Hoppa yfir valmynd
17. mars 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 51/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 51/2015

Fimmtudaginn 17. mars 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 20. júlí 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. apríl 2015, um innheimtu ofgreiddra bóta að fjárhæð 36.533 kr. með 15% álagi.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 20. júní 2012 og var umsóknin samþykkt. Þann 29. ágúst 2012 hafði kærandi samband við Vinnumálastofnun og óskaði eftir afskráningu af atvinnuleysisskrá þar sem hann hefði byrjað að vinna þann 16. ágúst 2012. Með bréfi, dags. 9. október 2012, var kæranda tilkynnt um að við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hefði komið í ljós að hann hefði haft tekjur í júlí 2012, án þess að gera grein fyrir þeim, á sama tíma og hann hafi þegið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Þá var óskað eftir upplýsingum um framangreindar tekjur. Kærandi hafði samband við stofnunina símleiðis þann 15. október 2012 og var tekjuskráningin leiðrétt.

Með tilkynningu í gegnum vefgátt Vinnumálastofnunar þann 16. október 2012 var kærandi upplýstur um að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og af því tilefni hafi myndast skuld við stofnunina að fjárhæð 31.768. Með innheimtubréfi, dags. 20. apríl 2015, var þess farið á leit við kæranda að skuldin yrði greidd innan 90 daga með 15% álagi, samtals að fjárhæð 35.533 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 20. júlí 2015. Með bréfi, dags. 20. júlí 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 27. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. desember 2015, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann óski eftir því að ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra bóta verði felld úr gildi. Kærandi greinir frá því í kæru að honum hafi borist bréf um að hann hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. júlí 2012 til 19. ágúst 2012. Hann geti því miður ekki verið sammála þessu þar sem hann hafi verið atvinnulaus frá 15. júlí 2012 til 15. ágúst 2012. Þetta hafi verið eitthvað sem hann hafi látið vita af um leið og hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Hann hafi farið í viðtal hjá Vinnumálastofnun sem hafi reiknað allt út fyrir hann. Hann hafi skilað því sem honum hafi borið og haldið í þá trú að hann væri að fá allt rétt. Í dag sé hann þriggja barna faðir og eigi engan pening til að greiða til baka. Honum þyki mjög lélegt að fá þetta svona seint og þessi peningur sé löngu farinn.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fengið tilfallandi tekjur vegna starfa sinna fyrir B. Hann hafi ekki tilkynnt um þær tekjur til Vinnumálastofnunar. Þar sem tekjur kæranda hafi reynst hærri en greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hafi tekið mið af hafi stofnuninni borið að skerða atvinnuleysistryggingar í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda hafi verið leiðréttar í samræmi við framangreint ákvæði. Þar sem kærandi hafi þegar fengið greitt fyrir tímabilið hafi myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar. Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að atvinnuleitandi skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta.

Þá segir að í kæru til úrskurðarnefndar segist kærandi ekki geta fallist á innheimtu stofnunarinnar meðal annars vegna þess að hann hafi einungis verið skráður atvinnulaus frá 15. júlí til 15. ágúst 2012, en í bréfi Vinnumálastofnunar til hans sé tekið fram að skuld sé vegna ofgreiðslu á tímabilinu frá 1. júlí til 19. ágúst 2012. Vinnumálastofnun taki fram að í bréfi stofnunarinnar séu greiðslutímabil tilgreind en ekki sá tími sem kærandi hafi verið skráður atvinnulaus. Það sé ekki rétt að kærandi hafi einungis verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun frá 15. júlí 2012 til 15. ágúst 2012. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 20. júní 2012 en ekki 15. júlí eins og fram komi í kæru til nefndarinnar. Vinnumálastofnun sé eðli máls samkvæmt ómögulegt að leiðrétta atvinnuleysistryggingar sem kærandi hafi ekki fengið greiddar. Skuldamyndun komi  til vegna þeirra tekna sem kærandi hafi haft í júlí 2012 á meðan hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta.

Vinnumálastofnun bendir á að engin gögn eða athugasemdir í samskiptasögu stofnunarinnar bendi til þess að kærandi hafi tilkynnt um umræddar tekjur þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Þá vekur stofnunin athygli á því að í athugasemdum með 39. gr. Frumvarps, er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar, sé sérstaklega áréttað að leiðréttingin eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Úrskurðarnefndin hafi ítrekað afstöðu sína til þessa, sbr. niðurstöður úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011, 101/2012 og 132/2012.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 36.533 kr. með 15% álagi.

Atvinnuleitendum ber að upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum þeirra á þeim tíma sem þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur, s.s. um tekjur sem þeir fá fyrir tilfallandi vinnu, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá skulu skattyfirvöld láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna, sbr. 4. gr. 9. gr. laganna.

Um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna er fjallað í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. málsl. 1. mgr. 36. gr. segir að þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða og atvinnuleysisbætur hans séu hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru.

Þá segir í  2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun á skuld kæranda rætur sínar að rekja til þess að kærandi fékk ofgreiddar bætur í júlí 2012 þar sem hann tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um tekjur frá B. Kærandi byggir hins vegar á því að hann hafi tilkynnt um tekjur sínar frá B og hann gerir athugasemd við að krafan hafi ekki verið innheimt fyrr en í apríl 2015.

Af framangreindum lagaákvæðum má ráða að það er á ábyrgð bótaþega að upplýsa um tekjur. Vinnumálastofnun greiðir atvinnuleysisbætur í samræmi við tekjuupplýsingar atvinnuleitenda og ef tilkynnt er um tekjur geta bótagreiðslurnar verið skertar í samræmi við 36. gr. laganna. Vinnumálastofnun aflar síðar upplýsinga frá skattyfirvöldum um rauntekjur atvinnuleitenda. Ef rauntekjurnar eru ekki í samræmi við tekjuupplýsingar hafa atvinnuleitendur ef til vill fengið ýmist meira eða minna greitt en þeir áttu rétt til. Ef atvinnuleysisbæturnar eru ofgreiddar ber atvinnuleitendum að endurgreiða ofgreiddar bætur í samræmi við 39. gr. laganna.

Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bættur. Hins vegar skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hafi tilkynnt um tekjur sínar frá C þegar hann sótti um bætur. Hins vegar liggur ekkert fyrir um að hann hafi tilkynnt um tekjur sínar frá B. Því verður ekki fallist á að kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um framangreindar tekjur sínar og verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til ofgreiðslukröfu Vinnumálastofnunar.

Að því er varðar athugasemd kæranda um seinagang Vinnumálastofnunar þá liggur fyrir að það liðu tæplega þrjú ár frá því að kærandi fékk ofgreiddar bætur þar til honum var birt innheimtubréf, dags. 20. apríl 2015. Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar eins fljótt og unnt er. Ekki verður séð að sérstakar ástæður hafi skýrt umrædda töf á innheimtu kröfunnar. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála var málsmeðferð Vinnumálastofnunar því ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til stofnunarinnar að gæta framvegis að framangreindri málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga við töku ákvarðana um innheimtu ofgreiddra bóta. Hins vegar er almennur fyrningafrestur kröfuréttinda fjögur ár samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Krafa Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra bóta var því ekki fyrnd þegar kæranda var birt innheimtubréf, dags. 20. apríl 2015. Af þeim sökum verður ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu bóta ekki felld úr gildi á þeim grundvelli að hún sé of seint fram komin.

Kærandi byggir einnig á því að hann sé ekki fær um að greiða skuldina. Í lögum um atvinnuleysistryggingar er engin heimild til þess að fella niður endurgreiðslukröfu vegna fjárhagslegra aðstæðna atvinnuleitanda sem hefur fengið ofgreiddar bætur. Hin kærða ákvörðun verður því ekki felld úr gildi með vísan til fjárhagserfiðleika kæranda.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða skuld sína við Vinnumálastofnun með 15% álagi. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samtals að fjárhæð 36.533 kr. með 15% álagi, er staðfest.

Rakel Þorsteinsdóttir

Arnar Kristinsson

 Agnar Bragi Bragason

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum