Almannatryggingar

24.5.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 350/2016

Miðvikudaginn 24. maí 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 9. september 2016, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 10. júní 2016 um bætur úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu vegna meðferðar á Landspítala við áverka sem hún hlaut þann X með umsókn, dags. 1. júní 2015. Í umsókninni er tjónsatvikinu lýst þannig að það sé afleiðing af meðhöndlun á broti þegar þrír pinnar hafi verið teknir og hún hafi ekki verið send í myndatöku þrátt fyrir beiðni. Vegna atviksins búi hún við mikil einkenni í vinstri fæti. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 10. júní 2016, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. september 2016. Með bréfi, dags. 15. september 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 10. október 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 10. júní 2016 verði endurskoðuð og að viðurkennt verði að hún eigi rétt til bóta samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000.

Greint er frá því í kæru að kærandi hafi orðið fyrir reiðhjólaslysi í C þann X þegar bremsur á reiðhjóli hennar hafi gefið sig með þeim afleiðingum að hún hafi steypst fram fyrir sig og fallið illa á vinstri hlið. Kærandi hafi leitað strax á Landspítalann til frekari aðhlynningar og verið meðal annars greind með brot og liðhlaup á bátsbeini í vinstri fæti, viðbeinsbrot, mar á öxl og upphandlegg, loftbrjóst og mar á mjöðm. Hún hafi gengist undir aðgerð vegna ristarbrotsins þann X þar sem brotið hafi verið fest með þremur pinnum og síðan hafi hún verið sett í vel bólstraða dorsal gifsspelku. Kærandi hafi átt að vera án ástigs í að minnsta kosti sex vikur.

Í eftirliti þann X hafi röntgenmynd sýnt góða brotalegu og pinnalegu í ristinni. Þann X hafi kærandi farið aftur í eftirlit til D sérfræðings og hann ákveðið að taka pinnana úr og setja hana í göngugips þar sem hún ætti að tylla svo sem mest í hælinn og hafi hún átt að hafa gipsið í fjórar vikur. Kærandi hafi síðan leitað á bráðadeild Landspítalans þann X vegna óþæginda frá gipsinu en hún hafi fengið nýtt gips sama morgun sem hafi meitt hana framan á sköflungi. Í meðferðarseðli, dags. X, komi fram að kærandi hafi lýst því að nýja gipsið hafi meitt hana þegar hún hafi stigið í fótinn og yfir brotstað. Í kjölfarið hafi nýtt gips verið lagt. Gipsið hafi síðan verið fjarlægt þann X og í göngudeildarnótu frá þeim degi sé tekið fram að vinstri ökkli og fótur líti ágætlega út.

Þar sem kærandi hafi verið óánægð með að ökklinn hefði ekki verið myndaður hafi hún haft samband við heimilislækni sinn þann X sama ár sem hafi pantað röntgenmynd fyrir hana. Þann X hafi verið haft samband við kæranda og henni tjáð að ristarbeinið væri aftur orðið tilfært og henni því ráðlagt að hafa samband við bráðadeildina.

Þá hafi kærandi leitað á Landspítala þann X og hitti E. Í göngudeildarnótu hans komi eftirfarandi fram: „Lenti í trauma með vinstri fót þar sem hún hlaut navicular brot í X á þessu ári. Var pinnað og leit ágætlega út, en eftir að pinnar voru teknir hefur þetta gliðnað og dorsal hluti navicular beinsins hefur luxerað úr liðnum og komin allmikil arthrosa í TN liðinn. CN liðirnir líta ágætlega út. Sjúkl. kemur hérna haltrandi með hækjur. Er mjög verkjuð, verkjar í hverju skrefi.“

Í framhaldinu hafi verið ákveðið að kærandi myndi gangast undir aðgerð þann X þar sem liðurinn yrði stífaður. Í aðgerðinni hafi verið byrjað á því að taka bein úr mjöðm hennar og það verið notað til að festa brotið og stífa liðinn. Eftir aðgerðina hafi kærandi verið í gipsi fram í X, í eftirliti hjá sérfræðingum Landspítala og í meðferð hjá sjúkraþjálfara. Þann X hafi verið ákveðið að fjarlægja þær skrúfur sem hafi verið notaðar til þess að stífa liðinn ári áður.

Fram kemur að kærandi búi nú við viðvarandi einkenni frá ristinni vegna afleiðinga slyssins og meðferðarinnar á Landspítala. Hún sé með taugaverki og óþægindi vegna stífðu ristarinnar og geti til dæmis ekki gengið í skóm með hæl þar sem ristin gefi ekkert eftir. Þá þurfi hún innlegg í alla skó. Tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka kæranda hafi verið metin úr frítímaslysatryggingu hennar hjá F hf. af G bæklunarskurðlækni. Hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að varanleg læknisfræðileg örorka teldist hæfilega metin 15%, þá miðað við 5% vegna viðbeins og viðbeinsliðaáverkans og 10% vegna áverkans á ristina eins og fram komi í matsgerð hans, sbr. meðfylgjandi matsgerð.  

Kærandi byggir kröfu um rétt til bóta úr sjúklingatryggingu á því að hún hafi orðið fyrir líkamlegu tjóni vegna rangrar læknismeðferðar á bráðadeild Landspítala samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Hún byggi á því að meðferð vegna ristarbrotsins hafi ekki verið hagað með viðeigandi hætti en hún hafi fyrst gengist undir aðgerð þann X þar sem ákveðið hafi verið að festa brotið með pinnum. Við eftirlit þann X hafi verið ljóst að brotin höfðu færst til og ekki var talið annað mögulegt í stöðunni en að gera stífunaraðgerð á milli ristarbeina. Kærandi standi í þeirri trú að brotin hafi færst til þegar pinnar hafi verið fjarlægðir og lýsi einnig óánægju sinni með það að ekki hafi verið tekin röntgenmynd strax á þeim tímapunkti, þrátt fyrir óskir hennar þess efnis og veruleg óþægindi hennar frá brotastað. Hún hafi því haft samband við heimilislækni sinn sem hafi sent hana í röntgenmyndatöku sem hafi leitt í ljós tilfært brot.

Þá segir að kærandi geti með engu móti fallist á þá niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands að upphaflegi áverki hennar hafi verið slíkur að engu máli hefði skipt þótt pinnar hefðu verið hafðir lengur og að slitbreytingar væru fyrst og fremst afleiðingar upphaflega áverkans en ekki afleiðing meðferðar eða skorts á meðferð. Kærandi telur þvert á móti að koma hefði mátt í veg fyrir að hún gengist undir staurliðsaðgerð hefði læknismeðferð verið hagað með öðrum hætti. Hún telur að pinnar hafi verið fjarlægðir of snemma sem hafi leitt til þess að brotin hafi færst til að nýju sem hafi orðið til þess að nauðsynlegt hafi verið að framkvæma staurliðsaðgerð.

Kærandi telur því að hún uppfylli skilyrði 1. tölul. 2. gr. laganna þannig að hún eigi rétt til bóta vegna þess líkamstjóns sem hafi leitt af meðferðinni á Landspítalanum. Leiða megi að því líkum að hefði verið staðið rétt að læknismeðferð hefði hún ekki þurft að gangast undir staurliðsaðgerð og byggi í dag ekki við jafnvíðtæk einkenni vegna afleiðinga slyssins þann X. Allan vafa um framangreind atriði eigi í það minnsta að túlka henni í hag og í raun sé ómögulegt að staðhæfa að þessar afleiðingar hafi verið óumflýjanlegar fyrir kæranda, þrátt fyrir alvarleika upphaflega áverkans.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands er greint frá því að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 9. júní 2015. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem fór fram á göngudeild Landspítalans vegna áverka sem hún hlaut þann X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og málið tekið fyrir á fundi fagteymis í sjúklingatryggingu sem skipað hafi verið læknum og lögfræðingum stofnunarinnar. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 10. júní 2016, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu hafi ekki verið uppfyllt.

Fram kemur að samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi leitað á bráðamóttöku Landspítala þann X eftir að hafa dottið illa af reiðhjóli. Hún hafi víða hlotið yfirborðsáverka auk þess sem rif og viðbein hafi brotnað hjá henni. Kærandi hafi einnig fengið áverka á vinstri fót, þ.e. liðhlaup í liðnum á milli völubeins og nökkvabeins (liðnum á milli talus og naviculare; TN liður) og neðri brún nökkvabeins hafi verið brotin í liðnum. Til bráðabirgða hafi verið lögð gipsspelka við vinstri fót á Landspítala og kærandi lögð inn á bæklunarlækningadeild spítalans.

Daginn eftir hafi kærandi verið tekin til aðgerðar og þá hafi liðhlaupið verið lagfært. Það hafi verið mat aðgerðarlæknis að brotflaskar úr neðri brún nökkvabeins væru það smáir að ekki væri hægt að koma við skrúfum til að halda þeim heldur hafi verið gripið til þess ráðs að festa liðinn með þremur stálpinnum og síðan hafi verið lagðar gipsumbúðir og áformað að kærandi væri án álags í slíkum umbúðum í sex vikur.

Eftirmeðferð hafi farið fram á göngudeild Landspítala og hafi áðurnefndir stálpinnar verið fjarlægðir X og kærandi sett í göngugips sem áformað hafi verið að hún hefði í fjórar vikur. Skráð sé að kærandi hafi verið í vandræðum vegna verkja undir göngugipsinu og hafi þurft að skipta um það á meðferðartíma en verkir kæranda hafi farið versnandi. Myndrannsóknir hafi sýnt að liðurinn væri ekki stöðugur og að brotflaskar hefðu ekki gróið við nökkvabein eins og vonast hefði verið til.

Samkvæmt gögnum málsins hafi skýring á verkjum kæranda verið liðskemmdir í liðnum á milli völubeins og nökkvabeins en þar hafi verið komnar verulegar slitbreytingar. Því hafi kærandi gengist undir aðgerð þann X þar sem gerður hafi verið staurliður í áðurnefndum lið og hann festur með tveimur skrúfum. Eftirmeðferð hafi verið á göngudeild Landspítalans og skráð að staurliðurinn hafi gróið eðlilega. Kærandi hafi verið með gipsumbúðir til X, en síðustu vikurnar af þeim tíma með göngugips. Skráð sé að kærandi hafi átt í ákveðnum vandræðum vegna verkja undir göngugipsinu og að hún hafi verið með verki í fætinum eftir að gipsmeðferð lauk.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi leitað til H bæklunarlæknis þann X, þ.e. tíu dögum fyrir hjólreiðaslysið, vegna vandamála í fótum. Fram komi í dagnótu H að kærandi hafi verið með vandamál í fótum áratugum saman en þau vandamál munu þó aðallega hafa snúist um tær. Til hafi staðið að senda kæranda í aðgerð vegna þessara vandamála en hún hafi lent í hjólreiðaslysinu áður en til þess kom.

Þá er tekið fram að í hinni kærðu ákvörðun hafi bótaskyldu verið synjað þar sem skilyrði 2. gr.  laga um sjúklingatryggingu hafi ekki verið uppfyllt. Kærandi hafi sótt um bætur á grundvelli þess að pinnar hefðu verið fjarlægðir úr vinstri fæti X án þess að myndrannsókn hafi farið fram um leið eins og hún kveðst hafa óskað eftir. Sjúkratryggingar Íslands hafi talið að samkvæmt gögnum málsins væri ekki annað að sjá en að meðferð kæranda á Landspítalanum vegna áverkans, sem átti sér stað þann X, hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi verið rétt að hafa í huga að upphaflegi áverki kæranda, sem hún hlaut á vinstri fæti, hafi verið alvarlegur þar sem í honum hafi falist bæði liðhlaup og brot á liðfleti í liðnum á milli völubeins og nökkvabeins. Það hafi verið mat aðgerðarlæknis að ekki hafi verið unnt að raða brotaflöskum nákvæmlega og festa með skrúfum eða á annan tryggan hátt. Sjúkratryggingar Íslands hafi verið sammála mati aðgerðarlæknisins eftir nákvæma skoðun á myndrannsóknum sem lágu fyrir í málinu. 

Bent er á að aðgerðarlæknir hafi valið að festa liðinn með þremur stálpinnum sem að mati lækna Sjúkratrygginga Íslands falli undir gagnreynda og viðtekna læknisfræði. Eðlilegur tími til að hafa slíka pinna sé um það bil sex vikur og þeir hafi því verið fjarlægðir hjá kæranda á eðlilegum tíma. Eftir það hafi kærandi átt að vera í göngugipsi en hún hafi verið með vaxandi verki á þeim tíma. Síðari rannsóknir hafi sýnt að liðurinn hafði skekkst aftur og að fram hafi verið komnar slitbreytingar í liðnum. Í kjölfarið hafi kærandi gengist undir staurliðsaðgerð sem virðist samkvæmt gögnum málsins hafa gengið eðlilega fyrir sig og enn fremur virðist staurliðurinn hafa gróið á eðlilegum tíma.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi upphaflegi áverki kæranda verið slíkur að engu máli hefði skipt þótt pinnar hefðu verið hafðir lengur. Slitbreytingar hefðu engu að síður komið fram í liðnum og leitt til staurliðsaðgerðar og þær slitbreytingar hafi fyrst og fremst verið afleiðingar upphaflega áverkans en ekki afleiðing meðferðar eða skorts á meðferð. Upphaflegi áverkinn hafi verið alvarlegur og þessar afleiðingar því miður óumflýjanlegar að mati lækna Sjúkratrygginga Íslands.

Kærandi virðist samkvæmt tilkynningu ekki hafa náð sér að fullu eftir áverka sinn en núverandi einkenni kæranda, þ.e. verkir, séu að mati Sjúkratrygginga Íslands ekki afleiðing meðferðar heldur afleiðing áverkans sjálfs sem hún hlaut er hún féll af reiðhjóli þann X. Með vísan til þessa hafi skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu ekki verið uppfyllt.

Loks kemur fram að fagteymi sjúklingatryggingar hafi farið yfir mál kæranda en í því teymi sitji meðal annarra bæklunarlæknir sem hafi farið yfir myndrannsóknir sem lágu fyrir í málinu. Hans faglega mat sé það að rétt hafi verið staðið að meðferð kæranda en brot hennar hafi verið þess eðlis að önnur meðhöndlun hefði gefið sömu niðurstöðu þar sem hinn upphaflegi áverki hafi verið það alvarlegur. Umsókn kæranda hafi fengið faglega meðferð á öllum stigum málsins og að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi ekkert komið fram sem gefi tilefni til þess að fallið verði frá hinni kærðu ákvörðun.

Sjúkratryggingar Íslands telja með vísan til framangreinds að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna meðferðar á Landspítala við áverka sem kærandi hlaut þann X.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Að mati úrskurðarnefndarinnar eiga sömu sjónarmið við þegar tjón verður rakið til afleiðinga slyss. Afleiðingar, sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss, eru þannig ekki bótaskyldar en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar við greiningu eða meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan aftur á móti sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr., eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem hefði mátt komast hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði til dæmis rakið til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000. Hún telur að pinnar hafi verið fjarlægðir of snemma úr fætinum þannig að brotin hafi færst til að nýju sem hafi leitt til þess að nauðsynlegt hafi verið að framkvæma staurliðsaðgerð.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi á bráðamóttöku Landspítalans þann X eftir að hafa fallið af reiðhjóli og lent á vinstri hlið. Hún var greind með mar og yfirborðsáverka á öxl og handlegg, mar á fótlegg og mjöðm, opið sár á höfði, loftbrjóst, viðbeinsbrot og rifbrot. Kærandi fékk verkjastillandi meðferð og var lögð inn á vegum bæklunarlækna. Um kvöldið þann X var tekin sneiðmynd af vinstri fæti og kom þá í ljós brot og liðhlaup í ristarbeini og var kærandi sett í svo nefnda L-spelku. Næsta dag, þann X, var framkvæmd aðgerð þar sem liðhlaup í liðnum á milli völubeins og nökkvabeins var lagfært og liðurinn festur með þremur pinnum. Kærandi var sett í vel bólstraða „dorsal“ gipsspelku og saumataka og gipsskipti áformuð tveimur vikum síðar. Gipstími án ástigs átti að vera að minnsta kosti sex vikur og kærandi var útskrifuð þann X.

Þann X kom kærandi til eftirlits og voru sárin talin líta ágætlega út, aðeins roði í kringum pinnaendana og enn bólga en ekkert sýkingarlegt. Kærandi var sett í vel bólstrað gipsstígvél og fékk hún ekki að stíga í fótinn í bili. Röntgenmynd sýndi áfram góða legu í liðhlaupinu og góða pinnalegu. Þann X leitaði kærandi á ný á bráðadeildina þar sem gipsið væri þröngt við kálfa og kærandi með verk og náladofa í fætinum og það meiddi hana við tær. Gipsið var tekið af og ekkert sást athugavert við það en kærandi var með svolítinn bjúg á tám. Nýtt gipsstígvél var sett. Þá leitaði kærandi á bráðadeildina þann X þar sem henni fannst gips aftur vera farið að þrengja að. Það var fjarlægt og sást mikið mar og bólga og var ákveðið að setja uppklippt gips sem gæti ef til vill gefið aðeins eftir. Í eftirliti þann X er skráð að ristin líti ágætlega út og haldi formi sínu. Því voru pinnarnir teknir og kærandi sett í göngugips í fjórar vikur þar sem hún átti að tylla mest í hælinn. Þann X fékk hún nýtt gips þar sem henni fannst hið fyrra of þröngt. Þann X var skipt um gips þar sem það hafði blotnað og síðar sama dag fékk kærandi nýtt gips sem henni leið betur í. Skipt var tvisvar um gips þann X þar sem þau meiddu kæranda. Þann X fékk kærandi nýtt gips þar sem það hafði blotnað og í endurkomu þann X var það fjarlægt. Þá er skráð að vinstri ökkli og fótur líti ágætlega út, án roða og bólgu og hvorki að sjá bjúg né annað.

Kærandi var með áframhaldandi verki og við skoðun hjá bæklunarlækni á Landspítalanum þann X er skráð að eftir að pinnar voru teknir hafi brotið gliðnað og baklægur hluti nökkvabeinsins runnið úr liðnum. Allmiklar slitbreytingar voru komnar í liðinn á milli völu og nökkvabeins (TN-lið) en liðir á milli hælbeins og nökkvabeins (CN-liðir) litu ágætlega út. Þann X var framkvæmd staurliðsaðgerð þar sem liðurinn var stífaður og festur með tveimur skrúfum. Aðgerðin gekk vel og kærandi útskrifaðist þann X með gips án ástigs í sex vikur og göngugips í tvær vikur til viðbótar. Kærandi býr nú við viðvarandi einkenni frá ristinni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála fær ekki annað séð af gögnum málsins en að öll meðferð sem kærandi hafi fengið hafi verið eðlileg og hagað eins vel og kostur var. Úrskurðarnefndin telur að það hafi verið í fullu samræmi við almennt viðtekna og viðurkennda læknisfræði að stilla brotin af með pinnum og fjarlægja þá að nokkrum vikum liðnum enda eru slíkir pinnar að jafnaði ekki varanlegar festingar. Hafa verður í huga að frá upphafi var ljóst að áverkinn á nökkvabeinið var slæmur, beinið hafði hlaupið úr stað og var kurlbrotið að því marki að ekki var unnt að festa brotin saman heldur þurfti að stilla þau af með pinnum. Ekki verður annað séð en að brottnám pinnanna hafi verið tímasett með eðlilegum hætti og eftirmeðferð hagað í samræmi við bestu þekkingu. Þá var staurliðsaðgerð nauðsynleg vegna þess hve brotið á nökkvabeininu greri illa með tilheyrandi fylgikvilla sem var slit í aðlægum liðum. Að virtum læknisfræðilegum gögnum málsins telur úrskurðarnefndin að ekki verði af þeim ráðið að þau einkenni kæranda sem hún búi við í dag verði rakin til mistaka við greiningar eða meðferð við broti á nökkvabeini heldur til áverkans sjálfs.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er það skilyrði fyrir greiðslu bóta að tjón megi að öllum líkindum rekja til sjúklingatryggingaratburðar. Þar sem ekki verður talið að orsakasamband sé á milli núverandi einkenna kæranda og læknismeðferðar sem hún hefur hlotið er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að bótaréttur sé ekki fyrir hendi.

Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er staðfest.  

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson