Almannatryggingar

31.5.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 328/2016

Miðvikudaginn 31. maí 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 31. ágúst 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. júlí 2016 um stöðvun barnalífeyris frá 1. júlí 2016 og einnig kröfu um endurgreiðslu vegna barnalífeyris sem þegar hafði verið greiddur vegna júlí 2016.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júlí 2016, var kærandi upplýstur um stöðvun barnalífeyris frá 1. júlí 2016 vegna upplýsinga um að synir hans væru ekki lengur skráðir með sama lögheimili og hann. Í bréfinu var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri rökstuddum andmælum ásamt gögnum sem sýndu fram á að skilyrði barnalífeyris samkvæmt 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar væru uppfyllt. Að öðrum kosti kæmi til stöðvunar greiðslnanna frá 1. júlí 2016 og innheimtu vegna barnalífeyris sem þegar hafði verið greiddur vegna júlí 2016 að fjárhæð 58.938 kr. Engin andmæli eða gögn bárust frá kæranda.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. september 2016. Með bréfi, dags. 5. september 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 22. september 2016, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. september 2016. Athugasemdir bárust ekki.

Með bréfi, dags. 10. mars 2017, veitti úrskurðarnefnd velferðarmála kæranda kost á að upplýsa nefndina um hvort synir hans, B og C, væru á framfæri hans og til að leggja fram gögn því til stuðnings, til dæmis meðlagssamning eða greiðsluskjöl. Í bréfinu var tekið fram að bærust nefndinni ekki umbeðnar upplýsingar kynni það að leiða til þess að nefndin úrskurði kæranda í óhag. Beiðni úrskurðarnefndar samkvæmt síðastnefndu bréfi var ítrekuð 6. apríl 2017. Engar upplýsingar bárust frá kæranda.  

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en af kæru má ráða að hann geri kröfu um að ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun barnalífeyris og endurkröfu vegna ofgreidds barnalífeyris verði endurskoðaðar.

Í kæru segir að kærandi sé ósáttur við hina kærðu ákvörðun og telji hana óviðeigandi. Hann sé að sjá um X börn sem búi hjá honum og X sem búi hjá móður sinni. Hann hafi nóg með að greiða af íbúð og skuldum og voni að tekið verði tillit til þess.   

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, sé annað hvort foreldra látið eða örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram.

Í 5. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar segi að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum sem annist framfærslu þeirra að fullu, sbr. þó 4. mgr. 64. gr.

Í síðastnefnda ákvæðinu segi að þegar svo hátti til að stofnunin hafi milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni, samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laganna, og hið meðlagsskylda foreldri öðlist rétt til barnalífeyris samkvæmt 20. gr. laganna vegna barnsins sé stofnuninni heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Verði þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.

Þá segi í 55. gr. laga um almannatryggingar að hafi stofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kunni að öðlast rétt til. Einnig eigi stofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.

Tryggingastofnun ríkisins hafi greitt kæranda barnalífeyri með tveimur sonum hans frá 1. mars 2016 þar sem hann hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá þeim tíma. Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár hafi synir hans flutt af lögheimili hans með móður sinni X 2016. Því hafi kæranda verið send hin kærða ákvörðun.

Barnalífeyri skuli greiða með foreldum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða öðrum þeim sem annist framfærslu þeirra að fullu. Þar sem lögheimili sona kæranda hafi ekki lengur verið hjá honum hafi stofnunin litið svo á að þeir væru ekki lengur á hans framfæri. Honum hafi verið veittur frestur til að andmæla stöðvuninni og koma að gögnum en ekkert hafi borist frá honum sem sýni að hann væri að framfæra börn sín.

Stofnunin telji því að rétt hafi verið að stöðva greiðslu barnalífeyris með sonum kæranda frá 1. júlí 2016  og krefja um endurgreiðslu þar sem ekki liggi fyrir upplýsingar eða gögn um að hann hafi verið að framfæra börn sín.

IV.  Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. júlí 2016 um stöðvun barnalífeyris til kæranda frá 1. júlí 2016 og kröfu um endurgreiðslu vegna barnalífeyris sem þegar hafði verið greiddur til hans vegna júlí 2016.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir barnalífeyri á grundvelli 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðisins segir að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára, sé annað hvort foreldra látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram. Í 5. mgr. sömu greinar segir að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum er annast framfærslu þeirra að fullu, sbr. þó 4. mgr. 64. gr.

Undir framangreint lagaákvæði falla einnig þeir einstaklingar sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og fara greiðslurnar eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyrisþega, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Samkvæmt gögnum málsins greiddi Tryggingastofnun ríkisins kæranda endurhæfingarlífeyri frá 1. mars 2016 og því fékk hann jafnframt greiddan barnalífeyri með tveimur sonum sínum frá sama tíma.

Ágreiningur í máli þessu snýst um hvort framangreint skilyrði 5. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar, um að börnin séu á framfæri kæranda, sé uppfyllt frá 1. júlí 2016.

Fyrir liggur, samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands, að lögheimili drengjanna voru flutt af lögheimili kæranda X 2016. Með hliðsjón af því stöðvaði Tryggingastofnun ríkisins greiðslur barnalífeyris til kæranda vegna drengjanna frá 1. júlí 2016 og krafði hann um endurgreiðslu að fjárhæð 58.938 kr. vegna ofgreiddra barnalífeyrisgreiðslna vegna júlímánaðar.

Í hinni kærðu ákvörðun var kæranda gefinn kostur á að leggja fram rökstudd andmæli og gögn. Engin andmæli eða gögn þar um bárust stofnuninni. Þá hafa ekki borist gögn eða upplýsingar í máli þessu sem staðfesta að börnin séu á framfæri kæranda, þrátt fyrir beiðni úrskurðarnefndar þar um. Nánar tiltekið veitti nefndin kæranda kost á að upplýsa nefndina um framfærslu sína gagnvart drengjunum og til að leggja fram gögn því til stuðnings, til dæmis meðlagssamning eða greiðsluskjöl.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þar sem engin gögn liggja fyrir um að umræddir drengir kæranda hafi verið á framfæri hans frá flutningi lögheimilis þeirra af heimili hans X 2016 séu skilyrði barnalífeyris samkvæmt 5. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar ekki uppfyllt frá þeim tíma. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar falla bætur niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur. Úrskurðarnefnd telur því að barnalífeyrir kæranda hafi réttilega fallið niður 1. júlí 2016.

Í 1. málsl. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar segir að hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Í 2. málsl. sömu málgreinar segir að einnig eigi stofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum. Að þessu lagaákvæði virtu og með hliðsjón af því sem að framan greinir um að bótarétti kæranda hafi lokið 1. júlí 2016 telur úrskurðarnefnd að stofnunin eigi réttilega endurkröfurétt á hendur kæranda vegna ofgreidds barnalífeyris fyrir tímabilið 1. júlí 2016 til 31. júlí 2016.  

Í ljósi alls framangreinds eru hinar kærðu ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins, frá 13. júlí 2016, staðfestar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun barnalífeyris til A, og endurkröfu vegna ofgreiddra bóta eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir