Almannatryggingar

30.8.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 146/2017

Miðvikudaginn 30. ágúst 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 8. apríl 2017, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 24. janúar 2017 um að synja umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Sjúkratryggingum Íslands barst tilkynning, dags. 5. janúar 2017, frá kæranda um að hann hefði orðið fyrir slysi við vinnu X 2016. Í tilkynningunni er slysinu lýst þannig að kærandi hafi verið að [...] þegar hægri hendi hafi snúist, bögglast undir og smollið hafi í við hnykkinn. Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu með bréfi, dags. 24. janúar 2017. Í bréfinu segir að ekki verði séð að slysið sé að rekja til skyndilegs utanaðkomandi atburðar eða að frávik hafi orðið á eðlilegri atburðarás. Slysaatburð sé því að rekja til líkamlegra eiginleika en ekki skyndilegs utanaðkomandi atburðar eins og áskilið sé í 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Atvikið falli því ekki undir slysatryggingu almannatrygginga.

Sjúkratryggingum Íslands barst önnur tilkynning, dags. 3. mars 2017, frá kæranda um að hann hefði orðið fyrir slysi við vinnu X 2016. Í tilkynningunni er slysinu lýst þannig að hann hafi staðið við [...] með þeim afleiðingum að kærandi hafi misst jafnvægið og dottið fram fyrir sig [...] þannig að hægri höndin hafi orðið undir líkamanum.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. apríl 2017. Með bréfi, dags. 12. apríl 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 10. maí 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. maí 2017, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Með tölvubréfi 17. maí, bárust athugasemdir frá lögmanni kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2017, voru athugasemdirnar sendar Sjúkratryggingum Íslands. Viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 29. maí 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. maí 2017, var viðbótargreinargerðin send lögmanni kæranda. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála kveði upp úrskurð þess efnis að umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga verði samþykkt.

Í kæru segir að slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi [...]. Í miðju verki hafi [...] með þeim afleiðingum að hann hafi misst jafnvægið og fallið fram fyrir sig [...] þannig að hægri höndin hafi orðið undir líkamanum. Við það hafi komið óeðlileg sveigja á úlnliðinn og hafi hann heyrt greinilegan smell við fallið. Þess er getið að kærandi sé stór og mikill maður og líkamsþyngd hans eftir því.

Kærandi hafi strax fundið fyrir miklum verkjum í úlnliðnum en hafi þrátt fyrir það þraukað vinnudaginn. Á mánudeginum eftir hafi verkurinn orðið slíkur að hann hafi séð sig knúinn til að leita læknisaðstoðar á Landspítala. Þar hafi hann undirgengist skoðun og myndrannsókn sem hafi leitt í ljós mjúkvefjabólgu í úlnliðnum.

Kærandi byggi á því að þau líkamsmeiðsli sem hann hafi hlotið X 2016 sé að rekja til slyss sem hann hafi orðið fyrir í vinnu sinni. Meiðslin séu tilkomin af skyndilegum utanaðkomandi atburði sem sannanlega hafi gerst án vilja hans.

Bent er á að í málinu liggi fyrir tvær tilkynningar til Sjúkratrygginga Íslands um slysið. Sú fyrri, dags. 5. janúar 2017, sé rituð af starfsmanni C ehf., D. Upplýsingar í tilkynningunni stafi vafalaust frá kæranda en með þeim formerkjum að hann sé útlenskur og tali ekki íslensku og litla sem enga ensku að undanskildum einföldustu orðum. Hann sé í raun mállaus nema hann hafi túlk sér til aðstoðar. Á fundi kæranda með D hafi enginn túlkur verið til staðar þegar kærandi hafi reynt að skýra tildrög slyssins fyrir henni. Það skýri hversu efnisrýr tilkynning hennar hafi verið. Vart þurfi að geta þess að kærandi hafi ekki haft minnsta grun um nákvæmt efnislegt innihald tilkynningarinnar þegar hann hafi undirritað hana.

Síðari tilkynning málsins, dags. 3. mars 2017, sé unnin sameiginlega af lögmanni kæranda og kæranda með aðstoð túlks. Aðkoma túlksins geri það að verkum að málavöxtum séu gerð rétt skil, öfugt við fyrri tilkynningu.

Til samantektar á framangreindu sé vísað til þess að síðari tilkynningin gefi málavöxtum meiri fyllingu en sú fyrri. Efnislega sé um að ræða sömu atburðarás þar sem [...], hafi valdið því bæði að hægri hönd hafi bögglast og því að kærandi hafi misst jafnvægið og fallið fram fyrir sig og lent á hendinni. Án [...] hefði slysið ekki atvikast. Það hljóti að teljast óumdeilt.

Jafnvel þótt úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé unnt að leggja málavaxtalýsingu í síðari tilkynningu til grundvallar við úrlausn málsins sé kærandi þeirrar skoðunar að niðurstaða málsins verði allt að einu sú sama. Líkamstjón hans sé að rekja til [...], enda vandséð hvernig hönd hans eigi að hafa getað „snúist“ og „bögglast undir“ án þess. Höndin hafi snúist í átaki við [...] og við það hafi komið hnykkur á úlnliðinn, líkt og lýst sé í báðum tilkynningum, með þekktum afleiðingum.

Til stuðnings ofangreindu sé bent á að með skyndilegum og utanaðkomandi atburði sé átt við að orsök slyssins megi rekja til hluta, atvika, ákomu eða atburða sem standi utan við líkama hins tryggða og feli í sér frávik frá eðlilegri atburðarás. [...] falli að framangreindu sem orsakavaldur þess að hægri hönd kæranda hafi snúist og bögglast undir líkt og það sé orðað í báðum tilkynningum og læknisfræðilegum gögnum. Í framhaldinu hafi nær allur líkamsþunginn lent á hendinni þegar A hafi fallið fram fyrir sig.

Að síðustu sé vísað til tveggja dóma Hæstaréttar til stuðnings málatilbúnaði kæranda. Í dómi Hæstaréttar frá 28. október (289/2010) hafi bátur sjómanns steytt á fjörugrjóti og hafi hann hlotið af því líkamstjón. Í dómi réttarins sé fallist á með tjónþolanum að líkamstjón hans hafi hlotist af skyndilegum utanaðkomandi atburði þegar bátur hans hafi skollið á fjörugrjótið og stöðvast skyndilega. Með sama hætti byggi kærandi á því að líkamstjón hans megi rekja til brauðdeigsins sem hafi orðið til þess að höndin hafi bögglast undir og í kjölfarið hafi hann fengið alla líkamsþyngd sína ofan á höndina.

Í síðari dóminum, dómi Hæstaréttar frá 23. febrúar 2012 (412/2011), komi meðal annars eftirfarandi fram í forsendum:

Aðdragandi slyssins var sá að áfrýjandi tók þátt í skemmtiskokki umræddan dag, en skokkinu lauk með því að hlaupinn var einn hringur í kringum sundlaugina á hótelinu þar sem áfrýjandi bjó meðan á Spánardvölinni stóð. Í hlaupinu kringum sundlaugina tók áfrýjandi þá ákvörðun að stökkva yfir lítið fráleggsborð á sundlaugarbakkanum, en í stökkinu missti hún jafnvægið og féll við. Af hálfu stefnda er ekki á því byggt að fall áfrýjanda sé að rekja til skyndilegs svimakasts hennar og þá hefur stefndi ekki leitast við að sýna fram á að fallið megi að öðru leyti rekja til sjúkdóma eða annars innra ástands í líkama áfrýjanda. Er því fallist á með áfrýjanda að líkamstjón hennar hafi hlotist af skyndilegum utanaðkomandi atburði í skilningi 8. gr. vátryggingarskilmálanna, þegar hún í stökkinu yfir fráleggsborðið missti jafnvægið, féll við og hlaut áverka á hægra hné er hún lenti á sundlaugarbakkanum. Samkvæmt þessu verður tekin til greina krafa áfrýjanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna líkamstjóns þess er hún hlaut í slysinu 8. júní 2008.“

Af dóminum megi meðal annars ráða að hinum greiðsluskylda hafi borið að sýna fram á að fallið mætti rekja til sjúkdóms eða annars innra ástands í líkama hins slasaða. Sömu aðstæður séu uppi í þessu máli. Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé ekki leitast við að sýna fram á að snúninginn/hnykkinn (fallið í dóminum) megi rekja til sjúkdóms kæranda eða innra ástands í líkama hans. Bent sé á að Hæstiréttur hafi í tveimur öðrum dómum komist að sömu niðurstöðu, sbr. dóma Hæstaréttar 15. mars 2012 (472/2011) og 12. september 2013 (128/2013). Dómarnir hafi ótvírætt fordæmisgildi í því máli sem hér um ræði.

Í athugasemdum lögmanns kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands er áréttað að kærandi tali enga íslensku. Þá sé ástæðan fyrir því að kærandi hafi ekki upplýst lögmann um höfnunarbréf Sjúkratrygginga Íslands einfaldlega sú að hann hafi ekki vitað af efnislegri niðurstöðu málsins fyrr en lögmaður hafi kynnt hana fyrir honum. Að sögn hafi hann ekki séð höfnunarbréfið, auk þess sem hann hefði hvort heldur ekki getað skilið innihald þess af augljósum ástæðum.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að bætur úr slysatryggingum almannatryggingalaga séu sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur, sbr. 9. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Þá segi í 5. gr. laganna að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans.

Að mati stofnunarinnar hafi ekki verið að sjá að slysið mætti rekja til skyndilegs utanaðkomandi atburðar eða að frávik hafi orðið á eðlilegri atburðarás, heldur beri læknisfræðileg gögn málsins það með sér að rekja mætti slysið til þess að kærandi hafi verið að [...] þegar hægri hendi hafi snúist og bögglast undir. Slysaatburð megi því rekja til líkamlegra eiginleika en ekki skyndilegs utanaðkomandi atburðar eins og áskilið sé í 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.

Í ljósi alls framangreinds hafi ekki verið heimilt að verða við umsókn um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga.

Fyrirliggjandi séu tvær tilkynningar um slys og hafi önnur þeirra borist eftir að ákvörðun stofnunarinnar lá fyrir. Eftir að sú seinni barst hafi lögmaður kæranda verið spurður með tölvupósti 10. mars 2017 hvort honum hafi verið kunnugt um að málinu hefði nú þegar verið synjað. Með svari sama dag hafi lögmaður kæranda upplýst um að svo hefði ekki verið. Seinni tilkynning hafi því borist rúmum mánuði eftir að synjun hafi legið fyrir og hafi kærandi ekki upplýst lögmann sinn um niðurstöðu málsins.

Nokkur efnislegur munur sé á lýsingu á atburðarás og orsökum slyssins í tilkynningunum. Í þeirri fyrri komi fram að kærandi hafi verið að [...] þegar hægri hendi hafi snúist og bögglast undir. Sömu frásögn sé að finna í samtímagögnum, þ.e. áverkavottorði, en þar segi að umsækjandi hafi verið að [...] þegar hægri hendi hafi bögglast og hann hafi fundið smell. Hann hafi reynt að halda áfram að vinna en hafi ekki getað það vegna verkja. Seinni tilkynning byggi á því að [...] með þeim afleiðingum að kærandi hafi misst jafnvægið og dottið fram fyrir sig. Þá hafi hægri höndin orðið undir líkama hans.

Byggi kæra á því að fyrri útskýring á tildrögum slyssins sé í takt við þá seinni og að sú seinni sé nákvæmari skýring þar sem kærandi hafi ekki notið aðstoðar túlks við útfyllingu á upphaflegri tilkynningu. Að auki sé byggt á að hvort sem litið verði til fyrri eða seinni tilkynningar þá falli atvikið allt að einu undir ofangreint slysahugtak í lögum um slysatryggingar almannatrygginga.

Ekki verði fallist á að í seinni tilkynningu sé málavöxtum lýst með sama hætti, jafnvel þó að hægt sé að fallast á að hugsanlega gæti seinni frásögn fallið að þeirri fyrri. Það sé þó ekki svo að tækt sé að taka tillit til tilkynningar sem berist eftir að ákvörðun um synjun liggi fyrir, jafnvel þó að sú skýring sé sögð ítarlegri en sú fyrri.

Athygli veki að kærandi, með túlk sér við hlið, hafi ekki upplýst lögmann sinn um fyrri tilkynningu og niðurstöðu máls hjá stofnuninni. Í seinni tilkynningu hafi þannig komið fram að umrætt [...] og við það hafi hann misst jafnvægið. Ljóst megi vera að erfitt sé að mótmæla þeirri skýringu á grundvelli annars en samtímagagna. Þau gögn, þ.e. áverkavottorð og fyrri tilkynning, bendi ekki til annars en að kærandi hafi orðið fyrir meiðslum á hendi við það eitt að [...], engin lýsing sé á því að [...] og kærandi hafi misst jafnvægið og fallið fram fyrir sig. Þeir sem [...] viti að hæglega er hægt að verða fyrir meiðslum við þá athöfn án nokkurs utanaðkomandi atviks og jafnvel þó að ekkert frávik verði á venjulegri atburðarás.

Eins og fram hafi komið í fyrri ákvörðunum nefndarinnar þá hafi hingað til ekki verið fallist á rök er varði tungumálaerfiðleika í tengslum við seinni tíma skýringar kæranda.

Rétt sé að slysið hefði ekki orðið ef [...] hefði ekki verið til staðar líkt og lögmaður kæranda komi inn á, enda liggi það í hlutarins eðli að ef athöfn sé ekki viðhöfð verði vart slys við þá athöfn. Það breyti því þó ekki að ekki falli öll slys undir slysahugtak laga um slysatryggingar almannatrygginga. [...] kunni sannarlega að hafa verið órjúfanlegur hluti af athöfn kæranda en orsakavaldar af slysinu séu þau ekki. Það sem valdi meiðslum sé eigin athöfn kæranda og sá kraftur sem hann hafi lagt í umrætt verk. Þeir kraftar sem kærandi hafi lagt á hendur sínar urðu þannig til þess að mjúkvefjaáverki varð á hendi hans, ekkert skyndilegt og utanaðkomandi hafi valdið þeim meiðslum.

Að þessu sögðu sé rétt að nefna almennt að það sé miður ef synjanir byggja á skýringum sem sannarlega lýsi ekki aðstæðum með fullnægjandi hætti og lýsi þannig ekki atburðarás og orsökum slyssins. Það sé þó kæranda að setja fram fullnægjandi skýringar í tilkynningu, enda sé það aðeins hann sem geti metið hvort skýring sé sannarlega fullnægjandi og í takt við umrætt atvik. Það sé vart tækt að uppi sé sú staða að umsækjendur geti, eftir að ákvörðun liggi fyrir, skilað inn nýrri og ítarlegri tilkynningu sem verði til þess að mál þeirra sé samþykkt sem bótaskylt slys í framhaldi af synjun.

Í viðbótargreinargerð stofnunarinnar segir að fram komi í erindi lögmanns kæranda að kærandi tali enga ensku, hafi ekki séð bréf stofnunarinnar þar sem niðurstaða málsins hafi komið fram og ef svo væri hefði hann alls ekki skilið bréfið, enda sé hann ekki læs á íslenska tungu.

Rétt sé að taka fram að stofnunin hafi eðlilega engar upplýsingar sem staðfesti eða hreki frásögn kæranda. Það sem eftir standi sé þó spurningin varðandi það hvort rétt þyki að taka gild rök kæranda í málum sem þessum með vísan í meintan skort á upplýsingum um tilvist og efni bréfa frá stofnuninni. Að mati stofnunarinnar verði að gera þá kröfu til einstaklinga sem starfi á Íslandi og ekki geti lesið texta á íslensku að þeir hafi samband við það fyrirtæki eða stofnun sem erindið sendi og óski eftir skýringum á efni þess. Rétt sé einnig að nefna að upp geti komið sú staða að Íslendingar, sem fæddir séu og uppaldir hér á landi, þurfi að óska eftir ítarlegri og munnlegum skýringum á erindum sem þeim berist.

Fullyrði umsækjandi að hann hafi ekki skilið erindið eða að það hafi ekki borist honum og það verði til þess að umsókn hans sem áður var synjað verði samþykkt vakni upp áleitnar spurningar. Sú staða sem þá sé uppi geti hreinlega ekki staðist kröfur stjórnsýslulaga um jafnræði. Yrði þá þeim sem ekki séu læsir á íslenskan texta eða jafnvel þeim sem skilji hann ekki efnislega veitt aukin réttindi til að koma að nýjum eða ítarlegri skýringum við umsókn sína. Sönnun um slík atvik sé að auki erfið.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um slysabætur vegna slyss sem kærandi varð fyrir X 2016.

Ákvæði um slysatryggingar má finna í II. kafla laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna taka slysatryggingar almannatrygginga til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppni eða heimilisstörf, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 7. eða 8. gr. Í 2. málsl. sömu greinar segir að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans.

Ekki er ágreiningur um að kærandi hafi verið við vinnu þegar hann varð fyrir meiðslum í úlnlið á vinnustað á vinnutíma. Til álita kemur hins vegar hvort skyndilegur utanaðkomandi atburður hafi valdið meiðslum á líkama kæranda og hafi gerst án vilja hans, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.

Hvorki í lögunum sjálfum né í athugasemdum með frumvarpi laganna er skilgreint hvað átt sé við með því að atburður sé „utanaðkomandi“ og „skyndilegur“. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verða atvik að vera rakin til þess að eitthvað óvænt hafi átt sér stað og að óhapp verði ekki rakið til undirliggjandi sjúkdóms eða meinsemda hjá þeim sem fyrir óhappi verður. Tryggingaverndin nær því ekki til allra atvika, óhappa eða meiðsla sem geta átt sér stað við vinnu heldur einungis ef um slys er að ræða.

Í bráðamóttökuskrá E læknakandídats og F læknis, dags. 21. nóvember 2016, er atvikinu lýst svo:

„Var að [...], heyrði smell í úlnliðnum, reyndi að halda áfram að vinna en var of [verkjaður].“

Þá segir í bráðamóttökuskránni að um mjúkvefjabólgu í hægri úlnlið og hönd sé að ræða en beináverkar hafi ekki komið í ljós.

Í fyrri tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands um slysið, dags. 5. janúar 2017, þar sem óskað er nákvæmrar lýsingar á tildrögum og orsökum slyssins, segir svo:

„Var að [...] þegar hægri hendi snerist og bögglaðist undir og small í við hnykkinn.“

Í seinni tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands um slysið, dags. 3. mars 2017, þar sem óskað er nákvæmrar lýsingar á tildrögum og orsökum slyssins segir svo:

„A […] stóð [...]. Í miðju verki [...] með þeim afleiðingum að A missti jafnvægið og datt fram fyrir sig [...] þannig að hægri höndin varð undir líkamanum. Við það kom óeðlileg sveigja á úlnliðinn og heyrði A greinilega smell við fallið. Þess skal getið að A er stór og mikill maður og líkamsþyngd hans eftir því.

A fann strax fyrir miklum verkjum í úlnliðnum en þraukaði þrátt fyrir það vinnudaginn. Á mánudaginn eftir var verkurinn orðinn slíkur að hann sá sig knúinn til að leita læknisaðstoðar á Landspítalanum. Þar undirgekkst hann skoðun og myndrannsókn sem leiddi í ljós mjúkvefjabólgu. Beináverkar komu ekki fram á mynd.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur á það sjálfstætt mat hvort bótaskylda vegna slyss kæranda telst vera fyrir hendi og metur það á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins sem nefndin telur nægileg. Við úrlausn máls þessa ber að líta til þess hvort utanaðkomandi atburður hafi átt sér stað í tengslum við hinn tryggða. Eitthvað verður að hafa gerst sem veldur tjóni á líkama hans. Verði ekki frávik frá þeirri atburðarás, sem búast mátti við og engar óvæntar aðstæður koma upp, er ekki um slys að ræða í skilningi almannatryggingalaga.

Fyrir liggur að framangreindar atvikalýsingar eru misjafnlega ítarlegar og ber þeim ekki saman að öllu leyti. Kærandi vísar til þess að tungumálaörðugleikar hafi háð honum en hann tali hvorki íslensku né ensku.

Samkvæmt framangreindri bráðamóttökuskrá var kærandi að [...] þegar hann heyrði smell í úlnliðnum. Hann hafi reynt að halda áfram að vinna en hafi verið of verkjaður. Þá kom fram í fyrri tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, rúmum sex vikum eftir að atvikið átti sér stað, að kærandi hafi verið að [...] þegar hægri hendi hafi snúist og bögglast undir og smollið í við hnykkinn. Aftur á móti kom fram í seinni tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, meira en þremur mánuðum eftir atvikið og eftir að niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands lá fyrir, að kærandi hafi verið að [...] þegar hann hafi [...] með þeim afleiðingum að hann hafi misst jafnvægið og dottið fram fyrir sig [...] þannig að hægri höndin hafi orðið undir líkamanum. Við það hafi komið óeðlileg sveigja á úlnliðinn og hafi kærandi heyrt greinilegan smell við fallið.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður að byggja mat á því hvort sönnuð séu atvik er varði bótaskyldu samkvæmt frumgögnum málsins, eftir því sem kostur er. Þannig hafa samtímagögn meiri þýðingu við sönnun á rétti til bóta en gögn sem verða til síðar. Að mati úrskurðarnefndarinnar bendir lýsing á slysinu í bráðamóttökuskránni og fyrri tilkynningu til Sjúkrastofnunar Íslands til þess að umrædd meiðsli kæranda hafi verið að rekja til undirliggjandi meinsemda hans en ekki skyndilegs utanaðkomandi atburðar. Framangreindum gögnum ber saman um að orsök áverkans hafi verið innri verkan þegar kærandi [...]. Þá horfir nefndin jafnframt til þess að viðbótarskýringar á umræddu atviki í þá veru að utanaðkomandi atburður hafi valdið slysinu bárust eftir að Sjúkratryggingar Íslands höfðu tekið ákvörðun um bótaskyldu.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga um að skyndilegur utanaðkomandi atburður hafi valdið meiðslum á líkama kæranda sé ekki uppfyllt. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur til handa A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir