Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 355/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 355/2015

Mánudaginn 29. ágúst 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. desember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. október 2015, um að synja umsókn kæranda um endurnýjun samnings vegna vinnu öryrkja og fjárhæð endurgreiðslu stofnunarinnar vegna fyrri vinnusamninga.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2016 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Þann 29. ágúst 2014 samþykkti Tryggingastofnun ríkisins upphaflega þátttöku í vinnusamningi á milli annars vegar kæranda sem vinnuveitanda og hins vegar örorkulífeyrisþega, hér eftir nefndur starfsmaður. Um var að ræða 50% vinnu á tímabilinu frá X til X og voru mánaðarlaun ákveðin X kr. Samningurinn var endurnýjaður í tvígang með samningum, dags. X og X, vegna vinnu frá X til X, en á því tímabili höfðu mánaðarlaun verið hækkuð í X kr.

Sótt var um endurnýjun vinnusamningsins hjá Tryggingastofnun með umsókn, dags. 22. ágúst 2015. Með umsókninni fylgdi bréf félagsráðgjafa, dags. X, þar sem fram kemur að hafa beri til hliðsjónar við vinnslu umsóknarinnar að borið hafi á því að fyrrgreindur starfsmaður hefði ekki fengið greitt samkvæmt launaseðlum. 

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 1. september 2015, var kærandi upplýstur um að vegna upplýsinga um að hann hefði ekki greitt laun samkvæmt fyrri vinnusamningum hafi stofnunin tekið ákvörðun um að rannsaka málið og á meðan kæmi ekki til endurnýjunar samningsins. Með öðru bréfi, dags. 25. september 2015, var kærandi upplýstur um að við eftirlit Tryggingastofnunar hefðu vaknað grunsemdir um að hann hefði ekki greitt laun samkvæmt vinnusamningum og óskað var skýringa hans á misræmi á launum greiddum inn á reikning starfsmanns og launaseðlum. Kærandi sendi stofnuninni í framhaldinu yfirlit yfir annars vegar greiðslur til starfsmannsins og hins vegar greiðslur frá Tryggingastofnun. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 22. október 2015, var kærandi upplýstur um að upplýsingar hans hefðu staðfest að hann hefði greitt starfsmanni lægri laun en gefin hafi verið upp á launaseðlum. Einnig að fengist hafi staðfest að mótframlag vegna lífeyrissjóðs og stéttarfélags hafi ekki verið greitt, þrátt fyrir að kveðið hafi verið á um það í samningum. Með hliðsjón af þessu var umsókn kæranda um endurnýjun vinnusamnings synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 11. desember 2015. Með bréfi, dags. 15. desember 2015, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 29. desember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 18. janúar 2015, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 28. janúar 2016 með ódagsettu bréfi og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. febrúar 2016. Athugasemdir bárust frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 15. febrúar 2016, og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 29. febrúar 2016, bárust frekari athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 9. mars 2016, og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. mars 2016. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 11. mars 2016, og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. mars 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að felld verði úr gildi synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurnýjun vinnusamnings, dags. X, vegna vinnu starfsmannsins á tímabilinu frá X til X. Kærandi gerir einnig kröfu um leiðréttingu launaseðla vegna vinnu starfsmannsins á tímabilinu frá X til X.

Í kæru kemur fram að þegar kærandi hafi ákveðið að gera vinnusamning við B vegna öryrkja í vinnu hafi verið skýrt tekið fram að kærandi myndi ekki þurfa að greiða aukakostnað vegna starfsmannsins. Fram hafi komið að sú fjárhæð sem yrði greidd af Tryggingastofnun myndi nægja fyrir bæði launum og launatengdum gjöldum. Rætt hafi verið um að þrátt fyrir að í vinnusamningi kæmi fram að þátttaka stofnunarinnar væri 75% af launum og launatengdum gjöldum ætti greiðsla stofnunarinnar engu að síður að nægja fyrir þeim kostnaði. Það sé því alveg ljóst að um misskilning hafi verið að ræða. Kærandi hefði ekki farið í þessa vegferð hefði hann í upphafi fengið upplýsingar um að málum væri háttað eins og raun bar vitni.

Vegna tímabilsins frá X til X hafi kærandi greitt laun að fjárhæð X kr. og þar að auki staðið skil á staðgreiðslu og tryggingargjaldi að fjárhæð X kr. Kærandi hafi hins vegar fengið greiddar X kr. frá Tryggingastofnun ríkisins vegna tímabilsins og því sjálfur þurft að greiða X umfram þá greiðslu.

Kærandi óski eftir að vinnusamningur, sem hafi verið undirritaður í X, taki gildi eins og lofað hafi verið, enda hafi starfsmanninum verið sagt að halda áfram sínu striki. Kærandi hafi aðeins verið að hugsa um velferð starfsmannsins sem hljóti að vera aðalatriðið. Kærandi telur að starfsmaðurinn hafi staðið sig vel í starfi og að starfið hafi hjálpað til við að halda sjúkdómi hans niðri þar sem hugsað hafi verið um hann.

Í athugasemdum kæranda segir að fengist hafi staðfest hjá starfsmanni Tryggingastofnunar að 100% starfshlutfall samkvæmt almennum vinnusamningi hafi á gildistímum fyrri vinnusamninga verið X kr. á mánuði og 50% starfshlutfall því X kr. á mánuði. Kærandi telji því ljóst að stofnunin hefði ekki átt að samþykkja vinnusamningana þar sem launin hefðu átt að vera X kr. en ekki X kr. Stofnuninni hafi borið að leiðbeina og upplýsa kæranda í þessu sambandi og ekki samþykkja samning þar sem laun voru ákveðin X kr. á mánuði og síðan X kr.

Kærandi telji að með réttu hafi mánaðarlaun átt að vera X kr. á gildistímum samninganna sem geri samtals X kr. fyrir tímabilið, en greidd hafi verið laun að fjárhæð X kr. Þá sé rétt að kærandi hafi átt að greiða 25% í gjöld á tímabilinu eða X kr. á mánuði sem geri samtals X kr. fyrir umrætt tímabil.

Kærandi fari fram á að launaseðlar, sem hafi verið gefnir út á umdeildu tímabili, verði leiðréttir til samræmis við það sem lofað hafi verið um að kærandi myndi ekki þurfa að greiða aukakostnað vegna starfsmannsins. Ljóst sé að kærandi hafi verið að hugsa um velferð hans, að honum liði sem best og að góður árangur hafi náðst með hann. Kærandi hafi til margra ára verið með átakið [...] sem hafi að markmiði að [...].

Í viðbótarathugasemdum kæranda segir að ljóst sé að kærandi hafi fengið upplýsingar frá Tryggingastofnun um að 50% starfshlutfall væri X kr. á mánuði. Þetta hafi einnig fengist staðfest frá tilteknu stéttarfélagi. Kærandi hafi talið sig standa við þá samninga sem gerðir hafi verið, þ.e. að hugsa vel um starfsmanninn og greiða honum laun. Einnig telji kærandi að hann hafi verið í góðri trú um að hann væri að gera hlutina rétt, enda séu allir sem starfi hjá kæranda í sjálfboðavinnu og eyði frítíma sínum í starfið. Þá telji kærandi ósanngjarnt af stofnuninni að væna hann um vanefndir. Vilji kæranda standi til að hafa hlutina rétta og þar með þá launaseðla sem hafi verið sendir stofnuninni.

Að lokum segir að kærandi hafi staðið við alla gerða samninga og starfsmanninum hafi verið lofað áframhaldandi vinnusamningi sem Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki staðið við. Það sé alls ekki rétt að kærandi hafi vísvitandi sent stofnuninni ranga launaseðla. Hvorki hafi verið til staðar ástæða til þess né ávinningur af því. Þær fjárhæðir sem Tryggingastofnun hafi greitt hafi runnið til starfsmannsins. 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að þann x hafi stofnunin gert vinnusamning við kæranda og starfsmanninn. Samningurinn hafi verið endurnýjaður x og x.

Um mitt sumar x hafi stofnuninni borist upplýsingar sem hafi bent til þess að launagreiðslur kæranda til starfsmannsins væru ekki í samræmi við vinnusamninginn. Á þeim tíma hafi legið fyrir umsókn kæranda um endurnýjun samningsins en vegna fyrrnefndra upplýsinga hafi afgreiðslu hennar verið frestað, sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda, dags. x.

Óskað hafi verið eftir skýringum kæranda á því misræmi sem hafi virst vera fyrir hendi vegna launagreiðslna. Umbeðnar skýringar hafi borist og staðfest að launagreiðslur hefðu ekki verið í samræmi við það sem kveðið hafi verið á um í vinnusamningnum. Einnig hafi upplýsingar frá lífeyrissjóði staðfest að kærandi hefði ekki greitt tilskilin gjöld til sjóðsins þrátt fyrir að það hefði komið fram á launaseðli.

Stofnunin hafi endanlega synjað um endurnýjun vinnusamningsins með bréfi, dags. 22. október 2015.

Heimild Tryggingastofnunar til að taka þátt í vinnusamningi öryrkja byggi á 62. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í ákvæðinu komi fram að stofnuninni sé heimilt að semja við atvinnufyrirtæki um að þau taki til sín í vinnu öryrkja sem fái greiddar bætur og hafi vinnugetu sem geti ekki nýst á vinnumarkaði og hafi ekki verulegar aðrar tekjur til lífsviðurværis en bætur almannatrygginga. Í 3. gr. reglugerðar nr. 159/1995 um vinnusamninga öryrkja komi meðal annars fram að í vinnusamningi skuli kveðið á um hlutfall endurgreiðslu launa og launatengdra gjalda sem skuli aldrei vera hærra en 75% og aldrei lægra en 25%.

Þann 29. janúar 2001 hafi Tryggingaráð sett reglur nr. 2/2001 um afgreiðslu umsókna um vinnusamninga öryrkja. Í 7. gr. reglnanna komi fram að hámarksendurgreiðsla, þ.e. 75%, geti að hámarki varað í tvö ár. Í 8. gr. reglnanna komi fram að við framlengingu samninga sé miðað við að endurgreiðsluhlutfall Tryggingastofnunar lækki að meðaltali um 10% með tólf mánaða millibili þar til lágmarksendurgreiðslu sé náð.

Fram kemur að stofnunin hafi gert samning við kæranda og starfsmanninn og það liggi fyrir, staðfest frá kæranda, að ekki hafi verið staðið við fyrri samninga við starfsmanninn.

Stofnunin hafi synjað um gerð nýs samnings í ljósi vanefnda kæranda á fyrri samningum. Ljóst sé að kærandi hafi sent stofnuninni launaseðla þrátt fyrir vitneskju um að þeir væru rangir, í þeim tilgangi að fá greiðslur frá stofnuninni. Einnig hafi kærandi greitt staðgreiðslu í samræmi við hærri launagreiðslur í sama tilgangi.

Tryggingastofnun hafi gert vinnusamninga öryrkja á grundvelli 62. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sem sé heimildarákvæði. Stofnunin telji að ekki sé unnt að gera slíkan samning við þá sem hafi vísvitandi brotið gegn gerðum samningum og skilað inn röngum gögnum í þeim tilgangi að fá greiðslur frá stofnuninni. Rétt sé að hafa sérstaklega í huga að stofnunin geti ekki haft eftirlit með því að vinnusamningar séu brotnir á þann hátt sem hér hafi verið gert og sé það tilviljun að upp hafi komist um háttsemina í þessu tilviki.

Sérstaklega sé tekið fram að stofnunin kannist ekki við að kærandi hafi verið upplýstur um að greiðslur stofnunarinnar myndu duga til þess að standa undir launum og launatengdum gjöldum. Orðalag samningsins hafi verið mjög skýrt og það sama gildi um ákvæði fyrrnefndrar reglugerðar og reglna. Fullyrðingu kæranda þar um sé því með öllu hafnað.

Að lokum vekji stofnunin athygli á tveimur atriðum. Í fyrsta lagi komi stofnunin ekki til með að sjá um meðferð vinnusamninga öryrkja frá 1. janúar 2016 þar sem málaflokkurinn hafi verið fluttur til Vinnumálastofnunar. Í öðru lagi sé nefndur starfsmaður einnig aðili þessa máls og telji stofnunin eðlilegt að úrskurðarnefnd gefi honum færi á að kynna sér kæruna og gögn málsins.

Í athugasemdum Tryggingastofnunar er tekið fram að stofnunin viti ekki hvaðan kærandi hafi fengið upplýsingar um fjárhæðir, sbr. það sem segir í athugasemdum kæranda. Engar slíkar fjárhæðir sé að finna í lögum, reglugerðum eða vinnureglum. Laun fyrir vinnusamninga séu mjög mismunandi, enda þau störf sem bótaþegar hafi verið fengnir til að starfa við afar fjölbreytt. Ekki hafi verið í gildi regla um hámarkslaun þeirra örorkulífeyrisþega sem hafi fengið samþykkta umsókn um vinnusamning öryrkja.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurnýjun vinnusamnings og einnig fjárhæð endurgreiðslu stofnunarinnar vegna fyrri vinnusamninga.

Í 1. mgr. þágildandi 62. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar var kveðið á um að ráðherra væri heimilt að fela Tryggingastofnun ríkisins að semja við atvinnufyrirtæki um að þau tækju í vinnu öryrkja sem fengju greiddan örorkulífeyri, örorkustyrk, endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða slysaörorkubætur undir 50% og hefðu vinnugetu sem ekki hefði nýst á vinnumarkaði og hefðu ekki verulegar aðrar tekjur til lífsviðurværis en bætur almannatrygginga. Í 2. málsl. sömu greinar kom fram að skerðing bóta á starfstímabilinu færi eftir almennum skerðingarreglum á hverjum tíma og í 3. málsl. kom fram að í reglugerð skyldi nánar kveðið á um öryrkjavinnu þessa. Reglugerð nr. 159/1995 um öryrkjavinnu var sett með stoð í sambærilegu ákvæði eldri laga um almannatryggingar.

Í 3. mgr. 3. gr. reglugerðar um öryrkjavinnu segir að í vinnusamningi skuli kveðið á um þriggja mánaða reynslutíma og hlutfall endurgreiðslu launa og launatengdra gjalda hins fatlaða sem skuli aldrei vera hærra en 75% og aldrei lægra en 25%.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 159/1995 segir að Tryggingastofnun endurgreiði atvinnurekanda mánaðarlega hlutfall af launum hins fatlaða, sbr. 3. gr., gegn framvísun kvittana þar að lútandi og afriti af launaseðlum og tilskildum gögnum sendum skattayfirvöldum. Jafnframt gefur stofnunin skattyfirvöldum upplýsingar um endurgreidd vinnulaun til atvinnurekanda eftir hvert ár.

Í 9. gr. reglugerðarinnar segir að auk fastra launa skuli Tryggingastofnun greiða atvinnurekanda sama hlutfall og að ofan greinir af öllum launatengdum gjöldum sem atvinnurekandi greiðir vegna starfsmannsins.

Hin kærða ákvörðun í máli þessu snýst um að Tryggingastofnun synjaði kæranda um endurnýjun á vinnusamningi á þeirri forsendu að fyrri samningar hefðu verið vanefndir af hans hálfu. Tryggingastofnun greinir frá því að kærandi hafi greitt umræddum starfsmanni lægri laun en tilgreind voru á launaseðlum og að tiltekinn lífeyrissjóður hafi staðfest að mótframlag hafi ekki verið greitt vegna starfsmannsins, þrátt fyrir tilgreiningu á launaseðlum þar um. Kærandi hefur greint frá því að hann hafi verið í sambandi við ríkisskattstjóra vegna leiðréttinga launaseðlanna. Einnig segir kærandi að greiðslur frá Tryggingastofnun hafi að fullu verið notaðar til að greiða starfsmanninum laun og launatengd gjöld. Þá hafi hann fengið þær upplýsingar hjá Tryggingastofnun að hann myndi hvorki koma til með að þurfa greiða starfsmanninum laun né launatengd gjöld vegna hans þrátt fyrir að í samningi stæði að endurgreiðsla stofnunarinnar væri 75%. Stofnunin hefur neitað fullyrðingu kæranda þar um.

Kærandi hefur lagt fram yfirlit yfir launagreiðslur til starfsmannsins sem sýna lægri greiðslur en tilgreindar voru á launaseðlum í nokkur skipti. Það er því  óumdeilt að kærandi greiddi starfsmanninum lægri laun en tilgreind voru á launaseðli. Þá liggja fyrir í gögnum málsins fyrrnefndir vinnusamningar þar sem fram kemur að um 75% endurgreiðslu sé að ræða og einnig er þar að finna tilvísun til reglugerðar um öryrkjavinnu. Að þessu virtu telur úrskurðarnefnd að kæranda hafi mátt vera kunnugt um að honum bæri að greiða 25% launanna, þ.e. að launin og launatengdu gjöldin yrðu ekki að fullu greidd af stofnuninni. Engin gögn liggja fyrir í máli þessu sem styðja fullyrðingu kæranda í þá veru að Tryggingastofnun hafi lofað því að hann þyrfti ekki að greiða kostnað vegna starfsmannsins. Þá telur úrskurðarnefnd að ekkert hafi komið fram í máli þessu sem réttlæti það að launaseðlarnir voru rangir. Úrskurðarnefnd telur því gögn málsins sýna fram á að kærandi hafi vanefnt fyrri vinnusamninga.

Fyrrnefnt ákvæði 62. gr. laga um almannatryggingar heimilar ráðherra að fela Tryggingastofnun ríkisins að semja við atvinnufyrirtæki um að þau taki örorkulífeyrisþega í vinnu. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er um að ræða matskennt ákvæði sem leggur ekki skyldur á hendur Tryggingastofnun ríkisins að semja við atvinnufyrirtæki, þrátt fyrir að vilji fyrirtækisins og örorkulífeyrisþegans standi til þess en synjun stofnunarinnar um gerð vinnusamnings verði að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Með hliðsjón af fyrrgreindum vanefndum kæranda er það niðurstaða úrskurðarnefndinnar að málefnalegt hafi verið að synja honum um endurnýjun vinnusamnings.

Þá hefur kærandi farið fram á í máli þessu að Tryggingastofnun ríkisins sé gert að leiðrétta launaseðla til samræmis við það sem lofað hafi verið um að kærandi myndi ekki þurfa að greiða aukakostnað vegna starfsmannsins. Úrskurðarnefnd almannatrygginga telur að af framangreindu verði ráðið að kærandi krefjist þess að stofnunin endurgreiði félaginu að fullu laun starfsmannsins samkvæmt fyrri vinnusamningum. Eins og áður hefur komið fram segir í fyrrgreindum vinnusamningnum að endurgreiðsluhlutfall stofnunarinnar sé 75%. Þá liggja engin gögn fyrir í máli þessu sem styðja fullyrðingu kæranda í þá veru að Tryggingastofnun hafi lofað því að hann þyrfti ekki að greiða kostnað vegna starfsmannsins. Það virðist vera óumdeilt að stofnunin hafi endurgreitt kæranda 75% af launum starfsmannsins í samræmi við fyrrgreinda vinnusamninga. Ekki er því fallist á kröfu kæranda um frekari greiðslur frá stofnuninni vegna fyrri samninga.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um endurnýjun vinnusamnings staðfest. Þá er kröfu kæranda um frekari endurgreiðslu vegna vinnusamninga vegna öryrkjavinnu hafnað.

Í greinargerð Tryggingastofnunar vekur stofnunin athygli á því að fyrrgreindur starfsmaður kæranda sé einnig aðili þessa kærumáls og taldi stofnunin eðlilegt að nefndin gæfi honum færi á að kynna sér kæruna og gögn málsins. Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um endurnýjun vinnusamnings vegna vanefnda hans. Nánar tiltekið snýr ágreiningur aðeins að réttarsambandi Tryggingastofnunar ríkisins og kæranda. Það eru því sjónarmið kæranda og Tryggingastofnunar sem nauðsynlegt er að komið sé á framfæri í máli þessu. Samningurinn snerist vissulega um starf starfsmannsins og telji hann hafa verið á sér brotið getur hann að leitað réttar síns. Mál það sem hér um ræðir lýtur ekki að þeim hluta málsins. Þegar af þeirri ástæðu er það niðurstaða úrskurðarnefnarinnar að framangreindur starfsmaður sé ekki aðili máls þessa.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um endurnýjun vinnusamnings er staðfest. Þá er kröfu kæranda um frekari endurgreiðslu vegna vinnusamninga um öryrkjavinnu hafnað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum