Almannatryggingar

4.12.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 280/2017

Mánudaginn 4. desember 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Sigurður Thorlacius læknir.

Með kæru, dags. 25. júlí 2017, kærði B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 8. júní 2017 um bætur úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 11. maí 2015, vegna meintra afleiðinga ónæmisaðgerðar gegn svínaflensu á Landspítala X. Í umsókninni er tjónsatvikinu lýst þannig að kærandi hafi verið hvött af vinnuveitanda sínum á þeim tíma, E, til að láta bólusetja sig gegn svínaflensu H1N1 á árinu X. Þann X hafi hún verið bólusett og einkenni þegar komið fram. Umrædd sprauta hafi átt eftir að hafa gífurlegar afleiðingar fyrir kæranda sem enn í dag finni fyrir aukaverkunum lyfsins.

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda um bætur með ákvörðun, dags. 8. júní 2017, á þeim grundvelli að skilyrði 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu væru ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. júlí 2017. Með bréfi, dags. 6. september 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. október 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. október 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í kæru segir að Sjúkratryggingar Íslands hafi ekki gætt að andmælareglu. Lögmaður kæranda kannist hvorki við að hafa fengið greinargerð meðferðaraðila sem sé að finna í skjalaupptalningu í hinni kærðu ákvörðun né gögn frá trúnaðarlækni.

Þá verði ekki séð að stofnunin hafi gætt að rannsóknarskyldu sinni. Ekki hafi farið fram sjálfstæð athugun á sjúkdómseinkennum kæranda fyrir utan það sem fram komi í vottorði heimilislæknis hennar.

Eins og málsmeðferð sé hagað hjá stofnuninni í þessum málum eigi hún alfarið að sjá um gagnaöflun og hafi sjúklingurinn enga möguleika til þess að gera það sjálfur. Ekki sé greitt fyrir þann kostnað sem sjúklingur þurfi að láta út fyrir slíkum gögnum, væri þeirra aflað, og oft ekki litið til þeirra.

Þannig sé sjúklingurinn í algjörri sjálfheldu og þurfi að treysta því að Sjúkratryggingar Íslands rannsaki sjúkdómseinkenni sem kvartað sé undan og taka sjúkling einnig til skoðunar og athugunar.

Þetta virki því þannig að sjúklingurinn sæki mál á hendur stofnuninni sem hafi síðan sjálfdæmi um að dæma í málinu, eftir þeim gögnum sem henni þóknist. Það hvernig málum sé hagað hjá stofnuninni geti ekki verið í samræmi við stjórnsýslureglur.

Því verði með engu móti séð á hvaða gögnum hin kærða ákvörðun sé byggð, en út frá ákveðnum einkennum sé vísað í læknisfræðileg rit.

Ekki verði heldur séð að lögfræðingur eða lögmaður með almenna kunnáttu í lögfræði hafi kunnáttu til slíks og ályktunarhæfileika á þessu sviði.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi verið bólusett með lyfinu Pandemrix við svínaflensu X. Í kjölfarið hafi hún farið að finna fyrir staðbundnum einkennum sem séu vel þekktar aukaverkanir af H1N1 bólusetningu.  Einnig hafi hún byrjað að finna fyrir síðbúnum og langvarandi aukaverkunum (verkjum og stirðleika víða um líkamann), sem séu „sjaldgæfar en þekktar“ að sögn C. Í því samhengi hafi hún vitnað til danskrar rannsóknar.

Í málinu hafi legið fyrir vottorð D læknis, dags. 7. júní 2016. Þar segi að eftir bólusetninguna hafi kærandi fengið kröftug staðbundin einkenni, en eftir að þau hafi hjaðnað hafi komið fram langvinn merki um heilsutjón. Þá segi:

„A hefur nú í dag einkenni frá vöðvaspennu dorsalt í hálsvöðvum og afleiddum spennuhöfuðverk, jafnvel jaðrar við höfuðverki á borð við cluster höfuðverki. Hef reyndar grunað A að hafa triggerað undirliggjandi cluster höfuðverk. A situr eftir með einhvers konar varanlegan taugaskaða, svo sem doða í fingrum, lófum og iljum, einnig hefur hún oft nálardofa. Spasmar/krampar koma aðallega í hvíld eða svefni og hafa þar af leiðandi talsvert miklar svefntruflanir í för með sér... Sem sagt A að öllu skoðuðu hefur orðið varanleg breyting á heilsufari, q.o.l. Almennt úthaldsleysi, líkamsgeta og styrkur.“

Í sjúkraskrá Landspítala hafi komu kæranda á bráðamóttöku Landspítala X verið lýst. Fram hafi komið að hún hefði sögu um mígreni og fengið tilfinningaleysi hægra megin í andliti bæði ofan- og neðanvert þremur dögum áður. Auk þess hafi hún fengið sigið augnlok (ptosis) á [...] auga. Dofi hafi einnig verið í hálsi og vægari í hægri handlegg. Álit taugalækna hafi verið á þá leið að líkast til væri um að ræða líkamleg viðbrögð við stressi og hræðslu um heilablóðfall. Dofi og púlsation X hafi mögulega verið fyrirboði mígrenis án þess að höfuðverkur hafi komið.

Kærandi hafi einnig leitað til bráðamóttöku Landspítala X vegna falls á höfuðið hálfum mánuði fyrr. Hún hafi lýst viðvarandi suði frá eyrum og viðkvæmni fyrir ljósi, lystarleysi og ógleði. Þá hafi einkenni versnað við álag, til dæmis vinnu. Skoðun í þessari komu hafi virst allítarleg, en ekki verið minnst á bráðaviðbrögð við bólusetningu. Um skoðun útlima hafi verið skráð að ekki væri að sjá bólgu, mar, sár eða eymsli.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi bótaskyldu verið synjað þar sem skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu hafi ekki verið uppfyllt. Við meðferð málsins hafi meðal annars verið rannsakað hvort tjón mætti rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að læknismeðferð, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þyki að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þurfi að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og töluvert sjaldgæfur svo að skilyrði séu fyrir greiðslu bóta. Sjúklingatrygging bæti ekki tjón sem sé afleiðing grunnsjúkdóms eða grunnáverka og sé það því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar sem hann/hún hafi gengist undir.

Með orðalaginu „að öllum líkindum” sé átt við að það verði að vera meiri líkur en minni á því að tjón megi rekja til einhverra þeirra atvika sem talin séu upp í ákvæðinu. Sjúklingatrygging bæti ekki tjón sem sé afleiðing grunnsjúkdóms sjúklings eða af öðrum völdum, svo sem vegna heilsufars sjúklings fyrir eða eftir umrædda meðferð sem ekki verði rakið til meðferðar. Verði engu slegið föstu um orsök tjóns verði að vega og meta allar hugsanlegar orsakir. Verði niðurstaðan sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi. Sama gildi verði ekkert sagt til um hver sé líklegasta orsök tjóns. Það sé því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að meiri líkur en minni séu til þess að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns kæranda og þeirrar meðferðar sem hún hafi gengist undir.

Meint sjúklingatryggingaratvik hafi verið bólusetning með lyfinu Pandemrix sem gefið hafi verið á Landspítala X. Kærandi telji sig glíma við fjölþætta og langvarandi kvilla í kjölfar hennar. Staðbundin viðbrögð við bólusetningu séu vel þekkt en þó sjaldnast alvarleg eða langvarandi. Samkvæmt gögnum málsins hafi verið ljóst að kærandi hafi fengið slík viðbrögð í kjölfar umræddrar bólusetningar en einkenni þó virst hafa gengið yfir á nokkrum dögum.

Jafnframt hafi verið kvartað yfir fjölbreyttum og síðkomnum einkennum. Skoðun málsins hjá Sjúkratryggingum Íslands hafi leitt í ljós að ekki hafi verið að finna samsvarandi fjölkerfalýsingar í aukaverka-/tilvikaskráningu frá dönskum, sænskum og breskum heilbrigðisyfirvöldum, þrátt fyrir nokkur einstök umkvörtunaratriði um hugsanlegar en ósannaðar aukaverkanir. Í því samhengi megi til dæmis nefna svima, náladofa og dofa. Þeim einkennum sé lýst sem hugsanlegum aukaverkun, en oftast séu einkenni þó skammvinn og bundin við bólusetningarstað eða inndælingarlim, oftast handlegg. Í nær öllum tilvikum hafi meintar aukaverkanir birst einum til tveimur sólarhringum eftir inndælingu.

Kærandi hafi meðal annars í umsókn um bætur lýst liðeinkennum, verkjum og braki. Í hinni kærðu ákvörðun hafi stofnunin vísað til breskra rannsókna sem hafi sagt að í 24 tilvikum af 6.000.000 bólusetningum hafi verið kvartað yfir liðeinkennum. Hafi sá fjöldi verið sagður vera innan þeirra marka sem búist hafi verið við, þ.e. hefði mátt gera ráð fyrir að kæmu fram án bólusetningar. Í dönskum gögnum sem stofnunin hafi einnig vísað til í hinni kærðu ákvörðun, hafi verið lýst nokkrum tilvikum liðóþæginda, en þau hafi birst þegar eftir inndælingu, þ.e. innan 1-2 sólarhringa. Af skoðun á heildarniðurstöðum dönsku rannsakendanna, sem C hafi vísað til, hafi það verið afstaða Sjúkratrygginga Íslands að sú rannsókn hafi ekki gefið til kynna tilvist síðbúinna og langvarandi aukaverkanna eftir umræddar bólusetningar í líkingu við þær sem kærandi hafi vísað til.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi stofnunin tekið undir með kæranda að hún hafi orðið fyrir staðbundnum og vel þekktum aukaverkunum af umræddri bólusetningu í formi staðbundinna viðbragða sem hafi gengið fljótlega yfir. Í ljósi þess að um algengan fylgikvilla hafi verið að ræða hafi þeir ekki getað leitt til bótaskyldu samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Þá hafi ekki verið séð að síðbúnar og langvarandi aukaverkanir sem kærandi hafi kvartað yfir ættu stoð í tilvitnuðum heimildum sem aukaverkanir sem raktar verði til bólusetningarinnar. Að auki hafi verið ljóst að nokkrum mánuðum fyrir bólusetningu hafi kærandi leitað á bráðamóttöku Landspítala vegna einkenna eins og mígrenis og dofa sem hafi bent til þess að kærandi hafi glímt við ýmis líkamleg einkenni af sambærilegum toga áður en til bólusetningarinnar hafi komið.

Að mati stofnunarinnar hafi því ekki verið séð að orsakatengsl væru á milli einkenna þeirra sem hrjái kæranda og bólusetningarinnar. Með vísan til þessa hafi skilyrði 2. gr. laganna ekki verið uppfyllt. Ekki hafi því verið heimilt að verða við umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

Í kæru sé fullyrt að stofnunin hafi ekki gætt andmælaréttar þar sem lögmaður kæranda kannist ekki við að hafa fengið greinargerð meðferðaraðila. Þessu hafni stofnunin þar sem greinargerðin, ásamt andmælabréfi, hafi verið send til lögmannsins í gegnum gagnagátt stofnunarinnar X og sé þar merkt „lesið af viðtakanda X.“

Stofnunin hafi óskað eftir gögnum frá þeim aðilum sem hafi komið að meðferð kæranda og eftirfarandi gögn legið fyrir í málinu:

·         Greinargerð meðferðaraðila, dags. X.

·         Gögn frá C.

·         Sjúkraskrárgögn frá LSH.

·         Læknisvottorð D læknis, dags. 7. október 2016.

Það hafi verið mat stofnunarinnar eftir yfirferð á framangreindum gögnum að ekki hafi þótt ástæða til að afla frekari gagna til að upplýsa málið. Þær upplýsingar sem hafi komið fram í samtímagögnum meðferðaraðila hafi að mati stofnunarinnar verið taldar fullnægjandi til að hægt væri að taka ákvörðun í máli kæranda með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Í ljósi þessa hafni stofnunin því að hún hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Hin kærða ákvörðun hafi verið byggð á gögnum sem séu talin upp í umræddri ákvörðun og vísað sé þar til.

Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin fyrir á fundi fagteymis sjúklingatryggingar en líkt og komi fram í hinni kærðu ákvörðun sé umrætt fagteymi skipað læknum og lögfræðingum stofnunarinnar. Það hafi því ekki einungis verið lögfræðingar sem hafi tekið ákvörðunina líkt og haldið sé fram í kæru.

Ákvörðun um bætur úr sjúklingatryggingu sé sjálfstætt mat sem stofnuninni sé falið að gera lögum samkvæmt. Stofnunin sé ekki bundin af niðurstöðu annarra sérfræðinga og/eða meðferðaraðila og taki sjálfstæða ákvörðun um hvort orsakatengsl séu á milli heilsutjóns og læknismeðferðar. Umsókn kæranda hafi fengið faglega meðferð á öllum stigum málsins og að mati stofnunarinnar hafi ekkert komið fram sem gefi tilefni til að fallið verði frá hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að hún búi við varanlegar afleiðingar vegna ónæmisaðgerðar gegn svínaflensu X á Landspítala.

Í kæru er gerðar athugasemdir við að kærandi hafi ekki fengið aðgang að tilteknum gögnum sem hin kærða ákvörðun byggði meðal annars á. Í greinargerð stofnunarinnar kemur aftur á móti fram að lögmaður kæranda hafi fengið aðgang að umræddum gögnum og opnað þau í gagnagátt stofnunarinnar X. Hefur því ekki verið mótmælt. Þegar af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefnd ekki tilefni til að fjalla nánar um athugasemdir þessar.

Kærandi telur einnig að stofnunin hafi ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 við úrlausn málsins. Í ákvæðinu segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Í þessu tilliti nefnir kærandi að ekki hafi farið fram sjálfstæð athugun á sjúkdómseinkennum kæranda. Stofnunin sjái alfarið um gagnaöflun og kærandi hafi því enga möguleika á að sinna henni sjálf, enda ekki greitt fyrir þann kostnað sem hún myndi leggja út fyrir. Kærandi vísar til þess að staðan sé þannig að hún sæki mál á hendur Sjúkratryggingum Íslands sem hafi sjálfdæmi um að dæma í málinu eftir þeim gögnum sem stofnuninni þóknist.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga um sjúklingatryggingu skal sjúkratryggingastofnun afla gagna eftir því sem þurfa þykir og geti meðal annars aflað skýrslu fyrir héraðsdómi þar sem skýrslugjafi búi. Stofnunin geti krafið heilsugæslustöðvar, sjúkrahús, aðrar heilbrigðisstofnanir, heilbrigðisstarfsmenn sem starfi sjálfstætt og hlotið hafa löggildingu landlæknis, svo og þá sem annist sjúkraflutninga, um hvers konar gögn, þar á meðal sjúkraskýrslur sem hún telji máli skipta um meðferð máls samkvæmt lögunum. Samkvæmt ákvæðinu er því gert ráð fyrir að gagnaöflun fari fram af hálfu Sjúkratrygginga Íslands og ekki er gert ráð fyrir að stofnunin framkvæmi skoðun á viðkomandi. Úrskurðarnefndin telur þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir vera fullnægjandi og nægilega skýrar til þess að unnt sé að byggja á þeim. Því hafi ekki verið þörf á að óska frekari upplýsinga. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því ekki tilefni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi á þeirri forsendu að stofnunin hafi ekki gætt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir að bætur skuli greiða án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers þeirra atvika sem talin eru upp í fjórum töluliðum í ákvæðinu. Í 4. tölul. 2. gr. er nefnt atvik þar sem tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt sé að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir.  Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Samkvæmt gögnum málsins fór kærandi í ónæmisaðgerð gegn svínaflensu á Landspítala X með lyfinu Pandemrix. Kærandi telur að langvarandi einkenni sem hún býr við, þ.e. stirðleiki, bólgur, bjúgur, dofi, úthaldsleysi og fleira, sé að rekja til umræddrar ónæmisaðgerðar. Í máli þessu kemur til skoðunar hvort bótaskylda sé fyrir hendi á grundvelli 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu en aðrir töluliðir ákvæðisins eiga ekki við.

Samkvæmt síðastnefnda lagaákvæðinu skal greiða bætur ef tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð sem ætlað sé að greina sjúkdóm og tjónið sé af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Í lagaákvæðinu eru gefin viðmið hér að lútandi:

a.       Líta skal til þess hve tjónið er mikið.

b.      Líta skal til sjúkdóms og heilsufars viðkomandi að öðru leyti.

c.       Taka skal mið af því hvort algengt sé að tjón verði af umræddri meðferð.

d.      Hvort eða að hve miklu leyti mátti gera ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.

Til nánari glöggvunar á því hvaða atriði eigi að leggja til grundvallar við framangreint mat verður að líta til tilgangs löggjafans og hvert markmiðið hafi verið með ákvæðinu. Í greinargerð með ákvæðinu í frumvarpi til laganna kemur fram að markmið með nefndum 4. tölul. 2. gr. sé að ná til heilsutjóns, sem ekki sé unnt að fá bætt samkvæmt 1.-3. tölul. greinarinnar, en ósanngjarnt þyki að menn þoli bótalaust, einkum vegna misvægis á milli þess hve tjónið sé mikið og þess hve veikindi sjúklings voru alvarleg. Þá segir að við matið skuli taka mið af eðli veikinda og hve mikil þau séu svo og almennu heilbrigðisástandi sjúklings. Ef augljós hætta sé á að sjúklingur hljóti mikla örorku eða deyi ef sjúkdómurinn sé látinn afskiptalaus verði menn að sætta sig við verulega áhættu af alvarlegum eftirköstum meðferðar.

Í vottorði D læknis, dags. 7. október 2016, segir að kærandi hafi fengið erfiðar „complicasjónir“ í kjölfar ónæmisaðgerðarinnar. Af gögnum væri ekki annað sjá en að kærandi hafi verið hraust ung kona í grunninn, með háan sársaukaþröskuld. Þegar eftir ónæmisaðgerðina hafi hún fengið kröftug staðbundin einkenni, þ.e. roða, hita og bólgu í stungustað. Kærandi og læknirinn óttist að sýking (obs. sýkingareinkenni) kynni að hljótast af bólusetningunni. Þá segir í vottorðinu að eftir að staðbundin einkenni hafi hætt að hrjá kæranda hafi komið fram langvinn merki heilsutjóns sem kærandi hafi hlotið af ónæmisaðgerðinni, enda lítið vitað á þeim tíma að langtímaskaði gæti orðið af aðgerðinni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi staðbundin einkenni eftir ónæmisaðgerðina, þ.e. hita, bólgu og roða á stungusvæði. Ekki verður annað ráðið en að þau einkenni hafi gengið fljótlega yfir og að um algengan fylgikvilla ónæmisaðgerða af þessum toga hafi verið að ræða. Með hliðsjón af þessu verða þessar afleiðingar ekki felldar undir 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Kærandi telur jafnframt að þau langvarandi einkenni sem hún býr við séu að rekja til ónæmisaðgerðarinnar. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi leitað til slysa- og bráðadeildar Landspítala X, um fimm mánuðum fyrir ónæmisaðgerðina, vegna tilfinningaleysis í andliti, dofa í hálsi og hægri handlegg auk einkenna í höfði. Því er ljóst að kærandi hafi að einhverju leyti þegar búið við umrædd langvarandi einkenni sín þegar ónæmisaðgerðin átti sér stað. Þá horfir úrskurðarnefndin til þess að þau einkenni, sem kærandi rekur til ónæmisaðgerðarinnar, hafa ekki verið viðurkennd sem staðfestar aukaverkanir hennar. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið telur úrskurðarnefnd velferðarmála að bótaskylda sé ekki fyrir hendi á grundvelli 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála sú að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson