Hoppa yfir valmynd
17. mars 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 78/2015


Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 78/2015

Fimmtudaginn 17. mars 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 3. desember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. apríl 2013, um innheimtu ofgreiddra bóta að fjárhæð 257.278 kr. með 15% álagi og ákvörðun stofnunarinnar, dags. 20. ágúst 2015, um að synja kæranda um rökstuðning á fyrrgreindri ákvörðun.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með innheimtubréfi, dags. 15. apríl 2013, var þess farið á leit við kæranda að hann greiddi skuld sína vegna ofgreiddra bóta, samtals að fjárhæð 257.278 kr. með 15% álagi, innan 90 frá dagsetningu bréfsins. Með tölvupóst þann 4. ágúst 2015 óskaði umboðsmaður kæranda eftir rökstuðningi fyrir kröfu á hendur honum. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2015, var kæranda synjað um rökstuðning á þeim grundvelli að tveggja vikna frestur til að óskað eftir rökstuðningi á grundvelli 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri liðinn.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 3. desember 2015. Með bréfi, dags. 4. desember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 12. janúar 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 13. janúar 2016, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. febrúar 2016, var kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í máli hans. Með símtali þann 12. febrúar 2016 tilkynnti kærandi úrskurðarnefndinni að hann hefði ekki vitað að kærufrestur væri einungis þrír mánuðir. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir endurskoðun á endurgreiðslukröfu Vinnumálastofnunar, dags. 15. apríl 2013. Þá kærir hann synjun um rökstuðning, dags. 20. ágúst 2015, og óskar eftir sundurliðuðum útreikningum á endurgreiðslukröfunni.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að í fyrsta lagi sé verið að kæra þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hefja innheimtuaðgerðir vegna skuldar kæranda sem tilkynnt hafi verið með bréfi, dags. 15. apríl 2013. Þess hafi verið farið á leit við kæranda að hann greiddi skuld sína vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta, samtals að fjárhæð 257.278 kr. með 15% álagi, innan 90 daga frá dagsetningu bréfs ella yrði málið sent til Innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi til frekari innheimtu. Kæranda hafi verið tilkynnt að ofgreiddar atvinnuleysisbætur væru innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt hafi verið bent á í áðurgreindu bréfi að ef vilji stæði til þess að koma á framfæri athugasemdum við efni innheimtubréfs, andmælum vegna þess eða skýringum þá þyrfti að senda tölvupóst innan 14 daga frá dagsetningu bréfs á uppgefið heimilisfang. Enn fremur kom fram í bréfinu að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar væri heimilt að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og kærufrestur væri þrír mánuðir frá dagsetningu bréf, sbr. 3. mgr. 37. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi þess að þriggja mánaða kærufrestur hafi verið liðinn sé það mat Vinnumálastofnunar að vísa beri þessum þætti kæru frá.

Í öðru lagi sé verið að kæra þá ákvörðun að synja beiðni kæranda um rökstuðning á ákvörðun stofnunarinnar, dags. 15. apríl 2013. Ákvörðun stofnunarinnar um að synja beiðni kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 18. ágúst 2015. Ljóst sé því að þriggja mánaða kærufrestur, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sé liðinn og því beri einnig að vísa þeim hluta kærunnar frá.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. apríl 2013, að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 257.278 kr. með 15% álagi. Þá lýtur ágreiningurinn að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 20. ágúst 2015, um að synja kæranda um rökstuðning á fyrrgreindri ákvörðun.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. núgildandi 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, var kærufrestur til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þrír mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 3. desember 2015 eða eftir að kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar var liðinn.

Í 6. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er vísað til ákvæða stjórnsýslulaga um málsmeðferð að öðru leyti en því sem fram kemur í lögum um atvinnuleysistryggingar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Samkvæmt gögnum málsins liðu tæplega þrjú ár frá því að kæranda var tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta þann 15. apríl 2013 þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 3. desember 2015. Þar sem meira en ár var liðið frá því kæranda var tilkynnt um ákvörðunina skal þeim þætti kæru ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Þá liðu rúmlega þrír mánuðir frá því kæranda var tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar þann 20. ágúst 2015 að synja um rökstuðning fyrrgreindrar ákvörðunar þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 3. desember 2015. Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæra á synjun um rökstuðning hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að sá þáttur kæru verði tekinn til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 5. febrúar 2016, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í máli hans. Kærandi greindi frá því í símtali við úrskurðarnefndina að hann hafi ekki vitað að kærufrestur væri einungis þrír mánuðir. Frekari skýringar bárust ekki.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 20. ágúst 2015 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og um tímalengd kærufrests. Í ljósi þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé afsakanlegt að kæra á synjun um rökstuðning hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að sá hluti kæru verði tekinn til meðferðar. Að því virtu er þeim hluta kæru, er varðar synjun Vinnumálastofnunar um rökstuðning, einnig vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð


Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


Rakel Þorsteinsdóttir

Arnar Kristinsson

Agnar Bragi Bragason

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum