Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

19.10.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 271/2017

Fimmtudaginn 19. október 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 21. júlí 2017, kærir B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. mars 2017, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.  

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 29. janúar 2017. Meðfylgjandi umsókn kæranda var skólavottorð frá C þar sem fram kemur að kærandi hafi verið skráð í nám við skólann en væri ekki skráð í nám á vorönn 2017. Skólavottorðinu fylgdi jafnframt bréf frá kæranda þar sem fram kemur að hún hafi hætt námi af fjárhagslegum ástæðum. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. febrúar 2017, var kærandi upplýst um að það kynni að varða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta að hætta námi og henni veitt færi á að koma að frekari athugasemdum áður en ákvörðun yrði tekin í málinu. Skýringar bárust frá kæranda með bréfi, dags. 1. mars 2017. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. mars 2017, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 92%. Með vísan til þess að hún hafi hætt í námi án gildra skýringa væri réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og að mál hennar yrði tekið fyrir á ný. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 29. mars 2017, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun í máli hennar væri staðfest og með bréfi, dags. 19. apríl 2017, var umbeðinn rökstuðningur veittur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. júlí 2017. Með bréfi, dags. 8. ágúst 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 29. ágúst 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. ágúst 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 1. október 2017 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. október 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að ágreiningur sé uppi um hvort ástæður námsloka hennar séu gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og hvort námstímabil hennar teljist vera nám í skilningi c-liðar 3. gr. laganna. Kærandi gerir einnig athugasemd við niðurstöðu rökstuðnings Vinnumálastofnunar. Kærandi vísar til þess að af lestri ákvæðis 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 og skýringa í greinargerð með ákvæði 54. gr. laganna sé ljóst að ríkari ástæður og orsök geti legið að baki ákvarðana atvinnuleitanda um að hætta námi og/eða starfi en upphaflega séu tilgreindar í umsókn atvinnuleitanda, enda oft um að ræða viðkvæm mál. Einnig sé ljóst að ákvarðanir Vinnumálastofnunar um biðtíma skuli vera teknar með tilliti til raunverulegra ástæðna sem hafi legið að baki ákvörðun um að hætta í námi. Þá sé ljóst að til gildra ástæðna telji ef atvinnuleitandi hætti námi af heilsufarsástæðum og ef atvinnuleitandi sé að öðru leyti vinnufær eða fær um að stunda nám.

Kærandi bendir á að í skýringarbréfi hennar og beiðni um endurupptöku komi fram að alvarleg og ólæknandi veikindi, [...], hafi haft áhrif á ákvörðun kæranda um að hætta námi. Hvorki í ákvörðun Vinnumálastofnunar né rökstuðningi hafi verið fjallað um veikindi kæranda. Því sé ljóst að Vinnumálastofnun hafi vísvitandi tekið ákvörðun um að líta fram hjá útskýringum kæranda um veikindi hennar, enda hafi stofnunin ekki talið læknisvottorð meðal gagna málsins. Kærandi tekur fram að sjúkdómur hennar sé þess eðlis að hann geti þótt viðkvæmt mál fyrir þá sem hann þurfi að bera. Henni hafi ekki þótt þægilegt að upplýsa um eigin veikindi og því ekki tilkynnt um sjúkdóminn og orsakatengsl hans við ákvörðunina um að hætta námi fyrr en hún hafi verið knúin til þess. Vinnumálastofnun hafi þannig ekki tekið tillit til raunverulegra ástæðna sem hafi legið að baki ákvörðun kæranda um að hætta námi. Ljóst sé að kærandi hafi þurft að hætta námi vegna atvika sem megi rekja beint til heilsufarsástæðna og veikindin séu staðfest með læknisvottorði. Kærandi hefði því getað haldið áfram námi og starfi ef ekki hefði verið fyrir ofangreindar heilsufarsástæður. Hin raunverulega orsök kæranda fyrir að hætta námi hafi því verið vegna heilsufarsástæðna. Að öðru leyti sé kærandi vinnufær og fær um að stunda nám, enda komi sjúkdómurinn í köstum og hún þegar í virkri atvinnuleit.

Kærandi vísar til þess að hún hafi verið í námi í skemmri tíma en sex mánuði en túlka megi orðalag c-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 svo að nám þurfi að standa yfir í að minnsta kosti sex mánuði til að falla undir skilgreiningu 55. gr. laganna. Því til stuðnings vísar kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 443/2016 er varðar túlkun á lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

Kærandi gerir athugasemd við að í rökstuðningi Vinnumálastofnunar komi fram að hún eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá lokum sumarannar. Tilvísun Vinnumálastofnunar til sumarannar sé óljós, enda hafði ekki verið fjallað um sumarönn í neinum öðrum samskiptum kæranda við stofnunina.

Kærandi fer fram á að viðurkennt verði að atvinnuleysisbótaréttur hennar hafi réttilega hafist við umsókn til Vinnumálastofnunar. Þá óskar kærandi eftir því að henni verði haldið skaðlausri að því að hafa þurft að leita sér lögfræðiaðstoðar til að sækja rétt sinn til atvinnuleysisbóta, þ.e. að Vinnumálastofnun verði gert að greiða þann lögfræðikostnað sem hafi fallið til vegna málsins í samræmi við framlagða reikninga.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar er vísað til þess að í greinargerðinni komi í fyrsta sinn fram rökstuðningur fyrir ákvörðun stofnunarinnar, um að sjúkdómur sem orsök fjárhagslegra örðugleika, teldist ekki gild ástæða. Í greinargerðinni sé vísað til þess að kærandi hafi ekki upplýst Vinnumálastofnun um að sjúkdómurinn hamli henni að stunda nám en stofnunin hafi aldrei óskað eftir frekari gögnum um sjúkdóminn né upplýst hana um að fyrrgreind ástæða hefði haft áhrif á ákvörðun í málinu. Í beiðni um endurupptöku málsins hafi kærandi upplýst um að hún hefði fengið kast í október á meðan hún hafi verið í starfi og námi og að veikindin hefðu því spilað stóran þátt í að henni varð ómögulegt að sinna fullri vinnu samhliða náminu. Kærandi hafi því misst vinnuna og þar með nauðsynlegar tekjur, meðal annars til að standa straum af skólagjöldum næstu annar og framfærslu, svo sem mat, lyfjum og húsakosti. Því hafi kærandi hafið atvinnuleit á ný eftir önnina.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 skal sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum en hefur hætt í námi án gildra ástæðna ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Í c-lið 3. gr. laganna sé að finna skilgreiningu á námi. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 sé vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins um hvað geti talist gildar ástæður. Þar komi fram að erfitt geti reynst að telja með tæmandi hætti hvaða ástæður séu gildar. Lagareglan sé því matskennd og Vinnumálastofnun því falið að meta hvernig atvik og aðstæður tiltekins máls falli að henni. Stofnunin skuli líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Jafnframt beri að líta til þess að orðalagið „gildar ástæður“ beri að túlka þröngt í þessu samhengi og þar af leiðandi falli færri tilvik en ella þar undir. Í dæmaskyni séu nefnd þau tilvik þegar fjölskylda umsækjanda flytur búferlum vegna starfa maka eða segir starfi sínu lausu vegna heilsufarsástæðna en sé að öðru leyti vinnufær. Vinnumálastofnun bendir á að tilgangur laga nr. 54/2006 sé að tryggja þeim sem misst hafa starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Gera verði þá kröfu til þeirra sem segi upp starfi sínu eða hætti námi að þeir hafi til þess gildar ástæður.

Í skýringum kæranda á námslokum sínum til stofnunarinnar 24. febrúar og 1. mars komi fram að fjárhagslegar ástæður hafi legið að baki því að hún hafi hætt námi og að hún hafi ekki haft nægjanlegt fjármagn til framfærslu og greiðslu skólagjalda. Með hliðsjón af þeim skýringum hafi það verið niðurstaða Vinnumálastofnunar að vegna námsloka skyldi kærandi sæta tveggja mánaða biðtíma, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006. Í endurupptökubeiðni kæranda hafi komið fram ítarlegri upplýsingar um ástæður kæranda fyrir námslokum sínum. Í læknisvottorði frá Heilsugæslunni D, dags. 14. mars 2017, komi fram að kærandi sé greind með [...], en ekki komi fram frekari upplýsingar um ástand kæranda. Í endurupptökubeiðni kæranda komi fram að einkenni séu mismikil eftir tímabilum og að streita og álag geti haft neikvæð áhrif á einkenni hennar. Veikindin hafi meðal annars hindrað kæranda í að sinna fullu starfi samhliða náminu. Kærandi hafi þó lokið námsönninni, en hafi þá verið orðin án atvinnu og af þeim sökum hafi henni verið fjárhagslega ómögulegt að halda áfram námi. Þrátt fyrir að í frumvarpi til laga nr. 54/2006 séu heilsufarsástæður tilgreindar sem tilvik sem geti talist til gildra ástæðna fyrir því að umsækjandi um atvinnuleysisbætur hætti námi þá sé einnig um að ræða matskennda lagareglu sem Vinnumálastofnun sé falið að túlka og meta hvernig atvik og aðstæður falli að kröfum reglunnar hverju sinni. Stofnunin þurfi að horfa til þess að einstaklingur sé haldinn staðfestum heilsukvilla, en einnig þurfi að liggja fyrir upplýsingar um að þessar heilsufarsástæður séu grundvöllur ákvörðunar umsækjanda fyrir því að hætta námi. Með hliðsjón af skýringum kæranda hafi það verið mat Vinnumálastofnunar að ástæður fyrir því að kærandi hafi ekki getað haldið áfram námi væru fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis er stöfuðu af því að kærandi hafi ekki getað sinnt starfi á vinnumarkaði samhliða náminu. Í þeim gögnum sem kærandi hafi lagt fram vegna umsóknar sinnar um atvinnuleysisbætur og með endurupptökubeiðni sinni komi ekki fram að sá sjúkdómur sem hún sé greind með hamli henni að stunda nám, heldur að einkenni hans séu lotubundin og versni við stress og aukið álag. Auk þess komi fram í umsókn kæranda að hún sé almennt vinnufær. Þar sem fjárhagslegar ástæður hafi almennt ekki talist gildar ástæður fyrir því að einstaklingur hætti námi, sbr. 1. mgr. 55. gr. laganna þá hafi niðurstaða Vinnumálastofnunar verið sú að staðfesta fyrri ákvörðun frá 10. mars 2017.

Vinnumálastofnun hafnar því alfarið að litið hafi verið fram hjá útskýringum kæranda um veikindin. Það sé hins vegar mat stofnunarinnar að ástæður kæranda fyrir því að hætta námi hafi verið fjárhagslegar og á þeim grundvelli hafi ákvörðun verið tekin. Þá vísar stofnunin því alfarið á bug að litið hafi verið fram hjá læknisvottorði með endurupptökubeiðni kæranda en það hafi legið fyrir, bæði við endurumfjöllun ákvörðunarinnar og rökstuðning hennar. Vinnumálastofnun telji að ekki verði séð af fyrirliggjandi upplýsingum að kærandi sé ófær um að halda áfram námi á sama tíma og hún teljist fær til almennra starfa en samkvæmt umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur sé hún almennt vinnufær. Þá taki kærandi fram í bréfi til úrskurðarnefndarinnar að hún sé að öðru leyti vinnufær og fær um að stunda nám, enda komi sjúkdómurinn í köstum en hún sé þegar í virkri atvinnuleit. Enn fremur verði ekki séð að kærandi hafi fært fram þau rök að heilsubrestur hennar geti talist gild ástæða fyrir námslokum á meðan hún teljist fullfær til vinnu, en það sé meðal helstu skilyrða laga nr. 54/2006.

Vinnumálastofnun tekur fram að málatilbúnaður kæranda um að nám hennar falli utan skilgreiningar náms í skilningi c-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 sé fráleitur. Tilvísun kæranda til túlkunar úrskurðarnefndar velferðarmála á lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof hafi ekkert vægi í hennar máli þrátt fyrir að skýringar á orðunum „launamaður“ og „nám“ séu efnislega samhljóða. Í lagaákvæðinu sé vísað til lengdar þess náms sem umsækjandi hafi lagt stund á, frá upphafi þess til útskriftar miðað við hefðbundna námsframvindu en ekki ástundunar hvers og eins umsækjanda. Við mat á því hvort nám teljist falla undir skilgreiningu c-liðar 3. gr. laganna verði að horfa til þess hve langt námið teljist vera frá því að einstaklingur hefji nám og þar til hann ljúki því, miðað við eðlilega námsframvindu. Af því leiði að einstaklingur sem innritast til 90 ECTS- eininga meistaranáms á háskólastigi hljóti að hafa byrjað nám sem varir lengur en sex mánuði. Sá skilningur að horfa til þess hve lengi umsækjandi hafi lagt stund á námið, fremur en lengd námsins sjálfs, sé í engu samræmi við ákvæði laga nr. 54/2006 og lögskýringargögn. Slík framkvæmd myndi þar að auki hafa verulega varhugaverðar afleiðingar fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð og í beinni andstöðu við tilgang laganna, enda væri sú framkvæmd til þess fallin að hvetja einstaklinga til að hverfa frá námi og þiggja þess í stað greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þá væri ekki gætt jafnræðis á milli umsækjenda um atvinnuleysisbætur ef Vinnumálastofnun væri falið að beita viðurlögum á grundvelli laganna einungis í þeim tilfellum sem umsækjandi hefði stundað nám í lengri tíma en sex mánuði. Þá beri einnig að líta til þess að nám sem vari skemur en sex mánuði, eða 30 ECTS- einingar, sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Vinnumálastofnun hafnar kröfu kæranda um að stofnuninni verði gert að greiða  kostnað hennar vegna lögfræðiaðstoðar. Vinnumálastofnun bendir á að það sé meginregla íslensks réttar að aðilar stjórnsýslumáls beri sjálfir eigin kostnað sem til falli vegna reksturs stjórnsýslumáls. Löggjafinn hafi þó í undantekningartilvikum séð ástæðu til að gera ráð fyrir málskostnaði í tilteknum sérlögum til handa aðila stjórnsýslumáls og þá með hliðsjón af eðli, umfangi og flækjustigi þess málaflokks, svo sem lög nr. 30/1992 um yfirskattanefnd og lög nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Í öðrum tilvikum þar sem ekki sé kveðið á um málskostnað í sérlögum þurfi aðilar stjórnsýslumáls að bera kröfur sínar um málskostnað undir dómstóla. Hvergi sé að finna heimild í lögum til handa Vinnumálastofnun til að greiða málskostnað vegna stjórnsýslumála né handa úrskurðarnefndinni til að kveða á um slíka skyldu Vinnumálstofnunar. Því beri að hafna kröfu kæranda.

Vinnumálastofnun tekur fram að í rökstuðningi stofnunarinnar, dags. 19. apríl 2017, sé að finna misritun þar sem talað sé um sumarönn í tilviki kæranda. Um sé að ræða bagalega misritun sem stofnunin biðjist velvirðingar á. Vinnumálastofnun bendi þó á að kæranda hafi verið frjálst að hafa samband við stofnunina og krefjast frekari skýringa. Þá sé enn fremur ljóst að biðtími kæranda hafi þá þegar verið liðinn, en kærandi hafi fengið greiddar fullar atvinnuleysisbætur þann 2. maí 2017 og hafi síðan fengið greiðslur samfleytt og því augljóslega ekki um að ræða níu mánaða biðtíma líkt og kærandi haldi fram í bréfi sínu til nefndarinnar.

Í ljósi framangreindra atriða sé það mat Vinnumálastofnunar að ástæður kæranda teljist ekki gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006.  

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 55. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.“

Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Samkvæmt gögnum málsins stundaði kærandi nám við C haustið 2016 með vinnu en var ekki skráð í nám á vorönn 2017. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnu 29. janúar 2017 en stofnunin leit svo á að kærandi hefði verið námsmaður í skilningi c-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006. Stofnunin beindi því umsókn kæranda í það ferli, meðal annars með því að óska eftir skýringum á því hvers vegna hún hefði hætt námi.

Í gögnum málsins liggja einnig fyrir vottorð vinnuveitanda en af þeim er ljóst að kærandi var í 100% starfi samhliða námi á haustönn 2016. Samkvæmt staðfestingu um starfstímabil kæranda hjáE ehf. var hún í starfi hjá fyrirtækinu frá 4. mars 2016 til 1. nóvember 2016, þegar hún tók sér tímabundið leyfi til að ljúka námi. Vegna endurskipulagningar innan fyrirtækisins var kæranda sagt upp störfum í desember 2016 þegar staða hennar var felld niður. Í a-lið 3. gr. laga nr. 54/2006 er að finna skilgreiningu á launamanni en þar segir:

Launamaður. Hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald.“

Í 13. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna en eitt af þeim er að hafa verið launamaður á ávinnslutímabili samkvæmt 15. gr. í starfi sem ekki er hluti af sérstökum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó V. kafla laganna. Í 15. gr. laganna kemur fram að launamaður, sbr. a-lið 3. gr., teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr. Í 2. mgr. 15. gr. segir að launamaður, sem hafi starfað skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr. Þá kemur fram í 6. mgr. 15. gr. að heimilt sé að taka tillit til starfs sem unnið sé með námi við útreikning á atvinnuleysistryggingum launamanns, en þá teljist námið ekki til vinnuframlags hans samkvæmt 3. mgr.

Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Vinnumálastofnun að leggja mat á hvort kærandi uppfyllti skilyrði 13. gr. laga nr. 54/2006 óháð námsþátttöku hennar, enda ljóst að kærandi stundaði ekki nám þegar hún lagði inn umsókn um atvinnuleysisbætur í lok janúar 2017. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Hvað varðar kröfu kæranda þess efnis að Vinnumálastofnun verði gert að greiða þann kostnað sem hafi fallið til vegna málsins í samræmi við framlagða reikninga skal tekið fram að í lögum nr. 54/2006 er ekki að finna ákvæði sem heimilar Vinnumálastofnun að greiða málsaðilum kostnað sem tilkominn er vegna kæru þeirra til úrskurðarnefndarinnar. Að því virtu er kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar hafnað.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. mars 2017, um að um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar er hafnað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson