Almannatryggingar

7.6.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 402/2016

Miðvikudaginn 7. júní 2017

A

vegna B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. október 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. ágúst 2016 á umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið vegna dóttur sinnar B.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 17. febrúar 2016, sótti kærandi um 50-60% styrk til kaupa á bifreið frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 24. maí 2016, var óskað nánari upplýsinga frá kæranda vegna umsóknar hennar. Kærandi hafði samband við stofnunina og áréttaði að hún hefði ætlað að sækja um uppbót/styrk til kaupa á bifreið en ekki 50-60% styrk. Með nýrri umsókn, móttekinni 26. maí 2016 hjá stofnuninni, sótti kærandi um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Þeirri umsókn var synjað með tveimur bréfum stofnunarinnar, dags. 23. og 24. ágúst 2016. Í fyrra bréfinu segir að heimilt sé að veita styrk til kaupa á bifreið á fimm ára fresti vegna sama einstaklings samkvæmt reglugerð nr. 170/2009 og tekið fram að þar sem kærandi hafi fengið greiðslu í október 2013 sé ekki heimilt að úthluta henni aftur uppbót/styrk fyrr en í október 2018. Kærandi óskaði rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun með tölvupósti, mótteknum 29. ágúst 2016, og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 1. september 2016.        

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. október 2016. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 11. nóvember 2016, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins um uppbót/styrk til kaupa á bifreið verði endurskoðuð.

Í kæru segir að úthlutaður hafi verið styrkur til kaupa á bifreið í X 2013 að fjárhæð 1.200.000 kr. vegna dóttur kæranda sem sé með [...] og þar af leiðandi með hreyfihömlunarmat. Að auki hafi hún ekki getað nýtt ferðaþjónustu fatlaðra sem skyldi vegna mikils kvíða. Kærandi sé því háð því að hafa bifreið til afnota. Fötlun dóttur kæranda fylgi hjálpartæki eins og göngugrind, hjólastóll og fleiri.

Við kaup bifreiðarinnar hafi kærandi ekki haft fjármuni til kaupanna umfram styrkinn. Það hafi því þurft að velja bifreið sem myndi endast í fimm ár að öllu óbreyttu og að hægt væri að koma þeim hjálpartækjum fyrir í bifreiðinni sem þörf væri á.

Í X 2014 hafi kærandi verið á leið heim. Ekki hafi verið um aðra leið að ræða og hún með fatlað barn. Pollur hafi myndast á veginum sem hafi virst vera fær, ekkert hafi gefið annað til kynna. Annað hafi komið í ljós og vatn komist í vél bifreiðarinnar. Kærandi hafi þegar látið vita af þessu en verið synjað um bætur af C.

Næsta ár hafi farið í að reyna halda bifreiðinni gangandi. Rúmlega ári síðar í X 2015 hafi hins vegar komið í ljós að viðgerðarkostnaður myndi verða jafnmikill og verðgildi bifreiðarinnar. Ekki væri hægt að fullyrða að viðgerðin myndi halda.

Kærandi hafi haft samband símleiðis við ráðgjafa Tryggingastofnunar ríkisins sem hafi ráðlagt henni að leggja inn nýja umsókn þar sem þetta myndi falla undir sambærilegt atvik og þegar bifreið eyðileggist í árekstri og viðkomandi hafi ekki fengið bætur úr tryggingum. Ráðgjafinn hafi tjáð henni að það hefðu verið veittar undanþágur vegna svona atvika. Hún hafi því miður ekki gögn um þetta símtal.

Kærandi hafi því sótt um að nýju í byrjun árs 2016. Bifreiðin hafi verið afskráð og hent. Hún hafi ekki verið alveg viss um hvort hún þyrfti nýtt hreyfihömlunarmat. Því hafi hún gert sér ferð til Tryggingastofnunar ríkisins til að ræða við ráðgjafa. Hún hafi fengið ráðgjöf og aðstoð með pappíra sem hún hafi síðan skilið eftir hjá honum.  

Um átta vikum síðar hafi kærandi fengið bréf frá Sjúkratryggingum Íslands þess efnis að hún þyrfti að leggja fram frekari gögn vegna 50-60% styrks til kaupa á bifreið. Hún hafi orðið mjög undrandi á þessu þar sem hún hafði ekki sótt um slíkan styrk og lagt fram erindi þar um, dags. 24. maí 2016. Að auki hafi hún þegar næsta dag hringt til stofnunarinnar og óskað útskýringa á þessu þar sem hún hafði sótt um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Hún hafi ekki fengið svör heldur hafi henni verið tjáð að hún þyrfti að sækja um að nýju. Hún hafi sagt að hún væri þegar búin að bíða umfram eðlilegan tíma og fengið liðsinni frá starfsmanni stofnunarinnar um hvað yrði gert. Henni hafi verið tjáð að það eina sem hún gæti gert væri að biðja um flýtimeðferð vegna þessara mistaka.

Kærandi hafi þá sent gögnin rafrænt til að vera viss um að þau myndu skila sér á réttan stað. Ekkert hafi heyrst frá stofnuninni og því hafi hún um miðjan ágúst hringt þangað, en gögnin ekki fundist fyrr en eftir leit. Kærandi hafi fullyrt við starfsmann stofnunarinnar að hún hefði sent gögnin rafrænt og stofnunin yrði að finna þau. Þegar þau hafi loks fundist hafi henni verið tjáð að þau nægðu ekki heldur þyrfti hún að senda inn staðfestingu um að hafa ekki fengið greitt frá tryggingafélagi auk yfirlits frá verkstæði. Það hafi verið skrítið að heyra þetta á þessum tímapunkti þegar stofnunin hafði verið með málið hátt í fjórtán vikur sem hafi átt að vera flýtimeðferð. Kærandi hafi þá verið búin að hafa samskipti við þrjá starfsmenn og verið að heyra um það í fyrsta skipti að þetta væru mikilvæg gögn. Það hafi ekki verið neitt mál að fá þau sem hún hafi gert og sent strax. Enn og aftur sé bent á að kærandi sé háð því að hafa bifreið til umráða vegna dóttur sinnar og þær séu háðar öðrum um aðstoð. Þetta sé því algjörlega óásættanlegur biðtími.

Þann 23. ágúst 2016 hafi borist svar frá stofnuninni þar sem synjað var að veita styrk og vísað til eftirfarandi: „heimilt er að víkja frá ofangreindum tímamörkum ef bifreið er afskráð vegna umferðaróhapps. Í þeim tilfellum þarf að berast staðfesting frá tryggingarfélaginu um að þú hafir ekki fengið greitt úr tryggingum vegna tjónsins á bifreiðinni.“ Í bréfinu hafi að auki verið tekið fram að stofnunin taki ekki efnislega afstöðu til annarra skilyrða sem komi fram í reglugerð nr. 170/2009.

Þann 24. ágúst 2016 hafi borist annað bréf með breyttu orðalagi og búið að taka út að heimilt sé að víkja frá ofangreindum tímamörkum ásamt fleiru en bæta við að „innsend gögn frá 14. ágúst sl. Breyta ekki fyrri ákvörðun.“ Kærandi hafi ekki vitað um hvaða fyrri ákvörðun hafi hér verið vísað til. Hún hafi enga skýringu fengið á því af hverju gögnin hafi ekki dugað eða hvort hún gæti lagt fram frekari gögn.

Kærandi hafi ekki átt aðra möguleika en að fara fram á rökstuðning fyrir ákvörðuninni og því gert það. Svar við því erindi hafi borist 1. september 2016 þar sem fram hafi komið að „í framkvæmd hefur ákvæðið verið túlkað á þann hátt að hægt sé að veita umsækjanda nýjan styrk þó að ekki séu liðin fimm ár frá síðustu styrkveitingu ef að bíllinn hefur eyðilaggst í árekstri, eða sambærilegu atviki, og umsækjandinn hefur ekki fengið neinar bætur frá tryggingunum vegna tjónsins.“

Á sama stað hafi verið ítrekað að í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, sem hafi borist 23. maí 2016, hafi komið fram að bifreiðin hefði þurft að hafa lent í umferðaróhappi til þess að geta fengið undanþágu frá þessari reglu um fimm ár. Þar hafi lögfræðingurinn nefnt að einnig hafi verið horft til sambærilegra atvika.

Kærandi hafi kynnt sér orðið sambærilegt og það þýði hliðstæða. Það hafi skilið eftir þá hugsun að hver og einn geti túlkað þetta atriði eftir sínu höfði. Hvað sé sambærilegt og hvað ekki. Ef svo sé hvort eigi þá skjólstæðingur stofnunarinnar eða hún sjálf að njóta vafans.

Þar sem kæranda hafi ekki fundist þetta bréf svara sér um neitt hafi hún hringt í lögfræðing stofnunarinnar. Hún hafi óskað skýringa á rökstuðningnum, en lögfræðingurinn ekki getað veitt hann. Hún hafi spurt hvort stofnunin myndi endurskoða ákvörðun sína ef hún kæmi með frekari gögn, en því hafi verið svarað neitandi. Hún hafi óskað útskýringa á því hvaða túlkun hann legði í orðið sambærilegt í þessu tilviki en ekki fengið hana. Bent hafi verið á að bifreiðin hafi ekki verið ný. Hins vegar hafi þau sem þurfi á þessum styrk að halda ekki alltaf efni á, eða tök á, að taka viðbótarlán. Kærandi hafi verið að velja besta kostinn í sinni stöðu. Það hafi hvergi komið fram neitt um aldur bifreiðar til að fá styrk. Stofnunin hafi metið þetta eftir að sendar hafi verið upplýsingar um hvaða bifreið fyrirhugað var að kaupa, og hún verið keypt án athugasemda frá stofnuninni.

Lög nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi að vera nægilega skýr og kærandi telji að stofnunin hafi ekki farið eftir þeim í þessu máli. Hún bendi á 37. gr. um leiðbeiningarskyldu, 38. gr. um rannsóknarskyldu og 41. gr. um skort á upplýsingum.

Þar sem hin kærða ákvörðun sé íþyngjandi fyrir kæranda og dóttur kæranda, telji hún að það hefði átt að skoða málið á betri og vandaðri hátt, eins þennan langa tíma sem hafi farið í málið frá upphafi þess.

Það geti ekki verið gott fyrir þau sem þurfi að nýta sér þessa þjónustu hjá stofnuninni að það sé þeim í sjálfsvald sett hvort ákvæði í reglugerðum gildi fyrir suma en aðra ekki, og matið sé svo opið að á morgun gildi annað en í gær.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti. Með breytingarlögum nr. 120/2009, sem tóku gildi 1. janúar 2010, hafi eftirfarandi málslið verið bætt við þá málsgrein: „Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.“

Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hafi verið sett með heimild í lögum um félagslega aðstoð. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um styrki vegna kaupa á bifreiðum, sambærilegum við þann sem kærandi hafi óskað eftir. Þar komi fram skilyrði fyrir greiðslu styrksins og upphæðir hans. Þar komi meðal annars fram að styrk sé einungis heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Í 5. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segi: „Óheimilt er að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir styrkveitingu nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt er að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.“

Aðdragandi afgreiðslu stofnunarinnar á umsókn kæranda hafi verið nokkuð langur og meðal annars falist í því að vegna rangrar umsóknar hafi stofnunin talið að kærandi hefði óskað eftir styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 en ekki 4. gr. eins og raunin hafi verið. Þessi misskilningur hafi því miður valdið töfum á afgreiðslu og beðist sé velvirðingar á því.

Umsókn kæranda hafi endanlega verið afgreidd með bréfi stofnunarinnar, dags. 24. ágúst 2016, þó með vísan til bréfs sem hafði verið sent deginum áður. Kærandi hafi óskað rökstuðnings og hann verið veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 1. september 2016.

Umsókn kæranda um styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 hafi verið synjað þar sem ekki hafi verið liðin fimm ár frá síðustu styrkveitingu.

Eins og áður hafi verið rakið sé stofnuninni ekki heimilt að veita styrk vegna kaupa á bifreið vegna sama einstaklings nema á fimm ára fresti. Rétt sé að vekja athygli á því að reglan sé afdráttarlaus og án undantekninga í 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Í 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi fram þröng undantekningarheimild til þess að heimila sölu á bifreið áður en fimm ár séu liðin frá styrkveitingu, en það sé vegna þess að bifreið hafi eyðilagst eða bótaþegi látist. Athygli kæranda hafi verið vakin á þessu í bréfum stofnunarinnar.

Í framkvæmd hafi afgreiðsluhópur stofnunarinnar vegna styrkja vegna bifreiðakaupa túlkað það ákvæði með þeim hætti að unnt sé að veita nýjan styrk þrátt fyrir að ekki séu liðin fimm ár frá styrkveitingu hafi bifreið eyðilagst í árekstri, eða sambærilegu atviki og viðkomandi ekki fengið neinar bætur frá tryggingum vegna tjónsins.

Það sé rétt að vekja athygli á því að þessi framkvæmd sé byggð á orðalagi 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 eingöngu og sambærilegu ákvæði í fyrri reglugerð. Framkvæmdin hafi verið með þessum hætti fyrir lögfestingu fimm ára reglunnar með breytingalögum nr. 120/2009 og færa megi rök fyrir því að hún standist ekki afdráttarlaust orðalag hinnar breyttu 10. gr. laga um félagslega aðstoð, þ. e. með réttu ætti ekki að vera heimilt að veita nýja uppbót/styrk til kaupa á bifreið þótt bifreið hafi eyðilagst.

Stofnunin hafi skoðað gögn málsins, bæði þau sem hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins og þau sem hafi borist með kæru. Það sé mat stofnunarinnar að af þeim sé ekki hægt að sjá að bifreið kæranda hafi eyðilagst í árekstri eða sambærilegu atviki. Í kæru sé gengið út frá því að bifreiðin hafi eyðilagst við að keyra yfir poll í C þann X 2014. Í ökutækjaskrá Samgöngustofu megi sjá að bifreiðin hafi verið afskráð X 2016 eða um það bil einu og hálfu ári eftir atburðinn sem kærandi vísi til. Gögn, sem kærandi hafi lagt fram til að sýna fram á að bifreiðin hefði eyðilagst í skilningi reglugerðarinnar, hafi falist í tölvupósti frá 12. ágúst 2016. Í þeim tölvupósti hafi komið fram að fyrirhugaður viðgerðarkostnaður vegna bifreiðarinnar væri umtalsverður. Í þeim tölvupósti komi hins vegar hvorki fram að bifreiðin hafi verið ónýt né að hún hafi eyðilagst við þann sem atburð sem kærandi vísaði til.

Rétt sé að vekja athygli á því að það sé á ábyrgð bótaþega að tryggja að sú bifreið, sem þeir kaupi fyrir uppbót/styrk frá stofnuninni, sé líkleg til að endast í að minnsta kosti fimm ár frá því að uppbót/styrkur sé veitt. Stofnunin geti ekki verið ábyrg fyrir venjulegum bilunum í eldri bifreiðum, en þau vandamál sem komi fram í nefndum tölvupósti geti ekki talist mjög óvenjuleg fyrir tólf ára gamla bifreið, jafnvel þó að þess séu mörg dæmi um að bifreiðar geti verið með lengri endingartíma.

Í þessu máli sé ljóst að kærandi hafi keypt bifreið í X 2013 og fargað henni í X 2016. Hún hafi því átt bifreiðina í rúmlega tvö ár sem sé fjarri þeim fimm árum sem kveðið sé á um í lögum og reglum um uppbót til kaupa á bifreið.

Stofnunin telji að ekki hafi verið heimilt að víkja frá þeirri meginreglu að einungis sé heimilt að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Að lokum sé rétt að vekja athygli á því að í kæru komi fram að kærandi telji sig hafa fengið rangar upplýsingar frá stofnuninni. Því miður sé ómögulegt fyrir stofnunina að tjá sig um það hvað einstakir starfsmenn hafi sagt við hana og hvernig hún hafi skilið það sem sagt hafi verið. Það sé hins vegar ljóst að lög og reglur um þetta séu afdráttarlaus og skýr.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:

Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. [...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. 

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði verður einstaklingi ekki veittur styrkur vegna bifreiðakaupa fyrr en að fimm árum liðnum frá síðustu greiðslu til hans. Ágreiningslaust er að kærandi fékk styrk til kaupa á bifreið í X 2013 og uppfyllir því ekki skilyrði laganna um fimm ára frest. Skal þá litið til þess hvort skilyrði séu til að víkja frá lögboðnum tímamörkum.

Í 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 segir að óheimilt sé að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir styrkveitingu nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Í 2. málsl. sömu málsgreinar segir að heimilt sé að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts styrkþega.

Í máli þessu kemur til skoðunar hvort eldri bifreið kæranda hafi eyðilagst í skilningi 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Kærandi byggir á því að í X 2015 hafi bifreið hennar verið metin ónýt og rekur það til atviks þar sem vatn komst inn í vél hennar í X 2014 þegar bifreiðinni var ekið í poll sem hafði myndast vegna mikils vatnsveðurs. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins hefur framangreint ákvæði 5. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar verið túlkað með þeim hætti að heimilt sé að veita nýjan styrk þrátt fyrir að ekki séu liðin fimm ár frá síðustu styrkveitingu hafi bifreið eyðilagst í árekstri, eða sambærilegu atviki, og ekki fengist bætur frá tryggingum vegna tjónsins.

Í gögnum málsins liggur fyrir tilkynning um tjón, móttekin af tryggingafélagi X 2014, þar sem fram kemur að kærandi hafi keyrt yfir poll þann X 2014 og fengið vatn inn á vél bifreiðarinnar, aðalljós og ljós í stuðara. Þá liggur fyrir staðfesting tryggingafélags um að tjónabætur hafi ekki verið greiddar úr kaskótryggingu bifreiðarinnar.

Í tölvupósti frá starfsmanni bifreiðaverkstæðis til kæranda X 2016 segir meðal annars svo um ástand eldri bifreiðar kæranda:

„Það sem gerist hjá þér er að vatn er farið að komast inn í sílender í vélinni. Það bendir til þess að heddpakkning sé farin, og eða þaðan af verra að heddið sé sprungið. Einnig er hugsanlegt að gengjur í blokkini sé rifnar út og þá er mótorinn ónýtur. Ekkert framboð hefur verið á notuðum vélum á Íslandi í þessa bíla. Þannig að það þyrfti að flytja inn mótor í bílinn. Allavega má gera ráð fyrir að kostnaður við þetta allt slagi hátt í verðgildi bílsins“

Samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá var bifreiðin skráð úr umferð X 2015 og afskráð X 2016. Þá liggur fyrir skilavottorð frá úrvinnslusjóði, dags. X 2016.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af framangreindu megi ráða að vatn hafi komist inn á vél eldri bifreiðar kæranda. Þá telur úrskurðarnefndin að upplýsingar í tölvupósti frá starfsmanni bifreiðaverkstæðis og upplýsingar um að bifreiðin hafi verið send til brotajárnsvinnslu gefi til kynna að bifreiðin hafi verið ónýt. Að mati úrskurðarnefndar hefur það ekki úrslitaþýðingu við mat á því hvort bifreið kæranda hafi eyðilagst í skilningi 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 að eitt og hálft ár leið frá því að kærandi keyrði yfir poll þann X 2014 þangað til bifreiðin var afskráð þann X 2016 þar sem ekki er gerð krafa um það í reglugerðarákvæðinu að bifreiðin eyðileggist skyndilega, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 6505/2011. Í fyrrgreindu reglugerðarákvæði er ekki kveðið á um það með hvaða hætti eða hvenær bifreið telst hafa eyðilagst. Verður því litið svo á að vélarbilun sú í bifreið kæranda, sem leiddi til þess að bifreiðin ónýttist, geti fallið þar undir. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að bifreið kæranda hafi eyðilagst í skilningi 5. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki verið heimilt að synja kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa á þeim grundvelli að ekki hafi verið liðin fimm ár frá síðustu úthlutun styrks til bifreiðakaupa. Ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa er því felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um uppbót/styrk til kaupa á bifreið er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir