Almannatryggingar

11.7.2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 31/2016

Mánudaginn 11. júlí 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. janúar 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. nóvember 2015, um synjun á greiðslu dráttarvaxta vegna meðlagsgreiðslna, og afgreiðslu stofnunarinnar á ákvörðun, dags. 26. október 2015, um að fella niður ofgreiðslukröfu vegna meðlagsgreiðslna stofnunarinnar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Tryggingastofnun ríkisins krafði kæranda um endurgreiðslu meðlagsgreiðslna sem stofnunin hafði milligöngu um á tímabilinu frá 1. október 2011 til 31. september 2013, samtals að fjárhæð 587.568 kr. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar almannatrygginga og var úrskurður í málinu kveðinn upp á fundi nefndarinnar þann 8. október 2015 þar sem hin kærða ákvörðun var felld úr gildi. Í kjölfar úrskurðarins hóf Tryggingastofnun milligöngu um meðlagsgreiðslur að nýju og endurgreiddi kæranda 573.782 kr. Kærandi fór fram á frekari greiðslu frá Tryggingastofnun þar sem hún taldi að um vangreiðslu væri að ræða og krafðist greiðslu dráttarvaxta á framangreinda fjárhæð. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 25. nóvember 2015, var beiðni kæranda synjað á þeirri forsendu að ekkert vaxtaákvæði væri í lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar vegna meðlagsgreiðslna.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. janúar 2016. Með bréfi, dags. 1. febrúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 15. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. febrúar 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 11. mars 2016, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. mars 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hún hafi fengið 573.782 kr. endurgreiddar frá Tryggingastofnun í stað 587.568 kr. líkt og úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi kveðið á um. Kærandi telji því rétt að fá afstöðu úrskurðarnefndarinnar til framangreinds. Þá greinir kærandi frá því að hún hafi farið fram á greiðslu dráttarvaxta á þá fjárhæð sem Tryggingastofnun hafi ranglega haldið frá henni og óskar eftir að úrskurðarnefndin úrskurði um lögmæti þess.

Í athugasemdum til úrskurðarnefndar fellur kærandi frá þeim hluta kærunnar er varðar endurgreiðslu Tryggingastofnunar og ítrekar dráttarvaxtakröfuna. 

II.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að þegar úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga hafi verið kveðinn upp í máli kæranda hafi hún verið búin að greiða 573.782 kr. til baka til stofnunarinnar. Því hafi kærandi fengið þá fjárhæð endurgreidda frá Tryggingastofnun og eftirstöðvarnar felldar niður. Ekki væri því um neinn mismun að ræða vegna meðlagsgreiðslnanna.

Tryggingastofnun fer fram á að þeim hluta málsins er varðar dráttarvaxtakröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem sú ákvörðun sé kæranleg til velferðarráðuneytisins líkt og fram komi í bréfi stofnunarinnar, dags. 25. nóvember 2015. Stofnunin telur að ekki sé um að ræða ágreining um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta og því eigi málið ekki heima fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. nóvember 2015, um synjun á greiðslu dráttarvaxta vegna meðlagsgreiðslna sem kærandi var ranglega endurkrafin um af hálfu stofnunarinnar. Með athugasemdum við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. mars 2016, féll kærandi frá þeim hluta kæru sem varðar afgreiðslu stofnunarinnar á ákvörðun, dags. 26. október 2015. Kærandi fellst þannig á að Tryggingastofnun ríkisins hafi staðið réttilega að uppgjöri vegna greiðslna meðlags sem ágreiningur stendur um, þeim hluta málsins telst því lokið.

Tryggingastofnun óskar eftir því að kæru verði vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem ágreiningur um greiðslu dráttarvaxta eigi ekki undir úrskurðarnefndina heldur velferðarráðuneytið.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála að því er varðar stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna. Ákvæðið hljóðar svo:

„Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr.“

Í 13. gr. laga um almannatryggingar er tilgreint hvaða ágreiningsefni verða kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laganna. Úrskurðarnefndinni er því ekki heimilt að úrskurða um önnur ágreiningsefni en þau sem falla undir framangreint ákvæði.

Samkvæmt framangreindu ákvæði getur úrskurðarnefnd velferðarmála einungis fjallað um ágreining samkvæmt lögum nr. 100/2007, svo og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í lögunum. Þegar af þeirri ástæðu getur úrskurðarnefndin ekki í máli þessu fjallað um greiðslu dráttarvaxta á grundvelli annarra laga.

Úrskurðarnefndin hefur samkvæmt framangreindri 1. mgr. 13 gr. heimild til þess að kveða upp úrskurð þegar ágreiningur varðar endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu bóta samkvæmt 55. gr. laga um almannatrygginga. Í fyrrgreindri 55. gr. laga nr. 100/2007 er eingöngu verið að fjalla um þau tilvik þegar aðilar fá ofgreiddar eða vangreiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar sem meðlag telst ekki til bóta, tekur ákvæðið ekki til greiðslu vaxta vegna vangreidds meðlags. Þá er ekki fjallað um vangreitt meðlag í reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærslulaga sem sett var með stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að nefndin hafi ekki heimild til þess að fjalla um ágreining um dráttarvexti vegna vangreidds meðlags.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt, nema annað leiði af lögum eða venju. Í máli þessu er velferðarráðuneytið hið æðra stjórnvald, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, 4. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands og b-lið 3. tölul. 8. gr. forsetaúrskurðar, nr. 71/2013 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Stjórnvaldsákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins verða því kærðar til velferðarráðuneytisins, nema annað leiði af lögum eða venju.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. nóvember 2015, þar sem kæranda er synjað um greiðslu vaxta og dráttarvaxta, er með vísan til framangreinds heimilt að kæra til velferðarráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga er kæran því áframsend velferðarráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og áframsend til velferðarráðuneytisins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir