurðarnefndinni kynnt að borist hefði kvörtun frá kæranda vegna fyrrnefnds úrskurðar nefndarinnar. Jafnframt var óskað eftir öllum gögnum málsins. Með bréfi, dags. 27. apríl 2016, óskaði umboðsmaður Alþingis eftir að úrskurðarnefndin lýsti viðhorfum sínum til kvörtunar kæranda og veitti upplýsingar og skýringar um tiltekin atriði. Úrskurðarnefnd velferðarmála ákvað á fundi þann 26. maí 2016 að endurupptaka mál kæranda.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á endurupptöku sé felld úr gildi. Þá krefst kærandi andmælaréttar með því að honum séu veittar umbeðnar upplýsingar um forsendur, þ.e. hverju þurfi að andmæla. Einnig krefst kærandi þess að erindi hans frá 12. febrúar 2014 sé svarað efnislega eða rökstutt hvers vegna það sé ekki gert. Loks krefst kærandi þess að krafan á hendur honum verði felld niður. Vísar hann þar meðal annars til endurtekinna óska sinna um leiðbeiningar. Kærandi segir að sér hafi aldrei verið greint frá því á hvaða forsendum skuld við Vinnumálastofnun hafi myndast.

Að mati kæranda hafi Vinnumálastofnun synjað erindi hans án þess að hafa sinnt beiðni um að framvísa gögnum og upplýsa um forsendur. Nánar tiltekið séu það upplýsingar um hvenær tilgreind skuld hafi orðið til og forsendur þess að kærandi hafi ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta á tímabilinu 20. júní til 19. desember 2011. Kærandi telur að hann geti einungis nýtt rétt sinn til andmæla, fái hann upplýsingar um hvernig og hvenær skuldin hafi orðið til.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Vinnumálastofnun kveður kæranda hafa fengið greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 20. júní til 19. desember 2011. Sökum þess að tekjuáætlun vegna lífeyrisgreiðslnanna hafi ekki legið fyrir, hafi ekki verið hægt að taka tillit til þeirra við greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda. Því hefði kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á umræddu tímabili. Þar sem greiðslur til kæranda hefðu numið hærri fjárhæð en frítekjumark atvinnuleysisbóta hafi atvinnuleysisbætur verið skertar í samræmi við 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Skuld kæranda hafi komið í ljós á greiðsluseðlum Vinnumálastofnunar til kæranda, meðal annars 1. febrúar 2012.

Þegar kærandi hafi verið tekinn af atvinnuleysisbótum að eigin ósk í apríl 2012 hafi skuld hans við Vinnumálastofnun numið 88.746 kr. sem að viðbættu 15% álagi að fjárhæð 13.312 kr. nemi 102.058 kr. Í febrúar 2014 hafi skuld kæranda enn verið ógreidd og því hafi honum verið send greiðsluáskorun vegna skuldarinnar með bréfi, dags. 5. febrúar 2014. Eins og fram komi í bréfi Vinnumálastofnunar frá 6. mars 2014 hafi stofnunin talið, með vísan til beiðni kæranda í bréfi frá 12. febrúar 2014, að ekki væri tilefni til endurupptöku þar sem ekki hefðu fram komið upplýsingar sem hefðu þýðingu í málinu.  

Með tilliti til þeirra rauntekna kæranda sem fram komi á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra fyrir tímabilið 20. júní 2011 til 19. desember 2011 hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og því hafi bæturnar verið skertar afturvirkt. Skerðingin fari þannig fram að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt til. Helmingur þeirrar fjárhæðar, sem sé umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki, myndi skerðinguna. Í þessu máli hafi skerðingin farið fram með fyrrgreindum hætti og beri kæranda að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Innheimtan sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Stofnunin bendir sérstaklega á að ástæða þess að atvinnuleitandi fái ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi ekki áhrif á skyldu hans til endurgreiðslu ofgreiddra bóta.

Samkvæmt öllu framangreindu telji Vinnumálastofnun að rétt hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar um að hefja frekari innheimtuaðgerðir vegna skuldar kæranda svo sem honum hafi verið tilkynnt með bréfi frá 5. febrúar 2014.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að afgreiðslu Vinnumálastofnunar sem fram kemur í bréfi, dags. 6. mars 2014, þar sem synjað var um endurupptöku ákvörðunar stofnunarinnar í máli kæranda, sbr. bréf dags. 5. febrúar 2014, um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

Kærandi óskaði eftir því með bréfi, dags. 12. febrúar 2014, að Vinnumálastofnun gerði grein fyrir því hvernig upphæð sú sem hann var krafinn um og kemur fram í innheimtubréfi stofnunarinnar frá 5. febrúar hafi orðið til, þ.e. 88.746 kr. ásamt 15% álagi, 13.312 kr. eða samtals 102.058 kr. Með bréfi, dags. 6. mars 2014, var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði synjað beiðni hans um endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um skilyrði endurupptöku. Samkvæmt lagaákvæðinu á aðili máls rétt á því að mál verði endurupptekið eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun, sem byggst hefur á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í bréfi kæranda, dags. 12. febrúar 2014, óskar hann eftir nánari skýringum og gögnum vegna innheimtubréfs Vinnumálastofnunar frá 5. febrúar 2014 þar sem honum væri ekki kunnugt um þær forsendur sem væru að baki ákvörðuninni. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að skilja verði bréf kæranda frá 12. febrúar 2014 á þá leið að óskað sé eftir aðgangi að gögnum málsins svo og eftirfarandi rökstuðnings, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga. Ekki sé unnt að líta þannig á að kærandi hafi með bréfinu óskað eftir endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds ber að fella úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. mars 2014 þar sem kæranda var synjað um endurupptöku máls. Málinu er vísað til Vinnumálastofnunar til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun  Vinnumálastofnunar, dags. 6. mars 2014, í máli A er felld úr gildi og málinu vísað til Vinnumálastofnunar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum