Almannatryggingar

15.2.2017

Örorka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 230/2016

Miðvikudaginn 15. febrúar 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 22. júní 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. maí 2016 þar sem örorka hennar var metin minni en 50% og henni því synjað um örorkulífeyri og örorkustyrk.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 14. febrúar 2016. Með örorkumati, dags. 7. maí 2016, var umsókn kæranda synjað þar sem örorka var metin minni en 50%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. júní 2016. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 7. júlí 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. júlí 2016. Frekari gögn bárust frá kæranda 26. september 2016 og voru þau kynnt Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. september 2016. Með bréfi, dags. 18. október 2016, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. desember 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar um örorkulífeyri og tengdar greiðslur verði endurskoðuð.

Í kæru segir að kærandi hafi farið í viðtal hjá skoðunarlækni og faðir hennar komið með. Spurningum skoðunarlæknis hafi verið ítarlega svarað og próf gerð. Skoðunarlæknir hafi verið upplýstur um öll veikindi kæranda, bæði líkamleg og sálræn. Einnig hafi hann verið upplýstur um að kærandi hafi hætt í X skólum vegna kvíða en samt hafi komið fram að hún væri í fullu námi. Kærandi hafi hins vegar tekið fram að hana langi til að vera í námi. Þá virðist ekki hafa verið tekið mark á læknum kæranda sem hún hafi verið hjá frá því að hún var lítil. Hún hafi því fengið vottorð frá læknum sínum til að sýna núverandi stöðu hennar og fylgi þau með kæru þessari.

Eins og fram hafi komið í viðtali hjá skoðunarlækni hafi kærandi verið í meðferð á BUGL vegna kvíða, þunglyndis og sjálfsvígshugsana. Hún hafi verið hjá sálfræðingi og sé að byrja hjá Hugarafli.

Vegna annarra sjúkdóma sem séu að hrjá kæranda hafi hún mjög lítið úthald vegna astma, hún eigi erfitt með að halda á hlutum, opna flösku og vera lengi á fótum. Hún hafi til dæmis unnið á [...] og eftir að hafa gengið um allan daginn hafi fætur hennar verið alveg búnir og hún illa haldin daginn eftir vegna gigtar. Magavandamál hafi hrjáð hana sem séu vafalaust vegna lyfja sem hún taki. Þá sé ítrekað verið að breyta lyfjum hennar og minnka þau. Þetta hafi þau áhrif að kærandi sé mjög oft með ógleði og brjóstsviða. Hún sé einnig með bólgur í vélinda, þindarslit og þar af leiðandi séu margir dagar þannig að hún geti lítið gert. Flökurleiki sé nú orðið daglegt brauð. Ónæmiskerfið sé bælt vegna þessara sjúkdóma og af þeim sökum fari hún einu sinni í mánuði í mótefnagjöf í æð á Landspítala. Hingað til hafi það valdið miklum höfuðverkjum, ógleði og vanlíðan í nokkra daga á eftir.

Kærandi myndi vilja að hún hefði fulla heilsu, gæti unnið, verið í skóla og gert það sem ungt fólk á hennar aldri geri en það sé ekki staðan. Hún þurfi að lifa við þær aðstæður sem hún sé sett í og fái engu um það ráðið. Í dag sé hún að vinna í því að ná sér úr andlegum málum sínum, en ef þá og þegar það gerist hafi hún þó enn sjúkdóma sína sem hún þurfi að lifa með og þetta hjálpi henni ekki sérstaklega mikið.    

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma og fötlunar. Stofnunin meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.

Við matið sé stuðst við staðal stofnunarinnar sem skiptist í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega. Þó nægi að umsækjandi fái sex stig úr hvorum hluta fyrir sig.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999.

Við hið kærða örorkumat hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 4. febrúar 2016, svör við spurningalista, dags. 14. febrúar 2016, skoðunarskýrsla, dags. 14. apríl 2016, og umsókn, dags. 14. febrúar 2016, auk eldri gagna vegna umönnunarmats.

Fram hafi komið að kærandi stríði við liðagigt, astma, geðrænan vanda og fleira. Hún stundi nám í framhaldsskóla og ekki verði annað séð en að um fullt nám sé að ræða.

Skoðun með tilliti til staðals hafi verið innan eðlilegra marka.

Færni kæranda til almennra starfa hafi talist skert en þó ekki að hálfu leyti og örorka metin minni en 50%.

Í vottorði C læknis, dags. 30. maí 2016, sem fylgi kæru, segi að kærandi geti ekki sinnt námi vegna veikinda. Eigi að endurskoða mat með tilliti til örorkustyrks á þessum forsendum þurfi að berast staðfesting frá skóla um þetta atriði. Að öðru leyti breyti gögn meðfylgjandi kæru ekki fyrri niðurstöðu.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að farið hafi verið yfir viðbótargögn kæranda sem séu yfirlit yfir mætingar í nám og útskriftarbréf frá bráðateymi BUGL. Þar komi ekki fram upplýsingar um að kærandi hafi ekki getað sinnt námi sínu vegna veikinda. Gögnin breyti því ekki fyrri ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. maí 2016. Umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað og henni ekki metinn örorkustyrkur. Ágreiningur snýst um hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eða eftir atvikum örorkustyrk samkvæmt 19. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá stofnuninni samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Samkvæmt fylgiskjalinu fjallar fyrri hluti örorkustaðalsins um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni. Þar leggjast öll stig saman og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Með umsókn kæranda um örorkulífeyri fylgdi vottorð D læknis, dags. 7. júní 2016, en samkvæmt því eru sjúkdómgreiningar kæranda eftirfarandi: Hereditary hypogammaglobulinaemia, Asthma, Chronic sinusitis, Rheumatoid arthritis, unspecified, og Gastro oesophageal reflux disease. Þá er sjúkrasögu lýst svo:

„A er með slæman, lífshættulegan astma og er á fjöllyfjameðferð og Omalizumab meðferð vegna þessa. Við þetta bætast þrálátar sýkingar bæði pneumoniur og sinusitar enda er hún með hypogammaglobulinemiu (Duncans syndrome). Hún er hjá öðrum læknum með rheumatoid arthiritis og er á Methotrexate og NSAID: Einnig saga um hypothyrosu og Gastroesophageal reflux.“

Um skoðun á kæranda 19. febrúar 2016 segir í vottorðinu:

„Veruleg öndunarfæraeinkenni, surg og ýl heyrist við passiva öndun. Nefstífla. Spirometria FEV1 2.2 (67%) FVC 3.1 (83%) FEV1/FVC 71%, töluverð teppa“

Samkvæmt vottorðinu var kærandi metin óvinnufær frá X en búist er við að færni aukist hugsanlega eftir langtíma líftæknimeðferð.

Í gögnum málsins liggur fyrir fjöldi læknisvottorða og bréfa. Í bréfi E sálfræðings kemur fram að kærandi hafi verið í meðferð á F vegna kvíða og þunglyndis. Þá segir að eftir því sem fram hafi komið í viðtölum finni A fyrir áhyggjum og félagskvíða ásamt depurð sem hafi haft mikil áhrif á vinnu og skóla. Þá segir meðal annars svo í göngudeildarnótu Landspítala, dags. X:

„Ástæða komu í stuttu máli: Sjálfsvígshugsanir og segir jafnframt að hún hafi hugsað hvernig hún myndi taka líf sitt.

Ef sjálfsvígshugsanir/tilraun: Hugsar um sjálfsvíg daglega, íhugað að taka ofskammt af lyfjunum sínum. Staðsetur sig á 5 á 0-10 skala yfir sjálfsvígshugsanir í dag. Tilhugsunin um hennar nánustu stoppar hana af. Ekki metin í hættu nú.

Ef geðrofseinkenni: Neitar

Vandi og fyrri saga (þroskasaga): Saga um kvíða allt frá barnsaldri, alltaf átt erfitt með breytingar. Segist einnig hafa fundið fyrir depurð síðan hún var barn, en það hafi ágerst síðan í ca. X. bekk.

A segist vera döpur og niðurdregin mestallan tímann, en hún svarar jákvæðum áreitum og nær að gleyma sér þegar hún fer t.d. í bíó eða út að borða. Áhugatap, stundar félagslíf miklu minna, hætti að æfa íþróttir og á [hljóðfæri]. Lýstir því þannig að vanlíðan komi í sveiflum sem endast í ca. 2-4 vikur, með ca. 1. viku tímabilum inn á milli þar sem henni líður nokkuð vel. Þau tímabil voru áður lengri, en hafa verið að styttast smám saman undanfarna mánuði.

Var að skera sig í X. bekk, þáverandi kærasti fékk hanan til að hætta, en hefur verið kominn á fremsta hlunn með að byrja aftur nú undanfarið.

Finnur fyrir talsverðum kvíða. Var áður með prófkvíða en segir það ekki til staðar nú. Hún hóf framhaldsskólagönguna í G en tók ekki vorprófin vegna lamandi kvíða. Á nú í erfiðleikum með einbeitingu. Á erfitt með að halda út skóladaginn.“

Einnig kemur fram í læknisvottorði C, dags. 30. maí 2016, að kærandi sé óvinnufær og geti ekki sinnt námi vegna veikinda.

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 14. febrúar 2016, sem hún skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn hennar. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með astma, liðagigt, skjaldkirtilssjúkdóm, kvíða og þunglyndi. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera svarar hún þannig að hún sé með gigt og hafi því ekki fullan styrk í höndum við að bera hluti og þess háttar. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi og nefnir þunglyndi og kvíða. Hún sé í meðferð hjá sálfræðingi og BUGL. Þar að auki búi hún við mikla þreytu.

Skýrsla H skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 14. apríl 2016. Samkvæmt skýrslunni telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu með hliðsjón af örorkustaðli. Þá var andleg færni kæranda metin af skoðunarlækni en ekki var talið að kærandi búi við andlega færniskerðingu samkvæmt örorkustaðli. 

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

„1. Almennt:

Situr eðlilega í viðtalinu í 45 mín. án þess að þreytast. Stendur upp án þess að styðja sig við. Hún er X cm á hæð og vegur X kg. Samsvarar sér vel. Þannig frekar grannholda en auk þess dálítið hokin, föl og svipbrigðalítil.

2. Skoðun Stoðkerfis:

Flettir blaði. Tekur smámynt upp af borði bæði með hægri og vinstri hendi. Lyftir upp 2 kg lóði bæði með hægri og vinstri hendi. Heldur höndum beint upp og getur sett hendur fyrir aftan hnakka. Nær í blað af gólfi. Stendur upp af armalausum stól þrisvar án vandkvæða. Getur staðið upp á pall til skiptis með hægri og vinstri ganglim þrisvar án vandræða. Stendur á tám og hælum. Sest niður á hækjur sér. Hreyfiferlar í hálsi eru eðlilegir. Við framsveigju í hrygg vantar 15 cm á að fingur nái gólfi. Tekur í stutta aftanlærisvöðva. Engar liðbólgur til staðar.

3. Sjón, tal, heyrn:

Sér vel út frá sér og texta á blaði. Engir talörðugleikar. Engin vandkvæði með heyrn.“ 

Um geðheilsu kæranda segir í skýrslunni að það sé saga um kvíða og þunglyndi. Hún sé á Fluoxetine og sé í viðtalsmeðferð á F.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu býr kærandi hvorki við líkamlega né andlega færniskerðingu samkvæmt örorkustaðli.    

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar hefur ekkert komið fram sem bendir til að það eigi við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Í örorkumatinu segir að kærandi stríði við liðagigt, astma, geðrænan vanda og fleira. Hún stundi nám í framhaldsskóla og ekki verði annað séð en að um fullt nám sé að ræða. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að nokkurs misræmis gæti í gögnum málsins varðandi mat á andlegri færni kæranda. Samkvæmt skoðunarskýrslu er það mat skoðunarlæknis að geðrænt ástand kæranda komi ekki í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Hins vegar segir í göngudeildarnótu, dags. X, að kærandi stundi félagslíf miklu minna, hún hafi hætt að æfa íþróttir og á [hljóðfæri]. Einnig er áhugatap nefnt. Þá er það mat skoðunarlæknis að geðsveiflur valdi kæranda ekki óþægindum einhvern hluta dagsins. Hins vegar kemur ítrekað fram í læknisfræðilegum gögnum málsins að kærandi eigi við þunglyndi að stríða. Einnig er það mat skoðunarlæknis að andlegt álag hafi ekki átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf. Hins vegar liggja fyrir gögn um að kærandi hafi hætt námi og í vottorði C, dags. 30. maí 2016, segir að kærandi geti ekki sinnt námi vegna veikinda. Að mati úrskurðarnefndar ber að leggja nám og starf að jöfnu við mat á þessu skilyrði staðalsins.

Að mati úrskurðarnefndar gefur framangreint misræmi til kynna að andleg færniskerðing kæranda hafi verið vanmetin af skoðunarlækni. Það hefur hins vegar ekki áhrif á niðurstöðuna í máli þessu að því er varðar örorkulífeyri þar sem kærandi myndi samt ekki ná nægjanlegum stigafjölda til að uppfylla skilyrði staðalsins ef fallist yrði að andleg færni kæranda væri skert að því leyti sem að framan greinir. Kærandi gæti að hámarki fengið fjögur stig vegna andlegrar færniskerðingar samkvæmt framangreindu.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndar að þar sem kærandi fékk ekkert stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og hefði að hámarki getað fengið fjögur stig vegna andlegrar færniskerðingar uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals.

Í umsókn um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er tekið fram að hún verði meðhöndluð sem umsókn um örorkustyrk, séu skilyrði örorkulífeyris ekki uppfyllt.

Með lögum nr. 62/1999 var 12. gr. þágildandi laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, sbr. núgildandi 18. gr. laga nr. 100/2007, breytt og ákveðið að skilyrði örorkulífeyris skyldu metin samkvæmt læknisfræðilegu örorkumati með hliðsjón af fyrrgreindum staðli en samkvæmt ákvæðinu hafði verið horft til skerðingar á starforku. Í 19. gr. núgildandi laga um almannatryggingar er kveðið á um örorkustyrk og hefur ákvæðið staðið óbreytt frá fyrri almannatryggingalögum. Hvorki verður ráðið af lögum nr. 62/1999 né lögskýringargögnum að breyta hafi átt reglum um skilyrði örorkustyrks að þessu leyti og því telur úrskurðarnefnd velferðarmála að styðjast eigi við mat á starfsorkuskerðingu, þ.e. skerðingu á getu til að afla vinnutekna, við mat á örorkustyrk. 

Í hinu kærða mati kemur fram að ekki verði annað séð en að kærandi stundi fullt nám í framhaldsskóla. Kærandi vísar hins vegar til þess að hún hafi hætt námi í X skólum vegna kvíða. Í vottorði C læknis, dags. 30. maí 2016, kemur fram að kærandi geti ekki sinnt námi vegna veikinda. Þá lagði kærandi fram þrjú yfirlit yfir mætingar sínar í framhaldsskóla við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd, þar á meðal yfirlit yfir mætingar á árinu 2016. Af þeim verður ráðið að mætingar kæranda í skólann hafi ekki verið góðar og í þeim öllum er hakað við að kærandi sé hætt námi. Þá er það mat læknanna C og D að kærandi sé óvinnufær. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að starfsorka kæranda sé skert að hálfu leyti.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið hér að framan er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri staðfest. Synjun stofnunarinnar um greiðslu örorkustyrks er hins vegar felld úr gildi. Fallist er á að skilyrði örorkustyrks séu uppfyllt. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til ákvörðunar á tímalengd greiðslu örorkustyrks.

Ekki verður ráðið af gögnum málsins að endurhæfing hafi verið reynd í tilviki kæranda áður en sótt var um örorkulífeyri. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að átján mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings, sem er á aldrinum 18 til 67 ára, verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna er heimilt að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að átján mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur mikilvægt að endurhæfing sé fullreynd áður en til örorku komi. Úrskurðarnefndin telur því rétt að benda kæranda á að kanna hvort hægt sé að reyna endurhæfingu í hennar tilviki og hvort hún kunni þá að eiga rétt á greiðslum endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri er staðfest.  Synjun stofnunarinnar um greiðslu örorkustyrks er felld úr gildi. Fallist er á að skilyrði örorkustyrks séu uppfyllt. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til ákvörðunar á tímalengd greiðslu örorkustyrks.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir