Almannatryggingar

8.3.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 274/2016

Miðvikudaginn 8. mars 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 27. júlí 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. júlí 2016, um að veita kæranda uppbót til bifreiðakaupa að fjárhæð 360.000 kr.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót til bifreiðakaupa hjá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 4. júlí 2016. Með ákvörðun, dags. 20. júlí 2016, var samþykkt að veita kæranda uppbót til bifreiðakaupa að fjárhæð 360.000 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. júlí 2016. Með bréfi, dags. 28. júlí 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. ágúst 2016. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að veita honum uppbót til að kaupa bifreið að fjárhæð 360.000 kr. verði breytt á þá leið að hann fái 720.000 kr.  

Í kæru segir að um sé að ræða mismunun á uppbót við bílakaup á milli einstaklings sem hafi átt bíl áður og þess sem hafi aldrei átt bíl. Sá sem hafi átt bíl áður fái 360.000 kr. en sá sem sé að kaupa bíl í fyrsta skipti fái 720.000 kr. Kærandi telur þessa tilhögun fela í sér misrétti. Kærandi kveðst ekki hafa átt bíl í um 7 ár vegna mikilla veikinda og mikils tekjutaps. Það sé nú nauðsynlegt fyrir hann að vera á bíl vegna fötlunar sinnar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnun ríkisins kemur fram að kæra varði afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn á uppbót til bifreiðakaupa, samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Kærandi hafi sótti um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa með umsókn, dags. 4. júlí. 2016. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 20. júlí 2016, hafi verið samþykkt umsókn kæranda um uppbót samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar en synjað um styrk samkvæmt 4. gr. sömu reglugerðar.

Kærandi hafi kært ákvörðun Tryggingastofnunar um að veita honum uppbót til bifreiðakaupa að fjárhæð 360.000 kr. samkvæmt 1. tölul. 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, með síðari breytingum, í stað þess að veita honum uppbót til bifreiðakaupa að fjárhæð 720.000 kr. samkvæmt 2. tölul. sömu málsgreinar, með síðari breytingum.

Uppbót til bifreiðakaupa sé veitt á grundvelli 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé ákvæðið útfært nánar.

Í 1. – 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009, með síðari breytingum, komi meðal annars fram að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar, en 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

“Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

 1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

 2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.“

Í 4. mgr. 3. gr. komi svo fram hver fjárhæð uppbótar samkvæmt ákvæðinu skuli vera. Í 1. tölul. komi fram að uppbótin skuli vera 360.000 kr. til þeirra sem uppfylla ofangreind skilyrði og eru minna hreyfihamlaðir en þeir sem getið er um í 4. og 5. gr. Í 2. tölul. er tekið fram að ef um fyrstu bifreiðakaup umsækjanda sé að ræða þá skuli upphæðin nema 720.000 kr. að uppfylltum sömu skilyrðum.

Í málinu sé ekki deilt um það að kærandi sé ekki að kaupa bifreið í fyrsta sinn. Í kæru komi fram að kærandi hafi átt síðast bifreið fyrir nokkrum árum og með greinargerð Tryggingastofnunar fylgi útprentuð bifreiðareignarsaga kæranda úr skrám Samgöngustofu.

Þá segir í greinargerð Tryggingastofnunar að orðalag reglugerðarinnar sé skýrt og afdráttarlaust og bindandi fyrir Tryggingastofnun. Þeir sem uppfylli skilyrði 3. gr. reglugerðarinnar og séu ekki að kaupa bifreið í fyrsta skipti eigi rétt á 360.000 kr. í uppbót til bifreiðakaupa.

Að lokum vekur Tryggingastofnun athygli á því að kærandi hafi mögulega rétt á láni til bifreiðakaupa frá Tryggingastofnun að fjárhæð 180.000 kr. Lánið sé miðað við meðalvexti óverðtryggðra skuldabréfalána. Það sé til þriggja ára og endurgreiðist með jöfnum mánaðargreiðslum sem dregnar séu af lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun. Tryggingastofnun hafi ekki borist slík umsókn frá kæranda.

Fyrri ákvörðun Tryggingastofnunar standi því óbreytt.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. júlí 2016, um að veita kæranda 360.000 kr. uppbót til bifreiðakaupa.

Í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, er lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til bifreiðakaupa og er 1. mgr. 10. gr. svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.“

Þá segir í 3. málslið 3. mgr. 10. gr. laganna að ráðherra setji reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu, meðal annars um sex mánaða búsetuskilyrði.

Með stoð í framangreindu ákvæði hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, með síðari breytingum. Í 1. - 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er fjallað um uppbætur vegna kaupa á bifreiðum

Tryggingastofnun ríkisins hefur metið það svo að kærandi uppfylli efnisleg skilyrði uppbótar til bifreiðakaupa samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Ágreiningur málsins lýtur að fjárhæð uppbótar sem kæranda var veitt samkvæmt ákvæðinu.

Um fjárhæð uppbótar vegna kaupa á bifreið er fjallað í 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, þar segir:

„Fjárhæðir uppbóta eru eftirfarandi:

 1. Kr. 360.000 til þeirra sem uppfylla ofangreind skilyrði og eru minna hreyfihamlaðir en þeir sem getið er um í 4. og 5. gr.

 2. Kr. 720.000 til þeirra sem uppfylla ofangreind skilyrði, eru minna hreyfihamlaðir en þeir sem getið er um í 4. og 5. gr. og eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn.“

  Eins og áður hefur komið fram samþykkti Tryggingastofnun að veita kæranda uppbót að fjárhæð 360.000 kr. en hann fer fram á að fá uppbót að fjárhæð 720.000 kr. Kærandi telur að það sé mismunun að gera upp á milli þeirra einstaklinga sem hafa átt bíl og þeirra sem hafa ekki átt bíl áður.

  Samkvæmt gögnum málsins átti kærandi síðast bíl í X 2007 og að sögn kæranda hefur hann ekki átt bíl síðan vegna veikinda og tekjutaps.

  Löggjafinn hefur veitt ráðherra heimild til að útfæra frekar ákvæði 10. gr. laga um félagslega aðstoð í reglugerð og samkvæmt 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er gerður greinarmunur á þeim sem eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn og þeim sem hafa átt bíl áður. Stjórnvöldum ber við setningu stjórnvaldsfyrirmæla að fylgja hinni óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins um jafnrétti borgaranna. Ekki er heimilt að mismuna borgurum í stjórnvaldsfyrirmælum nema skýr og ótvíræð heimild sé til þess í lögum. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála felst ekki mismunun í framangreindu reglugerðarákvæði, enda eiga einstaklingar sem eins er ástatt um sama rétt til uppbótar til bifreiðakaupa. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ber Tryggingastofnun því að leggja ákvæði 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 til grundvallar við úrlausn mála. Þá telur úrskurðarnefndin ekkert benda til annars en að sambærileg mál hljóti sambærilega úrlausn hjá stofnuninni, sbr. jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hefur keypt bifreið áður. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er Tryggingastofnun ríkisins því ekki heimilt að veita kæranda uppbót að fjárhæð 720.000 kr., sbr. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009.  

  Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að veita kæranda uppbót til bifreiðakaupa að fjárhæð 360.000 kr. staðfest. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. júlí 2016 um að veita A, uppbót til bifreiðakaupa að fjárhæð 360.000 kr. er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir