Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

30.3.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 121/2017

Fimmtudaginn 30. mars 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála, móttekinni 22. mars 2017, krefst A, leiðréttingu á bótarétti.

I. Málavextir og málsmeðferð

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar krefst kærandi þess að bótatímabil hans verði endurnýjað þar sem Vinnumálastofnun hafi fært bótarétt hans úr 36 mánuðum í 30 mánuði. Til vara krefst kærandi þess að hann haldi 36 mánaða bótarétti sínum með vísan til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. apríl 2016 í máli nr. 125/2015.

II. Niðurstaða

Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að úrskurðarnefnd velferðarmála skuli kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunni að rísa á grundvelli laganna. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf því að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ákvarðanir sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, svokallaðar formákvarðanir, verða því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar fer kærandi fram á að bótatímabil hans verði endurnýjað vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar um að færa bótarétt úr 36 mánuðum í 30 mánuði. Til vara fer kærandi fram á að hann haldi 36 mánaða bótarétti sínum með vísan til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. apríl 2016 í máli nr. 125/2015. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi beint framangreindum kröfum sínum til Vinnumálastofnunar og að tekin hafi verið kæranleg stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda. Að því virtu og í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi getur lagt inn kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála þegar endanleg ákvörðun Vinnumálastofnunar liggur fyrir.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson