Almannatryggingar

28.6.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 497/2016

Miðvikudaginn 28. júní 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 22. desember 2016, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 26. september 2016 um varanlega læknisfræðilega örorku vegna vinnuslyss sem kærandi varð fyrir X.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi við vinnu X. Slysið bar að með þeim hætti að kærandi var að opna glugga og stóð upp á stól sem rann og féll hún við það aftur fyrir sig og lenti á hægri mjöðm og bakhluta. Slysið var tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfi, dags. 26. september 2016, tilkynnti stofnunin kæranda að varanleg slysaörorka hennar hafi verið metin 2%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. desember 2016. Með bréfi, dags. 28. desember 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um mat á varanlegum afleiðingum slyssins frá X verði endurskoðuð og tekið verði mið af matsgerð C læknis, dags. 5. október 2016.

Í kæru segir að atvik málsins séu þau að X hafi kærandi verið að opna glugga á vinnustað sínum, D, og staðið uppi á stól. Stóllinn hafi runnið undan henni með þeim afleiðingum að hún hafi dottið aftur fyrir sig og slasast á hægri mjöðm og baki.

Kærandi hafi þegar fundið fyrir verkjum í mjöðm og þeir smám saman farið versnandi. Af þeim sökum hafi hún leitað til læknis X og kvartað yfir sárum verkjum í mjöðm með leiðni niður í hægri fót. Um skoðun þann dag segi: „Við skoðun er skert frambeygja í mjóhrygg og laseq er jákvæður í ca 45 gr. Kraftar og reflexar eðlilegir“. Talið hafi verið að um væga rótarertingu hafi verið að ræða þarna og hafi kærandi fengið verkja- og bólgueyðandi lyf og verið vísað til sjúkraþjálfara.

Kærandi hafi byrjað meðferð hjá sjúkraþjálfara X vegna afleiðinga slyssins. Hún hafi aftur leitað til læknis 17. september 2015 vegna afleiðinga þess, en eftir það hafi farið að bera á verkjum í baki með leiðni niður í hægri ganglim. Kærandi hafi þess vegna gengist undir segulómskoðun af lendhrygg og hafi niðurstaða rannsóknar verið: „Disc degenerativar breytingar á lendbilum. Á L5-S1 bili er breiðbasa prolabs sem hallar yfir til hægri og nær á hægri S1 rótina en þrengir einnig L5 rótina út í forameninu hægra megin. Dálítill beinbjúgur er í liðbolsbrúnum yfir til hægri.

Kærandi hafi gengist undir mat á afleiðingum slyssins hjá C lækni 7. september 2016. Á matsfundi hafi kærandi sagt að hún væri nánast alltaf með verki í hægri mjöðm og niður eftir hægri ganglim (kálfa) og hefði á tilfinningunni að fótur ætli að svíkja hana. Hún hafi einnig sagt að hún ætti erfitt með að snúa sér í rúminu og að hún fengi verki lægi hún of lengi á mjöðminni. Hún þyrfti oft að hagræða sér við að setjast niður og sæti hún lengi yrði hún stirð þegar hún stæði upp. Hún skipti oft um stöðu þegar hún sæti lengi og þyrfti að standa upp. Hún fyndi fyrir sársauka við að beygja sig og ætti vont með að halda á þungu. Þá hafi hún sagt að hún gæti ekki stundað líkamsrækt, svo sem að hlaupa eða hjóla.

Í matsgerðinni segi í kaflanum: Samantekt og niðurstaða:

Um er að ræða þá X ára gamla konu sem dettur af stól í vinnu sinni hjá D. Lendir á hægri mjöðm og baki. Leitar 2 vikum seinna til heimilislæknis og við skoðun hans komu fram einkenni um ertingu á taugarót frá baki. Var vísað til sjúkraþjálfara og fór í 10 meðferðir. Batnaði nokkuð en leitaði aftur til heimilislæknis í September 2015. Með einkenni niður í hægri ganglim og var þá gerð segulómrannsókn sem sýndi merki um brjósklos á neðsta bili lendhryggjar hægra megin. Ákveðið var að bíða og sjá til. Tjónþoli býr í dag við allnokkur einkenni eftir slysið sem hefur truflað hana í daglegu lífi og við vinnu.

Með vísan til framangreinds hafi læknisfræðileg örorka kæranda verið metin samtals 12%.

Stofnunin telji að afleiðingar slyssins séu einungis bundnar við einkenni frá hægri mjöðm, en tekið sé fram í örorkumatsgerð til stofnunarinnar, dags. 17. maí 2016, að sjúkdómsgreining vegna afleiðinga slyssins sé mar á mjöðm. Síðan sé tekið fram að ekki væri talið að klínísk einkenni í dag bentu til bakvandamáls. Því megi ætla að ekkert tillit hafi verið tekið til einkenna kæranda frá lendhrygg. Byggt sé á því að niðurstaða matslæknis Sjúkratrygginga Íslands sé röng og að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda hafi verið of lágt metin. Í fyrsta lagi vegna þess að ekkert tillit hafi verið tekið til einkenna hennar frá lendhrygg. Í öðru lagi vegna of lágs mats vegna einkenna frá mjöðm.

Á matsfundi kæranda hjá C lækni 7. september 2016 hafi komið fram að við skoðun á lendhrygg væru eymsli yfir spjaldlið hægra megin og við beygju væru fingurgómar 15 cm frá gólfi. Þá hafi snúningshreyfingar verið sárar og tekið í hægra megin, auk þess sem hliðarbeygjur hafi verið sárar. Við skoðun á mjöðmum hafi komið fram mikil eymsli yfir hægri lærhnútu og yfir rasskinnarvöðvum hægra megin. Hreyfingar í mjöðmum hafi verið eðlilegar vinstra megin en það hafi verið sársauki við álag á vöðva hægra megin en hreyfiferill eðlilegur. Við taugaskoðun á ganglimum hafi verið minnkað skyn yfir hægri jarka. Vöðvakraftar hafi verið eðlilegir og sinaviðbrögð eins báðum megin. Af þessu megi ljóst vera að kærandi búi við talsverð einkenni bæði frá mjöðmum og lendhrygg og hafi mat C um varanlega læknisfræðilega örorku vegna þessa verið 12%. Kærandi bendi á að skoðun C hafi farið fram eftir skoðun matslæknis Sjúkratrygginga Íslands og telji hún því að skoðun C gefi réttari mynd af ástandi hennar í dag.

Kærandi bendi einnig á að einkenni frá lendhrygg hafi komið fram fljótlega í kjölfar slyssins. Þann X, einungis tveimur vikum eftir slysið, hafi slíkum einkennum verið lýst og talið að um ertingu á taugarót frá baki væri að ræða. Í september 2015 hafi kærandi enn verið með einkenni frá lendhrygg og niður í hægri ganglim og segulómskoðun sýnt merki um brjósklos á neðsta bili lendhryggjar hægra megin. Kærandi bendi á í þessu sambandi að fyrir umrætt slys hafi hún ekki haft einkenni frá baki.

Þá leggi kærandi áherslu á að einkenni hennar frá hægri mjöðm séu talsverð.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að bætur úr slysatryggingum almannatrygginga séu sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur, sbr. 31. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku sé sjálfstætt mat sem stofnuninni sé falið að gera lögum samkvæmt, sbr. 2. gr. laga um almannatryggingar. Stofnunin byggi ákvörðun sína á fyrirliggjandi gögnum þegar litið sé svo á að mál sé að fullu upplýst og stofnunin sé ekki bundin af niðurstöðu annarra matsgerða. Þá taki stofnunin sjálfstæða ákvörðun um hvort orsakatengsl séu á milli einkenna og hins tilkynnta slyss. Ákvörðun stofnunarinnar um læknisfræðilega örorku taki mið af einkennum og ætluðum áverkum sem tilgreindir séu út frá viðurkenndum viðmiðum í miskatöflum örorkunefndar (2006) og hliðsjónarritum. Í töflum þessum sé metin skerðing á líkamlegri og eftir atvikum andlegri færni hjá einstaklingum sem orðið hafi fyrir líkamstjóni. Þessi skerðing hafi í seinni tíð verið kölluð læknisfræðileg örorka til aðgreiningar frá fjárhagslegri örorku.

Um greiðslu bóta vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku gildi reglur 34. gr. laga um almannatryggingar. Í 6. mgr. ákvæðisins segi að örorkubætur greiðist ekki ef orkutapið sé metið minna en 10%. Í 2. gr. reglugerðar nr. 187/2005 um eingreiðslu örorkubóta Tryggingastofnunar ríkisins (nú Sjúkratryggingar Íslands) segi að hafi hinn slasaði hlotið örorku vegna tveggja eða fleiri slysa sem bótaskyld séu samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga sé heimilt að greiða bætur sé samanlögð örorka vegna slysanna 10% eða meiri.

Eins og komi fram í hinni kærðu ákvörðun byggi efnisleg niðurstaða hennar á tillögu að örorkumati sem E læknir hafi unnið að beiðni stofnunarinnar og á grundvelli fyrirliggjandi gagna, auk viðtals og læknisskoðunar. Það hafi verið mat stofnunarinnar að í tillögunni sé forsendum örorkumats rétt lýst og rétt sé metið með vísan til miskataflna örorkunefndar.

Kærandi telji að varanlegar afleiðingar slyssins hafi verið vanmetnar af stofnuninni og telji jafnframt að miða beri við matsgerð C læknis.

Niðurstaða tillögu E vísi í mar á mjöðm og meti hann læknisfræðilega örorku til tveggja stiga á grundvelli gagna og skoðunar. Niðurstaða C hafi verið sú að meta læknisfræðilega örorku til tólf stiga. Rétt sé að nefna að matsgerð C hafi fyrst borist stofnuninni sem fylgigagn með kæru til úrskurðarnefndar og hafi því ekki verið tekin afstaða til hennar áður.

Við yfirlestur tryggingalæknis á greinargerð C annars vegar og E hins vegar hafi komið í ljós að kærandi hafi greinilega haft minni einkenni og merki um skaða við læknisskoðun hjá E. Skoðun E hafi farið fram í maí 2016 en hjá C í september 2016. Því virðist sem rótareinkenni séu ekki viðvarandi og þau atriði sem hafi komið fram við læknisskoðun því verið mismunandi samkvæmt þessu. C hafi vísað til liðar VI.A.c.4. í miskatöflum örorkunefndar þar sem segi: „Mjóbaksáverki eða tognun með hreyfiskerðingu, viðvarandi rótarverk og taugaeinkennum“, sem gefi 10 til 13 stiga miska. Það sé mat stofnunarinnar að verði fallist á að kærandi hafi fengið taugarótareinkenni vegna slyssins virðist liggja beinna við að miða við VI.A.c.3., sbr.: „Mjóbaksáverki eða tognun með rótarverk og taugaeinkennum“, sem gefi hæst 10%.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna vinnuslyss sem kærandi varð fyrir X. Sjúkratryggingar Íslands mátu varanlega slysaörorku hennar 2%.

Í vottorði F, læknis á Heilsugæslunni G, dags. 4. janúar 2016, vegna slyssins segir meðal annars að í nótu sem rituð var X hafi eftirfarandi komið fram:

„Vinnuslys. Stóð uppá stól f 2 vikum í vinnu (X) stóð á einum fæti uppá stól og var að opna glugga. Stóllinn rann og hún féll aftur fyrir sig og lenti á hæ mjöðm og bakjhluta. Fann lítið í fyrstu en sárir verkir smám saman í mjöðminni með leiðni aftanvert læri og niður í kálfann hægra megtin. Við skoðun er skert frambeygja í mjóhrygg og laseq er jákvæður í ca 45 gr. Kraftar og reflexar eðlilegir. Tel þetta vera væga rótarertingu þarna. Fær Voltaren. Tramol og vísa henni í sjukraþjálfunþ Hún hefur lagast nokkuð nú og þetta ætti að batna konservativt.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi næst leitað til heilsugæslunnar vegna afleiðinga slyssins 17. september 2015 og í nótu frá þeim degi hafi eftirfarandi komið fram:

„Datt í vinnu X eftir það fór að bera á verk í baki með leiðni niður í hæ ganglim liggur í dreifingi L5 rótar.“

Í framhaldi af síðastnefndri komu til læknis fór kærandi í segulómskoðun af lendhrygg og var niðurstaða þeirrar skoðunar eftirfarandi:

„Disc degenerativar breytingar á lendbilum. Á L5-S1 bili er breiðbasa prolaps sem hallar yfir til hægri og nær á hægri S1 rótina en þrengir einnig L5 rótina út í forameninu hægra megin. Dálítill beinbjúgur er í liðbolsbrúnum yfir til hægri.“

Í örorkumatstillögu E læknis, dags. 17. maí 2016, sem unnin var að beiðni Sjúkratrygginga Íslands, er skoðun á kæranda 10. maí 2016 lýst svo:

„A kveðst vera X cm á hæð og X kg, gengur óhölt, standandi á gólfi getur hún gengið á tábergi og hælum sest á hækjur sér og staðið upp án vandræða, við frambeygju vantar 10 cm á að fingur nái gólfi, aðspurð um verkjasvæði bendir hún með lófa yfir hægri sitjandasvæði (gluteus maximus), sitjandi á skoðunarbekk eru taugaviðbrögð eðlileg, liggjandi SLR 80/80, ganglimir jafnlangir, skyn og styrkur ganglima metið jafnt og eðlilegt og engar kvartanir, bólga eða óþægindi í hægri kálfa. Liggjandi á baki eru hreyfiferlar mjaðma þannig með læri í 90° flexion hægri innsnúningur 30, vinstri 20, hægri útsnúningur 30, vinstri 40, það eru engin eymsli við þessa skoðun, liggjandi á vinstri hlið eru ekki eymsli við þreifingu yfir lærhnútu, liggjandi á maga eru ákveðin eymsli djúpt í gluteus vöðvanum nákvæmlega yfir afturhluta mjaðmaliðar. Kálfi eðlilegur við skoðun bæði hægri og vinstri. Það eru engin eymsli yfir lumbal hrygg eða spjaldliðum. “

Niðurstaða matsins er 2% og í útskýringu segir svo:

„Undirritaður telur samkvæmt gögnum og frásögnum að A hafi hlotið höggáverka og mar á gluteus vöðvum og aftan til á mjaðmalið. Hún er búin að fara í segulómun á baki á vegum heimilislæknis árið 2015 og sýndi sú rannsókn slitbreytingar og mögulega lítið brjósklos en undirritaður telur klínísk einkenni í dag ekki benda til bakvandamáls. Þegar litið er til gagna í málinu er hún að kvarta um óþægindi strax við fyrstu skoðun hjá lækni, hún fer í meðferð sjúkraþjálfara er í tíu til fimmtán skipti og í tilkynningu um slys til SÍ sem skrifuð er í janúarlok. Árið 2013 er ljóst að um er að ræða viðvarandi vandamál með verk á hægra mjaðmasvæði. Undirritaður telur því orsakasamband þeirra óþæginda er A hefur í dag við slysið í X þrátt fyrir rýr gögn í málinu.“

Kærandi hefur lagt fram örorkumatsgerð C læknis, dags. 5. október 2016, en matsgerðina vann hann að ósk lögmanns kæranda. Um skoðun á kæranda 7. september 2016 segir svo í matsgerðinni:

„Tjónþoli kemur vel fyrir og svarar spurningum matsmanns vel og greiðlega. Skoðun beinist að stoðkerfi og þá fyrst og fremst að ganglimum. Göngulag er eðlilegt. Gengur á tám og hælum án erfiðleika.

Lendhryggur: Eymsli eru yfir spjaldlið hægra megin. Beygja er með fingurgóma 15 sm frá gólfi. Snúningshreyfingar eru sárar og tekur æi hægra megin,hliðarbeygjur eru einnig sárar.

Mjaðmir: Mikil eymsli koma fram yfir hægri lærhnútu og yfir rasskinnarvöðvum hægra megin. Hreyfingar í mjöðmum er eðlilegar vinstra megin en sársauki við álag á vöðva hægra megin en hreyfiferill er þó eðlilegur.

Taugaskoðun á ganglimum: Minnkað skyn er yfir hægri jarka. Vöðvakraftar eru eðlilegir. Sinaviðbrögð eru eins báðum megin líflegir.“

Niðurstaða framangreindrar örorkumatsgerðar C er sú að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins teljist vera 12%. Í samantekt og niðurstöðu matsgerðarinnar segir:

„Um er að ræða þá X ára gamla konu sem dettur af stól í vinnu sinni hjá D. Lendur á hægri mjöðm og baki. Leitar 2 vikum seinna til heimilislæknis og við skoðun hans komu fram einkenni um ertingu á taugarót frá baki. Var vísað til sjúkraþjálfara og fór í 10 meðferðir. Batnaði nokkuð en leitaði aftur til heimilislæknis í September 2015. Með einkenni niður í hægri ganglim og var þá gerð segulómrannsókn sem sýndi merki um brjósklos á neðsta bili lendhryggjar hægra megin. Ákveðið var að bíða og sjá til. Tjónþoli býr í dag við allnokkur einkenni eftir slysið sem hefur truflað hana í daglegu lífi og við vinnu. Hefur ekki verið óvinnufær eftir slys það er hér er fjallað um.“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, nú laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006 þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Við matið hefur úrskurðarnefndin til hliðsjónar miskatöflur örorkunefndar frá 2006. Samkvæmt gögnum málsins stóð kærandi upp á stól sem rann undan henni með þeim afleiðingum að hún datt aftur fyrir sig og lenti á hægri mjöðm og baki. Samkvæmt fyrrgreindri tillögu E læknis að örorkumati eru afleiðingar slyssins taldar vera viðvarandi vandamál með verk á hægra mjaðmarsvæði. Samkvæmt fyrrgreindri matsgerð C læknis eru afleiðingar slyssins taldar vera allnokkur einkenni sem hafa truflað hana í daglegu lífi og við vinnu.

Niðurstaða örorkumatstillögu E læknis byggir ekki á tilgreindum lið í miskatöflum örorkunefndar en fram kemur að kærandi hafi fengið höggáverka og mar á þjóvöðvum (gluteus) og aftanvert við mjaðmarlið. Tekið er fram í tillögunni að segulómun af baki á árinu 2015 hafi sýnt slitbreytingar og mögulega lítið brjósklos en talið væri að klínísk einkenni bentu ekki til bakvandamáls á þeim tíma sem skoðun fór fram.

Í töflum örorkunefndar er í kafla VI. fjallað um hryggsúlu og mjaðmagrind. Undir staflið A er fjallað um áverka á hryggsúlu og c-liður í kafla A fjallar um áverka á lendhrygg. Samkvæmt undirlið VI.A.c.4. leiðir mjóbaksáverki eða tognun með hreyfiskerðingu, viðvarandi rótarverk og taugaeinkennum til 10 til 13% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Niðurstaða matsgerðar C læknis virðist byggja á þessum lið í miskatöflum örorkunefndar þótt ekki sé það tekið fram beinum orðum.  

Kærandi hafði hvorki fyrri sögu um bakverki né brjósklos samkvæmt vottorði F, dags. 4. janúar 2016. Þau einkenni komu ekki fram samstundis en nægilega fljótt til að þau gætu hafa stafað af slysinu og telur úrskurðarnefnd ekki tilefni til að ætla annað en að svo hafi verið. Kemur þá til álita hvort þau einkenni geti talist varanleg og að hve miklu leyti.

Í áðurnefndu vottorði F er vitnað til sjúkraskrárfærslu um símtal læknisins við kæranda 13. október 2015 þegar staðfest hafði verið lítið brjósklos með segulómrannsókn: „Er þokkaleg og vill ekki gera neitt í þessu að svo stöddu. Etv sjúkraþjálfun en vill sjá til hvort fer batnandi. Verður í samabndi ef versnar.“ Síðan er tekið fram í vottorðinu að ekki séu skráð frekari samskipti vegna afleiðinga slyssins en vottorðið er sem fyrr segir dagsett 4. janúar 2016. Við skoðun E 10. maí 2016, rúmu hálfu ári síðar, voru einkenni frá baki nægilega lítil til að hann áleit þau ekki benda til bakvandamáls. Taldi hann einkenni kæranda frekar stafa af maráverka á mjöðm. Úrskurðarnefnd bendir þó á að verkur í þjóhnappi getur verið einkenni um klemmu á taug af völdum brjóskloss í hrygg og eymsli við þreifingu útiloka ekki að svo sé. Við skoðun C fjórum mánuðum eftir það, 7. september 2016, var aftur lýst meiri einkennum sem rekja mátti til meinsemdar í baki, þar á meðal leiðniverk niður í ganglim. Einnig var þá lýst eymslum yfir lærhnútu. Dæmigert er fyrir brjóskloseinkenni að þau eru breytileg, koma og fara í tímans rás og hjá sumum geta þau liðið alveg hjá, að minnsta kosti tímabundið og jafnvel varanlega.

Ráða má af fyrirliggjandi gögnum að gangurinn hafi verið með þeim hætti hjá kæranda að á köflum hafi einkenni frá taugaklemmu í hrygg orðið svo lítil að þau hafi afmarkast við mjaðmarsvæði en ekki svo mikil að verkur lægi niður í ganglim. Úrskurðarnefnd telur að slíkum einkennum sé rétt lýst í undirlið VI.A.c.3. í töflum örorkunefndar sem eftirstöðvum mjóbaksáverka eða tognunar með rótarverk og taugaeinkennum. Þann lið má meta til allt að 10% örorku en miðað við hve takmörkuð þau taugaeinkenni eru, sem lýst hefur verið hjá kæranda, telur úrskurðarnefnd varanlega örorku samkvæmt þessum lið hæfilega metna 3%.

Eymsli þau á því svæði sem báðir matsmenn hafa lýst geta einnig komið heim og saman við maráverka á mjöðm. Í töflum örorkunefndar er ekki að finna lið sem fjallar beinlínis um slíka áverka en hafa má til hliðsjónar að lítil dagleg óþægindi eftir brot eða brotaliðhlaup á mjaðmagrind eru metin til allt að 5% varanlegrar örorku samkvæmt undirlið VI.B.a.1. Þótt kærandi hafi ekki hlotið beinbrot á þessu svæði telur úrskurðarnefnd lýsingu á einkennum hennar benda til þess að þau hafi áhrif á hennar daglega líf og færni að því marki að vera hæfilega metin til 3% varanlegrar örorku.

Með hliðsjón af framangreindu er samanlagt varanleg læknisfræðileg örorka kæranda metin 6% með vísan til undirliðs VI.A.c.3. og undirliðs VI.B.a.1. í töflum örorkunefndar. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 2% varanlega læknisfræðilega örorku er því felld úr gildi.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 2% örorkumat vegna vinnuslyss sem A, varð fyrir X er felld úr gildi. Varanleg læknisfræðileg örorka hennar telst hæfilega ákveðin 6%.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir