Almannatryggingar

19.4.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 406/2016

Miðvikudaginn 19. apríl 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 17. október 2016, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 26. september 2016 um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem hann varð fyrir þann X 2014.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi við vinnu þann X 2014 er hann hrasaði á leið niður tröppur og féll til jarðar. Slysið var tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfi, dags. 28. september 2016, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hafi verið metin 7%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. október 2016. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 1. nóvember 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. nóvember 2016, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 7. desember 2016. Þær voru sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að varanleg læknisfræðileg örorka hans vegna afleiðinga vinnuslyssins þann X 2014 verði metin 15% í samræmi við mat C læknis. 

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi orðið fyrir vinnuslysi þann X 2014. Hann hafi verið að vinna við […]. Á leið niður […] tröppur hafi hann hrasað og fallið til jarðar. Hann hafi rakið orsökina til fitu sem hefði […] og sest á skósóla hans.

Kærandi hafi strax fundið til í hné en meiðslin hafi ekki komið fram að fullu fyrr en eftir nokkrar vikur eins og algengt muni vera þegar um áverka á liðþófa sé að ræða. Þegar kæranda fór að versna í lok X hafi hann pantað tíma hjá D bæklunarlækni, sem hafi skoðað hann þann X 2014 og talið að hann væri óvinnufær. Röntgenmynd hafi leitt í ljós rifinn liðþófa og vatn á milli liða í hné. Kærandi hafi gengist undir aðgerð á liðþófa þann X 2014 og hafi vonir staðið til að hann næði fullum starfskröftum eftir áramót. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir og eftir nokkrar tilraunir hafi verið ljóst að kærandi gæti ekki unnið vegna verkja sem ágerðust við áreynslu. Hann hafi því verið utan vinnumarkaðar frá því að hann lauk veikindarétti sínum hjá fyrri vinnuveitanda og hafi þurft að sætta sig við að vera orðinn óvinnufær, að minnsta kosti um fyrirsjáanlega framtíð.

Kærandi telji að örorkumat það sem Sjúkratryggingar Íslands leggi til grundvallar ákvörðun sinni fái ekki staðist. Sérstaklega sé gerð athugasemd við eftirfarandi orð matsmanns: „Þegar tekið er tillit til allra þátta telur undirritaður slitbreytingar í hnénu sem fram koma í aðgerð þremur mánuðum eftir áverka vera eldra vandamál og ekki tilkomna vegna slyssins. Vegna þessara slitbreytinga hefur A lent í því að vera langan tíma að jafna sig og hefur ekki jafnað sig enn þá, en slitbreytingar eru ekki beinar afleiðingar slyssins heldur eldra vandamál. Mál gætu þróast þannig að A gæti þurft á að halda gervilið síðar en er það ekki bein afleiðing slyssins.“

Kærandi hafi kvartaði undan eymslum í hné strax eftir slysið og hafi verið lagður fram vitnisburður starfsfélaga hans um það. Hann hafi haft samband við lækni um mánuði síðar þegar hann hafi verið orðinn verulega slæmur og farið í aðgerð svo fljótt sem auðið var. Hvergi í þeim læknisfræðilegu gögnum sem liggi fyrir um aðgerðina séu áverkar á hnénu eða slitbreytingar tengdar við eldra vandamál. Þá hafi kærandi náð fullum bata eftir slysið 1988 og kveðst hann aldrei hafa fundið til í hnénu eftir að hann hafi jafnað sig eftir það slys. Þá komi fram í vottorði E, læknis á HSS, að þar sé að finna gögn um heilsufar kæranda allt aftur til ársins 2000, en ekkert um verki né nokkuð sem tengist hægri fæti.

Í matsgerð C, sem hafi verið lögð til grundvallar uppgjöri bóta frá tryggingafélagi, og lögmaður kæranda telji vera rétta niðurstöðu, komi fram að gera verði „ráð fyrir áframhaldandi þróun slitgigtar í liðnum og að A muni þurfa að gangast undir gerviliðsísetningu þar“. Báðir matsmenn séu sammála um að gerviliðsísetning sé líkleg þróun en tengi við mismunandi orsakir. C leggi til grundvallar niðurstöðu sinni að ekki sé um eldri áverka að ræða. Hann meti A til 15 stiga læknisfræðilegrar örorku samkvæmt lið VII.B.b.4 í töflum örorkunefndar (gerviliðsísetning) og dragi ekkert frá vegna fyrra slyss árið 1988. Ekki verði deilt um að þurfi hnéliður gerviliðsísetningu beri að meta það til 15 stiga miska samkvæmt lið VII.B.b.4.

Þau gögn sem liggi fyrir í málinu bendi eindregið í þá átt að allir áverkar á hnénu og þeir miklu verkir sem kærandi hafi nú séu til komnir vegna slyssins árið 2014. Þar vegi ef til vill þyngst að samkvæmt vottorði heilsugæslu um fyrra heilsufar kæranda hafi hann aldrei kvartað undan verkjum í hægri fæti. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi minnsti vafi verið skýrður kæranda í óhag en ekki séu til staðar neinar læknisfræðilegar sannanir sem styðji þá niðurstöðu að hann hafi haft þær verulegu slitbreytingar sem sjást í hnjáliðnum fyrir slysið. Hafi svo verið megi spyrja hvers vegna kærandi hafi þá óumdeilanlega verið vinnufær fyrir slysið.

Í athugasemdum lögmanns kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að skýrlega komi fram í örorkumati frá 1989 á bls. 3 að samkvæmt vottorði G læknis, dagsettu níu dögum eftir slysið þann X198[8], hafi einkenni frá hægra hné verið „nánast horfin“. Á sömu blaðsíðu segi: „ákveðið var að bíða með mynd af hné þar sem ekki var neitt sem benti til brota eða liðbandameiðsla.“

Að mati kæranda bendi þetta til þess að hnéáverkar þessir hafi ekki verið alvarlegir og ólíklegir til að vera einkennalausir í meira en 25 ár og koma síðan fram eftir slysið 2014. Þá sé sérstaklega haft í huga að í vottorði um fyrra heilsufar komi fram að kærandi hafi ekki frá því að skráning hófst árið 2000 leitað sér aðstoðar vegna einkenna frá hnjám eða fótum.

Loks er tekið fram að í áliti D, sem hafi stýrt meðferð kæranda í kjölfar slyssins 2014 og þekki ástand hans manna best, komi fram að læknirinn telji orsök þess að liðskiptaaðgerð sé nauðsynleg sé hvort tveggja slit og slysið 2014. Þetta mat D sé annað en mat Sjúkratrygginga Íslands sem telji liðskiptaaðgerð eingöngu vera afleiðingar eldra vandamáls.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 26. september 2016, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið ákveðin 7% vegna slyss þann X 2014. Í framhaldi þessa hafi stofnunin sent kæranda bréf, dags. 28. september 2016, þar sem honum hafi verið tilkynnt um eingreiðslu örorkubóta á grundvelli þess að samanlögð örorka vegna þessa slyss og annars bótaskylds slyss hjá slysatryggingum Sjúkratrygginga Íslands væri 10% eða meiri, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 187/2005.

Samkvæmt gögnum málsins hafi slys kæranda þann X 2014 orðið með þeim hætti að kærandi hafi hrasaði niður […] tröppur við vinnu og fengið snúningsáverka á hægra hné. Hann muni hafa haldið áfram vinnu en leitað til heimilislæknis tveimur dögum síðar vegna verkja og svo til bæklunarlæknis X 2014 og verið óvinnufær frá þeim degi.

Í hinni kærðu ákvörðun sé varanleg læknisfræðileg örorka kæranda metin 8% en vegna eldra mats frá 1989 þar sem kærandi hafi vegna annars slyss verið metinn til 15% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku reyni á hlutfallsreglu og því sé lokaniðurstaðan 7% (8% af 85 / 8x(1-0,15). Við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi verið byggt á örorkumatstillögu H læknis, dags. 17. maí 2016, byggðri á 12. gr. laga nr. 45/2015, sbr. áður 34. gr. laga nr. 100/2007. Tillagan hafi verið unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna auk viðtals og læknisskoðunar. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að í tillögunni sé forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt sé metið með vísan til miskataflna örorkunefndar frá 2006, liðar VII.B.b.4, sbr. ítarlega útskýringu matslæknisins. Tillagan sé því grundvöllur ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands og þess að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins sé rétt ákveðin 7% að teknu tilliti til hlutfallsreglu.

Tekið er fram að í örorkumatstillögu H séu afleiðingar áverka kæranda heimfærðar undir lið VII.B.b.4 í miskatöflum örorkunefndar, brjóskáverki í hné með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu, - allt að 8%, frekar en liðþófarifa með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu - 5%, sem kærandi ætti í raun að falla undir. Hagstæðari niðurstaðan, þ.e. 8%, byggist á miklum einkennum og bólgu í hnélið. Hins vegar bendi H á að slitbreytingar sem komi fram strax þremur mánuðum eftir aðgerð (X 2014) geti ekki verið til komnar vegna slyssins heldur séu þær eldra vandamál. Þessar slitbreytingar, óviðkomandi slysinu, geti síðar þróað mál þannig að kærandi þurfi á að halda gervilið síðar og sé það þá ekki bein afleiðing slyssins. Af örorkumati C verði hins vegar ekki annað ráðið en að hann vísi til liðar VII.B.b.4 í miskatöflum örorkunefndar, gerviliður í hné, ísettur vegna afleiðinga áverka, - 15%, sbr. þar sem segi í niðurstöðu matsgerðar hans að í matinu sé gert ráð fyrir þeirri þróun að kærandi þurfi að gangast undir gerviliðsísetningu. (Á bls. 4 segi hins vegar í mati C að „ef til vill þurfi hann að undirgangast liðskiptaaðgerð").

Að mati lækna Sjúkratrygginga Íslands og H læknis sé ekki sýnt fram á að kærandi muni þurfa að fara í liðskiptaaðgerð í framtíðinni af völdum áverka sem hafi hlotist í slysinu þann X2014. Um sé að ræða afleiðingar eldra vandamáls.

Til stuðnings fullyrðingu H um eldra vandamál er bent á að á bls. 5 í matsgerð C komi fram að þann X 1988 hafi kærandi meðal annars hlotið áverka á hægra hné í umferðarslysi. Við komu á slysadeild þann X 1988 hafi einkennin verið sögð nánast horfin og við örorkumat J, dags. X 1989, hafi ekki lengur greinst einkenni frá hægra hné. Þarna hafi engu að síður verið um áverka að ræða á hægra hné. Í þessu sambandi sé einnig athyglisvert það sem fram komi í læknisvottorði G frá X 1989 á bls. 4 í örorkumati J og varði reyndar áverka á hægri stórutá kæranda í umferðarslysinu 1988: ,,Hér er sem sagt um slitinn lið að ræða sem vafalaust hefur fengið hnjask við áreksturinn og farið að gefa einkenni“. Röntgenmynd hafi verið tekin af liðnum níu dögum eftir umferðarslysið og þá hafi komið fram byrjandi slitbreytingar í grunnlið stórutáarinnar en engin örugg merki um ferskan beináverka.

Þá ítreka Sjúkratryggingar Íslands að þær slitbreytingar, sem hafi greinst við aðgerð á hægra hné kæranda þremur mánuðum eftir vinnuslysið þann X 2014, geti ekki verið afleiðingar þess slyss.

Það sé því afstaða Sjúkratrygginga Íslands að rétt sé að miða mat á afleiðingum slyssins þann  X 2014 við lýsingar á einkennum og niðurstöðu skoðunar sem komi fram í fyrirliggjandi tillögu H læknis að varanlegri læknisfræðilegri örorku, þannig að með vísan til liðar VII.B.b.4 í miskatöflu örorkunefndar að viðbættri hlutfallsreglu teljist rétt niðurstaða vera 7% varanleg læknisfræðileg örorka.

Að öllu virtu telja Sjúkratryggingar Íslands að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun um 7% varanlega læknisfræðilega örorku.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir þann X 2014. Sjúkratryggingar Íslands mátu varanlega slysaörorku kæranda 7%.

Í læknisvottorði D, læknis á K, dags. X 2014, segir svo um slysið þann X 2014:

„Var að koma niður úr tröppu og hrasaði og fékk snúningsáverka á hægra hné.

Leitaði til undirritaðs og var með klinisk merki um rifinn liðþófa. Gekkst undir aðgerð á hnénu X 2014 og var gert vi liðþófann.“

Í örorkumatstillögu H læknis, dags. 17. maí 2016, segir svo um skoðun á kæranda þann 10. maí 2016:

„A kveðst vera X cm á hæð og X kg, liggjandi á skoðunarbekk er að sjá greinilega vökvasöfnun í hægri hnélið þar sem ummál er aukið og vökvi fyrir ofan hnéskel, það vantar 5° á fulla réttu en beygja er eðlileg og jöfn á vinstra hné. Það er enginn vökvi í vinstra hné sem telst eðlilegt, það eru ekki verkir í hnéskeljarlærleggsliðnum en það eru ákveðnir verkir að innanverðu yfir hnéliðlínu en ekki álagsverkir en fremur beinir verkir við snertingu. Mæld eru ummál 15 cm ofar efri hnéskeljarpóls hægri 50, vinstri 50, yfir efri hnéskeljarpól hægri 44, vinstri 44, 20 cm neðar hægri 39, vinstri 38.“

Niðurstaða matsins er 8% og í útskýringu segir svo:

„Undirritaður vísar hér í töflur örorkunefndar VII Bb4 brjóskáverki í hné með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu allt að 8%, liðþófarifa með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu 5%.

Í raun ætti A að falla í 5% hópinn en vegna mikilla einkenna í dag og bólgu í hnélið og samkvæmt gögnum ekki fyrri sögu telur undirritaður hæfilegt að meta hann til 8%. Í lýsingu aðgerðarlæknis kemur fram „Gekkst undir aðgerð á hnénu þann X.2014 og kom í ljós rifinn liðþófi og slit á brjóski.“ Einnig er rétt á að benda á segulómskoðun sem framkvæmd er í K þann X.2014 „Það er rifa í innri liðþófanum dorsalt um miðbikið. Lateral meniskurinn er heill. Það eru brjóskskemmdir á liðbrún mediala femur condylsins en engar subchondral breytingar. Mikill vökvi í hnélið og stór Bakers cysta. Litlar brjóskskemmdir á liðbrún hnéskelja.“ Þegar tekið er tillit til allra þátta telur undirritaður slitbreytingar í hnénu sem fram koma í aðgerð þremur mánuðum eftir áverka vera eldra vandamál og ekki tilkomna vegna slyssins. Vegna þessara slitbreytinga hefur A lent í því að vera langan tíma að jafna sig og ekki jafnað sig að fullu, en slitbreytingar eru ekki beinar afleiðingar slyssins heldur fyrra vandamál. Mál gætu þróast þannig að A þurfi á að halda gervilið síðar en er það ekki bein afleiðing slyssins.“

Lögmaður kæranda hefur lagt fram örorkumatsgerð C læknis, dags. 16. mars 2016, en matsgerðina vann hann að ósk lögmannsins og vátryggingarfélags. Um skoðun á kæranda þann 15. mars 2016 segir svo í matsgerðinni:

„A kemur eðlilega fyrir og gefur greinargóðar upplýsingar. Fram kemur að hann er rétthentur og réttfættur. Göngulag er eðlilegt. Hann getur gengið á tám og hælum og með erfiðismunum sest á hækjur sér, en hann treystir sér ekki til að ganga þannig nokkur skref. Ekki greinist aukinn vökvi í hægra hnénu. Bæði hné eru stöðugt fram aftur og til hliðanna. Það vantar um 10° á beygju í hægra hnénu, en hann getur rétt alveg úr liðnum. Það eru eymsli yfir liðbilinu miðlægt á hægra hnénu og í aðlægum vöðvum.

Ummála ganglima mælist:

Vinstri            Hægri

12 cm ofan efri brúnar hnéskeljar             49,5 cm           48, 5 cm

Um hné                                                     40,0 cm           40,5 cm

Hámarksummál fótleggjar                        39,0 cm           38,5 cm.“

Niðurstaða framangreindrar örorkumatsgerðar C er sú að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins teljist vera 15%. Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir:

„Þann X 2014 hlaut A snúningsáverka á hægra hné og við það rifnaði innanverði liðþófinn. Í speglunaraðgerð þann X 2014, þar sem gert var að liðþófanum, sást auk þess slit á liðbrjóski innanvert í liðnum og bólga í slímhúð liðarins. Gera verður ráð fyrir áframhaldandi þróun slitgigtar í liðnum og að A muni þurfa að gangast undir gerviliðsísetningu þar og er gert ráð fyrir slíkri þróun í mati þessu.

[...]

Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er tekið mið af töflu örorkunefndar frá 21. febrúar 2006, lið VII.B.b.4. og þykir varanleg örorka hæfilega metin 15% (fimmtán af hundraði).“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt IV. kafla almannatryggingalaga nr. 100/2007, nú laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006 þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Samkvæmt gögnum málsins hrasaði kærandi í stiga og féll til jarðar þann X 2014 með þeim afleiðingum að hann hlaut snúningsáverka á hægra hné. Samkvæmt örorkumatstillögu H læknis, dags. 17. maí 2016, eru varanlegar afleiðingar slyssins mikil einkenni frá hægra hné og bólga í hnélið. Í örorkumatsgerð C læknis, dags. 16. mars 2016, kemur fram að kærandi hafi hlotið snúningsáverka á hægra hné í slysinu og við það hafi innanverði liðþófinn rifnað. Í speglunaraðgerð hafi auk þess sést slit á liðbrjóski innanvert í liðnum og bólga í slímhúð liðarins. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun, sem byggð var á  örorkumatstillögu  H læknis, var varanleg læknisfræðileg örorka kæranda metin 7% að virtri hlutfallsreglu.

Ljóst er að kærandi býr við mikil einkenni frá hægra hné. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur, að virtum læknisfræðilegum gögnum málsins, að slitbreytingar í hné kæranda sé ekki að rekja til slyssins þann X 2014 heldur sé um eldra vandamál að ræða. Slitbreytingarnar þurfa þó ekki að stafa af fyrri áverka enda kemur slit í liðum oftast án sérstakrar sögu um áverka. Slit í hnélið, sem fram kom við speglun, hefur verið lengi að þróast og hefur ekki orðið til við áverka aðeins þremur mánuðum áður. Slitbreytingar í liðum geta verið alllengi til staðar áður en þær valda einkennum og gæti kærandi því hafa verið lengi með slit í hnélið án þess að finna til óþæginda fyrr en hann varð fyrir slysinu þann X 2014. Með hliðsjón af framangreindu tekur úrskurðarnefndin hvorki mið af slitbreytingum í hné né mögulegri gerviliðsísetningu í framtíðinni við mat á afleiðingum slyssins.

Kafli VII.B.b. í miskatöflunum fjallar um afleiðingar áverka á hné og fótlegg. Liðþófarifa með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu leiðir til 5% örorku, sbr. lið VII.B.b.4.7. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála á liður VII.B.b.4.7. ágætlega við um ástand kæranda. Í fyrirliggjandi lýsingu á skoðun hjá H lækni er hins vegar lýst miklum einkennum og bólgu í hnélið. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ástand kæranda miðað við lýsingu alvarlegra en svo að það falli undir lið VII.B.b.4.7. um 5% örorku. Úrskurðarnefndin telur því rétt að meta varanlega læknisfræðilega örorku kæranda 8% samkvæmt lið VII.B.b.4.6. í miskatöflum örorkunefndar en samkvæmt honum leiðir brjóskáverki í hné með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu til allt að 8% örorku.

Kæranda hefur áður verið metin 15% varanleg læknisfræðileg örorka vegna bótaskylds slyss hjá Sjúkratryggingum Íslands. Hann bjó því við skerta starfsorku þegar hann varð fyrir slysinu þann X 2014. Af þeim sökum telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að beita reiknireglu um samanlagða læknisfræðilega örorku, svokallaðri hlutfallsreglu, í tilviki kæranda. Starfsorka kæranda var 85% þegar hann lenti í slysinu. Samkvæmt reiknireglunni gefur því 8% varanleg læknisfræðileg örorka af 85% starfsorku 6,8% varanlega læknisfræðilega örorku. Að framangreindu virtu telst varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vera 7% vegna slyssins sem hann varð fyrir X 2014.

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins sé varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins þann X 2014 réttilega metin í hinu kærða örorkumati, þ.e. 7%, með hliðsjón af lið VII.B.b.4.6. í miskatöflum örorkunefndar. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um örorkumat kæranda er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 7% örorkumat vegna slyss sem A varð fyrir þann X 2014.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir