Almannatryggingar

11.10.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 93/2017

Miðvikudaginn 11. október 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. mars 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. desember 2016 um upphafstíma greiðslna barnalífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan barnalífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá X. Stofnunin stöðvaði ellilífeyri og tengdar greiðslur, þar á meðal barnalífeyri, 1. júní 2012 þar sem lögheimili kæranda hafði verið flutt til B og tilkynnti kæranda um þá ákvörðun með bréfi, dags. 22. maí 2012. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. september 2015, var kærandi upplýstur um að greiðslur ellilífeyris hæfust að nýju frá og með 1. ágúst 2015 vegna flutnings hans til landsins. Fram kom jafnframt að barnalífeyrir hafi ekki verið afgreiddur þar sem lögheimili sonar hans hafi ekki verið skráð á Íslandi. Með tölvupósti 18. október 2016 fór kærandi fram á greiðslu barnalífeyris aftur í tímann. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 28. október 2016, var kæranda tilkynnt um að greiðslur barnalífeyris myndu hefjast á ný 1. október 2016 en var synjað um greiðslur aftur í tímann. Kærandi fór fram á greiðslur frá 10. apríl 2012 með tölvupósti 16. nóvember 2016. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. desember 2016, var kæranda tilkynnt að stofnunin hafi samþykkt greiðslu barnalífeyris frá 1. ágúst 2015.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. mars 2017. Með bréfi, dags. 17. mars 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 7. apríl 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. apríl 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá greiddan barnalífeyri með syni sínum frá því að greiðslur voru stöðvaðar á árinu 2012.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi aldrei átt lögheimili erlendis. Hann hafi haft tekjur og greitt skatta á Íslandi samfellt í meira en X ár. Gert sé ráð fyrir að einstaklingur eigi lögheimili þar sem hann hafi 2/3 eða meira af tekjum sínum. Honum hafi því verið skylt að hafa lögheimili á Íslandi. Sé óskað eftir afritum af skattframtölum hans síðustu tíu ár þá verði hann við því en þar komi fram upplýsingar um að hann hafi greitt skatta á Íslandi á þeim tíma.

Þá segir að kærandi hafi haft og hafi enn forsjá sonar síns. Skylt sé lögum samkvæmt að sonur hans hafi sama lögheimili og forsjáraðili barnsins. Drengurinn sé íslenskur ríkisborgari og hafi aldrei átt lögheimili í B né hafi hann fengið að skrá aðsetur þar. Skýring B yfirvalda hafi verið að „hann hafi aldrei komið til B enda fæddur þar“. Drengurinn hafi heldur ekki fengið að fara úr landi í nokkur ár þar sem hann hafi ekki verið með stimpil í sínu íslenska vegabréfi þess efnis að hann hafi komið inn í B. Síðastliðið haust hafi drengurinn fengið heimild til að yfirgefa landið og hafi hann komið til Íslands X 2016.

Krafa kæranda sé að greiddur verði lífeyrir vegna barnsins allt frá því að hann hafi verið felldur niður á árinu 2012. Greiddur hafi verið lífeyrir með barninu um nokkra mánaða skeið áður en hann hafi verið felldur niður í framhaldi af því að þjóðskrá felldi niður lögheimili kæranda á Íslandi. Samkvæmt lögum sé gert ráð fyrir að einstaklingurinn ákveði sjálfur hvar hann eigi lögheimili og það hafi hann gert. Ef Þjóðskrá vilji ekki fallast á slíka ákvörðun ber stofnuninni að höfða mál. Það hafi ekki verið gert.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð hafi verið synjun á greiðslu barnalífeyris aftur í tímann.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. desember 2016, hafi verið samþykkt að greiða kæranda barnalífeyri með syni hans frá 1. ágúst 2015 eða frá og með fyrsta næsta mánaðar eftir að lögheimili kæranda fluttist frá B. Kæranda hafi verið synjað um greiðslu barnalífeyris fyrir þann tíma þar sem hann hafði verið með skráð lögheimili í B á þeim tíma.

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, greiði Tryggingastofnun barnalífeyri með börnum yngri en 18 ára sé annað hvort foreldra látið eða örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn hafi verið lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skuli greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. 

Í 3. mgr. 20. gr. segi að Tryggingastofnun geti ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega, svo og með barni manns sem sæti gæsluvist eða afplánar fangelsi, enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði. Í reglum Tryggingaráðs frá árinu 1999 segi í 2. gr. að heimild til greiðslu barnalífeyris með barni ellilífeyrisþega sé bundin því skilyrði að viðkomandi njóti ellilífeyrisins.

Í 4. gr. segi að sá sem búsettur sé hér á landi, sbr. 5. tölulið 2. gr., teljist tryggður hér að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna nema annað leiði af milliríkjasamningum. Tryggingavernd falli niður þegar búseta sé flutt frá Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum þessa kafla. Tryggingastofnun ákvarði hvort einstaklingur teljist tryggður hér á landi samkvæmt lögunum.

Í 5. tölulið 2. gr. segi að búseta sé lögheimili í skilningi laga um lögheimili nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Kærandi hafi fengið greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun frá 1. febrúar 2010 og barnalífeyri með syni hans frá X. Við eftirlit á árinu 2012 hafi komið í ljós að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði almannatryggingalaga um greiðslu lífeyris og því hafi Tryggingastofnun stöðvað greiðslur til kæranda frá 1. júní 2012. Stofnunin hafi tilkynnt honum það með bréfi, dags. 22. maí 2012.

Kærandi hafi fengið greiddan ellilífeyri að nýju frá Tryggingastofnun frá 1. ágúst 2015. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. október 2016, hafi verið samþykkt að greiða kæranda barnalífeyri með syni hans frá 1. október 2016 þar sem að samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi sonur kæranda verið skráður með lögheimili hjá kæranda frá X 2016. Komið hafi fram í bréfinu að til þess að verða við beiðni kæranda um barnalífeyri frá þeim tíma sem ellilífeyrisgreiðslur fóru í gang til hans að nýju, þ.e. frá 1. ágúst 2015, þyrftu að berast upplýsingar og gögn sem sýndu að kærandi hefði annast framfærslu sonar síns á þeim tíma. Í bréfinu hafi kæranda verið synjað um greiðslu barnalífeyris fyrir 1. ágúst 2015 þar sem á þeim tíma hefði kærandi verið með lögheimili í B.

Tryggingastofnun hafi borist bréf kæranda, dags. 16. nóvember 2016, þar sem fram hafi komið upplýsingar um framfærslu sonar kæranda og því hafi stofnunin samþykkt greiðslu barnalífeyris til kæranda frá 1. ágúst 2015 eða frá og með fyrsta næsta mánaðar eftir að lögheimili kæranda fluttist frá B. Kæranda hafi aftur verið synjað um greiðslu barnalífeyris með syni hans fyrir 1. ágúst 2015 þar sem lögheimili hans hafi verið í B á þeim tíma. 

Almenna reglan sé að Tryggingastofnun sé einungis heimilt að greiða lífeyri til þeirra sem eigi hér lögheimili og séu tryggðir hér á landi, sbr. 4. gr. og 5. tölul. 2. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Undanþága frá þessari reglu sé gerð vegna þeirra einstaklinga sem hafi búsetu í þeim löndum sem Ísland hafi gert samninga við, sbr. 58. gr. laga um almannatryggingar. Á milli Íslands og B séu engir samningar sem kveði á um greiðslu lífeyris milli landanna. 

Þar sem kærandi hafi verið með lögheimili skráð í B frá X 2012 til X 2015 og verið búsettur þar hafi Tryggingastofnun ekki heimild til að greiða honum barnalífeyri með syni hans fyrir 1. ágúst 2015. Þá greiðist barnalífeyrir einungis til þeirra sem njóta ellilífeyris og kærandi hafi ekki notið ellilífeyris fyrr en frá 1. ágúst 2015.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. desember 2016, þar sem samþykkt var greiðsla barnalífeyris frá 1. ágúst 2015, þ.e. ákveðinn var sami upphafstími og greiðslur ellilífeyris til handa kæranda. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun beri að greiða barnalífeyri lengra aftur í tímann.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar getur Tryggingastofnun ríkisins ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega.

Samkvæmt framangreindu er einungis heimilt að greiða kæranda barnalífeyri vegna þess tímabils sem hann fær ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og telst þar með ellilífeyrisþegi í skilningi laga nr. 100/2007. Samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. desember 2016, er upphafstími ellilífeyrisgreiðslna til kæranda 1. ágúst 2015. Sú ákvörðun var staðfest með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 102/2017. Þegar af þeirri ástæðu er ekki heimilt að greiða kæranda barnalífeyrir lengra aftur í tímann en frá 1. ágúst 2015.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna barnalífeyris staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að upphafstími greiðslna barnalífeyris til A, sé 1. ágúst 2015, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir