Almannatryggingar

17.5.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 478/2016

Miðvikudaginn 17. maí 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 2. desember 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. september 2016 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun með umsókn þann 12. júlí 2016. Með örorkumati, dags. 1. september 2016, var umsókn kæranda synjað en henni metinn áframhaldandi örorkustyrkur frá 1. júlí 2016 til 30. júní 2018. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar og var hann veittur þann 15. nóvember 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. desember 2016. Með bréfi, dags. 12. desember 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 1. mars 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefndin endurmeti fyrirliggjandi gögn. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefnd rannsaki sjálf málið, útvegi nýjan lækni til þess að hitta kæranda og meta stöðuna. Falli staða kæranda ekki undir staðal er þess krafist að skoðað verði hvort hún uppfylli undantekningarákvæði 4. gr. reglugerðarinnar.

Í kæru kemur fram að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sé kærð á þeim grundvelli að stofnunin hafi ekki sinnt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins þar sem gögn málsins hafi ekki gefið rétta mynd af stöðu kæranda. Þá hafi matið á gögnum málsins verið rangt. Einnig er byggt á því að ný gögn hafi sýnt fram á að líkamlegt ástand kæranda hafi versnað.

Í málinu reyni á það hvort kærandi uppfylli skilyrði 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Öllum sem þurfi á aðstoð að halda, meðal annars vegna örorku skuli tryggð aðstoð, sbr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi grein sé grundvallargrein í öllum félagsmálarétti. Ákvæði 18. gr. laga um almannatryggingar eigi að tryggja óvinnufæru fólki rétt til örorkulífeyris. Þá hafi umboðsmaður Alþingis lagt áherslu á að við val á skýringarkostum skuli velja þá leið sem samræmist best tilgangi slíkra ákvæða.

Í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1003 komi fram að stjórnvald skuli sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvarðanir séu teknar. Spurningarlisti kæranda sýni skýrt fram á að hún uppfylli skilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram hver staðan sé hjá kæranda. Í bréfi félagsráðgjafa frá […]komi fram að kærandi sé ekki í vinnu og sé ekki fær um að vera í vinnu. Þá segir í læknisvottorði B, dags. 5. júlí 2016, að kærandi sé óvinnufær og að staðan sé versnandi hjá kæranda.

Með öðrum orðum, kærandi sjálfur, félagsráðgjafi hennar og læknir segi að kærandi sé óvinnufær. Öll þessi gögn leiði að sömu niðurstöðu. Gögnin styðji sannleiksgildi hvers annars.

Einu gögnin í málinu sem ekki sé hægt að meta þannig að hún uppfylli skilyrði 18. gr. um almannatryggingar sé læknisvottorð C, dags. 10. ágúst 2016. Kærandi hafi afar mikið að athuga við það vottorð. Læknir hafi þar merkt við þætti sem hafi ekki verið skoðaðir og haldið sé fram staðhæfingum sem eigi sér ekki stoð. Í afriti af læknaskýrslu C séu þættir sem kærandi telji vera ranga eða villandi merktir. Þar komi einnig athugasemdir hennar við matið. Allar þessar athugasemdir sýni fram á það hve illa skýrslan sé unnin. Dæmi um það sé t.d. að á einum stað segi að kærandi hafi ekki verið í námi en á öðrum stað sé talið upp nám sem hún hafi verið í. Af gögnum málsins alls virðist sem að gömul möt hafi verið notuð til grundvallar í þessu máli. Árið X lenti kærandi í bílslysi sem hafði mikil áhrif á líkamlegt ásigkomulag hennar og svo virðist sem hvergi hafi verið tekið nægilegt tillit til þess og ekki hafi verið tekið tillit til þess að kærandi hafi lenti í bílslysi á árinu X. Svo virðist sem grundvallaratriði málsins hafi einfaldlega ekki verið skoðuð.

Einnig hafi kæranda verið tjáð að hún ætti ekki að hitta aftur sama lækni og hún hafi áður hitt. Því hafi ekki verið fylgt eftir í málinu.

Þá sé sérstaklega tilgreint að skoðun C hafi ekki tekið nema 15 mínútur. Sá tími hafi ekki verið nægur til þess að geta svarað öllum þeim spurningum sem fram hafi komið á læknaskýrslunni. Einnig hafi hann staðið upp frá tölvu sinni þegar spurningum hafi verið svarað og gæti það útskýrt misræmi á milli þess sem fram hafi komið annars vegar í viðtalinu og hins vegar í skýrslunni. Framkvæmdin hafi verið með þeim hætti að hann sneri baki í kæranda þegar hún hafi framkvæmt það sem hún hafi verið beðin um. Slík vinnubrögð geti ekki samræmst því að læknir sé með það mikilvæga hlutverk að meta hvort einstaklingur uppfyllir kröfur laga og reglugerða um rétt til framfærslu, réttar sem verndaður sé í stjórnarskrá.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé örorkumat stofnunarinnar, dags. 1. september 2016. Þá segir að örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Stofnunin meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.

Við örorkumat sé stuðst við staðal stofnunarinnar sem skiptist í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hluta hans eða tíu stig í þeim andlega. Hins vegar nægi að umsækjandi fái sex stig úr hvorum hluta fyrir sig.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Við hið kærða örorkumat hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 5. júlí 2016, umsókn og spurningalisti, móttekinn þann 12. júlí 2016, bréf frá D, dags. 13. júlí 2016, og skoðunarskýrsla C læknis, dags. 10. ágúst 2016. Einnig hafi legið fyrir eldri gögn hjá stofnuninni.

Við skoðun með tilliti til staðals hafi komið fram að kærandi geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp sem gefi ekki stig, hún geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað sem gefi þrjú stig. Kærandi geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur sem gefi þrjú stig og hún geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um sem gefi þrjú stig. Kærandi hafi fengið níu stig í líkamlega hluta staðalsins. Í andlega hluta staðalsins hafi kærandi ekki fengið stig.

Fram hafi komið að kærandi hafi verið spurð beint að flestu sem heyri undir andlega hluta staðalsins. Þá sé farið yfir andlega hluta staðalsins í kaflanum dæmigerður dagur en kærandi hafi ekki fengið stig í þeim hluta. Það sé í samræmi við þau svör kæranda í spurningalista þar sem fram hafi komið að kærandi segist ekki hafa átt við geðræn vandamál að stríða þó að fram komi að um svefnerfiðleika hafi verið að ræða. Í læknisvottorði sé einnig minnst á svefnerfiðleika og síþreytu en ekki aðra andlega erfiðleika.

Í lok skýrslu skoðunarlæknis hafi komið fram að niðurstaða viðtals og skoðunar sé aðeins að takmörkuðu leyti í samræmi við spurningalista kæranda. Líkamleg færniskerðing sé væg en andleg færniskerðing engin. Niðurstaða skoðunarskýrslu sé í samræmi við læknisvottorð sem hafi borist með skoðun.

Athugasemdir kæranda við skoðunarskýrsluna séu ýmist þess eðlis að þær hafi ekki áhrif á niðurstöðu einstakra liða skýrslunnar eða ekki studdar af upplýsingum í læknisvottorði. Í sumum tilvikum eigi þær ekki við, t.d. segi kærandi skoðunarlækni hafa verið tvísaga þegar hann á einum stað tilgreini hvaða menntun kærandi hafi og á öðrum stað að kærandi hafi ekki verið að stunda nám undanfarið.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði fyrir 75% örorkumati.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. september 2016. Umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en henni metinn örorkustyrkur tímabundið. Ágreiningur snýst um hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá stofnuninni samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Samkvæmt fylgiskjalinu fjallar fyrri hluti örorkustaðalsins um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni. Þar leggjast öll stig saman og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Með umsókn kæranda um örorkulífeyri fylgdi vottorð B, læknis, dags. 5. júlí 2016, en samkvæmt því eru sjúkdómsgreiningar eftirfarandi: Fibromyalgia, other chronic pain, liðverkir, höfuðverkur, tognun/ofreynsla á hálshrygg, tognun á brjósthrygg, tognun á lendarhrygg, tognun og ofreynsla á mjöðm og svefntruflun. Um fyrra heilsufar kæranda segir meðal annars í vottorðinu að hún hafi átt erfitt með að ganga og beygja sig eftir slys þann X. Einnig séu meiri verkir. Hún sé með verki í flestöllum vöðvafestum og smáliðum handa. Þá er sjúkrasögu hennar lýst svo:

„Hefur átt við verkjavandamál og fibromyalgiu að stríða síðust ár, byrjaði upp úr slysum sem hún varð fyrir. Verið versnandi af einkennum. Hefur ekki getað í langan tíma unnið við fag sitt vegna verkjavandamála. En hún er menntaður [...], þar sem hún þarf að notar hendur mikið en getu ekki vegna klaufsku í höndum og verkja í smáliðum handa.

Einnig hefur hún átt við miklar svefntruflanir að stríða með þessu og verið með síþreytu sem ásamt verkjum hefur komið í veg fyrir að hún hafi getað unnið sem [...], starf sem hún hefur haft mikla ánægju af.

Á erfitt með að standa lengi og beygja sig, sem gerir henni líka ókleyft að sinna áðurgreindum störfum.

Frá slysinu sem hún lennti í X hefur hennar ástand vernsað hvað verki varðar. Lennti síðan aftur í slysis X þar sem hún var í [...] bíl og keyrt aftan á hana á miklu afli. Versnaði til við það af verkjum í stoðkerfi.“.

Um skoðun á kæranda 5. júlí 2016 segir í vottorðinu:

„Versnandi ástand frá fyrra vottorði, á erfiðara með núna að sjá um þarfir daglegs lífs vegna verkja og stirðleika í kropp.“

Samkvæmt vottorðinu er kærandi metin óvinnufær frá 6. febrúar 2011 og ekki er búist við að vinnufærni aukist með tímanum.

Við örorkumatið lá einnig fyrir bréf D, dags. 13. júlí 2017. Þar er sagt stuttlega frá aðkomu hennar sem félagsráðgjafa kæranda frá árinu 2014. Í bréfinu segir:

„Þegar A hefur verið í viðtölum hjá undirritaðri, þá hefur hún verið mjög kvalin og átt í erfiðleikum með gang og að setjast niður. Það er erfitt fyrir hana að koma í viðtal þar sem hún á erfitt með að keyra á milli staða. A hefur átt afar erfiða tíma um langt skeið sem gerir það verkum að líkamlegri og andlegri heilsu hefur hrakað mjög mikið.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 12. júlí 2016, sem hún skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Í stuttri lýsingu á heilsuvanda sínum nefnir kærandi óbærilega verki í líkama og enginn svefnfriður sé vegna þeirra. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að sitja á stól svarar hún þannig að hún geti ekki setið í venjulegum stólum, gráðurnar séu rangar, hún þurfi að halla bakinu og helst lyfta fótunum upp á stól/borð. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að það sé vont að standa upp, hún þurfi stuðning til þess. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa svarar hún þannig að hún geti það ekki vegna verkja. Það hafi áhrif á allan líkamann. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að það sé ekki gott, sérstaklega að standa kyrr. Það hafi áhrif á allan líkamann og hún þurfi að vagga sér þegar hún standi. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að ganga á jafnsléttu svarar kærandi þannig að hún eigi mjög erfitt með það. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga þannig það sé mjög erfitt og hún geri það ekki. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að nota hendurnar svarar hún þannig að hún eigi það til að missa hluti og hún fái mikla skjálfta og stingandi verki í hendurnar. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að hún geti það ekki vegna verkja í líkama. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún í eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að það sé erfitt og hún geri það helst ekki. Kærandi svarar spurningu um það hvort sjónin bagi hana þannig að hún geti fengið miklar sjóntruflanir vegna höfuðverkjakasta. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með tal þannig að hún eigi erfitt með að setja saman setningu þegar verkirnir séu óbærilegir. Að lokum svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríðandi neitandi. Nánari lýsing kæranda hljóðar svo:

„Ég hef glímt við króníska verki í X ár. Lífsgæðin hafa vernsað til muna frá X þar sem mjaðmirnar fóru í slæmt ástand. Ég á erfitt með að sinna heimilisþrifum, erfitt með að þrífa mig, erfitt að fara versla, erfitt með elda, erfitt með að keyra, erfitt að fara út, miklir svefnerfiðleikar og erfitt að hugsa um sjálfan mig. Mikil vanlíðan hjá mér þar sem líkamlegir verkir eru óbærilegir en versna oft og það ástand varir í mislangan tíma.“

Skýrsla C skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 10. ágúst 2016. Samkvæmt skýrslunni telur skoðunarlæknir að líkamleg færniskerðing kæranda samkvæmt örorkustaðli felist í því að hún geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp, hún geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað, hún geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og hún geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Þá var andleg færniskerðing ekki metin af skoðunarlækni þar sem hann taldi að fyrri saga og þær upplýsingar sem fram hafi komið í viðtali bendi ekki til þess að um sé að ræða geðræna erfiðleika.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda með eftirfarandi hætti í skýrslu sinni:

„[…]

Er X cm ogX kg og þannig í allnokkri yfirþyngd. Miðlæg fitudreifing. Situr nokkuð eðlilega í viðtali en helst á stólbrúninni. Stynur mikið og andlitið virðist kvalarfullt. Töluverð verkjahegðun til staðar. Göngulag eðlilegt.

[…]

Getur staðið á tám og hælum og sest niður á hækjur sér, aðeins hálfa leið þó. Hreyfiferlar í hálsi eru stirðir. Lyftur báðum örmum beint upp. Heldur höndum fyrir aftan hnakka. Kemst með fingur að miðjum leggjum við framsveigju. Tekur í stutta aftanlærisvöðva. Aftursveigja hliðarsveigja og snúningur bols veldur því að er virðist verkjum.

[…] Enginn perifer bjúgur, engin mæði í hvíld og litarháttur eðlilegur.“

Um geðheilsu kæranda segir að engin saga sé um geðræn veikindi.

Í samantekt segir:

„X ára kona sem ekki hefur verið á vinnumarkaði í X ár. Notið félagslegrar þjónustu. Endurhæfingarúrræði hafa verið reynd. Á skoðunarfundi kemur fram mikil verkjahegðun. Niðurstaða viðtals og skoðunar er aðeins að takmörkuðu leyti í samræmi við spurningarlista umsækjanda. Líkamleg færniskerðing er væg en andleg færniskerðing er engin.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu felst líkamleg færniskerðing í því að kærandi geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur ekki stig samkvæmt örorkustaðli. Að mati skoðunarlæknis getur kærandi stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Að mati skoðunarlæknis getur kærandi stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Þá er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Þá býr kærandi ekki við andlega færniskerðingu samkvæmt skýrslu skoðunarlæknis. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til samtals níu stiga.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Í kæru eru gerðar ýmsar athugasemdir við mat skoðunarlæknis á færni kæranda. Meðal annars er byggt á því að kærandi sé óvinnufær. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að örorka samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er ekki metin með hliðsjón af starfsgetu umsækjanda heldur er hún ávallt metin samkvæmt örorkustaðli nema framangreind undanþága í 4. mgr. reglugerðar nr. 379/1999 eigi við. Því þurfa umsækjendur um örorkulífeyri almennt að uppfylla skilyrði örorkustaðalsins til þess að öðlast rétt til örorkulífeyris, óháð því hvort þeir hafi verið metnir óvinnufærir eða ekki.  

Úrskurðarnefnd leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Af gögnum málsins er það mat úrskurðarnefndar að ekki sé tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu og leggur hana til grundvallar við mat á örorku. Það er niðurstaða úrskurðarnefndar að þar sem kærandi fékk níu stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og ekki hafi verið ástæða til að meta andlega færni, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir