Almannatryggingar

11.1.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 167/2016

Miðvikudaginn 11. janúar 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 8. maí 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. febrúar 2016 um að vísa frá umsókn hans um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi var krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra bóta vegna ársins 2014 með bréfi, dags. 21. júlí 2015. Með bréfi, dags. 5. október 2015, fór kærandi fram á að krafan yrði felld niður á grundvelli erfiðra fjárhagslegra aðstæðna. Stofnunin synjaði beiðni kæranda þar um með bréfi, dags. 22. október 2015, á þeim forsendum að krafan væri réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, um alveg sérstakar aðstæður væri ekki uppfyllt.

Kærandi sótti um niðurfellingu endurkröfu vegna hinna ofgreiddu bóta á nýjan leik með umsókn, dags. 20. janúar 2016. Með bréfi, dags. 19. febrúar 2016, vísaði stofnunin þeirri umsókn kæranda frá á þeirri forsendu að engar nýjar upplýsingar eða gögn lægju fyrir sem gæfu tilefni til breytinga á fyrri ákvörðun þar sem umsókn kæranda um niðurfellingu sömu kröfu var synjað. Fram kom að sú ákvörðun stæði.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. maí 2016. Með tölvubréfi 10. maí 2016 óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 24. maí 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. maí 2016. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu, en ætla má að hann óski endurskoðunar á frávísun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni hans um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta sem hann fékk greiddar á árinu 2014.

Í kæru segir að kærð sé synjun um niðurfellingu ofgreiðslukröfu vegna neysluviðmiða Tryggingastofnunar ríkisins. Kærandi sé ekki maður sem geti verið að borga af þessari ofgreiðslu sem stofnunin heimti vegna neysluviðmiða. Hann sé 100% öryrki og starfi ekki.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að með umsókn, dags. 5. október 2015, hafi kærandi sótt um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 22. október 2015, hafi þeirri umsókn verið synjað og kæranda leiðbeint um andmæla- og kæruleiðir en engin viðbrögð hafi borist frá honum. Þann 20. janúar 2016 hafi stofnuninni borist ný umsókn frá kæranda um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu en henni verið vísað frá með bréfi, dags. 19. febrúar 2016.

Ljóst sé að kærufrestur sé liðinn vegna ákvörðunar stofnunarinnar frá 22. október 2015. Samkvæmt 1. málsl. 8. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skuli bera kæru fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Kærandi hafi ekki kært áðurnefnda ákvörðun.

Þann 20. janúar 2016 hafi Tryggingastofnun ríkisins borist ný umsókn frá kæranda. Með henni fylgdu ekki ný gögn eða nýjar málsástæður sem gáfu tilefni til breytinga á fyrri ákvörðun. Stofnunin hafi kannað hvort nýjar upplýsingar væri að finna í öðrum gögnum stofnunarinnar sem bentu til þess að um breyttar aðstæður væri að ræða hjá kæranda, en svo hafi ekki verið. Þar sem mál kæranda hafði nokkrum mánuðum áður fengið efnislega meðferð hafi því verið vísað frá og honum tilkynnt að fyrri ákvörðun stæði.

Það hafi verið mat stofnunarinnar að um nýja umsókn hafi verið að ræða 20. janúar 2016 en ekki beiðni um endurupptöku á fyrri ákvörðun. Þegar komi að ákvörðun um hvort falla eigi frá endurkröfu á ofgreiðslukröfum samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé horft til þess hver staða einstaklings sé hverju sinni. Einstaklingur sem sótt hafi um niðurfellingu en fengið synjun geti alltaf sótt um aftur á grundvelli þess að aðstæður hans hafi breyst til hins verra. Í þeim tilfellum geti stundum liðið skammur tími, til dæmis nokkrir mánuðir.

Berist ný umsókn skömmu eftir að ákvörðun um synjun hafi verið tekin þar sem engin ný gögn fylgi með og ekki sé hægt að sjá nýjar upplýsingar um breyttar aðstæður í öðrum gögnum stofnunarinnar, sé henni vísað frá á þeim forsendum. Mál viðkomandi hafi þá áður fengið efnislega meðferð hjá stofnuninni.

Rétt sé að taka fram að við meðferð þessarar kæru hafi verið kannað hvort skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um endurupptöku væru uppfyllt í tilfelli kæranda. Samkvæmt því ákvæði eigi aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Ekki sé hægt að sjá að kærandi uppfylli skilyrði endurupptöku samkvæmt þeim gögnum sem liggi fyrir í málinu.

Tryggingastofnun ríkisins standi við fyrri ákvörðun um frávísun á umsókn kæranda, dags. 19. febrúar 2016. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að vísa frá umsókn kæranda um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2014.

Með umsókn, dags. 5. október 2015, sótti kærandi um niðurfellingu endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta til hans á árinu 2014. Stofnunin synjaði þeirri umsókn með bréfi, dags. 22. október 2015. Kærandi sótti um niðurfellingu á endurgreiðslukröfunni á nýjan leik með nýrri umsókn, dags. 20. janúar 2016. Stofnunin tók þá ákvörðun um að vísa umsókninni frá á þeirri forsendu að engar nýjar upplýsingar eða gögn lægju fyrir sem gæfu tilefni til breytinga á fyrri ákvörðun þar sem umsókn kæranda um niðurfellingu sömu kröfu var synjað. Sú afstaða stofnunarinnar er að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ekki í samræmi við umsókn kæranda sem sótti um niðurfellingu að nýju.

Með seinni umsókn kæranda stofnaðist því nýtt mál og Tryggingastofnun ríkisins, sem tók þá umsókn til efnislegrar skoðunar, ber að taka afstöðu til hennar í samræmi við það. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki verði hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um frávísun úr gildi og vísa málinu aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að vísa frá umsókn A, um niðurfellingu ofgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta er felld úr gildi. Málinu er heimvísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir