Almannatryggingar

19.10.2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 72/2015

Miðvikudaginn 19. október 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. febrúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. desember 2015, um upphafstíma greiðslu heimilisuppbótar til kæranda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 3. desember 2015, sótti kærandi um heimilisuppbót afturvirkt frá 7. júlí 2014. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. desember 2015, var umsókn kæranda um heimilisuppbót samþykkt en greiðslur ákvarðaðar frá 1. desember 2015 til 30. september 2016. Í bréfinu segir að umsókn um afturvirkar greiðslur sé synjað því samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hafi kærandi ekki búið ein fyrr en þann 26. nóvember 2015. Með bréfi, dags. 13. apríl 2016, samþykkti Tryggingastofnun að greiða kæranda heimilisuppbót frá 1. ágúst 2015. Fram kemur að ekki sé heimilt að greiða heimilisuppbót fyrir 1. ágúst 2015 þar sem kærandi teljist ekki vera einhleyp fyrr en eftir skilnað að borði og sæng sem hafi átt sér stað þann 1. júlí 2015.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 17. febrúar 2016. Með bréfi, dags. 19. febrúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 18. mars 2016, þar sem stofnunin krafðist frávísunar málsins. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. apríl 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar og óskað eftir afstöðu kæranda til frávísunarkröfu Tryggingastofnunar. Kærandi mótmælti frávísunarkröfu stofnunarinnar með símtali þann 25. apríl 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. apríl 2016, óskaði nefndin eftir efnislegri greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 17. maí 2016, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 19. maí 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að umsókn hennar um heimilisuppbót verði samþykkt frá 6. júlí 2014. Kærandi kveðst hafa flutt frá eiginmanni sínum þann 6. júlí 2014 eftir að hafa farið fram á skilnað. Henni hafi hvorki verið unnt að flytja lögheimili sitt né barnanna vegna þess að fjárskipti hafi ekki getað farið fram vegna ágreinings í þeim málum. Í október hafi fyrrum eiginmaður hennar farið fram á að hafa lögheimili barna þeirra þrátt fyrir að samningsdrög hafi hljóðað upp á að lögheimili barnanna væri hjá kæranda. Það hafi verið ástæðan fyrir því að ekki hafi verið hægt að ganga frá skilnaði þrátt fyrir að fjárskipti hafi verið undirrituð.

Kærandi kveðst enga fjárhagslega aðstoð hafa fengið frá fyrrum eiginmanni sínum á þessum tíma, hvorki meðlag né framfærslu. Hún hafi verið einstæð í öllum skilningi nema lagalegum vegna ofangreinds frá 6. júlí 2014.

Í greinargerð lögmanns kæranda kemur fram að kærandi hafi sótt um afturvirka heimilisuppbót þar sem hún hafi ekki verið í samvistum við fyrrverandi eiginmann sinn síðan 6. júlí 2014, en umsókn hennar hafi verið hafnað þrátt fyrir að hún hafi sýnt fram á leigusamning og leigugreiðslur á tímabilinu. Þá hafi kærandi og fyrrverandi maður hennar fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng í júlí 2015.

Þá segir að aðilar hafi slitið samvistum 6. júlí 2014 og kærandi hafi flutt í leiguhúsnæði það sem hún búi í nú. Hún hafi staðið straum af leigukostnaði vegna þess. Aðilar hafi leitað til sýslumanns vegna skilnaðarins og verið sammála um að lögheimili barna þeirra tveggja myndi vera hjá kæranda og það hafi ávallt verið tekið fram í drögum að samningum þeirra á milli. Í september 2014 hafi lögmaður föður barnanna hins vegar sent bréf til sýslumanns þar sem farið hafi verið fram á að börnin hafi lögheimili hjá föður. Ekki hafi reynst unnt að ná samningum um þennan þátt málsins við föður og kærandi hafi lýst yfir afstöðu sinni við sýslumann um að börnin skuli eiga lögheimili hjá henni líkt og áður hafi verið rætt. Vorið 2015 hafi aðilar undirritað fjárskiptasamning um annað en lögheimili barna þeirra en þær viðræður hafi enn staðið á milli aðila. Sýslumaður hafi lokið málinu af sinni hálfu með bréfi þann 3. júní 2015 þess efnis að ekki hafi tekist að leysa úr ágreiningi varðandi lögheimili barnanna. Faðir hafi stefnt málinu fyrir dóm í sama mánuði, kæranda að óvörum. Það mál hafi endað með sátt fyrir héraðsdómi í október 2015 og úrskurði um málskostnað hjá Hæstarétti í janúar 2016. Þá fyrst hafi kæranda verið unnt að flytja lögheimili sitt og dóttur sinnar og hún hafi gert það jafnskjótt og kostur hafi verið.

Á meðan samningaviðræðum hafi staðið og síðar í málaferlum fyrir dómi á milli aðila hafi kæranda ekki verið fært að flytja lögheimili sitt frá B, fyrrum sameiginlegu heimili fjölskyldunnar, þótt kærandi hafi flust af staðnum. Ástæða þess hafi verið sú að kærandi og faðir barnanna hafi verið með sameiginlega forsjá með börnunum eftir samvistarslit. Kveðið sé á um það í 28. gr. a barnalaga nr. 76/2003 að það foreldri sem barn eigi lögheimili hjá hafi heimild til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, s.s. hvar barnið skuli eiga lögheimili innanlands, um val á skóla, heilbrigðisþjónustu og tómstundastarf. Kærandi hefði þannig misst af mikilvægum réttindum sem foreldri barnanna hefði hún flutt lögheimili sitt áður en niðurstaða hafi fengist í samningaviðræðum aðila og síðar dómsmáli þeirra á milli. Faðir hefði þannig sjálfkrafa verið gefið ákvörðunarvald um daglegt líf barnanna og við það hafi kærandi ekki getað unað.

Engu að síður hafi kærandi slitið samvistum við föður barnanna í júlí 2014 og fengið skilnað að borði og sæng í júlí 2015 líkt og gögn málsins beri með sér. Verði því að telja réttlætanlegt að kærandi fái greiddar afturvirkar bætur miðað við raunástand á tímabilinu þar sem flutningur lögheimilis hafi verið háður ómöguleika sökum aðstæðna.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé upphafstími heimilisuppbótar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. apríl 2016, hafi verið samþykkt heimilisuppbót frá 1. ágúst 2015 til 30. september 2016. Kærandi vilji fá greiðslur heimilisuppbótar frá 7. júlí 2014.

Þá segir að kærandi hafi sótt um heimilisuppbót með umsókn, dags. 3. desember 2015. Í umsókninni komi fram að óskað sé eftir greiðslum frá 7. júlí 2014. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. desember 2015, hafi umsókn kæranda um heimilisuppbót verið samþykkt frá 1. desember 2015 til 30. september 2016. Með sama bréfi hafi kæranda verið synjað um greiðslur aftur í tímann.

Tryggingastofnun hafi borist kæra í máli nr. 72/2016. Eftir yfirferð yfir gögn málsins hafi stofnunin talið að þau væru fullnægjandi til þess að endurskoða fyrri ákvörðun. Með bréfi, dags. 13. apríl 2016, hafi kæranda verið tilkynnt um að fyrri ákvörðun hafi verið endurskoðuð og greiðslur heimilisuppbótar hafi verið samþykktar frá 1. ágúst 2015 til 30. september 2016. Í bréfinu komi fram að ekki sé heimilt að greiða heimilisuppbót fyrir 1. ágúst 2015. Kærandi hafi ekki verið talin einhleyp fyrr en eftir að leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng hafi verið gefið út sem átt hafi sér stað 1. júlí 2015. Í framhaldi af þessu hafi stofnunin óskað eftir því að úrskurðarnefnd vísaði málinu frá þar sem ný ákvörðun hafi verið tekin. Tryggingastofnun hafi nú borist erindi frá úrskurðarnefndinni þar sem óskað hafi verið eftir efnislegri greinargerð í málinu.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sé heimilt að greiða einhleypingi, sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót, 23.164. kr. á mánuði. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.

Nánar sé fjallað um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri í reglugerð nr. 1052/2009 ásamt reglugerðarbreytingum.

Samkvæmt gögnum málsins þá sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót lengra aftur í tímann en frá 1. ágúst 2015. Óumdeilt sé að kærandi hafi verið í hjúskap fram til 1. júlí 2015 samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá og gögnum málsins, en þann dag hafi leyfisbréf verið gefið út til skilnaðar að borði og sæng. Skilgreining á einhleypingi samkvæmt íslenskri orðabók sé sú að viðkomandi sé ógiftur eða ókvæntur. Kærandi uppfylli ekki skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð að vera einhleypingur, þ.e. ógift, fyrr en á þeim tíma, en það sé eitt af þeim skilyrðum sem bótaþegi þurfi að uppfylla til þess að eiga rétt á heimilisuppbót. Tryggingastofnun sé því ekki heimilt lögum samkvæmt að greiða kæranda heimilisuppbót fyrr en frá og með 1. ágúst 2015. Engin heimild sé í lögum til þess að líta fram hjá því skilyrði að vera einhleypingur til að geta átt rétt á heimilisuppbót. Bætur til kæranda séu reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Rétt sé að vekja athygli á því að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi áður haft sambærileg mál til afgreiðslu og megi meðal annars nefna mál nr. 326/2012, 324/2014 og 325/2014. Í þeim málum hafi úrskurðarnefndin staðfest þessa túlkun Tryggingastofnunar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslu heimilisuppbótar til kæranda. Greiðslur voru ákvarðaðar frá 1. desember 2015, en undir rekstri málsins fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála breytti Tryggingastofnun upphafstíma greiðslnanna og ákvarðaði þær frá 1. ágúst 2015 með bréfi, dags. 13. apríl 2016. Ágreiningur málsins lýtur að þeirri kröfu kæranda um að fá greidda heimilisuppbót afturvirkt frá 6. júlí 2014.

Við úrlausn þessa máls ber að leggja til grundvallar gildandi rétt á þeim tíma sem kærandi sótti um afturvirkar greiðslur heimilisuppbótar, þ.e. með umsókn móttekinni þann 3. desember 2015. Við mat á upphafstíma greiðslu heimilisuppbótar lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess sem greinir í þágildandi 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar:

„Allar umsóknir skulu ákvarðaðar svo fljótt sem kostur er á og skulu bætur reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandinn hefur uppfyllt skilyrðin til bótanna. Bætur skv. III. kafla, aðrar en lífeyrir skv. IV. kafla, reiknast þó frá fyrsta næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi og falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.

Bætur, aðrar en slysalífeyrir …, skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni…

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á og um heimilisuppbót er fjallað í 8. gr. laga um félagslega aðstoð. Af framangreindu má ráða að heimilisuppbót reiknast frá þeim degi sem umsækjandi hefur uppfyllt skilyrði til bótanna, en þó aldrei lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn berast Tryggingastofnun. Umsókn kæranda um heimilisuppbót barst Tryggingastofnun þann 3. desember 2015 og í kæru óskar kærandi eftir greiðslum frá 6. júlí 2014. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að niðurstaðan í máli þessu ráðist af því frá hvaða tímamarki kærandi uppfyllti skilyrði til greiðslu heimilisuppbótar.

Í 8. gr. laga um félagslega aðstoð segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleypings sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt

Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur almennan málskilning til grundvallar og telur að með einhleypingi sé átt við einstakling sem er hvorki í sambúð né hjúskap, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 326/2012. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í hjúskap fram til 1. júlí 2015 en þann dag var leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng gefið út. Að mati úrskurðarnefndar var kærandi því ekki einhleyp í skilningi 8. gr. laga um félagslega aðstoð fyrr en 1. júlí 2015. Úrskurðarnefndin telur að kærandi hafi uppfyllt skilyrði til greiðslu heimilisbótar frá þeim tíma.

Tryggingastofnun ákvarðaði upphafstíma heimilisuppbótar kæranda frá 1. ágúst 2015. Úrskurðarnefnd velferðarmála fær ráðið af gögnum málsins að sú ákvörðun sé byggð á núgildandi 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar þar sem segir að bætur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Að mati úrskurðarnefndar er ekki unnt að byggja ákvörðun um upphafstíma heimilisuppbótar kæranda á því lagaákvæði heldur beri að leggja til grundvallar gildandi rétt á þeim tíma sem kærandi sótti um afturvirkar greiðslur heimilisuppbótar eins og áður hefur komið fram. Í þágildandi 1. málsl. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar kom fram að bætur skyldu reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandi uppfyllti skilyrði til bótanna. Einungis bætur samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar, aðrar en lífeyrir samkvæmt IV. kafla laganna, reiknuðust frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur var fyrir hendi, sbr. þágildandi 2. málsl. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, og heimilisuppbót fellur ekki þar undir.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að upphafstími heimilisuppbótar kæranda skuli taka mið af þeim degi sem hún uppfyllti skilyrði greiðslna, sbr. þágildandi 1. málsl. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, sem var þann 1. júlí 2015. Ákvörðun Tryggingastofnunar um upphafstíma heimilisuppbótar kæranda er því hrundið. Heimilisuppbót skal greiðast frá 1. júlí 2015.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma heimilisuppbótar A, er hrundið. Heimilisuppbót skal greiðast frá 1. júlí 2015.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir