Almannatryggingar

26.4.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 451/2016

Miðvikudaginn 26. apríl 2017

A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. nóvember 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. september 2016 um upphafstíma greiðslu barnalífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Þann 28. apríl 2016 sótti kærandi um meðlag til bráðabirgða með barni sínu. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. maí 2016, var kæranda tilkynnt um að það væri skilyrði fyrir greiðslum að unnið væri að feðrun barns og öflun meðlagsúrskurðar. Þá var kæranda leiðbeint um að leggja fram gögn um framvindu faðernismálsins svo að hægt væri að greiða henni meðlag til bráðabirgða. Kærandi lagði engin gögn inn til Tryggingastofnunar og fékk hún því ekki umbeðnar greiðslur frá stofnuninni. Með umsókn, dags. 8. september 2016, sótti kærandi um barnalífeyri með ófeðruðu barni frá X 2016. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. september 2016, var umsókn kæranda um barnalífeyri samþykkt frá 1. október 2016.  

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. nóvember 2016. Með bréfi, dags. 21. nóvember 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 6. desember 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. desember 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá greiddan barnalífeyrir  með dóttur sinni frá X 2016.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um barnalífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá fæðingu dóttur sinnar en hafi verið synjað vegna laga um almannatryggingar. Þá segir að vegna vanþekkingar kæranda á réttindum sínum vegna ófeðraðs barns hennar og rangra upplýsinga frá Sýslumanninum  […] fari kærandi fram á barnalífeyri frá X 2016. Hún hafi fengið upplýsingar frá sálfræðingi Heilbrigðisstofnunar […]og hafi sótt um meðlag til bráðabirgða á meðan hún hafi verið að bíða eftir tíma hjá sýslumanni, biðin hafi verið rúmlega mánuður og hafi sýslumaður þurft að breyta tímanum. Kærandi hafi mætt til fulltrúa sýslumanns sem hafi sent hana til lögfræðings vegna málsins. Hún hafi fengið tíma hjá lögmanni sem hafi farið yfir málið og vísað henni aftur til sýslumanns.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé upphafstími greiðslna barnalífeyris með ófeðruðu barni.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. september 2016, hafi verið samþykkt að greiða kæranda barnalífeyri með ófeðruðu barni frá 1. október 2016.

Samkvæmt 4. mgr. 20. gr laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skuli Tryggingastofnun greiða barnalífeyri þegar skilríki liggi fyrir um að barn verði ekki feðrað.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar skuli sækja um allar bætur og greiðslur. Í 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar segi að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og skuli þær reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Þá segi í 4. mgr. sömu greinar að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

Kærandi hafi sótt um greiðslu barnalífeyris vegna ófeðraðs barns með umsókn, móttekinni 8. september 2016. Þá hafi staðfesting borist frá Sýslumanninum […], dags. 7. september 2016, um að barn verði ekki feðrað.

Kærandi hafi þann 28. apríl 2016 sótt um greiðslu bráðabirgðameðlags og hafi Tryggingastofnun með bréfi, dags. 9. maí 2016, óskað eftir gögnum sem staðfestu að verið væri að vinna að feðrun barnsins en engar slíkar upplýsingar hafi borist.

Með bréfi, dags. 13. september 2016, hafi Tryggingastofnun samþykkt að greiða kæranda barnalífeyri með ófeðruðu barni frá 1. október 2016. Ekki sé ágreiningur um rétt kæranda til greiðslu barnalífeyris með ófeðruðu barni, enda liggi skilríki fyrir eins og nefnd séu í 4. mgr. 20. gr. almannatryggingalaga, sbr. staðfestingu sýslumanns. Einungis sé ágreiningur um upphafstíma greiðslna.

Barnalífeyrir sé ekki sjálfkrafa greiddur af Tryggingastofnun heldur verði að sækja sérstaklega um slíkar greiðslur með umsókn. Heimilt sé að ákvarða bætur tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn til að leggja mat á bótarétt berist stofnuninni. Bætur verði hins vegar ekki ákvarðaðar aftur í tímann nema skilyrði greiðslnanna séu uppfyllt.

Skilyrði greiðslna barnalífeyris með ófeðruðu barni sé að skilríki liggi fyrir um að barn verði ekki feðrað, sbr. 4. mgr. 20. gr. almannatryggingalaga. Skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris með ófeðruðu barni kæranda hafi fyrst verið uppfyllt frá dagsetningu staðfestingarinnar frá sýslumanni um að barn verði ekki feðrað. Ekki verði ráðið að önnur skilríki hafi legið fyrir því til staðfestingar að barnið yrði ekki feðrað. Staðfesting sýslumanns sé dagsett 7. september 2016 og með vísan til 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar sé Tryggingastofnun einungis heimilt að greiða kæranda barnalífeyri með ófeðruðu barni frá fyrsta næsta mánaðar eftir dagsetningu staðfestingar sýslumanns eða 1. október 2016. Sambærileg niðurstaða var í kærumáli nr. 362/2011 fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna barnalífeyris til kæranda.

Samkvæmt 4. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal Tryggingastofnun greiða barnalífeyri þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað.

Við úrlausn þessa máls lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess sem greinir í 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar. Þar segir að sækja skuli um allar bætur og greiðslur samkvæmt þessum lögum.

Í 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar segir að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og skuli þær reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Þá segir í 4. mgr. sömu greinar að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

Barnalífeyrir er ekki sjálfkrafa greiddur af Tryggingastofnun ríkisins heldur verður að sækja sérstaklega um hann með umsókn. Kærandi sótti um barnalífeyri með umsókn, dags. 8. september 2016, og voru greiðslur barnalífeyris samþykktar frá 1. október 2016, eða frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að umsókn barst stofnuninni. Í umsókn um barnalífeyri fór kærandi fram á greiðslur frá X 2016 eða frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir fæðingu barnsins.

Í máli þessu liggur fyrir staðfesting sýslumanns, dags. 7. september 2016, um að barn kæranda verði ekki feðrað. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst, sbr. 4. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar, að staðfesting sýslumanns þess efnis að ekki sé hægt að feðra barn sé nauðsynleg svo að réttindi til barnalífeyris vegna ófeðraðs barns geti stofnast. Þó svo að staðfesting sýslumanns í máli þessu hafi ekki verið gefin út í fæðingarmánuði barnsins verði að líta til þess að sú staðreynd að barn verði ekki feðrað hljóti eðli máls samkvæmt að eiga við allt frá fæðingu barnsins. Í ljósi þess og með hliðsjón af atvikum þessa máls er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi, eftir að fyrir lá staðfesting þess að barnið yrði ekki feðrað, uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris frá fæðingu barns síns og því eigi hún rétt á að fá greiðslur frá X 2016, eða frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir fæðingu barnsins, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar.  

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma barnalífeyrisgreiðslna til kæranda er því hrundið. Greiða ber kæranda barnalífeyri frá X 2016.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma barnalífeyris A, er hrundið. Barnalífeyrir skal greiðast frá X 2016.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir