Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

30.3.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 401/2016

Fimmtudaginn 30. mars 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. október 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. október 2016, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á tímabilinu mars 2011 til apríl 2012. Með bréfi, dags. 5. febrúar 2014, var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fyrir tímabilið 20. júní 2011 til 19. desember 2011. Kærandi fór fram á skýringar á endurgreiðslukröfunni með bréfi til Vinnumálastofnunar, dags. 12. febrúar 2014. Með bréfi, dags. 6.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                   mars 2014, var kæranda tilkynnt að beiðni hans um endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri synjað. Kærandi bar ákvörðun Vinnumálastofnunar undir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sem staðfesti ákvörðun stofnunarinnar með úrskurði þann 17. apríl 2015. Í kjölfarið kvartaði kærandi til umboðsmanns Alþingis og með bréfi, dags. 27. apríl 2016, óskaði umboðsmaður Alþingis eftir upplýsingum frá úrskurðarnefnd velferðarmála um tiltekið álitaefni. Úrskurðarnefndin ákvað að endurupptaka mál kæranda og kvað upp nýjan úrskurð í málinu þann 9. september 2016 þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar var felld úr gildi. Með bréfi, dags. 12. október 2016, var kæranda tilkynnt að mál hans hjá Vinnumálastofnun hefði verið tekið fyrir á ný og fyrri ákvörðun stofunarinnar um innheimtu ofgreiddra bóta væri staðfest. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. október 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 17. október 2016. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 1. nóvember 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. nóvember 2016, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti þann 26. nóvember 2016 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. nóvember 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafi aftur sett kröfu hans um upplýsingar og gögn vegna innheimtu á ofgreiddum bótum í endurupptökuferli. Kærandi hafi ekki enn fengið upplýsingar um forsendur, útreikninga né gögn líkt og hann hafi farið fram á með bréfi til stofnunarinnar í febrúar 2014. Kærandi ítrekar því efni bréfsins að honum sé gerð grein fyrir því hvernig niðurstaða stofnunarinnar hafi orðið til sem og afrits af öllum gögnum, rökstuðningi og reglum sem hana varði. Þá fer kærandi fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála ógildi aftur hina kærðu ákvörðun.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar kemur fram að útreikningar og tölur þær er stofnunin hafi lagt fram sé ekki afmarkað við seinni hluta árs 2011 líkt og innheimtubréf Vinnumálastofnunar geri kröfu til. Vinnumálastofnun hafi ekki sýnt fram á að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins hafi komið stofnuninni á óvart árið 2011, þvert á móti hafi við hverja útborgun verið dregið frá atvinnuleysisbótum hans vegna tekna frá Tryggingastofnun. Þannig hafi tekjur hans frá Tryggingastofnun legið fyrir. Kærandi bendir á að hann hafi aldrei verið beðinn um skýringar á neinu misræmi árið 2011 og þar með ekki fengið andmælarétt vegna innheimtunnar. Þá hafi hann ekki fengið tækifæri til að sjá og yfirfara útreikninga fyrir það tímabil sem endurgreiðslukrafan lúti að.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fengið greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 20. júní 2011 til 19. desember 2011. Ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun vegna þeirra greiðslna og því ekki unnt að taka tillit til þeirra við greiðslu atvinnuleysisbóta. Það hafi leitt til þess að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á fyrrgreindu tímabili. Þar sem greiðslur til kæranda hafi numið hærri fjárhæð en frítekjumark atvinnuleysisbóta hafi komið til skerðingar á atvinnuleysisbótum kæranda í samræmi við 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bendir á að upplýsingar um skuldamyndun kæranda hafi verið birtar á greiðsluseðlum Vinnumálastofnunar til hans, meðal annars frá 1. febrúar 2012. Við útborgun atvinnuleysisbóta hefðu ofgreiðslur verið innheimtar en þó aldrei meira en 25% af útreiknuðum bótum fyrir það tímabil sem greitt hafi verið fyrir. Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur þar til hann hafi óskað eftir afskráningu í apríl 2012. Þá hafi skuld kæranda numið 102.058 kr. að meðtöldu 15% álagi. Í febrúar 2014 hafi skuldin enn verið ógreidd og því hafi kæranda verið send greiðsluáskorun með bréfi, dags. 5. febrúar 2014.

Vinnumálastofnun tekur fram að ákvörðun um að skerða atvinnuleysisbætur kæranda vegna lífeyrisgreiðslna hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að skerða greiðslur atvinnuleysisbóta þegar tekjur hins tryggða eru umfram frítekjumark atvinnuleysisbóta samkvæmt 4. mgr. 36. gr. Framkvæmd skerðingarinnar sé þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt á. Helmingur þeirrar upphæðar sem nái umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndi skerðingu atvinnuleitanda. Skerðing á atvinnuleysisbótum kæranda hafi verið framkvæmd með framangreindum hætti og kæranda beri því að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Innheimta ofgreiddra atvinnuleysisbóta sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 en samkvæmt ákvæðinu sé stofnuninni skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær bætur sem hafi verið ofgreiddar. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðréttingin eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslu hafi því ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd.

Vinnumálastofnun greinir frá því að tilurð kröfunnar sem um ræði megi rekja til tekna sem kærandi hafi fengið frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu 20. júní 2011 til 19. desember 2011. Heildarskuld vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta hafi verið 436.090 kr. eða 316.605 kr. að frádregnum skattgreiðslum. Skuldajöfnun á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum hafi verið alls 227.859 kr. og eftirstöðvar skuldarinnar því 102.058 kr. að meðtöldu 15% álagi þegar greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda hafi lokið. Alls hafi verið greiddar 53.462 kr. inn á skuldina hjá Innheimtumiðstöð Sýslumannsins á Norðurlandi vestra og eftirstöðvar skuldarinnar því 48.596 kr. Til grundvallar niðurstöðu Vinnumálastofnunar um endurgreiðsluskyldu kæranda hafi stofnunin lagt mat á þau gögn sem hefðu verið lögð fram, meðal annars upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, skýringar og gögn frá kæranda sjálfum. Enn fremur hafi kærandi fengið sendan rökstuðning fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. október 2016, þar sem tilurð kröfunnar og útreikningur hennar hafi verið rökstudd. Þá hafi kæranda einnig verið send afrit af gögnum málsins. Að mati Vinnumálastofnunar hafi stofnunin því fullnægt upplýsingaskyldu sinni og veitt kæranda rökstuðning í samræmi við 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem skuld kæranda sé enn ógreidd telji Vinnumálastofnun að ákvörðun stofnunarinnar um að hefja frekari innheimtuaðgerðir samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 hafi verið rétt. Samkvæmt 35. gr. laganna beri atvinnuleitanda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi nema honum verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til skuldamyndunar. Kæranda hafi verið í lófa lagið að tilkynna um tekjur og skrá tekjuáætlun vegna þeirra. Vinnumálastofnun telji því að kærandi skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að afgreiðslu Vinnumálastofnunar sem fram kemur í bréfi, dags. 12. október 2016, þar sem fram kemur að stofnunin hafi endurupptekið mál kæranda í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemd við meðferð Vinnumálastofnunar á máli kæranda í kjölfar úrskurðar nefndarinnar frá 9. september 2016. Í úrskurðinum kemur skýrt fram að ekki væri unnt að líta þannig á að kærandi hafi með bréfi til stofnunarinnar, dags. 12. febrúar 2014, verið að óska eftir endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það væri mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi verið að óska eftir aðgangi að gögnum málsins svo og rökstuðningi vegna innheimtubréfs Vinnumálastofnunar frá 5. febrúar 2014. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var því felld úr gildi með vísan til þessa og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Þrátt fyrir framangreinda afstöðu úrskurðarnefndarinnar kemur fram í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. október 2016, að mál kæranda hafi verið tekið fyrir að nýju með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga. Að því virtu telur úrskurðarnefndin óhjákvæmilegt að fella aftur úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar og vísa málinu til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. október 2016, í máli A, er felld úr gildi og málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson