Almannatryggingar

26.9.2017

Mál nr. 363/2016

Þriðjudaginn 26. september 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. september 201[6], kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. apríl 2016 um að skerða tekjutengd bótaréttindi hans hér á landi vegna tekna frá [C].

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Við endurreikning og uppgjör bótagreiðslna vegna ársins 2013 var það niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 140.495 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi, dags. 21. júlí 2014, fór stofnunin fram á endurgreiðslu hinna ofgreiddu bóta. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar almannatrygginga 11. ágúst 2014 og gerði í kæru athugasemd við að ellilífeyrisgreiðslur hans frá [C] skertu greiðslur hans frá Tryggingastofnun ríkisins. Í framhaldi af því tók stofnunin ákvörðun um að endurskoða mál kæranda og afturkallaði hann því kæru sína hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga 29. október 2015.

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. apríl 2016, var kærandi upplýstur um að ákvörðun stofnunarinnar frá 21. júlí 2014 hefði verið endurskoðuð og niðurstaðan verið sú að hluti tekna hans frá B í C kæmi til skerðingar. Nánar tiltekið var niðurstaða stofnunarinnar annars vegar sú að tekjur vegna þátttöku hans á vinnumarkaði á árunum 1960-1968 og 1972-1976 féllu undir grunnlífeyri og hefðu því ekki tekjuskerðingaráhrif. Hins vegar var það niðurstaða stofnunarinnar að tekjur vegna frjálsra iðgjaldagreiðslna ([...]) sem kærandi innti af hendi á árunum 1996-2007 féllu undir almennan lífeyri og hefðu því tekjuskerðingaráhrif.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. september 2016. Með bréfi, dags. 27. september 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. október 2016, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. október 2016. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 12. október 2016 og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en af gögnum málsins má ráða að hann fari fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða tekjutengd bótaréttindi hans hér á landi vegna tekna frá C ríkinu verði endurskoðuð.

Í kæru segir að kærandi fái grunnlífeyri frá C ríkinu þar sem hann hafi unnið í C. Í tólf ár hafi hann greitt til tryggingastofnunar þar í landi samkvæmt reglum þar um áður en hann hafi flutt til Íslands. Hann hafi einnig greitt aukalega frjálst framlag í grunnlífeyrissjóð í sama sjóð samkvæmt EU reglum. Meðfylgjandi gögnum málsins sé bréf frá C tryggingastofnun þar sem útskýrt sé hversu mikið kærandi hafi þurft að greiða fyrir hvert opið ár, hafi hann viljað að það teldist til grunnlífeyris ([...]) í C.

Þá vísi kærandi til þess sem segi í 3. mgr. 14. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004: „Hins vegar vegna örorku, elli og eftirlifenda bóta, getur viðkomandi tekið þátt í sjálfboða (frjálst framlag) eða áframhaldandi tryggingakerfi aðildarríkis, (C), jafnvel þótt hann sé undir löggjöf annars aðildarríkis (IS), að því tilskildu að hann hafi verið, á einhverju stigi á sínu ferli, undir löggjöf fyrrnefnds aðildarríkis (C) sem launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, og ef svo er leyft samkvæmt löggjöf fyrrnefnds aðildarríkisins(C).“

Kærandi telji að Tryggingastofnun ríkisins hafi neitað að viðurkenna framangreint ákvæði. Stofnunin hafi fallist á að hluti lífeyris hans sé grunnlífeyrir, en neiti að viðurkenna að hinn hlutinn falli einnig undir grunnlífeyri.

Í bréfi tryggingastofnunar í C sé bent á að frjálst framlag sem kærandi hafi greitt af frjálsum vilja, hafi einnig farið í grunnlífeyrissjóð og sé kallað á C „[...]“.

Í c-lið 3. mgr. 53. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 segi meðal annars: „Sambærileg stofnun (IS) skal ekki taka tillit til upphæðar samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis (C) á grundvelli Frjálst framlag trygginga, eða áframhaldandi valtrygginga.“ Tryggingastofnun ríkisins hafi einnig neitað að viðurkenna þetta ákvæði.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir um forsögu málsins að 23. október 2015 hafi stofnunin afturkallað kæru í máli úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 233/2014 þar sem óskað hafi verið eftir nánari rannsókn á máli kæranda með tilliti til EB reglugerðar nr. 883/2004 um framkvæmd almannatrygginga á EES svæðinu, sbr. framkvæmdareglugerð EB nr. 987/2009. Sú endurskoðun hafi farið fram og stofnunin breytt fyrri ákvörðun sinni með því að taka hluta erlendra tekna kæranda til greina sem grunnlífeyri en hluti þeirra skyldi áfram skilgreindur sem erlendur lífeyrir sem hafi tekjuskerðingaráhrif. Lífeyrisgreiðslur kæranda frá C séu vegna þátttöku hans á vinnumarkaði þar í landi ([...]) og iðgjaldagreiðslna (fastagreiðslna/[...]), sem kærandi hafi greitt á árinu 2008 vegna áranna 1996 til 2006, þ.e. sama tímabils og hann hafi verið búsettur og tryggður á Íslandi.

Kærandi hafi uppfyllt skilyrði fyrir fullum ellilífeyrisgreiðslum hér á landi, sbr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Hann hafi búið á Íslandi í 40 ár á tímabilinu frá 16 til 67 ára aldurs og fengið greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. janúar 2011.

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar skuli skerða ellilífeyri séu tekjur ellilífeyrisþega samkvæmt 2. mgr. og 3. mgr. 16. gr. laganna hærri en 408.363 kr. á ári (sbr. reglugerð nr. 1216/2012) og fari um framkvæmd þess samkvæmt 16. gr. laganna. Séu tekjur umfram tilgreind mörk skuli skerða ellilífeyri um 25% þeirra tekna sem umfram séu uns hann falli niður. Nánar sé kveðið á um tekjuskerðingu í 1. til 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Tekjutryggingu ellilífeyrisþega sem hafi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skuli skerða um 38,35% þeirra tekna uns hún falli niður, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar að teknu tilliti til frítekjumarks vegna tekna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. reglugerð nr. 125/2012 um fjárhæðir frítekjumarka. Fjárhæðir frítekjumarka séu mismunandi eftir árum og taki breytingum árlega.

Í reglugerð nr. 568/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags skuli tekjur sem aflað sé erlendis og séu ekki taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnavart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.

Samkvæmt d-lið 1. mgr. 3. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa á EES svæðinu, sbr. framkvæmdareglugerð EB nr. 987/2007 falli ellilífeyrir undir reglugerðina. Reglugerðin geri ráð fyrir að einstaklingar innan EES svæðisins, sem ekki falli undir II. bálk um áframhaldandi tryggingu í sama ríki, ávinni sér tryggingatímabil, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar. Tryggingatímabil ávinnist annað hvort með búsetu eða vegna þátttöku á vinnumarkaði. Þó sé ekki tekið tillit til tímabila sem séu skemmri en eitt ár, sbr. 57. gr. reglugerðarinnar. Í inngangskafla reglugerðarinnar, þar sem markmið hennar séu skýrð, komi fram að nauðsynlegt sé að einstaklingar sem flytji innan EES svæðisins heyri einungis undir almannatryggingakerfi í einu aðildarríki svo að komast megi hjá skörun gildandi ákvæða landslöggjafar og þeim vandkvæðum sem af því geti hlotist. Með öðrum orðum hafi hér verið vikið að reglunni um að einstaklingur skuli heyra undir löggjöf eins aðildarríkis hverju sinni, sbr. ákvæði 11. gr. reglugerðarinnar sem kveði á um að þeir einstaklingar sem reglugerðin gildi um skuli aðeins heyra undir löggjöf eins aðildarríkis. Í 10. gr. reglugerðar EB nr. 883/2004 komi jafnframt fram að reglugerðin skuli hvorki veita né viðhalda rétti til margvíslegra bóta sömu tegundar fyrir sama tímabil skyldutrygginga nema annað hafi verið tilgreint.

Kærandi hafi bæði notið ellilífeyrisgreiðslna frá Íslandi og C en erlendu greiðslurnar hafi annars vegar samanstaðið af þátttöku kæranda á vinnumarkaði ([...]) og vegna iðgjaldagreiðslna (fastagreiðslna/[...]) sem kærandi hafi greitt sjálfur inn í C kerfið á árinu 2008 vegna áranna 1996 til 2008, en á þeim tíma hafi hann einnig verið tryggður hér á landi.

Í kæru sé því haldið fram að 3. mgr. 14. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 eigi við í tilviki kæranda um að hann geti greitt inn í frjálsar viðvarandi tryggingar í einu ríki. Það eigi hins vegar eingöngu við þegar viðkomandi einstaklingur heyri ekki undir skyldutryggingar í öðru aðildarríki þar sem vinnuhugtakið og þátttaka hans á vinnumarkaði gangi framar við ákvörðun á því undir hvaða löggjöf hann falli. Einstaklingar sem séu utan vinnumarkaðar, til dæmis heimavinnandi húsmæður eða í ákveðnum tilvikum þeir sem séu búsettir erlendis og falli ekki undir aðra almannatryggingalöggjöf, séu dæmi um þá sem geti greitt iðgjöld í formi fastagjalds og öðlast þannig lágmarksréttindi án þess að um raunverulega þátttöku á vinnumarkaði sé að ræða. Þetta sé einkum hugsað til þess að koma í veg fyrir að gap myndist í almannatryggingavernd. Í gögnum sem kærandi hafi lagt fram um iðgjaldagreiðslur hans vegna tímabils sem hann hafi verið búsettur á Íslandi komi fram að hann hafi greitt [...] iðgjaldagreiðslur/fastagreiðslur þegar hann hafi þegar verið tryggður hér á landi.

Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar EB nr. 883/2004 komi fram að einstaklingur sem heyri samkvæmt löggjöf aðildarríkis undir skyldutryggingar í því aðildarríki, skuli sá einstaklingur ekki heyra undir kerfi frjálsra trygginga eða kerfi frjálsra trygginga í öðru aðildarríki. Þar sem einungis sé hægt að vera tryggður í einu landi í einu geti kærandi ekki notið réttinda bæði á Íslandi og í C fyrir sama tímabil. Það verði til þess, svo og eðli greiðslnanna frá C að bætur frá því landi séu meðhöndlaðar eins og um lífeyrisgreiðslur úr íslenskum lífeyrissjóðum væri að ræða.

Samt sem áður hafi Tryggingastofnun ríkisins endurskoðað fyrri ákvörðun sína og litið svo á að kærandi skuli njóta vafa um túlkun á erlendum greiðslum og metið það svo að þau ár sem hann hafi greitt til [...] falli undir grunnlífeyri og reiknist ekki til tekjuskerðingar en greiðslur vegna iðgjaldagreiðslna (fastagreiðslna/[...]) sem almennan lífeyri og reiknist til tekjuskerðingar.

Tryggingastofnun ríkisins telji að ekki sé heimilt að líta framhjá lífeyrisgreiðslum til kæranda úr C kerfinu við útreikning á fjárhæð ellilífeyris sem sé greiddur frá stofnuninni. Annars vegar sé um að ræða lífeyrisgreiðslur sem séu byggðar á atvinnutengdum iðgjaldagreiðslum og hins vegar lífeyrisgreiðslum sem séu byggðar á iðgjaldagreiðslum/fastagjaldi sem hafi verið greitt á tímabili sem kærandi hafi verið tryggður á grundvelli búsetu hér á landi. Einstaklingur sem greiði iðgjöld til að öðlast opinberan lífeyri í almannatryggingakerfinu í C sé ekki að greiða sig inn í frjálsar tryggingar í skilningi 14. gr. reglugerðar EB nr. 883/2004. Frjálsar tryggingar væru til dæmis séreignasparnaður á grundvelli þess að greitt væri viðbótariðgjald í séreignasjóð, þ.e. til viðbótar grunnlífeyrisgjöldum.

Tryggingastofnun ríkisins greiði bætur í samræmi við áætlaðar tekjur bótagreiðsluárs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum séu bótafjárhæðir endurreiknaðar á grundvelli tekna, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Komi í ljós við endurreikning að bætur hafi verið van- eða ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 8. mgr. 16. gr. laganna.

Komist úrskurðarnefnd velferðarmála að þeirri niðurstöðu að allar erlendar tekjur kæranda séu grunnlífeyrir sem eigi ekki að hafa áhrif á bætur Tryggingastofnunar ríkisins hafi það um leið í för með sér að hann hafi verið tryggður í C á umræddum tíma. Stofnunin komi þá til með að endurákvarða búsetuhlutfall á grundvelli ákvæða reglugerðar EB nr. 883/2004 um að ekki sé hægt að vera tryggður í tveimur aðildarríkjum á sama tíma.

Einnig skuli á það bent að fyrst kærandi hafi ranglega greitt iðgjöld í C kerfið á meðan hann hafi verið tryggður á Íslandi sé eðlilegra að hann óski eftir endurgreiðslu á iðgjöldum í C í stað þess að fara fram á að litið verði framhjá þeim við ákvörðun á fjárhæð ellilífeyris á Íslandi.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða tekjutengd bótaréttindi kæranda hér á landi vegna tekna frá C. Með bréfi, dags. 8. apríl 2016, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda um að ákvörðun stofnunarinnar frá 21. júlí 2014, um að skerða tekjutengdar bætur kæranda vegna lífeyristekna frá C, hefði verið endurskoðuð. Niðurstaða stofnunarinnar var meðal annars sú að tekjur vegna frjálsra iðgjaldagreiðslna ([...]) sem kærandi innti af hendi á árunum 1996-2007 falli undir almennan lífeyri og hafi því tekjuskerðingaráhrif.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Þá hljóðaði þágildandi ákvæði 4. mgr. 16. gr. svo:

„Þegar um er að ræða tekjutryggingu skv. 22. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignalífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Samkvæmt framangreindu hefur almennur lífeyrir tekjuskerðingaráhrif en aftur á móti hafa greiðslur úr viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða ekki tekjuskerðingaráhrif. Í 2. gr. reglugerðar nr. 391/1998 er hugtakið viðbótartryggingavernd skilgreint á eftirfarandi hátt:

„Sú tryggingavernd sem er umfram þá lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður skilgreinir og greitt er fyrir með greiðslu framlaga samkvæmt sérstökum samningi við þá aðila sem tilgreindir eru í 1.-4. tölul. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.“

Umræddar tekjur kæranda falla ekki undir viðbótartryggingavernd í skilningi ákvæðisins. Aftur á móti kemur til skoðunar hvort um sé að ræða sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. Ákvæði 68. gr. laganna kveður á um að ríkisstjórninni sé heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. C er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða sambærilegar bætur frá C ekki tekjutrygginguna.

Með reglugerð nr. 442/2012, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar, öðlaðist gildi hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004, um samræmingu almanntryggingakerfa, sbr. 1. gr. reglugerðar 442/2012. Í 14. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 er fjallað um frjálsar tryggingar eða frjálsar viðvarandi tryggingar. Þar segir í 2. mgr. að ef hlutaðeigandi einstaklingur heyrir, samkvæmt löggjöf aðildarríkis, undir skyldutryggingar í því aðildarríki skal hann ekki heyra undir kerfi frjálsra trygginga eða kerfi frjálsra viðvarandi trygginga í öðru aðildarríki. Í 3. mgr. er að finna undantekningu frá reglunni en ákvæðið er svohljóðandi:

„Hvað snertir örorku-, elli- og eftirlifendabætur getur hlutaðeigandi einstaklingur hins vegar gerst aðili að kerfi frjálsra trygginga eða frjálsra viðvarandi trygginga í aðildarríki, jafnvel þótt hann eigi að heyra undir löggjöf annars aðildarríkis, að því gefnu að hann hafi einhvern tímann á starfsferli sínum heyrt undir löggjöf fyrrnefnda aðildarríkisins í krafti starfs síns sem launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur og ef slík skörun trygginga er beint eða óbeint heimiluð samkvæmt löggjöf fyrrnefnda aðildarríkisins.“

Kærandi telur að 3. mgr. eigi við í hans tilviki og að á grundvelli þess hafi Tryggingastofnun ekki verið heimilt að skerða tekjutengdar bætur hans. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ágreiningur um heimild stofnunarinnar til að skerða bætur kæranda ekki leystur á grundvelli 14. gr. þar sem það ákvæði lýtur að því hvort einstaklingi sé heimilt að tilheyra kerfi frjálsra trygginga í öðru aðildarríki. Aftur á móti er c-liður 3. mgr. 53. gr. EB reglugerðar nr. 833/2004 hliðstætt ákvæði við 3. mgr. 14. gr. og telur kærandi að fyrrnefnda ákvæðið eigi einnig við í hans tilviki, en 53. gr. fjallar um reglur til að koma í veg fyrir skörun bóta. Í 3. mgr. 53. gr. reglugerðarinnar segir að eftirfarandi ákvæði skuli gilda að því er varðar reglur til að koma í veg fyrir skörun bóta, sem mælt er fyrir um í löggjöf aðildarríkis, þegar bætur vegna örorku, elli og til eftirlifenda skarast við bætur sömu tegundar, bætur af ólíkum toga eða aðrar tekjur. Í kjölfarið á því kemur eftirfarandi regla fram í c-lið 3. mgr. 53. gr.:

„þar til bær stofnun skal ekki taka tillit til bótafjárhæðar sem réttur hefur áunnist til samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis á grundvelli frjálsra eða frjálsra viðvarandi trygginga,“

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins eru færð rök fyrir því að 3. mgr. 14. gr. EB reglugerðar nr. 833/2004 eigi ekki við í tilviki kæranda. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af greinargerð stofnunarinnar að c-liður 3. mgr. 53. gr. eigi heldur ekki við, enda er sem fyrr segir um hliðstæð ákvæði að ræða.

Tryggingastofnun telur að 3. mgr. 14. gr. EB reglugerðar nr. 833/2004 eigi eingöngu við þegar viðkomandi einstaklingur heyrir ekki undir skyldutryggingar í öðru aðildarríki þar sem vinnuhugtakið og þátttaka hans á vinnumarkaði gangi framar við ákvörðun á því undir hvaða löggjöf viðkomandi einstaklingur fellur. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður sá skilningur hins vegar hvorki leiddur af 14. gr. reglugerðarinnar né 53. gr. Þvert á móti kemur skýrt fram í 3. mgr. 14. gr. að einstaklingur geti gerst aðili að kerfi frjálsra trygginga eða frjálsra viðvarandi trygginga í aðildarríki „jafnvel þótt hann eigi að heyra undir löggjöf annars aðildarríkis“. Túlkun Tryggingastofnunar ríkisins á ákvæðinu er enda í andstöðu við tilgang ákvæðisins, sbr. efnisgrein 37 í forúrskurði Evrópudómstólsins frá 12. febrúar 2015 (C-114/13), þar sem dómstóllinn taldi að ákvæðin geri þeim, sem flytji innan EES svæðisins og hafi valið að greiða frjálsar tryggingar eða frjálsar viðvarandi tryggingar til þess að safna sér ellilífeyri í öðru aðildarríki, kleift að viðhalda þeim réttindum.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er því einnig haldið fram að einstaklingur sem greiði iðgjöld til að öðlast opinberan lífeyri í almannatryggingakerfinu í C sé ekki að greiða sig inn í frjálsar tryggingar í skilningi 14. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að lífeyristryggingarkerfi geta verið æði ólík milli landa og því getur verið vandkvæðum bundið að flokka tekjur bótaþega. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að greiða iðgjöld til að öðlast opinberan lífeyri hér á landi er þar með ekki sagt að það sé ekki hægt annars staðar innan EES svæðisins. Ekki er að finna skilgreiningu á hugtakinu „frjálsar trygginga eða frjálsar viðvarandi tryggingar“ í reglugerðinni og því þarf að líta til þess hvernig hugtakið hefur verið skilgreint í dómum og forúrskurðum Evrópudómstólsins, en hlutverk dómstólsins er meðal annars að koma á samræmdri túlkun sambandsréttar.

Í forúrskurði Evrópudómstólsins frá 16. mars 1977 (C-93/76) kom fram að þrátt fyrir að samanburður á mismunandi þýðingum á hugtakinu „voluntary insurance or continued optional insurance“ leiði í ljós breytileika milli tungumála þá eigi þær það sameiginlegt að ná yfir allar tegundir trygginga sem fela í sér valkvæðan þátt, sbr. efnisgreinar 12.–14. Þá taldi dómstóllinn í forúrskurði sínum frá 12. febrúar 2015 (C-114/13) að það leiði hvorki af orðalagi forvera ákvæðis c-liðar 3. mgr. 53. gr. né af tilgangi reglugerðarinnar að frjáls trygging eða frjáls viðvarandi trygging eigi eingöngu við í tilvikum þar sem ætlunin sé að koma í veg fyrir að gap myndist í almannatryggingavernd einstaklinga, sbr. efnisgrein 56. Í sama úrskurði taldi dómstóllinn að túlka bæri hugtakið rúmt í ljósi orðalags, samhengis og tilgangs ákvæðisins, sbr. efnisgrein 42.

Tekjur kæranda sem ágreiningur þessa máls snýst um eru tilkomnar vegna frjálsra iðgjaldagreiðslna ([...]) sem hann innti af hendi á árunum 1996-2007. Greiðslurnar voru ekki skyldubundnar enda um valkvæða greiðslu að ræða. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur í ljósi orðalags ákvæðis c-liðar 3. mgr. 53. gr. EB reglugerðar nr. 833/2004 og túlkunar Evrópudómstólsins á hugtakinu „frjálsar tryggingar eða frjálsar viðvarandi tryggingar“ að umræddar tekjur kæranda teljist vera frjálsar tryggingar í skilningi reglugerðarinnar. Að mati úrskurðarnefndar ber að túlka ákvæði 4. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með hliðsjón af framangreindu ákvæði EB reglugerðar nr. 833/2004, sbr. reglugerð nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Að mati úrskurðarnefndarinnar var Tryggingastofnun ríkisins því ekki heimilt að skerða tekjutengd bótaréttindi kæranda vegna umræddra tekna hans frá C.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að fella úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. apríl 2016 um skerðingu tekjutengdra bóta kæranda vegna tekna hans frá C. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. apríl 2016, um að skerða tekjutengdar bætur A, vegna tekna frá C, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir