Almannatryggingar

1.11.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 300/2017

Miðvikudaginn 1. nóvember 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 21. ágúst 2017, kærði B hrl. f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. maí 2017 þar sem honum var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en metinn örorkustyrkur tímabundinn.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 21. apríl 2017, og fór fram á að upphafstími greiðslna yrði 12. júlí 2013. Með örorkumati, dags. 22. maí 2017, var umsókn kæranda synjað en hann var talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. júlí 2016 til 30. júní 2018. Um er að ræða endurmat en áður hafði kærandi verið talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks og var gildistími þess mats frá 1. apríl 2014 til 30. júní 2016.  

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. ágúst 2017. Með bréfi, dags. 7. september 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. september 2017, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins verði felld úr gildi og umsókn hans um örorkulífeyri verði samþykkt.

Í kæru segir að kærandi hafi verið á örorkustyrk frá 24. júní 2014. Örorkumat kæranda sé of lágt. Kærandi hafi frá [...], sé með mikla andlega erfiðleika og sé alvarlega skemmdur eftir langvinna neyslu.  

Kærandi gerir kröfu um að farið sé yfir matsferli hans að nýju að örorka hans verði hækkuð og að hann fái örorkulífeyri. Þá sé jafnhliða farið fram á að greiðslur verði afturvirkar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé örorkumat Tryggingastofnunar, dags. 22. maí 2017.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi þeir rétt á örorkulífeyri sem uppfylli tiltekin skilyrði. Þar segi:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, eru á aldrinum 18-67 ára og

a)      hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert við er þeir tóku hér búsetu,

b)      eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

Þá segi í 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar að Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999. Samkvæmt 1. og 2. gr. reglugerðarinnar meti tryggingalæknir örorku þeirra sem sæki um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Þá segi í 4. gr. reglugerðarinnar að heimilt sé að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli, sbr. fylgiskjal 1, ef tryggingalæknir telji sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 21. apríl 2017. Kærandi hafi farið í örorkumat lífeyristrygginga 26. júní 2014 og hafi þá verið metinn örorkustyrkur. Í bréfi stofnunarinnar vegna endurmats, dags. 22. maí 2017, segir að ný framlögð gögn í máli kæranda hafi ekki gefið tilefni til breytinga á síðasta mati og hafi örorkustyrkur því verið framlengdur til 30. júní 2018. Þá hafi kæranda einnig verið bent á að engin endurhæfing hafi farið fram. Ekki sé því hægt að fullyrða um starfsgetu kæranda þar sem ekki hafi verið reynt á endurhæfingu.

Við endurmat á örorku hafi verið horft til þeirra gagna sem hafi legið fyrir, n.t.t. læknisvottorðs C, dags. 25. apríl 2017, umsóknar kæranda, dags. 21. apríl 2017, og svara við spurningalista, dags. 21. apríl 2017. Þá hafi verið stuðst við eldri gögn, n.t.t. skoðunarskýrslu, dags. 31. maí 2014 sem og læknisvottorð D, dags. 10. apríl 2014.

Tryggingastofnun telji mikilvægt að vísa sérstaklega í spurningalista vegna færniskerðingar, n.t.t. spurninga 1-17. Kærandi geri athugasemdir við spurningu 5 og 6. Kærandi svari spurningu 5 orðrétt: ,,ég er […] eftir […] sem skeði í bílslysi.“ Spurningu 6 svari kærandi orðrétt: ,,stundum“. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við aðrar spurningar vegna færniskerðingar af hálfu kæranda og virðist því kærandi ekki eiga í neinum erfiðleikum með að sitja á stól, standa upp af stól, beygja sig eða krjúpa, taka smáhlut upp af gólfinu og rétta sig upp, að standa, að ganga, beita höndunum, teygja sig eftir hlutum, lyfta og bera hluti, sjónina, tal eða með heyrnina. Þá segist kærandi hvorki eiga í erfiðleikum vegna meðvitundarmissis né að stjórna hægðum eða þvaglátum. Þá segist kærandi ekki eiga við geðræn vandamál að stríða. Í læknisvottorði C, dags. 25. apríl 2017, segir orðrétt að kærandi sé ,,alvarlega skemmdur eftir langvinna neyslu, ræður ekki við að vinna eða hlíða skipunum atvinnurekanda. Hvorki kvíði né þunglyndi en mótaður í ferli sem erfitt verður að vinna með.“ Þá segir á öðrum stað í vottorðinu að kærandi sé ,,ekki beint þunglyndur en skemmdur eftir langvinna og mikla neyslu.“

Kærandi hafi hlotið, samkvæmt skoðunarskýrslu 31. maí 2014, sex stig fyrir líkamlega þáttinn en eitt stig fyrir andlega þáttinn. Það nægi ekki til að uppfylla skilyrði til efsta stigs samkvæmt staðli en kærandi hafi verið talinn uppfylla skilyrði til örorkustyrks. Við örorkumat sé stuðst við staðal sem tilgreindur sé í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999 en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum en tíu stig í þeim andlega til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Í eldra læknisvottorði, dags. 10. apríl 2014, segi að „engin geðræn né geðrof“ komi fram hjá kæranda. Í vottorðinu sé vísað í líkamleg einkenni sem hafi verið að hrjá kæranda en ekki sé fjallað um slíkt í nýjasta vottorði kæranda, dags. 25. apríl 2017.

Kærandi óski eftir afturvirkum greiðslum frá 12. júlí 2013. Samkvæmt 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar séu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

Í greinargerðinni er fjallað um niðurfellingu örorkustyrks til kæranda [...]. Þá segir að líkt og fram hafi komið sé ekki tímabært að taka afstöðu til örorku þar sem endurhæfing hafi aldrei verið reynd og hafi kæranda verið bent á að sækja um endurhæfingarlífeyri. Við yfirferð gagnanna megi sjá að Tryggingastofnun hafi í raun og veru átt að synja kæranda um örorkustyrk og setja það skilyrði að kærandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kom. Þá vilji Tryggingastofnun benda á að ef málið yrði tekið upp á nýjan leik yrði ákvörðunin endurskoðuð í heild sinni.

Ítarlega hafi verið farið yfir gögn málsins. Tryggingastofnun líti svo á að kærandi hafi 50% starfsgetu í samræmi við þau gögn sem liggi fyrir í þessu máli og því sé hann talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar. Þá telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til að meta kæranda í samræmi við 4. gr. reglugerðar um örorkumat nr. 379/1999, þar sem um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2017, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en honum veittur tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð C, dags. 25. apríl 2017. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„Ofvirkniröskun

Svefnraskanir

Tognun / ofreynsla á hálshrygg

Whiplash injury

Mental and behavioural disorders due to use of hallucinogens, drug addiction

Mental and behavioural disorders due to use of opioids, drug addiction

Mental and behavioural disorders due to use of tobacco, drug addiction

Mental and behavioural disorders due to use of cocaine, drug addiction

Mental and behavioural disorders due to use of cannabinoids, drug addiction“

Þá segir í læknisvottorðinu:

„[…] í mikilli neyslu frá X ára aldri. Alveg edrú núna um töluverðan tíma. Miklir erfiðleikar með andlega líðan sem allt tengist neyslu. [...] Alvarlega skemmdur eftir langvinna neyslu, ræður ekki við að vinna eða hlíða skipunum atvinnurekanda. Hvorki kvíði né þunglyndi en mótaður í ferli sem erfitt verður að vinna með. Oft mjög erfiðar hugsanir sem hindra hann til allra skynsamlegra verka. Hugsanir ganga hratt og ekki beint neinar ranghugmyndir eða ofskynjanir en brenglaðar hugsanir, ofbeldi, slagsmál og fleira sem hann ræður ekki vel við. Er á lyfjum sem hjálpa aðeins til við þetta.“

Í lýsingu læknisskoðunar segir:

„Kemur vel fyrir, gerir skýra og greinargóða sögu. Ekki beint þunglyndur en skemmdur eftir langvinna og mikla neyslu.“

Þá segir varðandi starfsgetu og batahorfur að óvíst sé hvort færni muni aukast með tímanum. Í nánari skýringu á áliti um vinnufærni og horfur á aukinni færni segir:

„Ég get með engu móti séð að A geti unnið fyrir sér. Andleg vandamál hindra hann. Ég tel að örorka sé skynsamleg leið til að hjálpa honum að smám saman komast aftur á vinnumarkað þegar fram líða stundir“

Einnig lá fyrir læknisvottorð D, dags. 10. apríl 2014. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu eftirfarandi.

„Mental and behavioural disorders due to multiple drug use and use of other psych

[...]

Þunglyndi

Fracture of shaft of femur

Ofvirkniröskun“

Þá segir í læknisvottorðinu:

„[…] A var edrú eftir [...], var edrú í 2 ár, stundaði AA eða NA, en féll síðan en var búinn að vera í neyslu í eitt ár, notaði eiginlega allt bæði örvandi, róandi, læknalyf og kannabisneyslu, inj. eiturlyfjum og drakk áfengi.

Hann lenti síðan í alvarlegu bílslysi þar sem hann margbraut á sér [...] og var negldur.. Átti lengi í þeim vandamálum og enn m óþægindi.

Hann hefur verið í neyslu stera [...], er búinn að vera edrú núna og laus við öll lyf í tvo mánuði. [...]. Hann er rólegur, yfirvegaður, hefur sýnt af sér verri hegðun áður. Engin geðræn né geðrof koma fram. Þetta er mikill fíkill í alvarlegu ástandi ungur. Var síðast í launaðri vinnu X […]. Hann er með stöðuga verki frá fótlegg og mjöðm, getur lítið sem engu lyft, erfitt að standa upp, erfitt að setjast niður og með hvíldarverk einnig.

Hann er ekki á neinum lyfjum [...]. Alvarlega veikur fíkill þó hefur hann sýnt batamerki með edrúmennsku.“

Varðandi starfsgetu og batahorfur segir í vottorðinu að búast megi við að færni aukist með tímanum „með edrúmennsku“.

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hann sé ofvirkur með athyglisbrest og að hann hafi verið [...]. Hann sé óvirkur alkóhólisti og afleiðingar alls þessa séu þær að hann sæki um örorkubætur. Þá segir kærandi að hann sé 50% öryrki vegna bílslyss en hann ætli að sækja um 75% örorku vegna afleiðinga fyrra lífernis hans. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að ganga þannig að hann sé [...] í bílslysi. Kærandi svarar spurningu um það hvort erfitt sé að ganga upp og niður stiga þannig að svo sé stundum. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hann eigi við geðræn vandamál að stríða játandi.

Skýrsla E skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 31. maí 2014.

Samkvæmt skoðunarskýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hann geti ekki setið nema í eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp. Að mati skoðunarlæknis getur kærandi ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Þá geti kærandi ekki gengið nema 800 metra án þess að stoppa eða fá veruleg óþægindi. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi ergi sig yfir því sem hafi ekki angrað hann áður en hann varð veikur. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Er mjög þreklega vaxinn. Hjarta- og lungnahlustun eðlileg. Blóðþrýstingur 110/70 og púls reglulegur 75 slög/mín. [...]. Sterkir vöðvar í báðum handleggjum og baki. Status eftir aðgerð á […]. Vöðvarýrnun í […] m.v. […], mest ofan til. Minnkuð hreyfing í vinstri mjöðminni, einkum við rotatio. Gengur óhaltur.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Geðslag er neutral. Fremur lágt sjálfsmat. Ekki koma fram neinar ranghugmyndir eða sjálfsvígshugsanir en hins vegar tilgangsleysi varðandi framtíðina. Ósáttur við stöðu sína, bæði eftir slysið og með [...].“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Fyrir liggur að Tryggingastofnun setti ekki það skilyrði að kærandi gengist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar áður en örorka hans var metin heldur var einungis hvatt til endurhæfingar. Í kæru er þess óskað að kærandi fái greiddan örorkulífeyri og því virðist kærandi ekki ætla að láta reyna á endurhæfingu. Þá virðist ekki vera gert ráð fyrir þeim möguleika í framangreindum læknisvottorðum að kærandi gangist undir endurhæfingu. Í ljósi þess og með vísan til krafna kæranda ásamt því að það er ekki fortakslaust skilyrði að umsækjendur gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar áður en örorkumat fer fram, telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að yfirfara mat Tryggingastofnunar ríkisins á örorku kæranda. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn.

Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema í eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki gengið nema 800 metra án þess að stoppa eða fá veruleg óþægindi. Slíkt gefur ekkert stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til sex stiga samtals. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda metur skoðunarlæknir það svo að kærandi ergi sig yfir því sem hafi ekki angrað hann áður en hann varð veikur. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Samtals er því andleg færniskerðing kæranda metin til eins stig samkvæmt skýrslu skoðunarlæknis.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Til grundvallar hinu kærða örorkumati lá fyrir skýrsla skoðunarlæknis, dags. 31. maí 2014, sem gerð var í tilefni eldri umsóknar kæranda um örorkulífeyri. Þegar kærandi sótti um örorkulífeyri að nýju í apríl 2017 gekkst hann ekki undir nýja skoðun með hliðsjón af örorkustaðli áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Samkvæmt skýrslu skoðunarlæknis var líkamleg færniskerðing kæranda metin til sex stiga og andleg færniskerðing til eins stigs. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorðum, dags. 10. apríl 2014 og dags. 25. apríl 2017, hefur heilsufar kæranda breyst að nokkru leyti á þeim tíma sem liðinn er milli þess sem þau voru rituð. Þannig kemur fram í fyrrnefnda vottorðinu að búast megi við að færni kæranda aukist með tímanum „með edrúmennsku“ en í síðarnefnda vottorðinu er aftur á móti talið óvíst að færni kæranda aukist. Í ljósi þessa og með hliðsjón af því hversu langt er frá því að skoðun skoðunarlæknis fór fram er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að tilefni hafi verið til að boða kæranda í nýja skoðun í kjölfar nýrrar umsóknar. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hann uppfylli skilyrði örorkulífeyris.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki verði hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir