Almannatryggingar

6.9.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 122/2017

Miðvikudaginn 6. september 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 14. mars 2017, kærði B réttindagæslumaður fatlaðs fólks í Reykjavík, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 12. janúar 2017 um samþykki á bifreið kæranda, sbr. m lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 6. janúar 2017, óskaði kærandi eftir staðfestingu Sjúkratrygginga Íslands á því að bifreið hennar væri sérútbúin fyrir fatlaðan ökumann og að bifreiðin væri búin tilteknum búnaði, þ.e. Alfred Bekker sjálfstýringarbúnaði. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 12. janúar 2017, var beiðni kæranda þar um synjað. Í umsögn stofnunarinnar, dags. 13. janúar 2017, var kærandi upplýst um þá niðurstöðu að bifreið hennar væri ekki talin uppfylla kröfur um búnað til flutnings á einstaklingi með fötlun í hjólastól.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. mars 2017. Með bréfi, dags. 12. apríl 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 25. apríl 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. maí 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að kærandi krefjist þess að synjun Sjúkratrygginga Íslands um samþykki á bifreið kæranda, sbr. m lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., verði endurskoðuð.

Í kæru segir að í m lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. segi:

„Bifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum eða fatlaðs fólks sem eru sérstaklega útbúnar fyrir fatlað fólk. Bifreiðarnar skulu búnar hjólastólalyftu eða öðrum sambærilegum búnaði og samþykktar af Sjúkratryggingum Íslands.“

Hvergi í lögunum né reglugerðum sé að finna skilgreiningu á „öðrum sambærilegum búnaði“. Bifreiðin sé í eigu fatlaðrar konu og sé sérstaklega útbúin fyrir kæranda en hún þurfi sérútbúnað fötlunar sinnar vegna til að geta ekið bifreið.

Kærandi stundi tímabundið nám við C. Fötlunar sinnar vegna þurfi hún að hafa eigin bifreið á meðan hún stundi nám á Íslandi. Hún hafi greitt öll gjöld af bifreiðinni í sínu heimalandi og ekki sé um að ræða innflutning á nýrri bifreið í gegnum Sjúkratryggingar Íslands.

Áréttað skuli að ekki hafi verið sótt um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands af neinu tagi en til að fá niðurfellingu hjá Tollstjóra sé þess krafist að bifreið kæranda hafi verið útbúin sérstaklega fyrir fatlaða og falli undir annan sambærilegan búnað líkt og tilgreint hafi verið í ofangreindu lagaákvæði.

Sjúkratryggingar Íslands hafi synjað umsókn kæranda á þeim forsendum að bifreið hennar hafi ekki sérstakan búnað fyrir fólk í hjólastól og telji því að með „öðrum sambærilegum búnaði“ sé einungis átt við búnað tengdum hjólastól en eins og áður segi sé skilgreininguna hvergi að finna í lögum eða reglugerðum.

Sjúkratryggingar Íslands hafi ekki vísað í samþykktar reglur þegar spurt hafi verið út í þeirra skilgreiningu og því vilji kærandi fá úr því skorið hvort stofnunin geti túlkað lögin eins þröngt og hún hafi gert.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að stofnunin hafi gert mistök þegar bifreið í eigu kæranda hafi verið tekin út með tilliti til niðurfellingar á vörugjaldi. Bifreiðin sé án hjólastólalyftu eða sambærilegs búnaðar og falli því hvorki undir ákvæði laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með síðari breytingum né reglugerð nr. 331/2000 um niðurfellingu á vörugjaldi, með síðari breytingum.

Í 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 sé talið upp hvaða ökutæki séu undanþegin vörugjaldi. Þar komi fram í m lið að bifreiðar í eigu fatlaðs fólks, sem séu sérstaklega útbúnar fyrir fatlað fólk, séu undanþegnar vörugjaldi. Jafnframt segi: „Bifreiðarnar skulu búnar hjólastólalyftu eða öðrum sambærilegum búnaði og samþykktar af Sjúkratryggingum Íslands.“

Í 2. tölul. 19. gr. reglugerðar nr. 331/2000 segi: „Vörugjald skal falla niður af bifreiðum, sem eru sérstaklega búnar til flutnings á fötluðum, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu og samþykktar af Tryggingastofnun ríkisins, að því tilskildu að bifreið verði skráð eign annað hvort hins fatlaða sjálfs eða ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum.“

Samkvæmt ákvæði laganna sjái Sjúkratryggingar Íslands um að taka út sérstaklega búnar bifreiðar til flutnings á fötluðum, þar með töldum hjólastólalyftum eða sambærilegum búnaði fyrir fatlað fólk. Bifreiðin þurfi því, samkvæmt reglum stofnunarinnar, að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

„● skábraut, hjólastólalyftu eða föstu sérbúnu sæti með snúnings- og lyftubúnaði (sætið fer út úr bifreið í sætishæð við hjólastól),

·         festingu fyrir hjólastóla,

·         þriggja punkta öryggisbeltisfestingu fyrir farþega í hjólastól.“

Ofangreint eigi ekki við í tilfelli kæranda, enda sé hún ekki hjólastólabundin.

Af þessu leiði að bifreiðin hafi ekki átt að koma til úttektar og samþykktar hjá Sjúkratryggingum Íslands, enda sé kærandi ekki með hjólastólalyftu eða sambærilegan búnað. Samkvæmt þessu beri því að vísa málinu frá.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 12. janúar 2017, um samþykki á bifreið kæranda, sbr. m lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 um niðurfellingu vörugjalds af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Í 1. tölul. 4. gr. laga um niðurfellingu vörugjalds af ökutækjum, eldsneyti o.fl. er að finna upptalningu á ökutækjum sem eru undanþegin vörugjaldi og hljóðar m liður ákvæðisins svo:

„Bifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum eða fatlaðs fólks sem eru sérstaklega útbúnar fyrir fatlað fólk. Bifreiðarnar skulu búnar hjólastólalyftu eða öðrum sambærilegum búnaði og samþykktar af Sjúkratryggingum Íslands.“

Í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er kveðið á um hlutverk nefndarinnar. Þar segir svo:

„Úrskurðarnefnd velferðarmála skal úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar.“

Ýmsar ákvarðarnir Sjúkratrygginga Íslands samkvæmt lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu og lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga eru kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 36. gr. laga nr. 112/2008, 16. gr. laga nr. 111/2000 og 25. gr. laga nr. 45/2015. Aftur á móti er ekki kveðið á um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna ákvarðana Sjúkratrygginga Íslands á grundvelli m liðar 1. tölul. 4. gr. laga um niðurfellingu vörugjalds af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að nefndin hafi ekki heimild til þess að fjalla um þann ágreining sem uppi er í þessu máli.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt, nema annað leiði af lögum eða venju. Í máli þessu er velferðarráðuneytið hið æðra stjórnvald, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, 4. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands og f-lið 3. tölul. 8. gr. forsetaúrskurðar, nr. 1/2017 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Stjórnvaldsákvarðanir Sjúkratrygginga Íslands verða því kærðar til velferðarráðuneytisins, nema annað leiði af lögum eða venju.

Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og áframsend velferðarráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og áframsend til velferðarráðuneytisins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir