Hoppa yfir valmynd
21. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 230/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 230/2015

Miðvikudaginn 21. september 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. ágúst 2015, kærði B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. maí 2015, vegna beiðni um endurskoðun uppgjöra stofnunarinnar vegna tekjuáranna 2010 og 2011.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 6. febrúar 2015, óskaði C félagsráðgjafi, f.h. kæranda, eftir skýringum Tryggingastofnunar á uppgjörum og endurreikningum stofnunarinnar fyrir árin 2010, 2011 og 2012. Fram kemur að fjármagnstekjur kæranda samkvæmt skattframtali framangreindra ára séu lægri en samkvæmt uppgjöri Tryggingastofnunar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. febrúar 2015, var kæranda greint frá því að skýring á mismuni fjármagnstekna í uppgjöri stofnunarinnar og skattframtölum kæranda væri sú að samanlagðar fjármagnstekjur hjóna birtust í uppgjörsmynd. Með bréfi, dags. 1. apríl 2015, var greint frá því að kærandi hefði talið fram ein en verið skráð í sambúð frá 30. september 2010. Skilyrði samsköttunar samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt hefðu ekki verið uppfyllt fyrr en í árslok 2011. Þá var óskað eftir að gerður yrði nýr endurreikningur fyrir kæranda vegna tekjuráranna 2010 og 2011 þar sem fjármagnstekjum hennar yrði breytt í samræmi við framtölin. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 11. maí 2015, var kæranda greint frá því að samkvæmt þjóðskrá hefði hún verið skráð í sambúð frá og með 30. september 2010. Þar af leiðandi miði stofnunin við þann tíma varðandi fjármagnstekjur.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 7. ágúst 2015. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. september 2015, krafðist Tryggingastofnun ríkisins frávísunar málsins. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag, var frávísunarkrafa Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 12. október 2015, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. október 2015, ítrekaði stofnunin frávísunarkröfu sína og var það sent kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Með bréfi, dags. 25. apríl 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála á ný eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Í bréfinu kemur fram að Tryggingastofnun hafi óskað frávísunar á þeim grundvelli að kærufrestur væri liðinn vegna ákvarðana stofnunarinnar um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum áranna 2010 og 2011, dags. 21. júlí 2011 og 20. júlí 2012. Úrskurðarnefndin telji hins vegar að í bréfi kæranda til stofnunarinnar, dags. 1. apríl 2015, felist beiðni um endurupptöku á framangreindum ákvörðunum stofnunarinnar. Málinu verði því ekki vísað frá á þeim grundvelli að kærufrestur sé liðinn. Með bréfi, dags. 20. maí 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 23. maí 2016. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 10. júní 2016, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 14. júní 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að afgreiðsla Tryggingastofnunar, dags. 11. maí 2015, um synjun á endurreikningi ofgreiddra bóta á árunum 2010 og 2011 verði endurskoðuð.

Fram kemur í kæru að umboðsmaður kæranda telji Tryggingastofnun ekki hafa reiknað fjármagnstekjur í samræmi við skattframtöl fyrir árin 2010 og 2011. Hún telji meðferð útreikninga fjármagnstekna ekki vera rétta fyrir umrædd tímabil og tekjurnar ekki reiknaðar hlutfallslega yfir árið. Umboðsmaður kæranda telji ákvæði 49. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar ekki vera beitt rétt þar sem kærandi hafi ekki verið í sambúð í heilt ár heldur aðeins hluta þess tímabils sem um ræði. Telji umboðsmaður kæranda að tilvísun í 49. gr. laga um almannatryggingar eigi ekki við þar sem ákvæðinu sé beitt til skerðingar á stjórnarskrárbundnum rétti einstaklings. Þar sem um stjórnarskrárbundinn rétt sé að ræða þurfi skerðingarheimildir að koma skýrt fram í texta laganna. Ekkert í lagaákvæðinu eða lögskýringargögnum segi til um að það megi nota til skerðinga með þessum hætti.

Umboðsmaður kæranda mótmæli kröfu Tryggingastofnunar um frávísun málsins fyrir úrskurðarnefndinni þar sem stofnunin haldi því fram að eingöngu hafi verið um að ræða svar við fyrirspurn af hálfu stofnunarinnar og staðlaður texti með leiðbeiningum um kæruheimild hafi verið settur undir bréfið fyrir mistök. Umboðsmaður kæranda kveðst hafa óskað eftir því með bréfi, dags. 1. apríl 2015, að Tryggingastofnun gerði nýjan endurreikning fyrir árin 2010 og 2011. Því hafi ekki verið um fyrirspurn að ræða heldur ósk um endurskoðun. Því telji hún ekki vera grundvöll fyrir frávísun málsins.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins komi fram að úrskurðarnefndin hafi óskað eftir efnislegri greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins í málinu. Greinargerð stofnunarinnar varði þann þátt málsins sem úrskurðarnefndin hafi tekið afstöðu til með bréfi sínu og því hafi greinargerð Tryggingastofnunar í raun ekkert efnislegt gildi. Með öðrum orðum, þá telji hún ekkert í greinargerðinni skipta máli fyrir málið miðað við þann farveg sem búið var að ákveða að málið færi í. Þögn stofnunarinnar um efnisþætti málsins verði þar með að skýra stofnuninni í óhag.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnun frá 9. september 2015 er krafist frávísunar málsins fyrir úrskurðarnefndinni á þeim grundvelli að kærufrestur sé liðinn.

Í greinargerð segir að uppgjör tekjuársins 2010 hafi farið fram þann 21. júlí 2011 og uppgjör vegna tekjuársins 2011 hafi farið fram þann 20. júlí 2012. Kæranda hafi verið tilkynnt um þessi uppgjör með bréfum á sínum tíma og leiðbeint um kæruheimild vegna þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt sé talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. komi fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tilkynnt aðila.

Tryggingastofnun hafi átt í bréfaskiptum við umboðsmann kæranda í febrúar og apríl 2015 sem hafi ekki falið í sér nýja ákvörðun af hálfu Tryggingastofnunar. Með bréfunum hafi eingöngu verið svarað fyrirspurnum kæranda og útskýrðar forsendur og niðurstöður uppgjöra áranna 2010 og 2011. Vegna mistaka hafi staðlaður texti verið settur með leiðbeiningum um kæruheimild í bréfi stofnunarinnar, dags. 11. maí 2015, en hann hafi ekki átt við þar sem ekki var verið að taka ákvörðun í málinu.

Í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 20. maí 2016, kemur fram að Tryggingastofnun hafi borist kæra frá Öryrkjabandalagi Íslands vegna kæranda. Kæran snúist um uppgjör vegna tekjuáranna 2010 og 2011. Með greinargerð Tryggingastofnunar þann 9. september 2015 hafi stofnunin óskað eftir því að úrskurðarnefndin vísaði málinu frá þar sem kærufrestur hafi verið liðinn.

Tryggingastofnun hafi borist erindi frá úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem farið sé fram á að stofnunin skili efnislegri greinargerð. Í erindi úrskurðarnefndarinnar komi fram að nefndin líti á bréf umboðsmanns kæranda sem ósk um endurupptöku á fyrri ákvörðunum stofnunarinnar og svar Tryggingastofnunar sem synjun á þeirri ósk.

Uppgjör tekjuársins 2010 hafi farið fram þann 21. júlí 2011 og uppgjör vegna tekjuársins 2011 hafi farið fram þann 20. júlí 2012. Kæranda hafi verið tilkynnt um þessi uppgjör með bréfum á sínum tíma og hafi henni verið leiðbeint um kæruheimild vegna þeirra. Þá hafi jafnframt verið vísað til kæruheimildar til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Þó að ákvarðanir Tryggingastofnunar og forsendur þeirra hafi verið kæranda fullljósar þá sé í gögnum málsins ekki hægt að sjá að kærandi hafi haft samband við Tryggingastofnun eða úrskurðarnefnd til að gera athugasemdir við uppgjör tekjuáranna 2010 og 2011 fyrr en í febrúar 2015 og hafi kærufrestur samkvæmt 8. gr. almannatrygginga verið löngu liðinn.

Í samræmi við 23. gr. stjórnsýslulaga eigi aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Einnig séu mál ekki tekin upp á nýjan leik ef meira en ár sé liðið frá þeirri ákvörðun sem óskað sé endurupptöku á, nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Ekki hafi verið lögð fram nein gögn af hálfu kæranda eða umboðsmanns hans sem bendi til þess að skilyrði endurupptöku á ákvörðun Tryggingastofnunar frá 21. júlí 2011 og 20. júlí 2012, séu uppfyllt. Einnig sé ljóst að væru skilyrðin uppfyllt þá sé mun lengri tími liðinn en ár frá því að þær ákvarðanir voru teknar sem kærandi sé ósáttur við og ekki séu veigamiklar ástæður til þess að endurupptaka málið. Ekki séu forsendur til þess að endurupptaka mál kæranda og fyrri ákvörðun Tryggingastofnunar standi því óbreytt.

IV.  Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 11. maí 2015, er varðar endurreikninga stofnunarinnar vegna tekjuáranna 2010 og 2011.

Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Um stjórnvaldsákvarðanir er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds.

Með bréfum, dags. 21. júlí 2011 og 20. júlí 2012, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum áranna 2010 og 2011. Með bréfi, dags. 1. apríl 2015, óskaði kærandi eftir því að gerður yrði nýr endurreikningur fyrir hana vegna framangreindra ára þar sem fjármagnstekjum hennar yrði breytt í samræmi við skattframtöl hennar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að í framangreindu bréfi felist beiðni um endurupptöku á ákvörðunum Tryggingastofnunar frá 21. júlí 2011 og 20. júlí 2012, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í hinni kærðu ákvörðun frá 11. maí 2015 er greint frá því að kærandi sé skráð í sambúð frá 30. september 2010. Þar af leiðandi miði Tryggingastofnun við þann tíma varðandi fjármagnstekjur. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af framangreindu orðalagi að í bréfinu felist svar við beiðni kæranda um endurupptöku. Úrskurðarnefndin telur að um sé að ræða útskýringar á niðurstöðum uppgjöra vegna áranna 2010 og 2011. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki hafi verið um stjórnvaldsákvörðun að ræða. Þegar af þeirri ástæðu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. 

Úrskurðarnefnd velferðarmála beinir þeim tilmælum til Tryggingastofnunar ríkisins að svara beiðni kæranda um endurupptöku.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum